Fara í efni

Samráð; Drög að fimmtán ára samgönguáætlun 2020-2034 og fimm ára aðgerðaáætlun 2020-2024

Málsnúmer 1910140

Vakta málsnúmer

Byggðarráð Svf. Skagafjarðar - 886. fundur - 31.10.2019

Lagður fram tölvupóstur dagsettur 17. október 2019 þar sem samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið kynnir til samráðs mál nr. 257/2019, "Drög að fimmtán ára samgönguáætlun 2020-2034 og fimm ára aðgerðaáætlun 2020-2024". Umsagnarfrestur er til og með 31.10.2019.
Byggðarráð Sveitarfélagsins Skagafjarðar lýsir yfir miklum vonbrigðum með tillögu að fimmtán ára samgönguáætlun 2020-2034 og fimm ára aðgerðaráætlun 2020-2024.
Í áætlununum er gert ráð fyrir tæpum 400 m.kr til samgönguframkvæmda í Sveitarfélaginu Skagafirði, af 632,8 milljörðum króna sem alls er úthlutað til samgöngumála á tímabilinu. Þetta gerir 0,06% af úthlutuðu fjármagni til samgöngumála sem renna til framkvæmda í Skagafirði. Ef miðað væri við hlutfall íbúa Skagafjarðar af heildaríbúafjölda landsins og sama hlutfall rynni til Skagafjarða af úthlutuðu fé til samgöngumála, þá ættu ríflega 7,4 milljarðar króna að renna til framkvæmda í samgöngumálum í Skagafirði.
Sérstök vonbrigði eru að ekki er tekið tillit til umsagnar byggðarráðs við grænbók um stefnu stjórnvalda í málefnum flugrekstrar og flugtengdrar starfsemi á Íslandi. Gerð er alvarleg athugasemd við að ekki sé gert ráð fyrir Sauðárkróksflugvelli sem hluta af flugvöllum í innanlandskerfinu. Um áratugaskeið hefur verið reglubundið áætlunarflug á milli Reykjavíkur og Sauðárkróks og eru væntingar til þess að það hefjist að nýju við innleiðingu „skoskrar leiðar“ í stuðningi við notkun íbúa á landsbyggðinni á innanlandsflugi sem einn þátt nauðsynlegra almenningssamgangna. Ólíðandi er með öllu að Norðurland vestra sé eini landshlutinn utan áhrifasvæðis höfuðborgarinnar sem ekki nýtur flugsamganga við þessa miðstöð stjórnsýslu og þjónustu í landinu. Reglulegt áætlunarflug á milli höfuðborgarinnar Reykjavíkur og Sauðárkróks skiptir mjög miklu máli varðandi samkeppnisstöðu, þjónustu og mannlíf á Norðurlandi vestra. Þá skiptir reglulegt áætlunarflug mjög miklu máli í þjónustu við vaxandi fjölda ferðamanna sem sækja svæðið heim. Nauðsynlegt er að gera breytingar á samgönguáætlun sem gera ráð fyrir Sauðárkróksflugvelli sem hluta af flugvöllum í innanlandskerfi.
Þá er ólíðandi með öllu að ekki séu markaðar fjárveitingar til neinna vegaframkvæmda í Skagafirði í samgönguáætlun. Enn fremur að ekki sé gert ráð fyrir neinum fjármunum til undirbúnings og framkvæmda við jarðgöng á Mið-Norðurlandi. Brýn þörf er fyrir jarðgöngum á milli Fljóta og Siglufjarðar sem leysa myndu af hólmi hættulegan veg um Almenninga, veg sem hvenær sem er getur sigið og hrunið í sjó fram. Sveitarstjórn Sveitarfélagsins Skagafjarðar og bæjarstjórn Akureyrar sendu jafnframt fyrr á þessu ári frá sér áskorun til stjórnvalda um að fjármagna grunnrannsóknir og samanburð á kostum á legu mögulegra jarðganga undir Tröllaskaga, auk rannsókna á samfélags- og efnahagslegum áhrifum slíkra ganga. Ekki er stafkrók að finna um þann undirbúning í samgönguáætlun.
Athygli vekur enn fremur hve rýrar fjárveitingar eru til reiðvega í samgönguáætlun en bæta þarf verulega í þann lið. Þá vekur furðu að ekki sé gert ráð fyrir fé til hjólreiðastíga í Skagafirði, einu fjölmennasta sveitarfélagi landsbyggðarinnar þar sem er að finna 4. stærsta þéttbýliskjarnann á landsbyggðinni, utan áhrifasvæðis höfuðborgarinnar á Hvítár/Hvítársvæðinu.
Þakka ber fyrir það fé sem veitt er til framkvæmda í höfnum Skagafjarðar. Þrátt fyrir ítrekaðar beiðnir til Vegagerðar og samgönguráðuneytis er þó ekki að finna fjárveitingar til kaups á nauðsynlegum dráttarbát í Sauðárkrókshöfn né til framkvæmda við nýjan hafnargarð á Sauðárkróki. Nauðsynlegt er að endurskoða samgönguáætlun og veita fé til beggja verkefna á fimm ára samgönguáætlun.