Fara í efni

Sameining fjallskiladeilda - Framhluti Seyluhrepps og Lýtingsstaðahrepps

Málsnúmer 0806035

Vakta málsnúmer

Landbúnaðarnefnd Svf. Skagafjarðar - 135. fundur - 03.06.2008

Boðið var upp á súpu í byrjun fundar. Tilefni fundarins var að undirbúa og ræða um sameiningu fjallskiladeildanna, þ.e.a.s. framhluta Seyluhrepps og Lýtingsstaðahrepps. Fyrir liggur ósk um sameiningu frá forráðamönnum deildanna. Til fundar voru mættir Einar E. Einarsson form. Landbúnaðarnefndar, Sigurður Haraldsson starfsmaður, Björn Friðriksson fjallskilastj. framhluta Seyluhrepps, Björn Ófeigsson fjallskilastj. Lýtingsstaðahr., Smári Borgarsson varafjallskilastj. Þá voru og mættir Hlífar Hjaltason og Sindri Sigfússon. Einar setti fund og bauð fundarmenn velkomna, hann fór yfir aðdraganda þessa fundar en búið er að koma saman og ræða fjallskilamálin á tveim vinnufundum. Fyrsta skref er að sameina formlega báðar deildirnar þannig að ein deild verði sem haldi bæði utan um afréttarmál á heiðum og í heimalöndum. Með sameiningu á að fjölga í fjallskilanefnd um tvo. Ýmis atriði voru rædd m.a. innheimta fjallskilagjalda, landverð o.fl. Málin voru rædd frá ýmsum hliðum, um framkvæmd fjallskilamála. Búið er að boða til fundar í Árgarði kl. 20,00 í kvöld með bændum á umræddum svæðum, þar verða fjallskilamálin rædd og fyrirhuguð breyting og sameining deildanna.

Landbúnaðarnefnd Svf. Skagafjarðar - 136. fundur - 10.06.2008

Fundur með fjáreigendum sem upprekstur eiga á Eyvindarstaðaheiði svo og Haukagilsheiði, einnig bændum sem hafa sitt fé í heimalöndum, um er að ræða svæðin framhluta Seyluhrepps og Lýtingsstaðahrepp. Einar E. Einarsson setti fund, bauð fundarmenn velkomna til fundar og kynnti dagskrá, sem var: 1. Fundarsetning 2. Bréf frá fjallskilastjórum 3. Umræður um fjallskilamál 1. Eins og að framan greinir setti Einar fund, hann fór yfir stöðu mála og fór yfir það helsta sem tilheyrir þessum deildum og vilja til að sameina þær í eina deild. Nokkur óánægja hefur verið á svæðinu með það fyrirkomulag, sem unnið hefur verið eftir undanfarin ár. Einar ræddi nokkuð um rekstur skálanna, sem fjallskiladeildirnar hafa séð um rekstur á í samvinnu við Húnvetninga. Haldnir hafa verið tveir fundir með fjallskilastjórum á svæðinu til þess að undirbúa sameiningu deildanna. Gert er ráð fyrir fimm manna stjórn og hafa nú þegar verið tilnefndir tveir menn til að starfa með fjallskilastjórum. 2. Borist hefur bréf til Landbúnaðarnefndar Skagafjarðar, undirritað af Birni Friðrikssyni, Birni Ófeigssyni og Smára Borgarssyni, þar sem óskað er eftir sameiningu deildanna. Landbúnaðarnefnd hefur lýst sig samþykka þeirri breytni. Landbúnaðarnefnd hefur tilnefnt þá Sindra Sigfússon og Hlífar Hjaltason til að starfa með fjallskilastjórum. Stjórnir munu síðan gera tillögur um breytingar á tilhögun fjallskilamála á komandi hausti. 3. Umræður. Allmiklar umræður urðu um fjallskilamálin. Fundarmenn virtust fagna sameiningu deildanna. Umræðan snerist nokkuð um rekstur Eyvindarstaðaheiðar og kostnað við smölun. Með sameiningu deildanna verða þessi mál tekin til skoðunar og færð til betra fyrirkomulags, en getur tekið tíma. Nokkur umræða varð um rekstur skálanna, þá var allnokkuð rætt um álagningu landverðs á jarðir sem samkv. nýjustu upplýsingum stenst ekki lög, ákvæði um álagningu gjaldsins vantar í fjallskilareglugerðir. Búið er að skipa nefnd af Bændasamtökum til að semja reglur um málið. Allnokkur umræða varð um heimalandasmölun. Margeir Björsson óskaði eftir að eftirfarandi yrði bókað: "Ef þeir sem nýta Eyvindarstaðaheiðina geta ekki staðið undir því fjárhagslega, er það málefni sveitarfélagsins." Fundinn sóttu 35 manns. Einar þakkaði fyrir góðan fund og sleit honum.

Landbúnaðarnefnd Svf. Skagafjarðar - 137. fundur - 11.06.2008

Fundurinn var símafundur. Einar E. Einarsson var í Leiðbeiningarmiðstöðinni á Sauðárkróki og var í símasambandi við Ingibjörgu Hafstað og Sigríði Björnsdóttur. Eftirfarandi gerðist: Kosning fjallskilastjórnar í sameinaðar fjallskiladeildir framhluta Seyluhrepps og Lýtingsstaðahrepps. Eftirtaldir voru kjörnir: Björn Friðriksson, Björn Ófeigsson, Smári Borgarsson, Sindri Sigfússon og Hlífar Hjaltason. Björn Friðriksson kosinn fjallskilastjóri, til vara Björn Ófeigsson. Fleira ekki gert, símafundi slitið.

Sveitarstjórn Sveitarfélagins Skagafjarðar - 230. fundur - 24.06.2008

Afgreiðsla 135. fundar landbúnaðarnefndar staðfest á 230. fundi sveitarstjórnar með níu atkvæðum.

Sveitarstjórn Sveitarfélagins Skagafjarðar - 230. fundur - 24.06.2008

Afgreiðsla 136. fundar landbúnaðarnefndar staðfest á 230. fundi sveitarstjórnar með níu atkvæðum.

Sveitarstjórn Sveitarfélagins Skagafjarðar - 230. fundur - 24.06.2008

Afgreiðsla 137. fundar landbúnaðarnefndar staðfest á 230. fundi sveitarstjórnar með níu atkvæðum.