Fara í efni

Ársreikningur sveitarfélagsins og stofnana 2011

Málsnúmer 1204219

Vakta málsnúmer

Byggðarráð Svf. Skagafjarðar - 590. fundur - 26.04.2012

Lagður fram ársreikningur 2011 fyrir sveitarfélagið og stofnanir þess. Kristján Jónasson löggiltur endurskoðandi hjá KPMG fór yfir og kynnti ársreikninginn á sérstökum fundi, sem haldinn var nú í morgun á undan fundi byggðarráðs, með sveitarstjórn.

Byggðarráð samþykkir að vísa ársreikningnum til endurskoðunar og afgreiðslu í sveitarstjórn.

Sveitarstjórn Sveitarfélagins Skagafjarðar - 289. fundur - 02.05.2012

Forseti geri tillögu um að vísa afgreiðslu þessa liðar, til 11. liðar á dagskrá fundarins, "Ársreikninga sveitarfélagins og stofnana 2011". Samþykkt samhljóða.

Sveitarstjórn Sveitarfélagins Skagafjarðar - 289. fundur - 02.05.2012

Kristján Jónasson löggiltur endurskoðandi hjá KPMG fór yfir og kynnti ársreikninginn á sérstökum fundi, sem haldinn var á undan fundi byggðarráðs þann 26. apríl s.l., með sveitarstjórn. Ársreikningi sveitarfélagsins og stofnana þess var vísað frá 590. fundi byggðarráðs til fyrri umræðu í sveitarstjórn.

Sveitarstjóri, Ásta B. Pálmadóttir kynnti ársreikning sveitarfélagsins og stofnana þess og lagði fram greinargerð sína.

Til máls tók Sigurjón Þórðarson sem lagði fram svohljóðandi bókun:

Niðurstaða reikninga sýna að áætlangerð meirihluta Vg og Framsóknarflokks hefur því miður brugðist en niðurstaðan er talsvert lakari en fjárhagsáætlanir gerðu ráð fyrir. Það sem af er þessu ári hefur verðbólgan verið vaxandi og þar af leiðandi hækkað verðbóta og vaxtakostnað sveitarfélagsins eins og sjá má í rekstraryfirliti . Reikningarnir bera það með sér að það eina rétta í stöðunni sé staldra við og endurmeta núverandi rekstraráætlanir en forsendur þeirra eru augljóslega brostnar. Það er í raun galið að ætla að fara í stórframkvæmdir fyrr en að jafnvægi hefur náðst í rekstrinum en óbreytt stefna kemur sveitarfélaginu í mikla skuldakreppu.

Næst tók til máls Jón Magnússon og óskar bókað:

Ársreikningur Sveitarfélagsins Skagafjarðar sýnir glöggt að varnarorð Sjálfstæðismanna allt frá upphafi yfirstandandi kjörtímabils hafa átt við rök að styðjast. Rekstrarniðurstaðan árið 2011 er ein sú dapurlegasta sem fram hefur komið um árabil. Meirihluta Framsóknarmanna og VG hefur algerlega mistekist að ná tökum á rekstri sveitarfélagsins. Íbúar Skagafjarðar munu þurfa að greiða fyrir óráðsíu þessa meirihluta á komandi árum með skertri þjónustu og vaxandi skuldum. Fyrirætlanir um aðhald í rekstri eru aðeins orðin tóm og heldur léttvæg í þurra sjóði sveitarfélagsins. Sjálfstæðismenn lýsa enn á ný miklum efasemdum um getu núverandi meirihluta til að ná tökum á rekstri Sveitarfélagsins Skagafjarðar.

Ásta B. Pálmadóttir tók til máls.

Forseti bar upp ársreikninga sveitarfélagsins og stofnana þess vegna ársins 2011, í einu lagi og var samþykkt með níu atkvæðum að vísa ársreikningnum til síðari umræðu í sveitarstjórn.

Sveitarstjórn Sveitarfélagins Skagafjarðar - 290. fundur - 23.05.2012

Ársreikningur Sveitarfélagsins Skagafjarðar fyrir árið 2011 lagður fram til síðari umræðu.

Sveitarstjóri kynnti niðurstöður ársreikningsins.

Helstu niðurstöðutölur A og B hluta eru eftirfarandi:

Rekstrartekjur 3.298.356 þús. kr.

Rekstrargjöld 3.213.680 þús. kr.

Fjármagnsgjöld 359.017 þús. kr.

Tekjuskattur 4.009 þús. kr.

Rekstrarniðurstaða neikvæð 270.332 þús. kr.

Fastafjármunir 5.405.913 þús. kr.

Veltufjármunir 458.448 þús. kr.

Eignir samtals 5.864.361 þús. kr.

Eigið fé 1.012.663 þús. kr.

Skuldbindingar 774.840 þús. kr.

Langtímaskuldir 3.293.151 þús. kr.

Skammtímaskuldir 783.708 þús. kr.

Eigið fé og skuldir samtals 5.864.361 þús. kr.

Jón Magnússon tók til máls, þá Guðrún Helgadóttir sem lagði fram eftirfarandi bókun.

Samfylkingin ítrekar skyldur sveitarstjórnar til að sýna ábyrgð í rekstri Sveitarfélagsins Skagafjarðar. Meirihluti Framsóknar og Vinstri grænna hefur ekki tekist á við fjárhagsleg vandamál sem steðja að sveitarfélaginu okkar, einsog ársreikningurinn fyrir árið 2011 ber glöggt vitni. Þvert á móti stefnir í enn meira óefni.Við þessar aðstæður verður sveitarstjórn að halda fast um taumana í rekstri sveitarfélagsins og sýna fyllstu aðgát.

Sigurjón Þórðarson kvaddi sér hljóðs og lagði fram eftirfarandi bókun.

Niðurstaða reikninga sýnir að áætlangerð meirihluta Vg og Framsóknarflokks hefur því miður brugðist en niðurstaðan er talsvert lakari en fjárhagsáætlanir gerðu ráð fyrir . Reikningarnir bera það með sér að það eina rétta í stöðunni sé staldra við og endurmeta núverandi rekstraráætlanir en forsendur þeirra eru augljóslega brostnar. Áframhaldandi rekstur sveitarfélagsins með óbreyttu sniði samhliða stórframkvæmdum er ávísun á stórfelldari halla á árinu 2012. Það er í raun galið að ætla að fara í stórframkvæmdir fyrr en að jafnvægi hefur náðst í rekstrinum en óbreytt stefna kemur sveitarfélaginu í mikla skuldakreppu.

Jón Magnússon tók til máls og lagði fram eftirfarandi bókun.

Jón Magnússon og Sigríður Svavarsdóttir óska bókað:

Ársreikningur Sveitarfélagsins Skagafjarðar fyrir árið 2011 er vitnisburður um getuleysi meirihluta Vg og Framsóknarflokks að ná tökum á rekstri sveitarfélagsins. Framsóknarflokkurinn hefur verið ráðandi afl í sveitarstjórn Skagafjarðar síðastliðin sex ár. Uppsafnað tap á rekstri sveitarfélagsins árin 2008 - 2011 nemur rúmum 1.200 milljónum króna á núvirði. Hallarekstrinum hefur verið mætt með nýjum lántökum og vandanum þannig velt yfir á skattgreiðendur framtíðar. Framsóknarmenn í Skagafirði hafa sýnt undanfarin ár að þeir ná ekki fram hagræðingu í rekstri sveitarfélagsins.

Sú staðreynd hlýtur að vekja ugg og vonbrigði meðal íbúa sveitarfélagsins sem á komandi árum munu, í boði framsóknarmanna, greiða hærri skatta og gjöld samfara minnkandi þjónustu. Varnarorð sjálfstæðismanna hafa verið hundsuð og afleiðingarnar blasa við. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins í Sveitarstjórn Skagafjarðar lýsa fullri ábyrgð á hallatölum ársreiknings 2011, á hendur ráðþrota meirihluta Vg og Framsóknarflokks.

Stefán Vagn Stefánsson kvaddi sér hljóðs og lagði fram eftirfarandi bókun.

Ljóst er að niðurstaða ársreiknings 2011 er óviðunandi og mikilvægasta verkefnið framundan er að snúa við taprekstri sveitarfélagsins á eins skömmum tíma og kostur er. Nú þegar hefur verið gripið til ýmissa aðgerða og í gangi er heildstæð rekstrarúttekt á öllum einingum sveitarfélagsins. Niðurstaða þeirrar vinnu verður kynnt von bráðar og er mikilvægt að samstaða náist um frekari hagræðingaaðgerðir í kjölfarið.

Þegar samanburður áætlunar og rauntalna í rekstri fyrir árið 2011 er skoðaður ber að hafa í huga að rekstrartap umfram það sem áætlað var fyrir árið 2011 er 107 milljónir sem helgast að stórum hluta af því að lífeyrisskuldbinding var 63 milljónir umfram áætlun og verðbætur 34 milljónir umfram áætlun eða samtals 97 milljónir sem er 91% af gjöldum umfram áætlun. Við áætlunargerð þessa tvegggja þátta er stuðst við utan að komandi ráðgjöf t.d. er lífeyrisskuldbinding reiknuð af tryggingarsérfræðingi og verðbólguspá er tekin frá Seðlabanka Íslands.

Sigurjón Þórðarson tók til máls.

Ársreikningur Sveitarfélagsins Skagafjarðar og stofnana þess fyrir árið 2011 borin undir atkvæði og samþykktur samhljóða.