Fara í efni

Söngskóli Alexöndru

Málsnúmer 0803042

Vakta málsnúmer

Fræðslunefnd Svf. Skagafjarðar - 36. fundur - 06.03.2008

Lagt fram erindi frá Söngskóla Alexöndru dags. 22. febrúar 2008 þar sem óskað er eftir samstarfi við sveitarfélagið um rekstur skólans. Óskað er eftir því að sveitarfélagið greiði ákveðna upphæð, sem samið verði um, með hverjum nemenda sem stundar nám í söngskólanum. Með erindinu fylgdu útreikningar á kostnaði við skólann. Erindinu frestað til næsta fundar.

Fræðslunefnd Svf. Skagafjarðar - 37. fundur - 11.04.2008

Söngskóli Alexöndru. Fræðslunefnd samþykkir að styrkja Söngskóla Alexöndru á vorönn 2008 vegna þeirra nemenda sem innritast höfðu í söngnám í Tónlistarskóla Skagafjarðar sl. haust en voru við nám í Söngskólanum á vorönn og eru með lögheimili i Sveitarfélaginu Skagafirði. Tíu eru í fullu námi og fjórir í hálfu námi og verður mánaðarlegur styrkur miðaður við þennan nemendafjölda kr.299.863. Málinu vísað til Byggðaráðs þar sem að fjárheimildir eru ekki til staðar á málaflokki 04.Fræðslunefnd samþykkir erindið með tveimur atkvæðum gegn einu. Fulltrúi Vinstri grænna tekur ekki afstöðu til málsins.

Sveitarstjórn Sveitarfélagins Skagafjarðar - 226. fundur - 16.04.2008

Til máls tók Bjarni Jónsson og leggur fram bókun:
?Það er skoðun undirritaðs að þessi mál þurfi að skoða betur áður en slík fordæmisgefandi ákvörðun er tekin. Mikilvægt er að styðja vel við metnaðarfullt tónlistarstarf í héraðinu. Stuðningur við einkaskóla má hinsvegar ekki verða þess valdandi að fjárframlög og þjónusta Tónlistarskóla Skagafjarðar skerðist.?
Bjarni Jónsson VG

Síðan tók Gunnar Bragi Sveinsson til máls, þá Sigríður Björnsdóttir, Sigurður Árnason, fleiri ekki.

Afgreiðsla 37. fundar fræðslunefndar, að vísa málinu til Byggðarráðs, staðfest á 226. fundi sveitarstjórnar með níu atkvæðum.

Byggðarráð Svf. Skagafjarðar - 432. fundur - 30.04.2008

Lagt fram erindi sem vísað var frá 37. fundi fræðslunefndar og 226. fundi sveitarstjórnar. Erindið varðar styrkbeiðni frá Söngskóla Alexöndru.

Fjárheimild Byggðarráðs leyfir ekki þá styrkupphæð sem Fræðslunefnd leggur til. Meirihluti byggðaráðs samþykkir að veita Söngskóla Alexöndru styrk að upphæð kr. 60.000 á mánuði frá 1. janúar til og með 30. júní 2008 sem nemur kennslu 12 nemenda í fullu námi með lögheimili í Sveitarfélaginu Skagafirði. Styrkurinn er veittur vegna þeirra nemenda er hófu nám hjá Alexöndru í Tónlistarskóla Skagafjarðar í haust og fylgdu kennara sínum er hún hóf störf á nýjum stað. Ekki verður um aðrar styrkveitingar að ræða þar sem Sveitarfélagið Skagafjörður rekur metnaðarfulla tónlistarkennslu í Tónlistarskóla Skagafjarðar.
Jafnframt óskar meirihluti byggðaráðs eftir upplýsingum um fjölda nemenda í söngnámi við söngdeild Tónlistarskóla Skagafjarðar og lýsir vilja til að styrkja söngdeildina með svipuðum hætti.

Páll Dagbjartsson greiðir atkvæði á móti styrkveitingunni og leggur fram bókun:
"Afstaða mín byggist á því grundvallaratriði að sveitarfélagið eigi ekki að styrkja einkakennslu á tónlistarsviði á meðan það rekur tónlistarskóla."

Gísli Árnason leggur fram einnig fram bókun:
"Sveitarfélögin í Skagafirði hafa um árabil haldið úti metnaðarfullu tónlistarnámi í Skagafirði, enda söng- og tónlistarlíf með miklum blóma í héraðinu frá fornu fari. Mjög mikilvægt er að stuðningur við skóla í einkaeign skerði á engan hátt möguleika Tónlistarskóla Skagafjarðar til áframhaldandi þjónustu við íbúa sveitarfélagsins."

Sveitarstjórn Sveitarfélagins Skagafjarðar - 228. fundur - 20.05.2008

Afgreiðsla 432. fundar byggðarráðs staðfest á 228. fundi sveitarstjórnar með fimm atkvæðum.
Páll Dagbjartsson óskar bókað að fulltrúar Sjálfstæðisflokks greiði atkvæði gegn þessum lið og vísar í bókun í fundargerð byggðarráðs nr. 432, 30.04.08.
("Afstaða mín byggist á því grundvallaratriði að sveitarfélagið eigi ekki að styrkja einkakennslu á tónlistarsviði á meðan það rekur tónlistarskóla.")
Bjarni Jónsson VG óskar bókað að hann sitji hjá við afgreiðslu þessa liðar.