Fara í efni

Heilsdagsskóli (frístund) í Varmahlíð

Málsnúmer 1901184

Vakta málsnúmer

Fræðslunefnd Svf. Skagafjarðar - 138. fundur - 21.01.2019

Þann 18. september s.l. barst formanni fræðslunefndar og fræðslustjóra ábending um vöntun á vistun eftir skóla í Varmahlíð frá foreldri. Síðan hefur málið verið í skoðun innan fræðsluþjónustunnar, starfsmenn hafa aflað gagna, miðlað upplýsingum og skoðað ýmsar sviðsmyndir. Í kjölfar ábendingarinnar átti formaður fræðslunefndar samtal við málsaðila sem og formann foreldrafélags Leikskólans Birkilundar og benti þeim á að senda formlegt erindi til fræðslunefndar. Það erindi barst svo frá stjórn foreldrafélagsins 10. janúar sl. til formanns fræðslunefndar og sviðsstjóra fjölskyldusviðs. Undir málinu liggur minnisblað sviðsstjóra fjölskyldusviðs. Nefndin tekur vel í erindið og mun skoða það áfram, bæði með tilliti til húsnæðis og starfsmannahalds. Á næstunni verður gerð könnun meðal foreldra og jafnframt verður málið tekið inn á fund Samstarfsnefndar með Akrahreppi, sem er eignaraðili skólans ásamt Sveitarfélaginu Skagafirði.
Jóhanna Ey Harðardóttir fulltrúi Byggðalistans óskar eftirfarandi bókað:
Gaman hefði verið að vita af því að þessi vinna væri í gangi og fagna ég henni. Ég tel hinsvegar skilvirkari vinnubrögð innan nefndarinnar að fjallað sé um tiltekin mál áður en vinna er hafin innan sviðsins.
Bjarni Jónsson fulltrúi VG og óháðra óskar eftirfarandi bókað:
Sveitarstjórn Skagafjarðar samþykkti í liðinni viku tillögu Byggðalista um að fela fræðslunefnd og starfsmönnum fjölskyldusviðs að meta þörfina fyrir starfrækslu frístundaheimils við Varmahlíðarskóla, sem og að meta kostnaðinn við rekstur þess á ársgrundvelli. Málið hefur aldrei verið rætt í nefndinni eða fulltrúum minnihlutans kynnt slík vinna fyrr en nú. Æskilegt hefði verið að málið hefði komið fyrr fyrir nefndina til umfjöllunar áður en vinna var sett af stað og er þar tekið undir bókun fulltrúa byggðalista. Málið er hinsvegar gott og mikilvægt að sveitarstjórn hafi lýst stuðningi við úttekt á þörf fyrir frístundaheimili við Varmahlíðarskóla.
Erindi samþykkt og frekari gögn verða lögð fyrir næsta fund.
Hanna Dóra Björnsdóttir sat fundinn undir lið 4-8.

Fræðslunefnd Svf. Skagafjarðar - 139. fundur - 28.02.2019

Lögð fram greinargerð um möguleika til að koma á heilsdagsvistun í Varmahlíðarskóla fyrir börn í 1.- 4. bekk. Jafnframt var niðurstaða könnunar, sem gerð var meðal foreldra leikskólabarna og barna í 1.-3. bekk grunnskólans þar sem spurt var um þörf og hugsanlega nýtingu á slíku úrræði, kynnt. Niðurstaða könnunarinnar bendir til að þörf á heilsdagsvistun sé talsverð og að þörfin muni einungis aukast í ljósi breyttra atvinnuhátta foreldra í dreifbýli. Miðað við greiningu sem gerð var má ætla að stofnkostnaður við úrræðið verði allt að 4 milljónir króna sem felst í breytingu á húsnæðinu og kaupum á viðeigandi búnaði fyrir úrræðið. Rekstrarkostnaður tekur mið af starfsmannahaldi, daglegri opnun, efniskaupum o.fl. Á móti þeim kostnaði kæmu tekjur vegna vistunar. Ekki er gott að áætla þann kostnað að svo stöddu. Fræðslunefnd ítrekar vilja sinn til að koma á þessari þjónustu og skýtur málinu til umfjöllunar í Samstarfsnefnd Sveitarfélagsins Skagafjarðar og Akrahrepps.

Samstarfsnefnd með Akrahreppi - 38. fundur - 21.03.2019

Farið yfir hugmyndir að rekstri heilsdagsskóla í Varmahlíð. Samstarfsnefnd tekur vel í hugmyndina og felur sviðsstjóra fjölskyldusviðs að vinna hana áfram og afla frekari gagna.

Fræðslunefnd Svf. Skagafjarðar - 141. fundur - 26.04.2019

Málið var áður á dagskrá þann 28. febrúar s.l. Fyrir liggur minnisblað með upplýsingum um kostnað og nýtingu að því marki sem hægt er að leggja mat á að svo stöddu. Minnisblað þetta hefur verið sent hreppsnefnd Akrahrepps en ekki hefur verið haldinn fundur í Samstarfsnefnd með Akrahreppi til að taka endanlega ákvörðun um málið. Fræðslunefnd í umboði sveitarstjórnar Sveitarfélagsins Skagafjarðar getur ekki tekið einhliða ákvörðun í málinu og hvetur til þess að samstarfsnefndin komi saman hið fyrsta svo hægt sé að svara til um hvort af þessu verður.

Fræðslunefnd Svf. Skagafjarðar - 142. fundur - 23.05.2019

Fyrir liggur tölvuskeyti frá oddvita Akrahrepps með staðfestingu á því að hreppurinn mun taka þátt í að koma á fót og reka heilsdagsvistun við Varmahlíðarskóla á grundvelli þeirra minnisblaða og kostnaðaráætlana sem kynnt hafa verið. Fræðslunefnd fagnar niðurstöðu málsins og felur sviðsstjóra að koma málinu í framkvæmd. Fræðslunefnd vísar málinu áfram til byggðarráðs.

Byggðarráð Svf. Skagafjarðar - 868. fundur - 29.05.2019

Erindinu vísað til byggðarráðs frá 142. fundi fræðslunefndar þann 23. maí 2019. Svohljóðandi bókun var gerð: "Fyrir liggur tölvuskeyti frá oddvita Akrahrepps með staðfestingu á því að hreppurinn mun taka þátt í að koma á fót og reka heilsdagsvistun við Varmahlíðarskóla á grundvelli þeirra minnisblaða og kostnaðaráætlana sem kynnt hafa verið. Fræðslunefnd fagnar niðurstöðu málsins og felur sviðsstjóra að koma málinu í framkvæmd. Fræðslunefnd vísar málinu áfram til byggðarráðs."
Byggðarráð samþykkir að fela sveitarstjóra að leggja fram viðauka fyrir breytingum á húsnæði Varmahlíðarskóla auk annars rekstrarkostnaðar, á næsta fundi byggðarráðs.

Samstarfsnefnd með Akrahreppi - 39. fundur - 31.05.2019

Samstarfnefnd samþykkir að koma á fót og reka heilsdagsvistun við Varmahlíðarskóla á grundvelli þeirra minnisblaða og kostnaðaráætlana sem kynnt hafa verið.