Fara í efni

Yfirlýsing stjórnenda í Varmahlíðarskóla vegna fréttar í Fréttablaðinu 29. nóvember

30.11.2017

Í Fréttablaðinu 29. nóv., er umfjöllun um niðurstöður samræmdra prófa haustið 2017 þar sem fram kemur að einkunnir hafi verið jafnari milli kjördæma en áður. Þegar litið er til góðs árangurs á prófunum eru landshlutar og kjördæmi nefnd en þegar kemur að slökum árangri eru einstakir skólar nafngreindir og þar með talið okkar skóli, Varmahlíðarskóli í Skagafirði, sem er fámennur skóli með 109 nemendur. Þessi umfjöllun er ámælisverð og viljum við gera athugasemdir við fréttaflutninginn sem vart getur talist uppbyggjandi fyrir neinn.

Bekkjarstærðir skóla á Íslandi eru mjög misjafnar og samanburður því vandmeðfarinn. Með því að birta nöfn skóla með fámenna nemendahópa í slíkri umfjöllun er nánast verið að benda á einstaklinga. Einstaklinga í smáu samfélagi þar sem nánd er mikil.

Slík vinnubrögð blaðamanna eru óviðunandi. Hver er tilgangurinn með slíkum fréttaflutningi?

Þátttökuhlutfall í samræmdum prófum er misjafnt eftir skólum. Samkvæmt upplýsingum frá Menntamálastofnun er þátttökuhlutfall nemenda í 4. bekk á landinu öllu 93,6% í íslensku og 94,4% í stærðfræði. Sé horft til grunnskólanna þriggja í Skagafirði er þátttökuhlutfall 98,1% í íslensku og 96,2% í stærðfræði. Í greininni er haft eftir Sverri Óskarssyni, sviðsstjóra matssviðs Menntamálastofnunar að 92-93% þátttaka  á samræmdum prófum stofnunarinnar beri vitni um metnaðarfullt skólastarf.  Að þessu sinni var þátttökuhlutfall nemenda í 4. bekk Varmahlíðarskóla 100%. Hvaða orð er þá hægt nota um 100% þátttöku?  Við teljum okkur geta fullyrt að þátttökuhlutfall nemenda á samræmdum prófum í Varmahlíðarskóla í gegnum árin hafi að öllu jöfnu verið nærri því  100%. Við gerum ráð fyrir því að orð sviðsstjóra MMS séu þarna slitin úr samhengi og hann, eins og við, viti það að metnaðarfullt skólastarf ræðst  af mörgum ólíkum þáttum og þátttaka skólans í samræmdum prófum er aðeins einn þeirra.

Sé horft á  niðurstöður samræmdu prófanna er vert að benda á mikilvægi þess að hópastærð sé höfð í huga. Menntamálastofnun birtir ekki tölur skóla í sínum gagnagrunni nema að þátttaka nemenda sé 11 nemendur eða fleiri. Sökum fámennis í okkar skóla eru niðurstöður stundum birtar og stundum ekki. Sveiflur í litlum árgöngum hafa meiri áhrif en í stórum hópum og því er samanburður við fjölmennari skóla erfiður og ósanngjarn um margt. Hópastærðir Varmahlíðarskóla á samræmdum prófum frá árinu 2010 hafa verið frá 5 - 20 nemendur og því vegur árangur hvers einstaks nemanda meira en í meðaltali stærri hópa.

Niðurstaða Varmahlíðarskóla á samræmdum prófum hefur að sjálfsögðu sveiflast á milli ára, það er eðlilegt vegna fámennis. Sé miðað við að landsmeðaltalið í íslensku og stærðfræði  á samræmdum prófum sé 30,0 þá höfum við, á árunum 2011-2016,  séð meðaltöl hópa hér sem liggja frá 27,0 og upp í 38,9.  Séu niðurstöður sömu ára  í íslensku og stærðfræði skoðaðar kemur í ljós að í 76% tilvika eru nemendur hér yfir 30,o í landsmeðaltali og í 24% tilvika undir því.  Í ljósi þessa er umfjöllun eins og við sjáum í Fréttablaðinu í dag mjög ósanngjörn og óvægin í garð skólans og núverandi nemendahóps. Við vitum að árangur einstakra nemenda í litlum hópum hefur mikið að segja í meðaltalinu og skoðum  því ævinlega niðurstöður hópanna með tilliti til þess.  

Við munum nú sem áður leggja metnað okkar í að nýta niðurstöður prófanna til að ígrunda frekari áherslur í náminu eins og lagt er upp með í markmiðum samræmdra könnunarprófa. Mælistika metnaðarfulls skólastarfs er ekki árangur eins skóla á einu afmörkuðu samræmdu prófi heldur hið fjölþætta og fjölbreytta starf sem fram fer á hverjum degi.  Við hvetjum til uppbyggilegri frétta af metnaðarfullu skólastarfi sem sjá má í ýmsum myndum dags daglega.

Stjórnendur Varmahlíðarskóla.

Yfirlýsing birt á heimasíðu Varmahlíðarskóla 29. nóv