Fara í efni

Samráð; Verkefni nefndar um stofnun þjóðgarðs á miðhálendinu

Málsnúmer 1910117

Vakta málsnúmer

Byggðarráð Svf. Skagafjarðar - 886. fundur - 31.10.2019

Lagður fram tölvupóstur dagsettur 11. október 2019 þar sem umhverfis- og auðlindaráðuneytið kynnir til samráðs mál nr. 253/2019 - Verkefni nefndar um stofnun þjóðgarðs á miðhálendinu. Umsagnarfrestur er til og með 31.10.2019.
Byggðarráð Sveitarfélagsins Skagafjarðar vill árétta fyrri athugasemd þess um málið hvað varðar það að aðeins er óskað eftir umsögnum um þætti sem lúta að skipulagi og mörkum þjóðgarðs á miðhálendinu en ekki um kosti og galla þess yfir höfuð að stofna þjóðgarðinn.
Má í því sambandi geta þess að á miðhálendinu er fjöldi svæða sem eru friðlýst. Velta má fyrir sér hvort ríkið ætti að sinna friðlýstum svæðum betur en nú er gert hvað varðar fjárhagslegan og faglegan grundvöll þeirra áður en ráðist er í stofnun nýs þjóðgarðs á miðhálendinu.
Með stofnun þjóðgarðs á miðhálendinu er verið að færa hluta skipulagsvalds sveitarfélaganna yfir til stjórnunar- og verndaráætlana sem binda hendur sveitarfélaganna hvað varðar uppbyggingu innviða og vernd og nýtingu á umræddum svæðum. Með öðrum orðum er verið að skerða skipulagsvald sveitarfélaganna. Má í tengslum við það nefna að stærstur hluti þess svæðis sem tillagan gerir ráð fyrir að þjóðgarður nái til er afréttareign í þjóðlendu. Í því felast m.a. mikilvægir hagsmunir fyrir atvinnustarfsemi í Sveitarfélaginu Skagafirði og getur kallað á ýmis konar breytingar varðandi umferð, girðingar, nýtingu afréttareignar innan þjóðgarðs og aðra þætti sem tengist valdheimildum sveitarfélagsins.
Tillaga um afmörkun þjóðgarðsins tekur ekki mið af aðalskipulagi sveitarfélaga. Þá er ekki fjallað um hvert skuli vera gildi aðalskipulaga varðandi afmörkun svæðisins. Kort með tillögum að afmörkun þjóðgarðssvæðisins eru ekki nægjanlega skýr svo hægt sé að bera saman tillöguna við aðalskipulag Sveitarfélagsins Skagafjarðar með nákvæmum hætti.
Byggðarráð varpar fram þeirri tillögu til að sætta sjónarmið að hin svokölluðu svæðisráð yrðu aðeins ráðgefandi hvað varðar þætti sem lúta að skipulagsmálum en skipulagsvaldið yrði áfram hjá sveitarfélögunum í landinu.
Mörk þjóðgarðs virðast fyrst og fremst eiga að ráðast af eignarhaldi eða ráðstöfunarrétti ríkisins á landi, þ.e. þjóðlendum, en ekki sjálfstæðu mati á þörf fyrir friðun einstakra landsvæða á faglegum forsendum þar sem tekið er ríkt tillit til fjölmargra hagaðila sem þyrftu að koma að málinu.
Byggðarráð Sveitarfélagsins Skagafjarðar gerir verulega fyrirvara við að afmörkun miðhálendisþjóðgarðs verði innan sveitarfélagsins að svo stöddu og miðað við þær forsendur sem byggt er á í fyrirliggjandi tillögu. Allar tillögur í þeim efnum þurfa að byggjast á hagsmunum og aðkomu heimaaðila á hverju svæði fyrir sig.
Byggðarráð Sveitarfélagsins Skagafjarðar áréttar jafnframt fyrri kröfu sína um að teknar verði saman upplýsingar um stöðu annarra þjóðgarða, rekstrargrundvöll þeirra og hvernig mat heimamanna á hverjum stað fyrir sig er á að til hafi tekist, áður en lengra er haldið áfram með undirbúning þjóðgarðs á miðhálendinu.

Álfhildur Leifsdóttir Vg og óháð áréttar eftirfarandi:
Miðhálendisþjóðgarður sem er í stjórnarsáttmála núverandi ríkisstjórnar stuðlar að náttúrvernd á einstöku svæði sem geymir fágætan gróður og sérstæðar jarðmyndanir. Hann yrði sá stærsti í Evrópu með tilheyrandi aðdráttarafli. Rannsókn sem gerð hefur verið á 12 svæðum hérlendis sýnir að beinn efnahagslegur ávinningur er ótvíræður af friðlýstum svæðum. Fyrir hverja krónu sem ríkið leggur til friðlýstra svæða skila að meðaltali 23 krónur sér til baka.
Þjóðgarðurinn skapar störf bæði í þjónustu og landvörslu sem mikilvægt er tryggja að verði í heimabyggð.
Leggja þarf áherslu á að unnið verði náið með heimamönnum í öllu ferlinu og hagsmuna heimafólks og sérstaklega bænda gætt í hvívetna.