Fara í efni

Ársreikningur 2018 - Sveitarfélagið Skagafjörður

Málsnúmer 1904081

Vakta málsnúmer

Byggðarráð Svf. Skagafjarðar - 863. fundur - 10.04.2019

Lagður fram ársreikningur Sveitarfélagsins Skagafjarðar og stofnana fyrir árið 2018. Þorsteinn Þorsteinsson lögg. endurskoðandi fór yfir og kynnti ársreikninginn fyrir fundarmönnum. Undir þessum dagskrárlið sátu Una A. Sigurðardóttir starfsmaður KPMG, Ásta Ólöf Jónsdóttir aðalbókari og sveitarstjórnarfulltrúarnir Jóhanna Ey Harðardóttir og Laufey Kristín Skúladóttir.
Byggðarráð samþykkir að vísa ársreikningnum til fyrri umræðu í sveitarstjórn.

Sveitarstjórn Sveitarfélagins Skagafjarðar - 382. fundur - 17.04.2019

Regína Valdimarsdóttir forseti sveitarstjórnar kynnti ásreikninginginn.

Ársreikningur Sveitarfélagsins Skagafjarðar fyrir árið 2018 er hér lagður fram til fyrri umræðu. Ársreikningurinn samanstendur af upplýsingum um A-hluta sveitarsjóðs og A- og B-hluta samantekinn. Í A-hluta er aðalsjóður auk eignasjóðs og þjónustustöðvar. Í B-hluta eru veitustofnanir, hafnarsjóður, félagslegar íbúðir, Tímatákn ehf. og Eyvindarstaðaheiði ehf.
Rekstrartekjur Sveitarfélagsins Skagafjarðar námu á árinu 5.506 millj. króna af samstæðunni í heild. Þar af voru rekstrartekjur A-hluta 4.686 millj. króna. Rekstrargjöld samstæðunnar að frátöldum afskriftum og fjármagnsliðum voru 4.774 millj. króna, þar af A-hluti 4.259 millj. króna. Rekstrarhagnaður A- og B-hluta fyrir afskriftir og fjármagnsliði er 731 millj. króna, þar af er rekstrarniðurstaða A-hluta jákvæð fyrir afskriftir og fjármagnsliði um 427 millj. króna. Afskriftir eru samtals 209 millj. króna, þar af 114 millj. króna hjá A-hluta. Fjármagnsgjöld umfram fjármunatekjur voru hjá samstæðunni í heild samtals um 293 millj. króna, þ.a. eru 229 millj. króna fjármagnsgjöld umfram fjármunatekjur í A-hluta sveitarsjóðs. Rekstrarhagnaður A- og B-hluta á árinu 2018 er 241 millj. króna og rekstrarafgangur A-hluta er er jákvæður um 91,5 millj. króna.
Eignir Sveitarfélagsins Skagafjarðar A- og B-hluta voru í árslok samtals 9.440 millj. króna, þar af voru eignir A-hluta 7.357 millj. króna. Skuldir og skuldbindingar voru í árslok 2018 samtals 6.818 millj. króna, þar af hjá A-hluta 5.888 millj. króna. Langtímaskuldir námu alls 4.371 millj. króna hjá A- og B-hluta auk 525 millj. króna næsta árs afborgana. Eigið fé nam 2.622 millj. króna hjá samstæðunni í árslok og er eiginfjárhlutfall 27,8%. Lífeyrisskuldbindingar nema 1.150 millj. króna í árslok.
Veltufé frá rekstri A- og B-hluta nam 611 millj. króna, þar af er veltufé frá rekstri A-hluta 351 millj. króna. Handbært fé frá rekstri A- og B-hluta er 21 millj. króna. Fjárfestingahreyfingar samstæðunnar námu á árinu 2018, 760 millj. króna, þar af námu fjárfestingar í varanlegum rekstrarfjármunum 808 millj. króna. Afborganir langtímalána og skuldbreytinga námu 421 millj. króna. Handbært fé nam 192 millj. króna í árslok. Tekin ný langtímalán voru að fjárhæð 1.101 millj. króna, þar af um 600 m.kr. vegna uppgjörs við Brú lífeyrissjóð.
Í 64. gr. sveitarstjórnarlaga er kveðið á um að heildarskuldir og skuldbindingar A- og B-hluta í reikningsskilum skv. 60. gr. megi ekki vera hærri en nemur 150% af reglulegum tekjum. Frá heildarskuldum og skuldbindingum er heimilt að draga frá hluta lífeyrisskuldbindinga sem og tekjur og skuldir veitna og langtímakröfu vegna Brúar lífeyrissjóðs. Hjá Sveitarfélaginu Skagafirði er skuldahlutfall í ársreikningi fyrir árið 2018, 123,8% án þess að dreginn sé frá sá hluti af heildarskuldum sem heimilað er í lögum og reglugerð. Skuldaviðmið er 94,2% þegar búið er að draga frá það sem heimilað er vegna lífeyrisskuldbindinga og veltufé frá rekstri.

Sveitarstjórn Sveitarfélagins Skagafjarðar samþykkir með níu atkvæðum að vísa ársreikningi 2018, til síðari umræðu sveitarstjórnar

Sveitarstjórn Sveitarfélagins Skagafjarðar - 383. fundur - 24.04.2019

Sigfús Ingi Sigfússon, sveitarstjóri tók til máls og kynnti ársreikning Sveitarfélagsins Skagafjarðar og stofnana þess, fyrir árið 2018.

Ársreikningur Sveitarfélagsins Skagafjarðar fyrir árið 2018 er hér lagður fram til seinni umræðu. Ársreikningurinn samanstendur af upplýsingum um A-hluta sveitarsjóðs og A- og B-hluta samantekinn. Í A-hluta er aðalsjóður auk eignasjóðs og þjónustustöðvar. Í B-hluta eru veitustofnanir, hafnarsjóður, félagslegar íbúðir, Tímatákn ehf. og hlutdeild Sveitarfélagsins Skagafjarðar í Eyvindarstaðaheiði ehf.

Rekstrartekjur Sveitarfélagsins Skagafjarðar námu á árinu 5.506 millj. króna af samstæðunni í heild. Þar af voru rekstrartekjur A-hluta 4.686 millj. króna. Rekstrargjöld samstæðunnar að frátöldum afskriftum og fjármagnsliðum voru 4.774 millj. króna, þar af A-hluti 4.259 millj. króna. Rekstrarhagnaður A og B hluta fyrir afskriftir og fjármagnsliði er 731 millj. króna, þar af er rekstrarniðurstaða A-hluta jákvæð fyrir afskriftir og fjármagnsliði um 427 millj. króna. Afskriftir eru samtals 209 millj. króna, þar af 114 millj. króna hjá A-hluta. Fjármagnsgjöld umfram fjármunatekjur voru hjá samstæðunni í heild samtals um 293 millj. króna, þ.a. eru 229 millj. króna fjármagnsgjöld umfram fjármunatekjur í A-hluta sveitarsjóðs. Rekstrarhagnaður A- og B-hluta á árinu 2018 er 241 millj. króna og rekstrarafgangur A hluta er jákvæður um 91,5 millj. króna.
Þann 19. september 2016 var samkomulag gert milli Bandalags háskólamanna, BSRB og Kennarasambands Íslands, annars vegar og fjármála-og efnahagsráðherra og Samband íslenskra sveitarfélaga hins vegar um breytingar á skipan lífeyrismála opinberra starfsmanna. Breytingarnar voru samþykktar á Alþingi með lögum nr.127/2016 en þær fela meðal annars í sér breytingu á réttindaávinnslu lífeyrisréttinda í A-deild LSR og Brúar (Lífeyrissjóðs starfsmanna sveitarfélaga) úr jafnri réttindaávinnslu í aldursten gda auk þess sem lífeyristökualdur er hækkaður úr 65 árum í 67 ár. Við breytingarnar eru réttindi virkra sjóðsfélaga tryggð með sérstökum framlögum til sjóðanna af hálfu launagreiðenda. Samhliða því gerðu fjármála-og efnahagsráðherra og Samband íslenskra sveitarfélaga með sér samning um fjármögnun lífeyrisskuldbindinga A-deilda LSR og Brúar með fjárframlögum til sjóðanna, dags. 19. september 2016. Samkvæmt 8. gr. samningsins var hann gerður meðal annars með þeim fyrirvara að hann skyldi öðlast gildi gagnvart einstökum sveitarfélögum og aðilum þeim tengdum við samþykkt stjórna við komandi aðila á uppgjöri þeirra á skuldbindingum sem myndast í A-deild Brúar.
Í febrúar 2018 samþykkti sveitarstjórn Sveitarfélagsins Skagafjarðar samkomulag, sem barst sveitarfélaginu í byrjun janúar 2018, um uppgjör við Brú og var samkomulagið undirritað í mars 2018. Uppgjörið miðaði við tryggingafræðilega stöðu sjóðsins þann 31. maí 2017. Samkvæmt samkomulagi við lífeyrissjóðinn nemur heildarframlagið 597,9 millj. kr. Á árinu 2017 voru samþykkt bráðabirgðaákvæði við reglugerð nr. 1212/2015 þar sem mælt er fyrir um reikningshaldslega meðferð ofangreinds uppgjörs. Um er að ræða framlag í jafnvægissjóð, lífeyrisaukasjóð og varúðarsjóð.
Skipting þess er eftirfarandi:
- 174,4 millj.kr. framlag í jafnvægissjóð sem ætlað er að koma á fallinni stöðu Brúar í jafnvægi og er framlagið gjaldfært að fullu á árinu 2017.
- 382,3 millj.kr. framlag í lífeyrisaukasjóð til að mæta framtíðar skuldbindingu vegna lífeyrisauka, framlagið er gjaldfært á 30 árum frá 1. júní 2017.
- 41,1 millj.kr. framlag í varúðarsjóð sem ætlað er að styðja við lífeyrisaukasjóð, framlagið er gjaldfært á 20 árum frá 1. júní 2017.
Gjaldfærðar eru 182,4 millj.kr. meðal launa og launatengdra gjalda á árinu 2017 vegna þessa og fjárhæðin færð sem skammtímaskuld í árslok 2017. Greiðsla heildarframlags á sér stað í upphafi árs 2018 .
Eignir Sveitarfélagsins Skagafjarðar A- og B-hluta voru í árslok samtals 9.440 millj. króna, þar af voru eignir A-hluta 7.357 millj. króna. Skuldir og skuldbindingar voru í árslok 2018 samtals 6.818 millj. króna, þar af hjá A-hluta 5.888 millj. króna. Langtímaskuldir námu alls 4.371 millj. króna hjá A- og B-hluta auk 525 millj. króna næsta árs afborgana. Eigið fé nam 2.622 millj. króna hjá samstæðunni í árslok og er eiginfjárhlutfall 27,8%. Lífeyrisskuldbindingar nema 1.150 millj. króna í árslok og hækkuðu á milli ára um 60 millj. króna nettó.

Veltufé frá rekstri A- og B-hluta nam 611 millj. króna, þar af er veltufé frá rekstri A-hluta 351 millj. króna. Handbært fé frá rekstri A- og B-hluta er 21 millj. króna. Fjárfestingahreyfingar samstæðunnar námu á árinu 2018, 760 millj. króna, þar af námu fjárfestingar í varanlegum rekstrarfjármunum 808 millj. króna. Afborganir langtímalána og skuldbreytinga námu 421 millj. króna, handbært fé nam 192 millj. króna í árslok. Tekin ný langtímalán og skuldbreytingar voru að fjárhæð 1.101 millj. króna, þar af 601 millj. króna vegna uppgjörs við Brú lífeyrissjóð.

Í 64. gr. sveitarstjórnarlaga er kveðið á um að heildarskuldir og skuldbindingar A- og B-hluta í reikningsskilum skv. 60. gr. megi ekki vera hærri en nemur 150% af reglulegum tekjum. Hjá Sveitarfélaginu Skagafirði er skuldahlutfall í ársreikningi fyrir árið 2018, 123,8% og skuldaviðmið samkvæmt reglugerð er 94,2% þegar búið er að draga frá það sem heimilað er vegna lífeyrisskuldbindinga og veltufjármuni.

Að lokum þakkaði sveitarstjóri öllu starfsfólki Sveitarfélagsins Skagafjarðar fyrir þann góða árangur sem náðst hefur í rekstri sveitarfélagsins og síðast en ekki síst öllum þeim sem lögðu á sig ómælda vinnu við gerð þessa ársreiknings.
Ólafur Bjarni Haraldsson kvaddi sér hljóðs og lagði fram eftirfarandi bókun:
Tekjur sveitarfélagsins halda áfram að aukast í takt við það sem er að gerast hjá öðrum sveitarfélögum, sem er jákvætt. Það ásamt góðri vinnu starfsmanna sveitarfélagsins við aðhald í rekstri, er að skila sveitarsjóði mjög svo jákvæðri afkomu. Þessi jákvæða afkoma virðist þó ekki duga til þeirra framkvæmda sem farið hefur verið í undanfarið, og heldur sveitarsjóður áfram að bæta við sig skuldum, þó vissulega setji uppgjör við Brú lífeyrissjóð einnig strik í reikninginn. Heildar skuldir og skuldbindingar samstæðunnar voru í árslok um 6.818 milljónir, en voru um 6.084 milljónir í árslok 2017.
Auknar skuldir leiða svo til aukinna fjármagnsgjalda, sem voru um 202 milljónir hjá samstæðunni í heild árið 2017, en eru nú í ársreikningi 2018 um 292 milljónir króna. Það gerir um 44,5% hækkun milli ára. Þessi þróun mun koma verulega niður á rekstri sveitarfélagsins til lengri tíma, haldist hún óbreytt, og éta upp lausafé sem annars nýttist til góðra verka. Þá ber að nefna að enn eru eftir stórar fjárfestingar við leik- og grunnskóla sveitarfélagsins, sem nauðsynlegt er að ráðast í hið fyrsta.
Skuldaviðmið hefur lækkað milli ára, fór úr 102,7 % niður í 94,8% en það er fyrst og fremst út af reglugerðarbreytingum, en útreikningur skuldaviðmiðs miðar við gildandi reglur fyrir ár hvert. Skuldaviðmiðið er því gott og gilt í samanburði við önnur sveitarfélög, en ónothæft í samanburði milli ára, þar sem reglurnar taka sífelldum breytingum. Skuldahlutfallið er hinsvegar betra við samanburð milli ára, en skuldir og skuldbindingar í hlutfalli við reglulegar rekstrartekjur voru í lok árs 2017 um 111,9%, en eru nú í lok árs 2018 um 125,7%.
f.h. Byggðalistans
Ólafur Bjarni Haraldsson
Jóhanna Ey Harðardóttir

Bjarni Jónsson tók til máls og lagði fram eftirfarandi bókun:
Ársreikningur Sveitarfélagsins Skagafjarðar ber það með sér eins og flestra annarra sveitarfélaga á árinu 2018 að góðæri hefur verið í landinu sem hefur skilað sér vel í gegnum hefðbundna tekjustofna sveitarfélaganna. Skagafjörður hefur þar að auki notið verulegra viðbótarframlaga úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga sem ekki var gert ráð fyrir. Þá hefur atvinnustig verið gott og fyrirtæki í héraði notið velgengni sem skilar sér einnig vel í sveitasjóð. Flest sveitarfélög í landinu hafa því átt kost á því að skila verulegum afgangi í ársreikningum 2018, sem mörg hver hafa notað til að greiða niður skuldir.
Sveitarfélagið Skagafjörður fer því miður að þessu leiti aðrar leiðir með því að efna til meiri skuldasöfnunar og skuldbindinga eins og sýndarveruleikasýningar, sem munu hafa áhrif á framkvæmdagetu þess og möguleika til að veita öllum íbúum sveitarfélagsins ódýra og góða þjónustu næstu áratugi.
Framundan eru brýnar framkvæmdir eins og við leikskóla og íþróttasal Hofsósi, stækkun á aðstöðu yngra stigs leikskóla á Sauðárkróki og vegna viðhalds og uppbyggingar skólamannvirkja í Varmahlíð svo fátt eitt sé talið. Því er mikilvægt að gætt sé ráðdeildar og fyrirhyggju í fjárfestingum, skuldbindingum og fjárútlátum sveitarfélagsins og forgangsraðað sé með hagsmuni íbúa að leiðarljósi. Útlit er fyrir tekjusamdrátt eða hægi á tekjuaukningu sveitarfélaga eftir undanfarin góð ár. Sveitarfélagið Skagafjörður er þar engin undantekning.
Sveitarfélagið kemst því ekki hjá því að gæta meiri varúðar og vandaðri forgangsröðunar í þágu íbúa en verið hefur síðustu ár, ef ekki á að bregða til verri vegar með vaxandi skuldasöfnun og skuldbindingum sem lagðar verða á herðar íbúa næstu áratugi.
Bjarni Jónsson og Álfhildur Leifsdóttir, VG og óháð


Gísli Sigurðsson kvaddi sér hljóðs og lagði fram bókun:

Ársreikningur Sveitarfélagsins Skagafjarðar fyrir árið 2018 hefur nú verið kynntur og liggur fyrir sveitarstjórn til samþykktar.

Afar ánægjulegt er að leggja fram ársreikning sem sýnir jákvæða rekstrarniðurstöðu fyrir A- og B-hluta sveitarsjóðs upp á rúmar 240 milljónir króna og að rekstrarniðurstaða A-hluta sveitarsjóðs er sömuleiðis jákvæð upp á rúmar 91 milljónir króna. Rekstrarafgangur fyrir A- og B-hluta sveitarfélagsins fyrir afskriftir og fjármagnsliði er 731 milljónir króna og handbært fé A- og B-hluta var í árslok 192 milljónir króna. Veltufé frá rekstri A- og B-hluta nam 611 milljónum króna, þar af er veltufé frá rekstri A- hluta 351 milljónir króna. Veltufé frá rekstri samstæðunnar er nú 11,1% í hlutfalli við rekstrartekjur og hefur ósjaldan verið betra.

Skuldahlutfall samstæðu A- og B-hluta er 123,8%, án þess að dregið sé frá bókfært verð fyrirframgreiðslu vegna framlaga í lífeyrisaukasjóð og varúðarsjóð Brúar, hluti af lífeyrisskuldbindingum sem og tekjur og skuldir veitna líkt og heimilt er. Í 64. gr. Sveitarstjórnarlaga er kveðið á um að skuldahlutfall megi ekki vera yfir 150 % af reglulegum tekjum, en ef dregið er frá það sem heimilt er samkvæmt reglugerðum, er skuldaviðmið samstæðunnar 94,2% sem er langt undir þeim mörkum sem lögin setja sveitarfélögum, og fer lækkandi. Skuldaviðmið sveitarfélagsins fyrir árið 2017 var 108,4%, árið 2016 114,5% og árið 2015 var skuldaviðmið sveitarfélagsins rúm 130%.
Í sömu lögum er sveitarfélögum gert að vera með rekstur sinn í plús á hverju þriggja ára tímabili og stenst Sveitarfélagið Skagafjörður það viðmið sömuleiðis.
Ekki er hægt að horfa í rekstur ársins 2018 án þess að taka til skoðunar uppgjör við Brú lífeyrissjóð sem ekki lá fyrir þar til í janúar 2018. Skuldaaukning sveitarfélagsins vegna uppgjörsins við Brú nemur rúmum 600 milljónum króna og ber ársreikningurinn þess glögg merki. Miðað hefur verið við í fjárhagsáætlunum síðustu ára að ný lántaka sé ekki umfram það sem greitt er niður af lánum. Á þessu hafa verið undantekningar en miðað hefur verið við að ný lántaka séu á milli 400-500 milljónir á ári hverju sem notað hefur verið til nýframkvæmda og viðhaldsverkefna sveitarfélagsins. Ný lántaka árið 2018 var um 1.100 milljónir og eins og áður sagði uppgjör við Brú rúmar 600 milljónir króna af því. Lántaka vegna fjárfestinga nemur því 500 milljónum árið 2018.
Fjárfestingar voru miklar hjá sveitarfélaginu á síðasta ári og námu fjárfestingarhreyfingar samstæðunnar 760 milljónum króna og fjárfestingar í varanlegum rekstarfjármunum námu 808 milljónum króna.
Mikilvægt er að halda áfram uppbyggingu innviða í samfélaginu í þeirri vegferð að gera samfélagið okkar í Skagafirði enn sterkara sem og að auka samkeppnishæfni þess. Sveitarfélagið Skagafjörður er og á að vera í fremstu röð íslenskra sveitarfélaga.

Rekstur sveitarsjóð er í góðu jafnvægi og batnar frá síðasta ári sem er jákvætt og má sama segja um einstaka málaflokka hjá sveitarfélaginu en rekstur þeirra var heilt yfir á áætlun sem er gleðilegt og ber vott um ábyrga fjármálastjórn og stöðugleika í rekstri.

Fyrir það ber að þakka þeim fjölmörgu starfsmönnum sveitarfélagsins sem þar lögðu hönd á plóg til að svo mætti verða.

Útkoma ársins er ánægjuleg og henni ber að fagna. Mikill árangur hefur náðst á undanförnum árum í rekstri sveitarfélagsins sem og stöðugleiki í rekstri. Stöðugleiki í rekstri er undirstaðan fyrir áframhaldandi uppbyggingu samfélagsins. Það er verkefni okkar, kjörinna fulltrúa og starfsmanna sveitarfélagsins að viðhalda þeim stöðugleika á næstu árum. Er það verkefni allra sveitarstjórnarfulltrúa saman hvar í flokki þeir eru, enda kjörnir til að standa vörð um hagsmuni Sveitarfélagsins Skagafjarðar.
Undir þetta ritar meirihlutinn:
Gísli Sigurðsson
Regína Valdimarsdóttir
Ingibjörg Huld Þórðardóttir
Laufey Skúladóttir
Einar E. Einarsson

Ársreikningur Sveitarfélagsins Skagafjarðar fyrir árið 2018 borinn upp til afgreiðslu og samþykktur með níu atkvæðum.