Yfirlýsing frá viðbragðsaðilum á Norðurlandi vestra
Viðbragðsaðilar á Norðurlandi vestra senda frá sér svohljóðandi yfirlýsingu vegna málflutnings framkvæmdastjóra Neyðarlínunnar í kjölfar óveðursins í síðustu viku.
"Undirritaðir viðbragðsaðilar á Norðurlandi vestra lýsa furðu á málflutningi framkvæmdastjóra Neyðarlínunnar í Kastljósi Sjónvarps þann 16. desember sl., hvað varðar uppitíma Tetra-kerfisins á Norðurlandi vestra.
Að mati undirritaðra var ekki hægt að treysta á Tetra-kerfið á Norðurlandi vestra þriðjudaginn 10. og miðvikudaginn 11. desember sl., þegar aftakaveður gekk yfir landið.
Upplifun viðbragðsaðila á Norðurlandi vestra var á þessu tímabili sú að þegar kerfið var inni væri um að ræða Eyjavirkni (þ.e. að ekki sé samband utan svæðis) og sá tími var margfaldur sá sem framkvæmdastjóri Neyðarlínunnar gaf upp í ofangreindum Kastljósþætti. Þá er ótalinn sá tími sem Tetra-kerfið lá niðri að öllu leyti í Húnavatnssýslum þegar að varaafl á sendum þar þraut.
Það hlýtur að vera sameiginlegt forgangsmál allra aðila að tryggja það að Tetra-kerfið á landinu öllu virki sem skyldi á ögurstundu."