Fara í efni

Sameining sveitarfélaga

Málsnúmer 2104151

Vakta málsnúmer

Byggðarráð Svf. Skagafjarðar - 963. fundur - 26.04.2021

Lögð fram svohljóðandi tillaga:
Byggðarráð Sveitarfélagsins Skagafjarðar samþykkir að bjóða hreppsnefnd Akrahrepps til formlegra viðræðna um sameiningu sveitarfélaganna tveggja í Skagafirði. Til stuðnings sveitarfélögunum í viðræðuferlinu verði leitað liðsinnis óháðra ráðgjafa til að meta kosti og galla mögulegrar sameiningar og þau tækifæri sem í henni geta falist.Greinargerð:Mikilvægt er að vinna faglegt mat á kostum, göllum og tækifærum sem felast í sameiningu sveitarfélaganna tveggja í Skagafirði og sýn um þá uppbyggingu sem þarf að ráðast í til að styrkja samkeppnishæfni og búsetuskilyrði samfélagsins í Skagafirði. Lagt er til að hvort sveitarfélag um sig tilnefni fimm fulltrúa sem leiða viðræðurnar. Til stuðnings sveitarfélögunum í viðræðuferlinu verði leitað liðsinnis óháðra ráðgjafa til að meta kosti og galla mögulegrar sameiningar og sótt um fjárframlag frá Jöfnunarsjóði sveitarfélaga vegna þeirrar vinnu. Jafnframt er lagt til að starfshópurinn skili af sér niðurstöðu fyrir lok ágúst 2021 og að íbúar sveitarfélaganna fái þannig tækifæri til að koma afstöðu sinni á framfæri í kosningu um sameiningu sveitarfélaganna tveggja, samhliða Alþingiskosningum 26. september næstkomandi. Með því móti er tryggt að ef af sameiningu verði hafi íbúar beggja sveitarfélaga lýðræðislega aðkomu að þeim framboðslistum sem bjóða fram í sveitarstjórnarkosningunum vorið 2022.
Tillagan er samþykkt með öllum atkvæðum. Byggðarráðið samþykkir jafnframt að fulltrúar sveitarfélagsins í viðræðunum verði byggðarráðið auk sveitarstjóra.

Byggðarráð Svf. Skagafjarðar - 968. fundur - 02.06.2021

Undir þessum dagskrárlið sátu eftirtaldir fulltrúar Akrahrepps fundinn; Eyþór Einarsson, Drífa Árnadóttir, Hrefna Jóhannesdóttir og Þorkell Gíslason. Einnig sat fundinn undir þessum dagskrárlið Steinn Leó Sveinsson, sviðsstjóri veitu- og framkvæmdasviðs. Hann vék af fundinum kl. 14:00.
Ræddar voru framkvæmdir við Varmahlíðarskóla, sorpmál og möguleg sameining sveitarfélaganna.
Samþykkt var að fela Sigfúsi Inga Sigfússyni sveitarstjóra Sveitarfélagsins Skagafjarðar og Hrefnu Jóhannesdóttur oddvita Akrahrepps að leita eftir tilboðum í ráðgjöf, gagnaöflun og upplýsingamiðlun vegna könnunar á kostum, göllum og tækifærum sameiningar sveitarfélaganna.

Byggðarráð Svf. Skagafjarðar - 970. fundur - 16.06.2021

Undir þessum dagskrárlið sátu Hrefna Jóhannesdóttir, Þorkell Gíslason og Drífa Árnadóttir úr hreppsnefnd Akrahrepps, í gegnum Teams.
Lögð fram tilboð frá fyrirtækjunum Aton.JL og RR ráðgjöf varðandi ráðgjöf, gagnaöflun og upplýsingamiðlun vegna könnunar á kostum, göllum og tækifærum sameiningar sveitarfélaganna í Skagafirði.
Byggðarráð og hreppsnefnd samþykkja að taka tilboði frá RR ráðgjöf í ráðgjöf og verkefnisstjórn vegna hugsanlegrar sameiningar sveitarfélaganna Skagafjarðar og Akrahrepps.

Byggðarráð Svf. Skagafjarðar - 975. fundur - 29.07.2021

Farið yfir þá vinnu sem að baki er og framundan er varðandi mögulega sameiningu sveitarfélaganna í Skagafirði.
Framundan er sameiginleg vinnustofa með fulltrúum beggja sveitarfélaga og einnig er stefnt að íbúafundum um málið í báðum sveitarfélögum í lok ágúst.

Byggðarráð Svf. Skagafjarðar - 977. fundur - 18.08.2021

Byggðarráð samþykkir að skipa Álfhildi Leifsdóttur, Jóhönnu Ey Harðardóttur, Gísla Sigurðsson, Ingu Huld Þórðardóttur og Sigfús Inga Sigfússon í verkefnahóp með fulltrúum Akrahrepps vegna hugsanlegrar sameiningar sveitarfélaganna í Skagafirði.

Sveitarstjórn Sveitarfélagins Skagafjarðar - 414. fundur - 10.09.2021

Sveitarstjórn Sveitarfélagsins Skagafjarðar samþykkir með níu atkvæðum að skipa 5 fulltrúa og tvo til vara í samstarfsnefnd sem kanna skal möguleika á sameiningu sveitarfélaganna í samræmi við 119. grein sveitarstjórnarlaga.
Stefnt skal að því að samstarfsnefnd skili áliti sínu til sveitarstjórna í nóvember næstkomandi með það fyrir augum að kynning tillögunnar hefjist í desember og að kjördagur verði í janúar 2022.
Samstarfsnefndinni er falið að setja verkefninu nánari verkáætlun og tímaramma.
Tillaga þessi er lögð fram í kjölfar óformlegra viðræðna fulltrúa sveitarfélaganna og samráðs við samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið og Jöfnunarsjóð sveitarfélaga. Fyrirliggjandi er stöðugreining sem styttir verktímann verulega og samráð við íbúa er hafið.
Sveitarstjórn skipar aðalmenn: Gísla Sigurðsson, Ingibjörgu Huld Þórðardóttur, Álfhildi Leifsdóttur, Jóhönnu Ey Harðardóttur, Sigfús Inga Sigfússon.
Varamenn: Regína Valdimarsdóttir og Ólafur Bjarni Haraldsson.

Til máls tóku Sveinn Úlfarsson, Gísli Sigurðsson, Stefán Vagn Stefánsson, með leyfi forseta.




Sveitarstjórn Sveitarfélagins Skagafjarðar - 418. fundur - 30.11.2021

Í september 2021 samþykktu sveitarstjórnir Akrahrepps og Sveitarfélagsins Skagafjarðar að skipa samstarfsnefnd um sameiningu sveitarfélaganna samkvæmt 1. mgr. 119. gr. sveitarstjórnarlaga. Samstarfsnefnd hefur skilað áliti sínu til sveitarstjórna með skilabréfi dags. 26. nóvember og greinargerðinni Skagfirðingar-stöðugreining og forsendur dags. 26. nóvember 2021.
Samstarfsnefndin hefur komið saman á 10 bókuðum fundum. Hrefna Jóhannesdóttir oddviti Akrahrepps var kjörin formaður nefndarinnar. Samstarfsnefnd átti víðtækt samráð við íbúa og starfsfólk sveitarfélaganna við undirbúning og vinnslu verkefnisins. Birtar voru upplýsingar á vinnslustigi á vefsíðunni skagfirdingar.is og sjónarmiða íbúa leitað á íbúafundum. Tillaga samstarfsnefndar er m.a. byggð á hugmyndum og ábendingum sem komu fram í því samráðsferli.
Með vísan til þeirrar vinnu sem fram hefur farið, samráð við íbúa og starfsfólk er það álit nefndarinnar að sameining Skagfirðinga í eitt sveitarfélag hafi fleiri kosti en galla. Sameiningu sveitarfélaganna fylgja áskoranir sem nefndin telur að hægt sé að mæta með útfærslu stjórnskipulags þar sem íbúar fái meiri tækifæri til beinnar þátttöku í ákvarðanatöku.
Að mati nefndarinnar mun sameining sveitarfélaganna hafa í för með sér aukna fjárfestingagetu og stuðla að hraðari uppbyggingu í Varmahlíð. Sveitarfélag allra Skagfirðinga mun hafa sterkari rödd við að koma hagsmunum íbúa og atvinnulífs í Skagafirði á framfæri við stjórnvöld. Öflugt sveitarfélag með einfalda og skilvirka stjórnsýslu, sem leitar eftir sjónarmiðum íbúa með skipulögðum hætti getur bætt búsetuskilyrði og veitt framúrskarandi þjónustu til framtíðar.
Lagt er til að atkvæðagreiðsla fari fram laugardaginn 19. febrúar 2022 í báðum sveitarfélögunum. Jafnframt leggur nefndin til að samstarfsnefnd verði falið að undirbúa atkvæðagreiðslu og kynna tillöguna og helstu forsendur fyrir íbúum sveitarfélaganna.

Gísli Sigurðsson kvaddi sér hljóðs.
Sveitarstjórn Sveitarfélagsins Skagafjarðar samþykkir með níu atkvæðum, að vísa málinu til síðari umræðu sbr. 2. mgr. 119. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011.

Sveitarstjórn Sveitarfélagins Skagafjarðar - 419. fundur - 15.12.2021

Sveitarstjórn Sveitarfélagsins Skagafjarðar, samþykkir með níu atkvæðum, að atkvæðagreiðsla um sameiningu Akrahrepps og Sveitarfélagsins Skagafjarðar fari fram 19. febrúar 2022 og felur samstarfsnefnd að undirbúa atkvæðagreiðsluna og kynna tillöguna og helstu forsendur fyrir íbúum.
Sveitarstjórn skorar jafnframt á Alþingi og ríkisstjórn að bæta samgöngur í Skagafirði með gerð brúar yfir Héraðsvötn við Flatatungu á Kjálka. Þá leggur sveitarstjórn áherslu á að ríkisvaldið auki stuðning við atvinnuþróunarverkefni í Skagafirði, svo sem í sögu- og menningartengdri ferðaþjónustu og við uppbyggingu rannsókna- og frumkvöðlamiðstöðvar.