Fara í efni

Í skugga valdsins - samþykkt stjórnar sambandsins

Málsnúmer 1712031

Vakta málsnúmer

Byggðarráð Svf. Skagafjarðar - 805. fundur - 07.12.2017

Lögð fram til kynningar bókun frá stjórnarfundi Sambands íslenskra sveitarfélaga þann 24.nóvember s.l. þar sem formaður stjórnar sambandsins fjallaði um þá umræðu sem hefur verið í samfélaginu í kjölfar átaksins "Í skugga valdsins" og mikilvægi þess að stjórn sambandsins láti sig málið varða.
Eftirfarandi var bókað og samþykkt:
Stjórn Sambands íslenskra sveitarfélaga lýsir yfir ánægju með það frumkvæði sem konur í stjórnmálum á Íslandi hafa tekið undir merkjum "Í skugga valdsins" og hvetur sveitarstjórnir landsins til að taka þátt í umræðu um kynferðisofbeldi og áreiti og hvernig koma megi í veg fyrir slíkt athæfi á vettvangi stjórnmála og á vinnustöðum sveitarfélaga. Nauðsynlegt er að öll sveitarfélög setji sér formlega stefnu og viðbragðsáætlun vegna eineltis, ofbeldis og kynferðislegrar og kynbundinnar áreitni enda er slík hegðun ólíðandi með öllu. Þau sveitarfélög sem ekki hafa gerð slíkt eru hvött til að nýta sér sem fyrirmynd stefnu og viðbragðsáætlun sambandsins í þessu efni sem aðgengileg eru á heimasíðu þess.
Stjórnin samþykkir einnig að málefnið verði tekið til sérstakrar umfjöllunar á landsþingi sambandsins á næsta ári og verði einnig hluti af því námsefni sem kennt verður á námskeiðum fyrir sveitarstjórnarmenn í kjölfar næstu sveitarstjórnarkosninga.
Byggðarráð tekur undir bókun stjórnar sambandsins og bendir á að sveitarstjórn Sveitarfélagsins Skagafjarðar hefur nýlega samþykkt stefnu og viðbragðsáætlun gegn einelti, ofbeldi, kynferðislegri og kynbundinni áreitni.