Fara í efni

Umsagnarbeiðni frumvarp til laga um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga

Málsnúmer 1805217

Vakta málsnúmer

Byggðarráð Svf. Skagafjarðar - 829. fundur - 07.06.2018

Lagður fram tölvupóstur dagsettur 30. maí 2018 frá nefndasviði Alþingis þar sem óskað er umsagnar um frumvarp til laga um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga, 622. mál. Frestur gefinn til 7. júní 2018.
Byggðarráð samþykkir eftirfarandi umsögn:
Byggðarráð Sveitarfélagsins Skagafjarðar sendir hér inn umsögn um frumvarp til nýrra laga um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga, mál nr. 622, sem er til umfjöllunar í allsherjar- og menntamálanefnd Alþingis.
Umrætt frumvarp felur í sér innleiðingu á nýrri reglugerð Evrópuþingsins og hefur að geyma ýmis ákvæði sem heimila aðildarríkjum að setja sérreglur í sinni innleiðingu.
Helstu ábendingar Byggðarráðs Sveitarfélagsins Skagafjarðar lúta að eftirfarandi:
1. Sökum þess hve frumvarpið hefur miklar breytingar í för með sér fyrir stjórnsýslu sveitarfélaga í landinu og sökum þess hve skammur fyrirvari hefur verið af hálfu stjórnvalda í framlagningu frumvarpsins, telur Byggðarráð Sveitarfélagsins Skagafjarðar afar mikilvægt að sveitarfélögin í landinu fái raunhæfan tíma til innleiðingar á nýju regluverki og þar með ákveðinn aðlögunarfrest. Jafnframt væri æskilegt að Persónuvernd myndi ráðast í átak í fræðslu og leiðbeiningum til handa sveitarfélögum, fyrirtækjum og stofnunum til að tryggja rétta innleiðingu laganna.
2. Byggðarráð Sveitarfélagsins Skagafjarðar tekur undir sjónarmið Sambands íslenskra sveitarfélaga um sektarákvæði frumvarpsins sem sett voru fram í umsögn við frumvarpsdrögin 19. mars sl.
"Sambandið telur mikilvægt að ekki sé gengið lengra við innleiðingu reglugerðarinnar en nauðsyn ber til. Bendir sambandið sérstaklega á sektargreiðslur í þessu sambandi. Það að innleiða mögulegar sektargreiðslur á hendur sveitarfélögum fyrir allt að 2,4 milljörðum króna getur haft veruleg og úrslitaáhrif á rekstur og afkomu sveitarfélaga. Telur sambandið með öllu óskiljanlegt af hverju gengið er jafn langt við innleiðingu sérstaklega í ljósi þess að reglugerðin leggur það alfarið í hendur ríkja hvort eigi yfir höfuð að innleiða sektir gagnvart opinberum aðilum og þá að hve miklu leyti. Sambandið bendir á að nokkur ríki, eins og t.d. Austurríki hafa ákveðið að sektir verði ekki felldar á opinbera aðila meðan lönd eins og Svíþjóð ætla að fella mun lægri sektir á opinbera aðila en það hámark sem fram kemur í reglugerðinni. Mikilvægt er að hafa í huga að rekstur sveitarfélaga og annarra opinberra aðila sem sinna lögboðinni þjónustu er allt annars eðlis heldur en rekstur á markaðsforsendum. Ljóst er að greiðsla sekta verður ekki sótt annars staðar en af skatttekjum sveitarfélagsins sem þýðir almennt minna fjármagn til að sinna lögbundinni þjónustu eins og rekstri grunnskóla og veitingu félagsþjónustu eða hærri innheimtu skatta og gjalda. Telur sambandið mun eðlilegra að áfram verði um að ræða heimildir Persónuverndar til að krefja opinbera aðila um breytingu á framkvæmd og ferlum og aukið samráðsferli á milli ábyrgðaraðila og Persónuverndar enda em slík úrræði til þess fallin að ná markmiðum laganna. Sé það mat löggjafans að sektir séu nauðsynlegar þá þurfi það hið minnsta að vera mun lægri en í tilvikum aðila sem reka þjónustu á markaðsforsendum. Telur sambandið afar mikilvægt að þessi heimild sé skoðuð vandlega og afleiðingar hennar metnar enda stjórnvaldssektir þess eðlis að eingöngu þarf að sýna fram á brot á reglum en ekki þarf að sýna fram á ásetning eða gáleysi, né að tjón hafi orðið."
Byggðarráð Sveitarfélagsins Skagafjarðar bendir jafnframt á að engar heimildir til dagsekta er að finna í nýjum persónuverndarlögum í Danmörku og Noregi, ólíkt 45. grein frumvarps til nýrra persónuverndarlaga á Íslandi. Eðlilegt er að líta til fordæmis þessara nágrannaþjóða okkar í þessum efnum.
3. Gildistaka nýrra persónuverndarlaga hefur mikil og víðtæk áhrif og ljóst að samhliða þarf að endurskoða fjölmörg ákvæði annarra laga til að tryggja skýrleika lagaheimilda. Má þar til að mynda nefna samræmingu á persónuverndarlögum og barnaverndarlögum til að tryggja að ný persónuverndarlög verði ekki vinnslu barnaverndarmála til trafala. Tekur Byggðarráð Sveitarfélagsins Skagafjarðar í þessum efnum undir umsögn Sambands íslenskra sveitarfélaga frá 19. mars sl.
"Eins telur sambandið nauðsynlegt að skoða hvort setja þurfi sérlög eða heimildir á sviðum þar sem unnið er með mikið af viðkvæmum persónuupplýsingum eins og í vinnurétti. Þá þurfi að skoða vandlega hvort gildandi lagaheimildir til vinnslu persónuupplýsinga séu nægjanlegar fyrir starfsemi sveitarfélaga eins og í grunnskólum, leikskólum og í félagsþjónustu til að tryggja að lögin geti komið til framkvæmda. Enda ljóst að sveitarfélög verða mjög gagnrýnin við að afhenda gögn utan þeirra nema skýr lagaheimild sé fyrir hendi af ótta við boðuð viðurlög."