Fara í efni

Hvatapeningar til barna yngri en 6 ára

Málsnúmer 1903218

Vakta málsnúmer

Félags- og tómstundanefnd Svf. Skagafjarðar - 265. fundur - 29.04.2019

Erindi barst frá foreldrafélgi Ársala þar sem óskað er eftir því að nemendur yngri en 6 ára njóti einnig hvatapeninga. Lagt er fram minnisblað frístundastjóra um íþrótta- og tómstundaiðkun barna yngri en 6 ára. Nefndin frestar málinu og mun gefa sér tíma til að skoða málið frekar. Nefndin ítrekar vilja sinn til að öll börn hafi aðgang að uppbyggilegu frístundastarfi án mikils tilkostnaðar foreldra.


Félags- og tómstundanefnd Svf. Skagafjarðar - 267. fundur - 09.07.2019

Málið áður á dagskrá félags- og tómstundanefndar þann 29. apríl s.l. Þá var tekin til afgreiðslu tillaga foreldrafélags Ársala þar sem óskað var eftir því að nemendur yngri en 6 ára nytu einnig hvatapeninga. Nefndin bókaði þá að hún myndi gefa sér tíma til að skoða málið frekar. Unnið hefur verið að gagnaöflun og útreikningi kostnaðar.
Fulltrúar VG og Óháðra ásamt Byggðalista óska eftirfarandi bókað. ,, Mikið fagnaðarefni er að í Sveitarfélaginu Skagafirði er boðið upp á fjölbreytt íþrótta og tómstundastarf fyrir börn á leikskólaaldri og því mikilvægt að jöfnuður gildi í úthlutun hvatapeninga. Þeir leggja til að núverandi reglur um aldursmörk verði endurskoðaðar og lýsa vilja sínum til þess að öll börn á aldrinum 0-18 ára njóti hvatapeninga.“
Fulltrúar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks lýsa einnig yfir vilja sínum til að endurskoða aldursmörk og vinna áfram með þróun hvatakerfisins með það að markmiði að breikka þann aldurshóp sem ættu rétt á hvatapeningum.
Nefndin samþykkir að skoðaðar verði mismunandi sviðsmyndir með tilliti til samhengis aldurs og hvatapeninga. Stefnt er að því að leggja fram minnisblað þar að lútandi á næsta fundi.
Við gerð síðustu fjárhagsáætlunar voru hvatapeningar til barna 6-18 ára hækkaðir úr 8.000 upp í 25.000 krónur. Samhliða var tekið í notkun nýtt skráningarkerfi fyrir íþrótta- og tómstundastarf í sveitarfélaginu sem enn er verið að aðlaga að þörfum notenda. Ljóst þykir einnig að endurskoða þarf reglur um rétt til hvatapeninga, þar sem m.a. er skilgreint betur hvaða kröfur eru gerðar til leiðbeinenda í íþrótta- og tómstundastarfi, lengd námskeiða o.fl. sem forsendu réttar til hvatapeninga.
Nefndin samþykkir að vinna málið áfram með það að markmiði að leggja fram heildstæða tillögu um nýjar reglur og áætlaða fjármögnun þeirra við gerð fjárhagsáætlunar ársins 2020.

Félags- og tómstundanefnd Svf. Skagafjarðar - 268. fundur - 26.08.2019

Á síðasta fundi nefndarinnar þann 9. júlí s.l. var óskað eftir því að nefndin fengi í hendur ítarlegt minnisblað um íþrótta- og tómstundaiðkun barna yngri en 6 ára, sem nú liggur fyrir fundinum. Þar kemur m.a. fram að gera þyrfti ráð fyrir auknum fjárheimildum sem nemur allt að 2 milljónum króna sé miðað við iðkendafjölda þessa aldurshóps s.l. vetur.
Fulltrúar VG og Óháðra ásamt Byggðalista fagna umræðum um þetta mál og ítreka bókun sína frá síðasta fundi þann 9. júlí þar sem lögð var áhersla á að öll börn 0-18 ára nytu hvatapeninga. Nefndin samþykkir að vísa erindinu til umfjöllunar og afgreiðslu í tengslum við gerð fjárhagsáætlunar fyrir árið 2020.
Þorvaldur Gröndal vék af fundi eftir lið 4 á dagskrá.

Félags- og tómstundanefnd Svf. Skagafjarðar - 271. fundur - 05.11.2019

Fulltrúar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks í félags- og tómstundanefnd, Guðný Axelsdóttir og Atli Már Traustason, leggja til að aldursmörk vegna úthlutunar Hvatapeninga verði lækkuð um eitt ár og nái til 5 ára barna. Þar með er aukin samfella og samstarf milli skólastiga eins og stefnt er að í fjölskyldustefnu Sveitarfélagsins Skagafjarðar.
Við gerð fjárhagsáætlunar 2019 var stigið stórt skref til að koma enn betur til móts við barnafjölskyldur í Sveitarfélaginu Skagafirði en þá voru Hvatapeningar hækkaðir úr 8.000 krónum í 25.000 krónur. Jafnframt var styrkur til íþróttafélaganna aukinn með það að markmiði að æfingagjöld hækkuðu ekki úr hófi fram. Þá hafa reglur um Hvatapeninga verið rýmkaðar á undanförnum árum og skilyrði um tiltekinn fjölda íþrótta- eða tómstundagreina afnumin. Með því að lækka aldursviðmiðið um eitt ár nú er komið enn betur til móts við barnafjölskyldur. Í samanburði við önnur sveitarfélög er mikilvægt að ítreka að góð sátt ríkir um að gjöldum fyrir íþróttaiðkun á vegum íþróttafélaga og tómstundanám á vegum sveitarfélagsins er stillt í hóf í anda fjölskyldustefnu Sveitarfélagsins Skagafjarðar.
Steinunn Rósa Guðmundsdóttir fulltrúi VG og óháðra og Anna Lilja Guðmundsdóttir fulltrúi Byggðalista óska eftirfarandi bókað:
Þann 9. júlí sl. lögðu VG og óháð ásamt Byggðalista fram tillögu í félags- og tómstundanefnd um að núverandi aldurstakmark úthlutunar Hvatapeninga yrði endurskoðað og fært úr 6-18 í 0-18 ára, því mikilvægt sé að jöfnuður gildi í úthlutun Hvatapeninga. Sú tillaga hefur ekki ennþá hlotið afgreiðslu í nefndinni. Hinsvegar er komin fram ný einhliða tillaga frá fulltrúum meirihluta, sem gengur mun skemur, um að lækka aldurinn einungis um eitt ár. Eru gerðar alvarlegar athugasemdir við þessa málsmeðferð. Skoða átti málin frekar sameiginlega innan nefndarinnar áður en tillaga VG og óháðra ásamt Byggðalista yrði afgreidd, en þess í stað er lögð fram ný tillaga nú frá meirihluta Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks. Teljum við ennfremur að með tillögu meirihluta sé jöfnuður ekki tryggður nægjanlega með því að lækka aldur einungis um eitt ár. Við undirstrikum því áður fram lagða og óafgreidda tillögu okkar og leggjum áherslu á mikilvægi þess að Sveitarfélagið Skagafjörður er heilsueflandi samfélag og ætti því að stuðla að samveru fjölskyldunnar í íþrótta- og tómstundastarfi, óháð aldri og fjárhag.
Formaður nefndarinnar leggur til að greidd verði atkvæði um tillögu VG og óháðra og Byggðalista frá 9. júlí sl. um rétt barna 0- 18 ára til Hvatapeninga. Tillaga formanns samþykkt.
Tillaga um Hvatapeninga 0-18 ára borin upp til afgreiðslu. Tillagan felld með tveimur atkvæðum gegn einu.
Tillaga meirihluta um Hvatapeninga 5-18 ára er borin upp til afgreiðslu. Tillagan samþykkt með tveimur atkvæðum gegn einu.

Byggðarráð Svf. Skagafjarðar - 888. fundur - 13.11.2019

Lögð fram bókun 271. fundar félags- og tómstundanefndar frá 5. nóvember 2019.
Bjarni Jónsson (Vg) og Ólafur Bjarni Haraldsson (ByggðaLista) leggja fram breytingartillögu við samþykkt félags- og tómstundanefndar um að núverandi aldurstakmark úthlutunar Hvatapeninga yrði endurskoðað og fært úr 5-18 í 0-18 ára, því mikilvægt sé að jöfnuður gildi í úthlutun Hvatapeninga.
Breytingartillagan borin undir atkvæði og felld með tveimur atkvæðum Gísla Sigurðssonar (D) og Ingibjörgu Huld Þórðardóttur (B).
Tillaga félags- og tómstundanefndar borin undir atkvæði og samþykkt með tveimur atkvæðum Gísla og Ingibjargar gegn atkvæði Bjarna. Tillögunni vísað til afgreiðslu sveitarstjórnar.
Bjarni Jónsson og Ólafur Bjarni Haraldsson óska bókað:
Undirritaðir telja að með tillögu meirihluta sé jöfnuður ekki tryggður nægjanlega með því að lækka aldur einungis um eitt ár. Við undirstrikum því áður fram lagða tillögu okkar og leggjum áherslu á mikilvægi þess að Sveitarfélagið Skagafjörður er heilsueflandi samfélag og ætti því að stuðla að samveru fjölskyldunnar í íþrótta- og tómstundastarfi, óháð aldri og fjárhag.
Þann 9. júlí sl. lögðu VG og óháð ásamt Byggðalista fram tillögu í félags- og tómstundanefnd um að núverandi aldurstakmark úthlutunar Hvatapeninga yrði endurskoðað og fært úr 6-18 í 0-18 ára, því mikilvægt sé að jöfnuður gildi í úthlutun Hvatapeninga.
Gísli Sigurðsson og Ingibjörg Huld Þórðardóttir óska bókað:
Vísað til bókunar meirihluta félags- og tómstundanefndar og ítrekað að Sveitarfélagið Skagafjörður hefur tekið reglur um Hvatapeninga og upphæðir til gagngerrar endurskoðunar. Fjármunir til verkefnisins hafa verið auknir verulega og jafnframt hefur ítarlegt samtal við UMSS farið fram. Styrkir til íþróttafélaganna hafa einnig verið auknir. Mikilvægt er að halda til haga að góð sátt ríkir um að æfinga- og þátttökugjöldum sé stillt í hóf. Þegar horft er til annarra sveitarfélaga er augljóst að Sveitarfélagið Skagafjörður skipar sér sess meðal þeirra sem best gera við fjölskyldufólk. Á það m.a. við um gjöld fyrir leikskóla, tónlistarskóla, foreldragreiðslur o.fl. Hvað varðar aldursmörk úthlutunar Hvatapeninga sérstaklega, þá voru reglur hjá 31 sveitarfélagi í landinu skoðaðar. Af þeim voru 5 sveitarfélög með aldursmörk frá 0 ára, 3 sveitarfélög voru með aldursmörk frá 4 ára, 6 sveitarfélög með aldursmörk frá 5 ára og 17 sveitarfélög með aldursmörk frá 6 ára aldri. Af þessu má ljóst vera að Sveitarfélagið Skagafjörður gerir vel hvað aldursmörk varðar í samanburði við önnur sveitarfélög. Það er alltaf álitamál hvernig á að forgangsraða þeim fjármunum sem til ráðstöfunar eru á hverjum tíma. Sveitarfélagið Skagafjörður hefur mikinn vilja til að forgangsraða í þágu fjölskyldunnar og telur sig gera það vel. Hvað varðar jöfnuð gagnvart aðstöðu barna til íþrótta- og tómstundaæfinga er áhersla nú lögð á að jafna aðstöðumun barna í dreifbýli og þéttbýli og hafa fjármunir verið auknir til ýmissa verkefna er því tengist. M.a. er nýbúið að koma á þjónustu við börn austan Vatna með því að flétta íþrótta- og tómstundastarf inn í samfelldan skóladag og jafnframt hefur fyrirkomulag frístundastrætó verið breytt og ferðum fjölgað. Með þessu er leitast við að koma sem best til móts við íbúa í dreifbýli sem þéttbýli Skagafjarðar og jafna aðstöðumun þar á milli, samhliða því sem aldursviðmið eru lækkuð.

Sveitarstjórn Sveitarfélagins Skagafjarðar - 391. fundur - 12.12.2019

Vísað frá 888. fundi byggðarráðs 13. nóvember sl. til afgreiðslu sveitarstjórnar.
Lögð fram tillaga um aldursmörk við úthlutun Hvatapeninga verði lækkuð um eitt ár og nái til 5 ára barna.
Þar með er aukin samfella og samstarf milli skólastiga eins og stefnt er að í fjölskyldustefnu Sveitarfélagsins Skagafjarðar. Við gerð fjárhagsáætlunar 2019 var stigið stórt skref til að koma enn betur til móts við barnafjölskyldur í Sveitarfélaginu Skagafirði en þá voru Hvatapeningar hækkaðir úr 8.000 krónum í 25.000 krónur. Jafnframt var styrkur til íþróttafélaganna aukinn með það að markmiði að æfingagjöld hækkuðu ekki úr hófi fram. Þá hafa reglur um Hvatapeninga verið rýmkaðar á undanförnum árum og skilyrði um tiltekinn fjölda íþrótta- eða tómstundagreina afnumin. Með því að lækka aldursviðmiðið um eitt ár nú er komið enn betur til móts við barnafjölskyldur. Í samanburði við önnur sveitarfélög er mikilvægt að ítreka að góð sátt ríkir um að gjöldum fyrir íþróttaiðkun á vegum íþróttafélaga og tómstundanám á vegum sveitarfélagsins er stillt í hóf í anda fjölskyldustefnu Sveitarfélagsins Skagafjarðar.

Jóhanna Ey Harðardóttir kvaddi sér hljóðs og ítrekar bókun.

Fulltrúar minnihluta sitja hjá við atkvæðagreiðsluna og óska bókað: í ljósi þess að núverandi aldurstakmark úthlutunar er ekki endurskoðað og fært í 0-18 ár teljum við að jöfnuður sé ekki tryggður og styðjum því ekki reglur um Hvatapeninga í þessari mynd.

Jóhanna Ey Harðardóttir og Ragnheiður Halldórsdóttir fulltrúar Byggðalistans
Bjarni Jónsson og Álfhildur Leifsdóttir fulltrúar VG og óháðra

Gísli Sigurðsson tók til mál og ítrekar bókun meirihlutans.
Vísað til bókunar meirihluta félags- og tómstundanefndar og ítrekað að Sveitarfélagið Skagafjörður hefur tekið reglur um Hvatapeninga og upphæðir til gagngerrar endurskoðunar. Fjármunir til verkefnisins hafa verið auknir verulega og jafnframt hefur ítarlegt samtal við UMSS farið fram. Styrkir til íþróttafélaganna hafa einnig verið auknir. Mikilvægt er að halda til haga að góð sátt ríkir um að æfinga- og þátttökugjöldum sé stillt í hóf. Þegar horft er til annarra sveitarfélaga er augljóst að Sveitarfélagið Skagafjörður skipar sér sess meðal þeirra sem best gera við fjölskyldufólk. Á það m.a. við um gjöld fyrir leikskóla, tónlistarskóla, foreldragreiðslur o.fl. Hvað varðar aldursmörk úthlutunar Hvatapeninga sérstaklega, þá voru reglur hjá 31 sveitarfélagi í landinu skoðaðar. Af þeim voru 5 sveitarfélög með aldursmörk frá 0 ára, 3 sveitarfélög voru með aldursmörk frá 4 ára, 6 sveitarfélög með aldursmörk frá 5 ára og 17 sveitarfélög með aldursmörk frá 6 ára aldri. Af þessu má ljóst vera að Sveitarfélagið Skagafjörður gerir vel hvað aldursmörk varðar í samanburði við önnur sveitarfélög. Það er alltaf álitamál hvernig á að forgangsraða þeim fjármunum sem til ráðstöfunar eru á hverjum tíma. Sveitarfélagið Skagafjörður hefur mikinn vilja til að forgangsraða í þágu fjölskyldunnar og telur sig gera það vel. Hvað varðar jöfnuð gagnvart aðstöðu barna til íþrótta- og tómstundaæfinga er áhersla nú lögð á að jafna aðstöðumun barna í dreifbýli og þéttbýli og hafa fjármunir verið auknir til ýmissa verkefna er því tengist. M.a. er nýbúið að koma á þjónustu við börn austan Vatna með því að fléttaíþrótta- og tómstundastarf inn í samfelldan skóladag og jafnframt hefur fyrirkomulag frístundastrætó verið breytt og ferðum fjölgað. Með þessu er leitast við að koma sem best til móts við íbúa í dreifbýli sem þéttbýli Skagafjarðar og jafna aðstöðumun þar á milli, samhliða því sem aldursviðmið eru lækkuð.
Gísli Sigurðsson
Stefán Vagn Stefánsson
Regína Valdimarsdóttir
Ingibjörg Huld Þórðardóttir
Laufey Kristín Skúladóttir

Tillagan borin upp til afgreiðslu sveitarstjórnar og samþykkt með 5 atkvæðum.