Fara í efni

Framtíð áætlunarflugs til Sauðárkróks

Málsnúmer 1109260

Vakta málsnúmer

Atvinnu- og ferðamálanefnd - 75. fundur - 22.09.2011

Atvinnu- og ferðamálanefnd Sveitarfélagsins Skagafjarðar lýsir þungum áhyggjum vegna áforma um að áætlunarflug til og frá Skagafirði stöðvist um næstkomandi áramót.
Flugfélagið Ernir hefur sinnt þessari þjónustu undanfarin ár með ágætum og hefur lýst yfir vilja til að gera það áfram ef ríkisvaldið endurskoðar áform sín um að hætta stuðningi við áætlunarflug til Skagafjarðar.
Fyrir ári lá fyrir að flug myndi leggjast af að óbreyttu þegar samningur um ríkisstyrk rann út. Engu að síður tókst þá að tryggja flug til Skagafjarðar til eins árs, m.a fyrir milligöngu innanríkisráðuneytisins. Nú er sama staða kominn upp aftur varðandi framtíð innanlandsflugs til Skagafjarðar.
Sóknaráætlun ríkisstjórnar Íslands til eflingar atvinnulífs og samfélags um land allt (20/20 ? sóknaráætlun fyrir Ísland) hefur það markmið að efla atvinnulíf og samfélag um allt land með fjárfestingu í mannauði og nauðsynlegum innviðum efnahagslífsins og stefnu um hvernig megi styrkja menntun og menningu, nýsköpun og þróun, umhverfismál og samfélagslega innviði. Í því skyni skal samþætta lögbundnar áætlanir á borð við samgönguáætlun, fjarskiptaáætlun, byggðaáætlun, áætlanir í ferðamálum og ýmsar áætlanir í atvinnu- og menntamálum, svo nokkuð sé nefnt. Þá skal sóknaráætlun fela í sér áætlun um eflingu sveitarstjórnarstigsins.
Í greinargerð faghóps Háskólans á Akureyri vegna samgönguáætlunar 2011-2022 er bent á að reglubundið flug til Skagafjarðar styrki þjónustuna á svæðinu og að með styrkingu slíkra þjónustukjarna á jaðri vaxtarsvæða megi teygja slík svæði lengra og ná þannig til byggðarlaga sem nú liggja utan þeirra. Með styrkari þjónustu á Sauðárkróki megi þannig koma til móts við þarfir íbúa utan Skagafjarðar, þ.m.t. Austur-Húnavatnssýslu.
Áætlunarflug milli höfuðborgarinnar og Skagafjarðar skiptir almenning og fyrirtæki í Skagafirði og nærsveitum gríðarlega miklu máli enda fjölþætt þjónusta sem íbúar, fyrirtæki og opinberar stofnanir á svæðinu þurfa að sækja til höfuðborgarinnar, auk ýmislegs erindreksturs. Þá þurfa landsmenn allir einnig að hafa greiðan aðgang að þeirri þjónustu sem veitt er að hálfu fyrirtækja og stofnanna í Skagafirði. Sem dæmi um mikilvægi flugs og samgangna á svæðinu við höfuðborgina má nefna að meðal mikilvægustu áhersluatriða Samtaka sveitarfélaga á Norðurlandi vestra í sóknaráætlun fyrir landshlutann, þar sem markmið 20/20 sóknaráætlunar fyrir Ísland voru til grundvallar, voru áframhaldandi stuðningur við áætlunarflug til og frá Skagafirði og uppbygging samgöngumiðstöðvar í héraðinu. Því skýtur mjög skökku við ef jafn langur vegur er á milli orðs og æðis hjá ríkisvaldinu eins og útlit er fyrir.
Atvinnu- og ferðamálanefnd Sveitarfélagsins Skagafjarðar skorar á þingmenn og ráðherra að sjá til þess að áætlunarflug til Skagafjarðar verði áfram styrkt um komandi ár þannig að þessi mikilvæga þjónusta leggist ekki af. Brýnt er að sá stuðningur verði staðfestur í nýrri 12 ára samgönguáætlun sem fyrirhugað er að samþykkja á komandi haustþingi. Með slíkum stuðningi yrði sýnt fram á að sóknaráætlun ríkisstjórnarninnar sé raunveruleg áætlun um uppbyggingu og styrkingu samfélagslegra innviða í stað fallegra en meiningarlausra orða á blaði, og gjörða sem færa samfélög á landsbyggðinni áratugi aftur í tímann.

Atvinnu- og ferðamálanefnd - 76. fundur - 12.10.2011

Rætt um stöðu mála varðandi vinnu við að tryggja framtíð áætlunarflugs til Sauðárkróks. Á fundi sem haldin var nýlega með forsvarsmönnum fyrirtækja og stofnanna í Skagafirði, þar sem fulltrúar sveitarfélagsins og flugfélagsins Arna sátu, var ákveðið að skipa starfshóp til að vinna áfram að málinu. Nefndin tilnefnir Stefán Vagn Stefánsson fyrir hönd sveitarfélagsins, en aðrir í hópnum verða Gunnsteinn Björnsson fyrir fyrirtæki, Svanhildi Guðmundsdóttir fyrir stofnanir, Svanhildur Pálsdóttir fyrir ferðaþjónustuna, Bjarni Jónsson formaður stjórnar SSNV og Ásgeir Þorsteinsson fyrir hönd flugfélagsins Arna. Sigfús Ingi Sigfússon mun vinna með hópnum. Óskað verður eftir því að Innanríkisráðuneytið tilnefni tengilið til að vinna með hópnum.

Sveitarstjórn Sveitarfélagins Skagafjarðar - 283. fundur - 19.10.2011

Afgreiðsla 75. fundar atvinnu- og ferðamálanefndar staðfest á 283. fundi sveitarstjórnar með átta atkvæðum.

Sveitarstjórn Sveitarfélagins Skagafjarðar - 283. fundur - 19.10.2011

Afgreiðsla 76. fundar atvinnu- og ferðamálanefndar staðfest á 283. fundi sveitarstjórnar með átta atkvæðum.