Byggðarráð Skagafjarðar - 931
Málsnúmer 2009014F
Vakta málsnúmerSveitarstjórn Sveitarfélagins Skagafjarðar - 402. fundur - 23.09.2020
Fundargerð 931. fundar byggðarráðs frá 17. september 2020 lögð fram til afgreiðslu á 402. fundi sveitarstjórnar eins og einstök erindi bera með sér. Gísli Sigurðsson kynnti fundargerð. Enginn kvaddi sér hljóðs.
-
Byggðarráð Skagafjarðar - 931 Lagður fram samningur ásamt viðaukum, um uppbyggingu á lóðum við Freyjugötu á Sauðárkróki milli Sveitarfélagsins Skagafjarðar annars vegar og hins vegar Hrafnshóls ehf. 540217-1300 og Nýjatúns ehf., 470219-1220, sem er óhagnaðardrifið leigufélag.
Byggðarráð samþykkir framlögð samningsdrög.
Bókun fundar Forseti gerir tillögu um að vísa málinu til liðar nr. 15, Freyjugata Sauðárkróki - umsókn um lóð - Freyjugötureitur. Samþykkt samhljóða. -
Byggðarráð Skagafjarðar - 931 Eftirfarandi bókun lögð fram og samþykkt af byggðarráði:
Sveitarfélagið Skagafjörður sótti um og fékk úthlutað stofnframlagi f.h. óstofnaðrar húsnæðissjálfseignarstofnunar vegna átta íbúða við Freyjugötu á Sauðárkróki á grundvelli laga nr. 52/2016 um almennar íbúðir, sbr. bréf Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar (HMS) til sveitarfélagsins dags. 30.06. 2020. Ekki hefur komið til þess að sveitarfélagið hafi stofnað þá húsnæðissjálfseignarstofnun sem ráðgert var skv. framangreindri umsókn.
Nýjatún ehf., kt. 470219-1220, er stofnandi Bæjartúns hses., kt. 580820-1660, sbr. staðfestingu ráðherra sem tilkynnt var með bréfi dags. 11.08. 2020. Sveitarfélagið og Nýjatún ehf. óska hér með eftir því að HMS samþykki að Bæjartún hses. taki yfir öll réttindi og skyldur sveitarfélagsins f.h. hinnar óstofnuðu húsnæðissjálfseignarstofnunar skv. framangreindri úthlutun stofnframlags. Nýjatún ehf. þekkir framangreinda umsókn vel. Jafnframt hefur Nýjatún kynnt sér mat HMS á umsókninni sem fylgdi tilkynningu um samþykki umsóknar dags. 30.06. 2020. Með undirritun á yfirlýsingu samþykkja Nýjatún ehf., Sveitarfélagið Skagafjörður, Bæjartún hses. og HMS að öll réttindi og skyldur sem fylgja veitingu stofnframlaga ríkis og sveitarfélags færist frá sveitarfélaginu f.h. óstofnaðrar hses. til Bæjartúns hses. Sveitarfélagið Skagafjörður afsalar því öllum rétti sem fólst í samþykki HMS á umsókn um stofnframlag ríkisins til Bæjartúns hses., og skuldbindur sig jafnframt til að veita Bæjartúni hses. stofnframlag sveitarfélags vegna byggingar íbúðanna í samræmi við lög nr. 52/2016. Af framangreindu leiðir þá jafnframt að Bæjartún hses. verður sá aðili sem HMS gerir samning við um stofnframlag ríkisins og fær stofnframlagið greitt í samræmi við hann.
Bókun fundar Forseti gerir tillögu um að vísa málinu til liðar nr. 16, Umsókn um stofnframlög vegna leiguíbúða á Freyjugötu. Samþykkt samhljóða -
Byggðarráð Skagafjarðar - 931 Byggðarráð Sveitarfélagsins Skagafjarðar hefur undanfarið haft til umfjöllunar og athugunar mengunarslys sem tengist bensínstöð N1 að Suðurbraut 9 á Hofsósi.
Byggðarráð samþykkti á fundi sínum þann 10. september s.l. tilboð frá Eflu verkfræðistofu í rannsóknir á fráveitukerfi sveitarfélagsins.
Byggðarráð samþykkur nú að ráðast í rannsóknir á frekari umfangi mengunarinnar og samþykkir fyrirliggjandi tilboð frá Eflu verkfræðistofu. Byggðarráð harmar seinagang og aðgerðarleysi Umhverfisstofnunar í verkefninu til þessa, en telur ljóst að ekki sé hægt að bíða lengur með að fá mat á umfangi og alvarleika mengunarslyssins á landi sveitarfélagsins. Bókun fundar Afgreiðsla 931. fundar byggðarráðs staðfest á 402. fundi sveitarstjórnar 23. september 2020 með níu atkvæðum. -
Byggðarráð Skagafjarðar - 931 Lagður fram tölvupóstur dagsettur 4. september 2020 þar sem atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið kynnir til samráðs mál nr. 173/2020, "Frumvarp til laga um breytingu á lögum um stjórn fiskveiða o.fl. (veiðistjórn grásleppu o.fl.)).". Umsagnarfrestur er til og með 18.09.2020.
Eftirfarandi umsögn lögð fram og samþykkt af byggðarráði:
Hvorki liggja fyrir byggðarleg eða fiskifræðileg rök fyrir kvótasetningu á hrognkelsum og leggst Sveitarfélagið Skagafjörður gegn því að það verði gert. Byggðarráð Sveitarfélagsins Skagafjarðar beinir því til ráðherra að veiðiráðgjöf um hrognkelsasveiðar verði tekin til gagngerrar endurskoðunar með aðkomu vísindamanna utan Hafrannsóknarstofnunar og samtaka smábátasjómanna og byggi á breiðari vísindalegum grunni, eins og fyrirheit voru gefin um síðastliðið vor. Þá verði í samvinnu við sömu aðila útfærðar farsælli leiðir en úthlutun aflamarks til að stýra grásleppuveiðum sem bæði tryggja sjálfbærni þeirra og hagsmuni byggðanna sem á þeim byggja.
Ekki hafa verið færð fram veigamikil rök fyrir því að setja aflamark á grásleppu. Ljóst er að slíkt myndi koma mjög illa við mörg byggðarlög sem byggja á blandaðri sjósókn smábátaútgerða og torvelda nýliðun í greininni. Þá er hætta á samþjöppun í hrognkelsaveiðum sem gengur sömuleiðis gegn markmiðum laganna. Ljóst er að boðaðar breytingar á fyrirkomulagi veiðanna myndu koma mjög illa niður á grásleppusjómönnum í Sveitarfélaginu Skagafirði og grafa frekar undan lífsviðurværi þeirra og sjávarplássa eins og Hofsóss. Sterk rök þarf til að hefta atvinnufrelsi fólks en þau virðast ekki til staðar í þessu máli.
Fyrir liggur að veiðiráðgjöf Hafrannsóknastofnunar vegna síðustu grásleppuvertíðar var röng og stofnstærð verulega vanmetin. Þar kom tvennt til; stofnunin byggði beinlínis á röngum útreikningum, alvarleg mistök sem hún viðurkenndi um síðir opinberlega, en ekki fyrr en aðilar utan stofnunarinnar höfðu fært sönnur á villurnar og vertíðinni var víðast hvar lokið. Þá gagnrýndu fiskifræðingarnir Bjarni Jónsson og Halldór G. Ólafsson, sem stundað hafa hrognkelsarannsóknir, einnig að ekki hafi síðustu ár verið byggt á bestu fáanlegu þekkingu á líffræði hrognkelsa, niðurstöðum merkinga, netaralla og stofnstærðarvísa eins og afla á sóknareiningu. Þær ábendingar er að finna í gögnum til atvinnuveganefndar alþingis. Eftir nokkurn umþóttunartíma ákvað Hafrannsóknastofnun að taka að stóru leiti til greina þær ábendingar og tilkynnti að ný vinnubrögð yrðu tekin upp í haust þar sem ofangreind gögn yrðu einnig lögð til grundvallar við stofnstærðarútreikninga grásleppu og veiðiráðgjöf. Sjávarútvegsráðuneytið tilkynnti ennfremur að taka þyrfti vísindalegan grundvöll veiðiráðgjafarinnar til endurskoðunar fyrir næstu vertíð.
Ófullnægjandi veiðiráðgjöf og reiknimistök Hafrannsóknastofnunar urðu þess valdandi að Sjávarútvegsráðuneytið taldi sig knúið til að stöðva grásleppuveiðar fyrirvaralaust vegna mikillar grásleppugengdar og veiði á þeim svæðum þar sem grásleppuvertíðin hefst fyrr, því veiðin nálgaðist ráðlagt aflamagn stofnunarinnar. Það varð til þess að mjög margir grásleppusjómenn á Norðvesturlandi og til Vesturlands náðu ekki að veiða nema lítinn hluta þess afla sem annars hefði orðið. Þannig var að óþörfu afkoma fjölmargra sjómanna, fjölskyldna þeirra og byggðarlaga sem þær bitnuðu verst á í sett í uppnám vegna fyrirvaralausrar stöðvunar grásleppuveiða, án þess að þeir hefðu margir einu sinni náð að sjósetja bátana. Áður en vertíðinni lauk var ljóst að ekki hefði þurft að stöðva veiðarnar með þessum hætti því staða hrognkelsastofna var mun betri en þessir aðilar höfðu áður talið. Ef strax hefði verið brugðist við ábendingum um villur og tekið tillit þeirra vísbendinga sem óvenjugóð aflabrögð gáfu um stofnstærð, hefði verið hægt að bæta skaðann þá að einhverju leiti.
Reynslan af síðustu grásleppuvertíð undirstrikar nauðsyn þess að undirstöður veiðiráðgjafar fyrir hrognkelsi verði endurskoðuð og bætt, ekki síst með því að nýta betur þá víðtæku þekkingu sem þegar er til staðar og taka tillit til fleiri lykilþátta við mat á stofnstærð sem að ofan greinir. Hafrannsóknastofnun boðaði að slík vinna hæfist nú í haust og Sjávarútvegsráðuneytið kallaði eftir því að það yrði gert í samvinnu við fagfólk utan stofnunarinnar og hagsmunaaðila. Mikilvægt er að sú vinna hefjist nú þegar.
Það ætti því að vera forgangsefni hjá Sjávarútvegsráðuneyti nú að fylgja þeim fyrirheitum eftir og tryggja þannig sjálfbærni hrognkelsaveiða og hagsmuni byggðanna sem á þeim byggja. Bókun fundar Afgreiðsla 931. fundar byggðarráðs staðfest á 402. fundi sveitarstjórnar 23. september 2020 með níu atkvæðum.