Fara í efni

Tillaga þjónustusviðs Vegagerðarinnar um lækkun hámarkshraða á Sauðárkróksbraut 75-03, 04 og 05

Málsnúmer 2105280

Vakta málsnúmer

Byggðarráð Svf. Skagafjarðar - 968. fundur - 02.06.2021

Lagt fram bréf dagsett 26. maí 2021 frá Vegagerðinni varðandi tillögu þjónustusviðs Vegagerðarinnar um lækkun hámarkshraða á Sauðárkróksbraut 75-03, 04 og 05. Um er að ræða lækkun á núgildandi hámarkshraða, 90 km/klst. í 70 km/klst., frá stöð 9200 á kafla 75-03, að stöð 1045 á kafla 75-04 (vegamót Sauðárkróksbrautar og Þverárfjallsvegar). Á Þessum kafla er fjölfarin gönguleið meðfram Sauðárkróksbraut, reiðleiðir þvera veginn á fleiri en einum stað auk þess sem endafrágangur brúarvegriðs uppfyllir ekki kröfur fyrir meiri hraða en 70 km/klst. Einnig sambærileg lækkun hámarkshraða á kafla 75-05 frá stöð 0 að stöð 940. Meðfram þessum kafla er mjög fjölfarin reiðleið sem er mikið notuð við þjálfun hrossa og tamningar. Breytingin þarf samþykki sveitarfélagsins og lögregluyfirvalda svo hún taki gildi.
Byggðarráð samþykkir að vísa erindinu til umsagnar umhverfis- og samgöngunefndar.

Umhverfis- og samgöngunefnd Svf Skagafjarðar - 181. fundur - 21.06.2021

Vegagerðin leggur fram beiðni til samþykktar hjá Sveitarfélaginu Skagafirði og Lögreglunni á Norðurlandi vestra tillögu vegaþjónustudeildar þjónustusviðs Vegagerðarinnar um lækkun hámarkshraða á Sauðárkróksbraut 75-03,04 og 05.
Tillagan er gerð að beiðni Norðursvæðis Vegagerðarinnar. Helstu rök fyrir lækkuninni eru m.a. niðurstöður úr úttekt á umferðaröryggi þjóðvega í þéttbýli Skagafjarðar.

Nefndin samþykkir tillögur Vegagerðarinnar um lækkum hámarkshraða á Sauðárkróksbraut 75-03, 04 og 05 og bendir á að með þessari breytingu er verið að auka öryggi gangandi, ríðandi og hjólandi vegfarenda en óskar eftir að umferðarhraðinn verði einnig merktur á akrein.

Umhverfis- og samgöngunefnd Svf Skagafjarðar - 182. fundur - 16.08.2021

Forseti sveitarstjórnar gerir tillögu um að vísa málinu aftur til afgreiðslu umhverfis og samgöngunefndar. Samþykkt samhljóða í sveitarstjórn 30.06.2021

Málið var áður á dagskrá nefndarinnar á 181. fundi 21. júní sl. en var vísað aftur til nefndarinnar frá 412. fundi sveitarstjórnar Sveitarfélagsins Skagafjarðar 30. júní sl.
Umhverfis og samgöngunefnd hefur jafnframt borist áskorun frá íbúum í Hegranesi og austan vatna um að hafna tillögu þjónustusviðs Vegagerðarinnar um lækkun á hámarkshraða um Borgarsand frá Ósabrú að Sauðárkróki. Til vara að tillagan verði endurskoðuð með eðlilegri og nærgætnari nálgun að lækka umferðarhraða að afleggjara hesthúsahverfis.

Umhverfis- og samgöngunefnd þykir sýnt að mikils misskilnings gæti í þessu máli. Tillaga Vegagerðarinnar er sú að lækka umferðarhraða stuttu austan gatnamóta við hesthúsahverfið en ekki að lækka umferðarhraða frá Ósbrú að Sauðárkróki. Tillagan er lögð fram í kjölfarið á úttekt á umferðaröryggi þjóðvega í þéttbýli Skagafjarðar. Umhverfis og samgöngunefnd telur að nefndin þurfi að fá kynningu á úttekt Vegagerðarinnar og óskar því eftir að fá fulltrúa Vegagerðarinnar á fund nefndarinnar áður en niðurstaða fæst í málið.


Umhverfis- og samgöngunefnd Svf Skagafjarðar - 183. fundur - 20.09.2021

Málið hefur áður verið tekið fyrir, fyrst á 181. fundi og aftur á 182. fundi umhverfis-og samgöngunefndar, eftir að sveitarstjórn vísaði málinu til baka í nefnd. Umhverfis- og samgöngunefnd óskaði eftir því við Vegagerðina að hún sendi fulltrúa á fund nefndarinnar til að fara yfir skýrslu um umferðaröryggi í Skagafirði.
Rúna Ásmundsdóttir deildastjóri hjá Vegagerðinni kynnti skýrslu um umferðaröryggi í Skagafirði.
Umhverfis- og samgöngunefnd þakkar Rúnu fyrir góða yfirferð á skýrslunni.

Tillaga Vegagerðarinnar um breytingar á hámarkshraða við Sauðárkrók rædd og samþykkt óbreytt eins hún er lögð fram og málinu vísað aftur til sveitarstjórnar.

Sveitarstjórn Sveitarfélagins Skagafjarðar - 416. fundur - 27.10.2021

Vísað frá 183. fundi umhverfis- og samgöngunefndar til afgreiðslu sveitarstjórnar, þannig bókað:

"Málið hefur áður verið tekið fyrir, fyrst á 181. fundi og aftur á 182. fundi umhverfis-og samgöngunefndar, eftir að sveitarstjórn vísaði málinu til baka í nefnd. Umhverfis- og samgöngunefnd óskaði eftir því við Vegagerðina að hún sendi fulltrúa á fund nefndarinnar til að fara yfir skýrslu um umferðaröryggi í Skagafirði. Rúna Ásmundsdóttir deildastjóri hjá Vegagerðinni kynnti skýrslu um umferðaröryggi í Skagafirði. Umhverfis- og samgöngunefnd þakkar Rúnu fyrir góða yfirferð á skýrslunni. Tillaga Vegagerðarinnar um breytingar á hámarkshraða við Sauðárkrók rædd og samþykkt óbreytt eins hún er lögð fram og málinu vísað aftur til sveitarstjórnar."

Tillagan borin upp til afgreiðslu sveitarstjórnar og samþykkt með níu atkvæðum.