Viðvörun frá Almannavarnarnefnd Skagafjarðar vegna leysinga
Almannavarnadeild Ríkislögreglustjóra hefur varað við hugsanlegum aur- og skriðuföllum á Norðurlandi. Að auki er mikið vatn í ám og lækjum.
Varasamt getur verið að vera á ferð í hlíðum fjalla og sérstakrar varúðar er þörf nálægt ám og vötnum. Minnstu lækir eru orðnir illúðlegir af vatnavöxtum.
Ekki hefur orðið vart við aurflóð né skriðuföll hér í Skagafirði enn sem komið er, en fylgst verður áfram með ástandinu þar sem hlýindum er spáð áfram næstu daga.
Vatnsfullir skurðir eru hættulegir bæði mönnum og skepnum, sérstaklega þar sem þunnt snjólag er yfir og hefur þegar orðið tjón þar sem lömb hafa lent í skurðum og drepist.
Almannavarnanefnd Skagafjarðar óskar eftir upplýsingum frá almenningi, í síma 453 5425, ef vart verður við aurflóð eða skriðuföll. Einnig ef vart verður við að ár fara að flæða yfir bakka sína.
Héraðsvötnin eru farin að breiða nokkuð úr sér og því mikilvægt að gæta að því að búpeningur verði ekki innlyksa á Eylendinu.