Yfirlýsing frá Sveitarfélaginu Skagafirði
Í tilefni fréttaumfjöllunar um þjónustu og aðbúnað á sambýli fyrir fatlað fólk á Blönduósi vill Sveitarfélagið Skagafjörður koma eftirfarandi á framfæri.
Sveitarfélagið Skagafjörður tók við ábyrgð á þjónustu við fatlað fólk á Norðurlandi vestra í ársbyrjun 2016. Það var gert með samningi allra sjö sveitarfélaganna á Norðurlandi vestra um sameiginlegt þjónustusvæði um þjónustu við fatlað fólk. Frá árinu 2011 höfðu sveitarfélögin verið í samstarfi innan byggðasamlags um málefni fatlaðs fólks, ásamt Fjallabyggð og Dalvíkurbyggð, þar sem ábyrgð á þjónustunni var þó hjá hverju félagsþjónustusvæði fyrir sig.
Sveitarfélagið Skagafjörður tók sem fyrr segir við ábyrgð á þjónustu við íbúa sambýlisins á Blönduósi í upphafi árs 2016. Þær aðgerðir sem sveitarfélagið hefur gripið til síðan eru:
- Fundað var með réttindavakt Velferðarráðuneytisins og farið yfir áform sveitarfélagsins um aðgerðir til úrbóta.
- Ráðgjafi í málefnum fatlaðs fólks var ráðinn til þess að vera sveitarfélaginu innan handar við úrbætur.
- Fylgt var leiðbeiningum sérfræðiteymis Velferðarráðuneytisins um aðgerðir til að draga úr nauðung við fatlað fólk.
- Ráðinn var forstöðumaður með menntun í þroskaþjálfafræði.
- Stöðugildum starfsfólks við heimilið var fjölgað og vaktafyrirkomulagi breytt.
- Markvisst hefur verið unnið að því að miða þjónustuna betur að þörfum einstaklinganna ásamt því að veita sértæka ráðgjöf og stuðning til starfsmanna heimilisins.
- Komið var á samvinnu við Heilbrigðisstofnun Norðurlands varðandi heilsu og vellíðan íbúanna.
- Hafnar voru viðræður við húseiganda um breytingar á húsnæðinu sem miða að því að breyta því í sérbýli.
Engin tilfelli hafa komið upp þar sem kviknað hefur grunur um að starfsfólk misbeiti valdi sínu síðan Sveitarfélagið Skagafjörður tók við ábyrgð þjónustu á sambýlinu á Blönduósi. Starfsfólk sambýlisins vinnur heilshugar að ofangreindum úrbótum í samstarfi við sveitarfélagið.
Sveitarfélagið Skagafjörður leggur ríka áherslu á að vel sé staðið að allri þjónustu við íbúa sambýlisins á Blönduósi. Áfram verður markvisst unnið að úrbótum í þjónustu við íbúa og þeirri vinnu hraðað sem kostur er.
Sveitarfélagið Skagafjörður tekur undir áherslur félags- og jafnréttismálaráðherra um að fjölga beri réttindagæslumönnum fatlaðs fólks og að aukið sé við eftirlit með starfsemi þjónustu við fatlað fólk.