Fara í efni

Varðandi sjúkraflug

Málsnúmer 1411020

Vakta málsnúmer

Byggðarráð Svf. Skagafjarðar - 677. fundur - 06.11.2014

Lagður fram tölvupóstur, dagsettur 3. nóvember 2014 frá Þorkeli Ásgeiri Jóhannssyni, flugstjóra hjá Mýflugi. Tilefni skrifanna er bílslys 23. október s.l. í grennd við Varmahlíð. Slösuðust þrír í árekstrinum og þurfti að flytja einn með sjúkraflugi til Reykjavíkur til aðhlynningar. Alexandersflugvöllur við Sauðárkrók var ekki kostur í stöðunni, þar sem ryðja hefði þurft flugbrautina og hálkuverja og aukinheldur var bifreið sú sem notuð er til þessa verks rafmagnslaus þegar til átti að taka. Einnig segir í bréfinu "Allt leiddi þetta til þess að fagaðilar á slysstað afréðu að senda þennan sjúkling með bíl til sjúkrahússins á Akureyri til fyrstu aðhlynningar, þrátt fyrir snjóalög og ísingu á þjóðveginum um Öxnadalsheiði. Ljóst er að fyrirbyggjandi eftirlit með ástandi flugbrautarinnar og hreinsun eftir þörfum ásamt með viðhaldi tækjabúnaðar, hefði í þessu tilfelli flýtt verulega fyrir nauðsynlegri læknisaðstoð fyrir hinn alvarlega slasaða sjúkling. Hér með er þeirri ábendingu komið á framfæri til sveitarstjórnar Skagafjarðar að meðan það ástand varir að ekki sé um fyrirbyggjandi viðhald og hreinsun flugbrautar héraðsins að ræða, kann sú staða að koma upp að fleiri bráðatilfelli vegna slysa eða veikinda verði fyrir alvarlegum viðbragðstöfum vegna þessa, hugsanlega með hörmulegum afleiðingum."

Byggðarráð samþykkir að fela sveitarstjóra að afla frekari gagna. Ljóst er að núverandi ástand er með öllu ólíðandi fyrir íbúa Skagafjarðar og nærliggjandi byggða.

Sveitarstjórn Sveitarfélagins Skagafjarðar - 321. fundur - 26.11.2014

Sigurjón Þórðarson, Viggó Jónsson, Hildur Þóra Magnúsdóttir og Stefán Vagn Stefánsson, tóku til máls.
Afgreiðsla 677. fundar byggðaráðs staðfest á 321. fundi sveitarstjórnar 26. nóvember 2014 með níu atkvæðum.