Vísnakeppni Safnahúss Skagfirðinga 2023
Enn á ný stendur Safnahús Skagfirðinga fyrir vísnakeppni í aðdraganda Sæluviku, en keppninni var komið á árið 1976. Reglurnar eru sem fyrr einfaldar og góðar; annars vegar að botna fyrirfram gefna fyrriparta og/eða semja vísu um ákveðið málefni. Ekki er nauðsynlegt að botna allt og einnig er í lagi að senda bara inn vísu.
Að þessu sinni var umsjónarmanni hugsað til þeirra tilfinninga sem gjarnan gera vart við sig í dunandi gleði Sæluvikunnar, a.m.k. gerðu, þegar hlustað er á þá sem stunduðu hana af fullum þunga. Vorið og vorkoman er sígilt yrkisefni og náttúran í sínum fjölbreytileika. Fyrripartarnir eru því sniðnir að slíku yrkisefni:
Ástarglóðin yljar mér
örar blóðið rennur.
Sólin bjarma landi ljær
ljós og varma glæðir.
Vor í sálu vekur yl
vetur hopa tekur.
Léttist brúnin, laus við þref,
legg af stað til fjalla.
Þykir umsjónarmanni einnig tilvalið að vísnasmiðir spreyti sig á að yrkja um tíðar sólarlandaferðir Íslendinga, skoðun seðlabankastjóra á þeim og afleiðingar að hans mati.
Veitt verða tvenn peningaverðlaun, annars vegar fyrir bestu sólarferðavísuna og hins vegar fyrir besta botninn. Ítrekað er að ekki er skilyrði að allir fyrripartar séu botnaðir og einnig er leyfilegt að senda einungis vísu.
Vísur og botnar verða að hafa borist Safnahúsi Skagfirðinga, Faxatorgi, 550 Sauðárkróki, í síðasta lagi miðvikudaginn 26. apríl nk. Nauðsynlegt er að vísurnar séu merktar dulnefni, en rétt nafn og símanúmer fylgi með í lokuðu umslagi. Einnig er hægt að senda vísur og botna í tölvupósti á netfangið bokasafn@skagafjordur.is og verður þá viðkomandi höfundi gefið dulnefni, ef það fylgir ekki með, áður en vísurnar fara til dómnefndar.
Úrslit verða tilkynnt sunnudaginn 30. apríl við setningu Sæluviku Skagfirðinga, í Safnahúsinu á Sauðárkróki.