Fara í efni

Félagsmálanefnd

13. fundur 08. desember 1998 kl. 14:00 Stjórnsýsluhúsinu á Sauðárkróki

13. fundur

Ár 1998, þriðjudaginn 8. desember kl 14:00 kom félagsmálanefnd Skagafjarðar saman til fundar í Stjórnsýsluhúsinu á Sauðárkróki.

Mætt voru: Elínborg Hilmarsdóttir, Ásdís Guðmundsdóttir, Gréta Sjöfn Guðmundsdóttir, Kristín Bjarnadóttir, Trausti Kristjánsson.

Auk þeirra: Ásdís Antonsdóttir, Sigríður Sigurjónsdóttir, Ríkharður Másson sýslumaður og Árni Pálsson rannsóknarlögreglumaður.

Lovísa Símonardóttir ritari.

 

Dagskrá:

  1. Fulltrúar lögreglu mæta til fundar
  2. Þingsályktunartillaga um afnám ríkisins á smásölu áfengis
  3. Jafnréttisáætlun
  4. Erindi varðandi heimilishjálp
  5.  Trúnaðarmál
  6. Önnur mál

 

Afgreiðslur:

1. Allnokkrar umræður urðu um forvarnir í Skagafirði og mikill áhugi um aukið samstarf lögreglu og sveitarfélagsins um þau mál.

Ríkharður og Árni viku af fundi.

Starfsmanni falið að hafa samband við fyrrum forvarnanefnd.

2. Félagsmálanefnd Skagafjarðar hefur fengið til umsagnar þingsályktunartillögu um afnám einokunar ríkisins á smásölu áfengis 169. mál. Helstu kostir þessarar tillögu eru að ákvarðanir varðandi áfengissölu færðust nær heimamönnum sem þar með gætu stjórnað því hversu aðgengilegt áfengi yrði. Eftirlit með söluaðilum gæti orðið virkara og þeir sem ekki fylgdu reglum yrðu látnir sæta viðurlögum. Hugsanlega er hægt að tengja þetta inn í skipulag forvarna gegn vímuefnum á svæðinu.

Helstu gallar tillögunnar eru þeir að of margir þættir eru óljósir. Hver t.d. ber endanlega ábyrgð ef smásala áfengis fer úr böndunum á tilteknum stað á landinu, án þess að sveitarstjórnin skipti sér af því eða hafi með því eftirlit? Eigi sömu reglur að gilda fyrir allt landið eða setur hvert sveitarfélag fyrir sig reglur um áfengisverslanir. Hugsanlegt er að afnám einokunar ríkisins á áfengissölu hafi í för með sér aukið heilbrigðisvandamál, ef ekki verður nógu vel að undirbúningi staðið. Því verður að huga vel að allri skipulagningu og undirbúna breytinguna vel ef henni á að verða.

Að mati nefndarinnar verða skýr lög að fylgja þessu fyrirkomulagi, þar þarf t.d. að koma fram hverjir mega vinna í áfengisversluninni, þarf vissan lágmarksaldur? Skilgreina þarf hverjir geta fengið leyfi fyrir áfengissölu og hvaða skilyrði þeir verða að uppfylla. Hvar mega áfengisverslanir vera staðsettar – má t.d. versla áfengi í matvöruverslunum, þá allt áfengi eða hluta af því?

Hvaða reglur gilda um opnunartíma og þess háttar? Hvaða viðurlög eru ef reglum er ekki fylgt – ef kaupmaðurinn fylgir ekki eða ef sveitarfélagið fylgir ekki reglunum.

Félagsmálanefnd Skagafjarðar getur ekki mælt með þingsályktunartillögunni eins og hún hljóðar í dag og telur að betur þurfi að skilgreina þetta fyrirkomulag og setja lög um hvernig það á að fara fram.

3. Málinu frestað til næsta fundar.

4. Beiðni um greiðslu fyrir akstur starfsmanns heimilishjálpar, hafnað. Starfsmanni nefndar falið að vinna málið.

5. Trúnaðarmál – sjá trúnaðarbók.

6. Önnur mál engin.

Fleira ekki gert, fundi slitið.

                                        Lovísa Símonardóttir ritari

Elínborg Hilmarsdóttir

Gréta Sjöfn Guðmundsdóttir

Kristín Bjarnadóttir

Trausti Kristjánsson

Ásdís Guðmundsdóttir