Fara í efni

Ársreikningur sveitarfélagsins og stofnana þess 2009

Málsnúmer 1004070

Vakta málsnúmer

Byggðarráð Svf. Skagafjarðar - 513. fundur - 16.04.2010

Ársreikningur sveitarsjóðs og stofnana fyrir árið 2009 lagður fram. Kristján Jónasson endurskoðandi hjá KPMG, kom á fundinn undir þessum dagskrárlið og skýrði reikningana. Gert er ráð fyrir kynningu á ársreikningi, fyrir sveitarstjórnarfulltrúa og sviðsstjóra, fyrir sveitarstjórnarfund þann 20. april n.k.

Byggðarráð samþykkir að vísa ársreikningnum til fyrri umræðu í sveitarstjórn.

Sveitarstjórn Sveitarfélagins Skagafjarðar - 262. fundur - 20.04.2010

Afgreiðsla 513. fundar byggðaráðs staðfest á 262. fundi sveitarstjórnar með níu atkvæðum.

Sveitarstjórn Sveitarfélagins Skagafjarðar - 262. fundur - 20.04.2010

Erindi vísað frá byggðaráði, 513. fundi dags 16. apríl 2010. Fyrri umræða um ársreikning Sveitarfélagins Skagafjarðar og stofnana fyrir árið 2009. Kristján Jónasson endurskoðandi hjá KPMG Endurskoðun, Sauðárkróki, löggiltur endurskoðandi sveitarfélagins, fór yfir og kynnti ársreikninginn á sérstökum fundi með sveitarstjórn, nefndarmönnum, sviðsstjórum og forstöðumönnum rekstareininga, sem haldinn var á undan sveitarstjórnarfundinum í dag.

Gísli Árnason og Sigurður Árnason kvöddu sér hljóðs.

Tillaga um að vísa ársreikningnum til siðari umræðu i sveitarstjórn samþykkt samhljóða.

Sveitarstjórn Sveitarfélagins Skagafjarðar - 263. fundur - 18.05.2010

Guðmundur Guðlaugsson tók til máls og skýrði reikninginn. Engar breytingar
hafa orðið frá fyrri umræðu. 
 
Niðurstöðutölur rekstrarreiknings ársins 2009 eru þessar; 
Rekstrartekjur fyrir A- og B- hluta sveitarsjóðs 3.086,6 mkr, þar af námu
rekstrartekjur A-hluta 2.689,4 mkr. Rekstrargjöld A-hluta sveitarsjóðs án
fjármunatekna og fjármagnsgjalda voru 2.691,1 mkr., en 2.955,3 mkr. í A og
B-hluta. Nettó fjármagnsliðir til gjalda hjá A-hluta sveitarsjóðs eru 143,1
mkr. og samantekið fyrir A og B hluta 320,3 mkr. 
Rekstrarniðurstaða er neikvæð í A-hluta að upphæð 166,3 mkr. og einnig í
samanteknum A og B hluta að upphæð 252,1 mkr. Eigið fé sveitarfélagsins í
árslok 2009 nam 1.298,7 mkr. samkvæmt efnahagsreikningi en þar af nam eigið
fé A-hluta 1.466,0 mkr. Langtímaskuldir A-hluta eru 1.282,5 mkr. og A og
B-hluta í heild 2.741,3 mkr. 
Lífeyrisskuldbindingar eru í heild 705,5 mkr. og skammtímaskuldir 750,1 mkr.
 
Á árinu breytti sveitarfélagið reikningsskilaaðferðum sínum á eftirfarandi
hátt.  Færsla leigusamninga fasteigna og annarra mannvirkja var innleidd í
samræmi við álit Reikningsskila- og upplýsinganefndar sveitarfélaga 1/2010.
Eru áhrif innleiðingarinnar færð á eiginfjárreikning þann 31. desember 2009
og lækkaði eigið fé sveitarfélagsins um 82,1 mkr. vegna þessa.  Einnig var
innleitt á árinu álit Reikningsskila- og upplýsinganefndar sveitarfélaga
2/2010 ? Færsla á lóðum og lendum í bókhaldi og reikningsskilum
sveitarfélaga. Innleiðing álitsins fól í sér breytingu á
reikningsskilaaðferðum sveitarfélagsins þar sem það færir nú til eignar
meðal varanlegra rekstrarfjármuna lóðir og lendur sem það hefur leigutekjur
af.  Vegna þessa hækkaði eigið fé sveitarfélagsins um 922,5 mkr.
 
Leggur sveitarstjóri til að ársreikningur 2009 verði samþykktur.
 
 
Páll Dagbjartsson tók til máls og lagði fram eftirfarandi bókun frá fulltrúum Sjálfstæðisflokksins vegna ársreiknings ársins 2009
 
Ársreikningur Sveitarfélagsins Skagafjarðar fyrir árið 2009 sýnir rekstrarhalla upp á rúmar 250 milljónir króna, en fjárhagsáætlun gerði ráð fyrir halla upp á rúmlega 170 milljónir.  Þarna er því aukinn rekstrarhalli síðasta árs um 80 milljónir.  Ársreikningurinn sýnir einnig að í árslok 2009 eru heildarskuldir og skuldbindingar sveitarfélagsins, A og B hluta, samtals 4,2 milljarðar króna. 
Þegar núverandi meirihluti tók við í júní 2006 námu sambærilegar skuldir sveitarfélagsins 3,1 milljarði. Til viðbótar má svo minna á að fjárhagsáætlun fyrir árið 2010 gerir ráð fyrir nýjum lántökum upp á rúmlega 500 milljónir.
 
Við fulltrúar Sjálfstæðisflokksins teljum, og það sjá flestir, að svona verður ekki haldið áfram til lengdar.  Meirihluti Framsóknarflokks og Samfylkingar hefur haldið illa á fjármálastjórninni  s.l. fjögur ár.  Það verður höfuðverkefni nýrrar sveitarstjórnar að koma skikki á fjármálin hjá sveitarfélaginu strax að afloknum kosnungum sem nú eru framundan.
 
Páll Dagbjartsson     
Sigríður Björnsdóttir     
Gísli Sigurðsson
 
 
 
 
 
 
Bjarni Jónsson kvaddi sér hljóðs og lagð fram eftirfarandi bókun.
 
Ársreikningur Sveitarfélagsins Skagafjarðar fyrir árið 2009 lýsir ágætlega slakri fjármálastjórn og skuldasöfnun meirihluta Framsóknarflokks og Samfylkingar á kjörtímabilinu, um það þarf ekki að hafa fleiri orð.
Vert er hinsvegar að minna á meðábyrgð sjálfstæðisflokksins sem ekki hafði athugasemdir við áætlanagerð og forgangsröðun meirihlutans og samþykkti fjárhagsáætlunina á sínum tíma. Þannig hefur Sjálfstæðisflokkurinn stutt ýmis umdeild útgjöld á kjörtímabilinu eins og milljónagreiðslur fyrir hönnunarvinnu við menningarhús ofaní íþróttasvæði Sauðárkróks svo einhver dæmi séu nefnd. Flokkurinn hefur lengst af verið í hlutverki áhrifalauss ábekinga meirihluta Framsóknar og Samfylkingar.
 
 
Sigurður Árnason tók til máls og lagði fram bókun fulltrúa Samfylkingar og Framsóknarflokks.
 
Bókun meirihluta.
 
Fjárhagsáætlun fyrir árið 2009 var unnin við erfiðar aðstæður og mikla
óvissu í kjölfar bankahrunsins haustið 2008. Við gerð áætlunarinnar var lögð áhersla á að verja störf  og standa vörð um grunnþjónustu. Breið samstaða var um áætlunina í sveitarstjórn og var hún samþykkt með átta samhljóða atkvæðum í sveitarstjórn.  Niðurstaða reksturs samstæðu sveitarfélagsins er í takt við áætlanir ef frá eru teknar varúðarniðurfærslur á móti kröfum og eignarhlutum í félögum sem eru óvenjumiklar en í takti við hið óvenjulega ástand sem uppi er.  
Verulegur árangur náðist í rekstri sveitarfélagsins á árinu 2009 og batnaði rekstrarafkoman um rúmlega 230 milljónir kr. frá árinu 2008. 
 
Áfram þarf að halda þétt utan um rekstur sveitarfélagsins til að tryggja
áfram góða þjónustu og að sveitarfélagð geti ráðist í nauðsynlegar framkvæmdir. Meirihluti Framsóknarflokks og Samfylkingar þakkar starfsmönnum sveitarfélagsins fyrir gott og óeigingjarnt starf að rekstri sveitarfélagsins á árinu 2009.
 
Þórdís Friðbjörnsdóttir
Gréta Sjöfn Guðmundsdóttir
Sigurður Árnason
Íris Baldvinsdóttir
Einar E. Einarsson
 
Sigurður Árnason lagði einnig fram tvær bókanir vegna bókanna fulltrúa Sjálfstæðisflokks og fulltrúa VG.
 
Vegna bókunar fulltrúa Sjálfstæðisflokksins vill undirritaður benda á að fulltrúar Sjálfstæðisflokksins samþykktu fjárhagsáætlunina á sínum tíma og frávik frá henni eru ekki veruleg ef frá eru teknar varúðarfærslur á móti
kröfum og vegna eignarhluta í félögum sem eðlilegar verða að teljast í ljósi þess ástands er sem er í samfélaginu. 
 
Vegna bókunar fulltrúa VG vill undirritaður benda á að skuldir sveitarfélagsins hafa frá ársreikningi 2006 hækkað minna en sem nemur
verðlagshækkunum samkvæmt vísitölu neysluverðs þrátt fyir að framkvæmt hafi verið fyrir rúman milljarð króna á árunum 2007-2009 og að hluti skulda
sveitarfélagsins sé gengistryggður. Sigurður Árnason.
Þórdís Friðbjörnsdóttir kvaddi sér hljóðs.

Ársreikningur Sveitarfélagsins Skagafjarðar og stofnana þess 2009, borin undir atkvæði og samþykkt samhljóða.