Fara í efni

Málefni fatlaðs fólks á Norðurlandi vestra frá 1. janúar 2020

Málsnúmer 1906059

Vakta málsnúmer

Byggðarráð Svf. Skagafjarðar - 876. fundur - 21.08.2019

Sveitarfélögin á Norðurlandi vestra gerðu með sér samning til eins árs, með gildistöku 1. janúar 2016, þar sem Akrahreppur, Blönduósbær, Húnavatnshreppur, Skagabyggð, Sveitarfélagið Skagaströnd og Húnaþing vestra sömdu við Sveitarfélagið Skagafjörð um að vera leiðandi sveitarfélag í málefnum fatlaðs fólks á Norðurlandi vestra. Nýr samningur var gerður af sömu aðilum og gilti frá og með 1. janúar 2017. Samningstími er til 31. desember 2019 og er í samningnum kveðið á um að aðildarsveitarfélögin skulu ákveða sameiginlega fyrir 1. nóvember 2019 hvort samningurinn verði endurnýjaður. Þjónusturáð verkefnisins skal skila áliti til aðildarsveitarfélaga um samstarf og jafnframt gera tillögu að samningi sem gildi frá 1. janúar 2020.
Lagður fram tölvupóstur dagsettur 13. ágúst 2019 með bókun 1008. fundar byggðarráðs Húnaþings vestra frá 12. ágúst 2019 þar sem m.a. kemur fram að "Byggðarráð samþykkir, eftir skoðun sl. mánuði, að endurnýja ekki núgildandi samning og felur sveitarstjóra að hefja vinnu við næstu skref við yfirtöku málaflokksins".
Einnig er lagt fram afrit af fundargerð hreppsnefndar Akrahrepps frá 12. júní 2019 þar sem bókað er svo undir 2. dagskrárlið: "Sveitarfélagið Akrahreppur óskar eftir því að endurnýja samninginn".
Byggðarráð Sveitarfélagsins Skagafjarðar telur allar forsendur til þess að Sveitarfélagið Skagafjörður annist þjónustu við fatlað fólk, hvort sem er í samstarfi við önnur sveitarfélög eða eitt og sér. Byggðarráð óskar eftir minnisblaði frá sviðsstjóra fjölskyldusviðs og félagsmálastjóra um faglega stöðu málaflokksins og enn frekari samþættingu við aðra þjónustu sviðsins.

Byggðarráð Svf. Skagafjarðar - 878. fundur - 04.09.2019

Til fundar byggðarráðs komu Herdís Á Sæmundardóttir sviðsstjóri fjölskyldusviðs og Gréta Sjöfn Guðmundsdóttir félagsmálastjóri og kynntu minnisblað um samning um málefni fatlaðs fólks á Norðurlandi vestra.
Byggðarráð frestar afgreiðslu málsins.

Byggðarráð Svf. Skagafjarðar - 879. fundur - 09.09.2019

Samningur um málefni fatlaðs fólks á Norðurlandi vestra gildir til 31. desember 2019 og er í samningnum kveðið á um að aðildarsveitarfélögin skulu ákveða sameiginlega fyrir 1. nóvember 2019 hvort samningurinn verði endurnýjaður. Málið áður á dagskrá 876. og 878. fundar byggðarráðs.
Byggðarráð Sveitarfélagsins Skagafjarðar harmar að 20 ára samstarf sveitarfélaga á Norðurlandi vestra í málefnum fatlaðs fólks sé á enda runnið með brotthvarfi Húnaþings vestra frá núverandi samstarfi frá og með næstu áramótum.
Í ljósi nýrrar stöðu telur byggðarráð farsælast að Sveitarfélagið Skagafjörður sinni málefnum fatlaðs fólks eingöngu innan sinna sveitarfélagamarka þegar gildandi samningur rennur út. Þó er byggðarráð reiðubúið til að gera viðauka við nýgerðan samning við Akrahrepp um að veita þjónustu í málaflokknum til íbúa hreppsins ef vilji þaðan stendur til þess.

Sveitarstjórn Sveitarfélagins Skagafjarðar - 388. fundur - 25.09.2019

Á fundi þjónusturáðs í þjónustu við fatlað fólk á Norðurlandi vestra þann 10. september 2019 lá fyrir að samningur um þjónustu við fatlað fólk á Norðurlandi vestra yrði ekki endurnýjaður þar sem Húnaþing vestra hygðist ekki endurnýja samninginn og lýkur því samstarfinu í núverandi mynd þann 31. desember næstkomandi. Þjónusturáðið leggur áherslu á að þjónustuþegar á svæðinu finni sem minnst fyrir þeirri breytingu sem nýtt fyrirkomulag hefur í för með sér og telur mikilvægt að unnið verði faglega að úrlausn mála þannig að yfirfærslan verði þjónustuþegum farsæl. Þjónusturáðið leggur til við sveitarstjórnir viðkomandi sveitarfélaga að skipaður verði starfshópur með fulltrúum allra sveitarfélaga til að vinna að yfirfærslu verkefna og þjónustu.

Forseti gerir tillögu um að Guðnýju Axelsdóttur verði skipuð í starfshópinn fyrir hönd Sveitarfélagsins Skagafjarðar.
Tillagan borin upp til afgreiðslu og samþykkt með níu atkvæðum.

Bókun sveitarstjórnar: Sveitarfélagið Skagafjörður áréttar að það er sem fyrr reiðubúið til að endurnýja samning við öll sveitarfélög á Norðurlandi vestra um samstarf um þjónustu við fatlað fólk á öllu svæðinu. Samstarf þetta hefur verið í gildi sl. 20 ár og verið farsælt. Ábyrgð sveitarfélaganna í málaflokknum er ríkuleg gagnvart fötluðu fólki á svæðinu sem þarf á þjónustunni að halda.

Byggðarráð Svf. Skagafjarðar - 886. fundur - 31.10.2019

Lagt fram bréf frá Húnaþingi vestra, móttekið 21. október 2019, þar sem tilkynnt er um svohljóðandi bókun 1018. fundar byggðarráðs Húnaþings vestra sama dag.
"1909077 Málefni fatlaðs fólks á Norðurlandi vestra. Á síðustu misserum hefur farið fram undirbúningur innan Húnaþings vestra vegna mögulegrar yfirtöku á málaflokknum um n.k. áramót. Á 1008. fundi byggðarráðs Húnaþings vestra þann 12. ágúst sl. var ákveðið að endurnýja ekki núgildandi samning. Sveitarfélög á Norðurlandi vestra hafa lýst áhuga á að áfram verði samstarf á öllu svæðinu. Í ljósi þessa felur byggðarráð sveitarstjóra að kanna grundvöll fyrir áframhaldandi samstarfi með ákveðnum breytingum frá núgildandi samningi."
Byggðarráð fagnar niðurstöðu byggðarráðs Húnaþings vestra á 1018. fundi ráðsins og ítrekar fyrri vilja byggðarráðs um samstarf allra sveitarfélaga á Norðurlandi vestra um málefni fatlaðs fólks á svæðinu.

Byggðarráð Svf. Skagafjarðar - 891. fundur - 04.12.2019

Málefni fatlaðs fólks á Norðurlandi vestra rædd.