Fara í efni

Vísnakeppni Safnahúss Skagfirðinga - Ort um Trump og vorið

08.04.2017
Safnahús Skagfirðinga

Vísnakeppni Safnahúss Skagfirðinga verður á sínum stað sem endranær í Sæluviku enda  hefur hún notið mikilla vinsælda allt frá árinu 1976 er hún var haldin í fyrsta sinn. Reglurnar eru einfaldar; annars vegar botna vísnavinir fyrirfram gefna fyrriparta og eða semja vísu um ákveðið málefni. Ekki er nauðsynlegt að botna allt og einnig er í lagi að senda bara inn vísu.

Að þessu sinni fengu fyrripartasmiðirnir fyrirmæli um að hugsa vestur um haf og hafa Dónald Trump í huga og voru þeir á öndverðum meiði um hvort maðurinn væri til óþurftar fyrir heiminn eða misskilinn snillingur. Hins vegar skyldu þeir setja saman fyrripart sem gæfi góð fyrirheit um vorið sem vonandi verður eins gott í hlutfalli við líðandi vetur. Þá eiga vísnasmiðir að semja vísu um þátt Skagfirðinga í raunverulegum eða ímynduðum afrekum hvers konar. Þá er um að gera að láta ímyndunaraflið ráð för.

Vitið ekki að vestan hafs
var vitlaus maður kosinn

Dæmalaust hve Dónald er
dagfars prúður sómi.

Víst ég yrkja vildi helst
um vor í Skagafirði.

Vorið fyllir vitin mín
vangann strýkur blærinn.

Veitt verða tvenn peningaverðlaun, annars vegar  fyrir bestu afreksvísuna og hins vegar fyrir besta botninn. Ekki er skilyrði að allir fyrripartar séu botnaðir og einnig er leyfilegt að senda einungis vísu.

Vísur og botnar verða að hafa borist Safnahúsi Skagfirðinga, Faxatorgi 550 Sauðárkróki í síðasta lagi miðvikudaginn 26. apríl nk. Nauðsynlegt er að vísurnar séu merktar dunefni, en rétt nafn og símanúmer fylgi með í lokuðu umslagi. Einnig er hægt að senda vísur og botna í tölvupósti  á netfangið bokasafn@skagafjordur.is og verður þá viðkomandi höfundi gefið dulnefni áður en vísunar fara til dómnefndar.

Úrslit verða tilkynnt sunnudaginn 30. apríl við setningu Sæluviku Skagfirðinga, í Safnahúsinu á Sauðárkróki klukkan 13:00. Það er snillingurinn Páll Friðriksson sem er umsjónarmaður keppninnar líkt og undanfarin ár.