Vísnakeppni Safnahúss Skagfirðinga – Nú skal heimta hærri laun
Vísnakeppni Safnahúss Skagfirðinga hefur átt sinn fasta sess í aðdraganda Sæluviku Skagfirðinga og notið mikilla vinsælda í hartnær fjóra áratugi eða allt frá árinu 1976 er hún var haldin í fyrsta sinn. Magnús Bjarnason kennari á Sauðárkróki gaf hálfa milljón króna í sérstakan sjóð til að styrkja og styðja við bakið á lausavísnagerð og fyrir tilstyrk sjóðsins var keppnin haldin um langt árabil.
Samkvæmt venju mun Safnahúsið standa fyrir vísnakeppni þetta árið og verður hún með sama sniði og undanfarin ár. Annars vegar eru hagyrðingar beðnir um að yrkja um það hvernig hinn dæmigerði Skagfirðingur kemur þeim fyrir sjónir sem og að botna einn eða fleiri af eftirfarandi fyrripörtum.
Nú skal heimta hærri laun
og hafna vesaldómi.
Dalir, firðir, fjöll og grund
fegurst er á vorin.
Nálgast ellin alla jafnt
enda brellin kelling.
Eltir aftur lægðin lægð
lát er vart að finna.
Sé ég blik við sjónarrönd
Sæluvika kemur.
Á Sæluviku feginn fer
að fanga menninguna.
Veitt verða tvenn peningaverðlaun, annars vegar fyrir bestu Skagfirðingavísuna og hins vegar fyrir besta botninn. Ekki er skilyrði að allir fyrripartar séu botnaðir og einnig er leyfilegt að senda einungis Skagfirðingavísu.
Vísur og botnar verða að hafa borist Safnahúsi Skagfirðinga, Faxatorgi 550 Sauðárkróki í síðasta lagi miðvikudaginn 22. apríl nk. Nauðsynlegt er að vísurnar séu merktar dunefni, en rétt nafn og símanúmer fylgi með í lokuðu umslagi. Einnig er hægt að senda vísur og botna í tölvupósti á netfangið bokasafn@skagafjordur.is og verður þá viðkomandi höfundi gefið dulnefni áður en vísunar fara til dómnefndar.
Úrslit verða tilkynnt sunnudaginn 26. apríl er Sæluvika Skagfirðinga verður formlega sett í Húsi frítímans við Sæmundargötu á Sauðárkróki kl. 14:00.