Fara í efni

Viðbrögð við yfirlýsingum framkvæmdastjóra Samtaka ferðaþjónustunnar

Málsnúmer 1102094

Vakta málsnúmer

Atvinnu- og ferðamálanefnd - 70. fundur - 16.02.2011

Svanhildur Guðmundsdóttir þurfti að víkja af fundi og tók því ekki þátt í afgreiðslu þessa dagskrárliðs.

Atvinnu- og ferðamálanefnd Sveitarfélagsins Skagafjarðar mótmælir neikvæðum yfirlýsingum framkvæmdastjóra Samtaka ferðaþjónustunnar um íslensk matvæli og þeim fullyrðingum að verð á þeim hamli ferðaþjónustu. Nefndin lýsir áhyggjum yfir þeim viðhorfum sem felast í ummælum hennar m.a. varðandi innflutning á matvælum á kostnað íslenskrar framleiðslu. Nefndin vill vekja athygli á að einn helsti vaxtarbroddur í ferðaþjónustu á landsbyggðinni er matartengd ferðaþjónusta og að í henni felast ótal tækifæri, ekki síst tengd sérkennum einstakra svæða. Þá er bent á að víða á landsbyggðinni er ferðaþjónusta nátengd landbúnaði. Nefndin lýsir einnig furðu yfir áhyggjum framkvæmdastjórans af því að erlendir ferðamenn skilji eftir of mikla fjármuni hér á landi, eins og skilja má ummæli hennar um matarverð og íslensk matvæli.
Nefndin samþykkir að bjóða framkvæmdastjóranum norður í Skagafjörð til að kynna sér ferðaþjónustu utan höfuðborgarsvæðisins, einkum þá blómlegu uppbyggingu sem hér á sér stað í matartengdri ferðaþjónustu og til að bragða á kræsingum úr skagfirsku matarkistunni.

Sveitarstjórn Sveitarfélagins Skagafjarðar - 275. fundur - 22.02.2011

Gréta Sjöfn Guðmundsdóttir tók til máls og lagði fram eftirfarandi bókun:

"Undirrituð geri athugasemd við þau vinnubrögð sem eru viðhöfð í nefndarstarfinu þar sem mál sem ekki er á framlagðri dagskrá og ekki kynnt í upphafi fundar er tekið á dagskrá undir lok fundar án þess að nokkur gögn liggja á bakvið málið, né nokkurt tækifæri nefndarmanna til að kynna sér málið. Ég mun því sitja hjá við afgreiðslu málsins."

Gréta Sjöfn Guðmundsdóttir, Samfylkingunni.

Bjarni Jónsson og Viggó Jónsson óska bókað; "Ekkert er athugavert við afgreiðslu nefndarinnar á þessu máli."

Afgreiðsla 70. fundar atvinnu- og ferðamálanefndar staðfest á 275. fundi sveitarstjórnar með átta atkvæðum.