Fara í efni

Byggðarráð Svf. Skagafjarðar

968. fundur 02. júní 2021 kl. 11:30 - 15:00 að Sæmundargötu 7a
Nefndarmenn
  • Gísli Sigurðsson formaður
  • Stefán Vagn Stefánsson varaform.
  • Jóhanna Ey Harðardóttir varam.
  • Bjarni Jónsson áheyrnarftr.
Starfsmenn
  • Friðrik Margeir Friðriksson sviðsstjóri stjórnsýslu- og fjármálasviðs
  • Sigfús Ingi Sigfússon sveitarstjóri
Fundargerð ritaði: Margeir Friðriksson sviðsstjóri stjórnsýslu- og fjármálasviðs
Dagskrá
Í upphafi fundar var samþykkt samhljóða að taka mál númer 2105304 Jafnlaunastefna og 2105102 Nestún, gatnagerð 2021 á dagskrá með afbrigðum.

1.Ósk um þátttöku í viðbyggingu við verknámshús FNV

Málsnúmer 2105242Vakta málsnúmer

Lagt fram bréf dagsett 20. maí 2021 frá formanni skólanefndar og skólameistara Fjölbrautaskólans Norðurlands vestra til sveitarfélaganna á Norðurlandi vestra, þar sem formlega er óskað eftir þátttöku sveitarfélaganna í framkvæmdum við fyrirhugaða viðbyggingu við verknámshús skólans. Heildarstærð fyrirhugaðar viðbyggingar er 1.200 fermetrar. Kostnaðarþátttaka sveitarfélaganna er samtals 40% og ríkisins 60%.
Byggðarráð Sveitarfélagsins Skagafjarðar þakkar forsvarsmönnum skólans kærlega fyrir erindið og fagnar löngu tímabærum áformum um nýja viðbyggingu við verknámshús Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra. Þegar byggt var við verknámshúsið árið 2010 var ráðist í mun minni framkvæmd en áform voru upphaflega um og sýndi sig fljótt að verknámsaðstaðan er einfaldlega alltof lítil, eins og úttektir sem unnar hafa verið fyrir mennta- og menningarmálaráðuneytið staðfesta. Áhersla stjórnvalda á verknám og sú gleðilega staðreynd að nemendum Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra hefur fjölgað á undanförnum árum, sýna mikilvægi þess að ráðist verði í nýja viðbyggingu hið fyrsta.
Byggðarráð felur sveitarstjóra að óska eftir fundi með forsvarsmönnum skólans til að ræða nánari útfærslu verkefnisins.

2.Heimavist FNV - Umsagnarbeiðni vegna rekstrarleyfis

Málsnúmer 2105252Vakta málsnúmer

Lagður fram tölvupóstur dagsettur 21. maí 2021 frá embætti sýslumannsins á Norðurlandi vestra. Óskað er umsagnar um umsókn dagsettri 21.05.2021 frá Eiði Baldurssyni, kt. 290169-3999, Fellstúni 3, 550 Sauðárkróki, f.h. Grettistak veitingar ehf., kt.451001-2210, um leyfi til að reka veitingastað í flokki II að Heimavist FNV, 550 Sauðárkróki. Fnr.2132122. Fjöldi gesta 150 manns.
Byggðarráð gerir ekki athugasemd við umsóknina.

3.Tillaga þjónustusviðs Vegagerðarinnar um lækkun hámarkshraða á Sauðárkróksbraut 75-03, 04 og 05

Málsnúmer 2105280Vakta málsnúmer

Lagt fram bréf dagsett 26. maí 2021 frá Vegagerðinni varðandi tillögu þjónustusviðs Vegagerðarinnar um lækkun hámarkshraða á Sauðárkróksbraut 75-03, 04 og 05. Um er að ræða lækkun á núgildandi hámarkshraða, 90 km/klst. í 70 km/klst., frá stöð 9200 á kafla 75-03, að stöð 1045 á kafla 75-04 (vegamót Sauðárkróksbrautar og Þverárfjallsvegar). Á Þessum kafla er fjölfarin gönguleið meðfram Sauðárkróksbraut, reiðleiðir þvera veginn á fleiri en einum stað auk þess sem endafrágangur brúarvegriðs uppfyllir ekki kröfur fyrir meiri hraða en 70 km/klst. Einnig sambærileg lækkun hámarkshraða á kafla 75-05 frá stöð 0 að stöð 940. Meðfram þessum kafla er mjög fjölfarin reiðleið sem er mikið notuð við þjálfun hrossa og tamningar. Breytingin þarf samþykki sveitarfélagsins og lögregluyfirvalda svo hún taki gildi.
Byggðarráð samþykkir að vísa erindinu til umsagnar umhverfis- og samgöngunefndar.

4.Skipan samgöngu- og innviðanefndar

Málsnúmer 2105287Vakta málsnúmer

Lagt fram bréf frá SSNV, dagsett 16. apríl 2021 varðandi skipan samgöngu- og innviðanefndar í samræmi við eftirfarandi bókun 29. ársþings SSNV: "29. ársþing SSNV,haldið rafrænt 16.apríl 2021, samþykkir að skipuð verði Samgöngu- og innviðanefnd SSNV. Nefndina skipi einn fulltrúi frá hverju sveitarfélagi á Norðurlandi vestra og skulu sveitarfélögin tilnefna hvert um sig sinn fulltrúa fyrir 30. maí nk. Hlutverk nefndarinnar er að yfirfara gildandi samgöngu- og innviðaáætlun Norðurlands vestra og uppfæra eftir þörfum. Skal endurnýjuð áætlun lögð fyrir ársþing SSNV 2022."
Byggðarráð samþykkir að tilnefna Regínu Valdimarsdóttur sveitarstjórnarfulltrúa og Ólafur Bjarni Haraldsson til vara.

5.Opnunartími sundlaugar á Hofsósi

Málsnúmer 2105279Vakta málsnúmer

Lagður fram tölvupóstur frá Guðrúnu Halldóru Þorvaldsdóttur og Kristínu Sigurrós Einarsdóttur, dagsettur 27. maí 2021 þar sem þær hvetja til þess að ákvörðun um skertan opnunartíma verði dregin til baka.
Byggðarráð samþykkir að ákvörðun félags- og tómstundanefndar varðandi opnunartíma sundlaugarinnar verði tekin til skoðunar í haust.

6.Varmahlíðarskóli-Kostnaðaráætlun þakklæðning

Málsnúmer 2005236Vakta málsnúmer

Lögð fram verklýsing og kostnaðaráætlun við rif og lagfæringar á þaki Varmahlíðarskóla. Þetta verk er inni í framkvæmdaáætlun ársins 2021.
Byggðarráð samþykkir að fela sviðsstjóra veitu- og framkvæmdasviðs hefja þessar framkvæmdir og klára það í sumar.
Steinn Leó Sveinsson sviðsstjóri veitu- og framkvæmdasviðs sat fundinn undir þessum dagskrárlið.

7.Skagafjarðarveitur gjaldskrá júlí 2021

Málsnúmer 2105141Vakta málsnúmer

Lögð fram svohljóðandi bókun 77. fundar veitunefndar: "Á 72. fundi veitunefndar 4. des. 2020 var lagt til að gjaldskrá hitaveitu Skagafjarðarveitna yrði endurskoðuð á miðju ári 2021. Fyrir liggur rekstrarniðurstaða fyrsta ársfjórðungs 2021. Lögð var fram tillaga um 1,25% hækkun á gjaldskrá hitaveitu 1. júlí 2021. Veitunefnd samþykkir tillöguna og vísar til byggðarráðs. Lagt er til að gjaldskrá hitaveitunnar verði endurskoðuð á ný þegar hálfsársuppgjör liggur fyrir. Ítrekað er að afsláttarkjör stórnotenda verði yfirfarin eins og lagt var til á 72. fundi veitunefndar þann 4. des. 2020 og sviðsstjóra er falið að fylgja því eftir. Árni Egilsson skrifstofustjóri sat þennan lið."
Byggðarráð samþykkir gjaldskrárbreytinguna og vísar henni til afgreiðslu sveitarstjórnar.

8.Sameining sveitarfélaga

Málsnúmer 2104151Vakta málsnúmer

Undir þessum dagskrárlið sátu eftirtaldir fulltrúar Akrahrepps fundinn; Eyþór Einarsson, Drífa Árnadóttir, Hrefna Jóhannesdóttir og Þorkell Gíslason. Einnig sat fundinn undir þessum dagskrárlið Steinn Leó Sveinsson, sviðsstjóri veitu- og framkvæmdasviðs. Hann vék af fundinum kl. 14:00.
Ræddar voru framkvæmdir við Varmahlíðarskóla, sorpmál og möguleg sameining sveitarfélaganna.
Samþykkt var að fela Sigfúsi Inga Sigfússyni sveitarstjóra Sveitarfélagsins Skagafjarðar og Hrefnu Jóhannesdóttur oddvita Akrahrepps að leita eftir tilboðum í ráðgjöf, gagnaöflun og upplýsingamiðlun vegna könnunar á kostum, göllum og tækifærum sameiningar sveitarfélaganna.

9.Nestún gatnagerð 2021, hönnunargögn og útboðslýsing

Málsnúmer 2105102Vakta málsnúmer

Steinn Leó Sveinsson sviðsstjóri veitu- og framkvæmdasviðs sat fundinn undir þessum dagskrárlið og kynnti hönnun og útboðslýsingu á gatnagerð við nýja götu, Nestún.
Byggðarráð samþykkir að fela sviðsstjóra veitu- og framkvæmdasviðs að bjóða verkið út í lokuðu útboði.

10.Jafnlaunastefna

Málsnúmer 2105304Vakta málsnúmer

Lögð fram drög að jafnlaunastefnu fyrir sveitarfélagið.
Byggðarráð samþykkir jafnlaunastefnuna og vísar henni til afgreiðslu sveitarstjórnar.

11.Rekstrarupplýsingar 2021

Málsnúmer 2105104Vakta málsnúmer

Lagðar fram til kynningar upplýsingar úr rekstri sveitarfélagsins fyrir tímabilið janúar-mars 2021.

Fundi slitið - kl. 15:00.