Fara í efni

Óveður í júní 2024

Málsnúmer 2406053

Vakta málsnúmer

Landbúnaðar- og innviðanefnd - 5. fundur - 13.06.2024

Dagana 3. til 8. júní gekk yfir Norðurland slæmt veður með mikilli úrkomu og kulda. Veðrið hafði mikil og neikvæð áhrif á búfénað, jarðrækt bænda og á aðra þá sem eiga sitt undir því komið að tíðarfarið sé betra en var þessa daga. Meðan veðrið gekk yfir voru þjónustufulltrúi landbúnaðarmála og fleiri starfsmenn sveitarfélagsins í stöðugu sambandi við bændur og aðra um ástandið. Þær upplýsingar og aðrar sem bárust voru skráðar niður og er ljóst að tjón manna er umtalsvert vegna skepnumissis, hugsanlegra áhrifa veðurs á uppskeru og tjóns sem erfitt er að meta að svo stöddu vegna þeirra aðstæðna sem sköpuðust í yfirfullum gripahúsum. Þrátt fyrir verulega slæmt ástand um tíma barst þó ekki útkall um aðstoð í gegnum 112 en það er sú leið sem auglýst var umrædda daga og ætlast er til að allir fari sem leita þurfa eftir opinberri aðstoð í neyð. Á meðan á veðrinu stóð (fimmtudaginn 6. júní), skipaði Matvælaráðuneytið sérstakan viðbragðshóp með fulltrúm matvælaráðuneytis, innviðaráðuneytis, Bændasamtaka Íslands, Ráðgjafamiðstöðvar landbúnaðarins, Almannavarna ríkisins og fulltrúum lögregluembættanna á Norðurlandi vestra og eystra. Hópurinn setti meðal annars af stað úthringingar til bænda á þeim svæðum þar sem talið var að ástandið væri verst. Vinna viðbragðshópsins er ennþá í gangi og beðið er niðurstöðu en ljóst er samt að endanlegt heildarafurðatjón bænda mun ekki liggja fyrir fyrr en í haust þegar endanlegar afurðir og uppskera hafa verið metin og mæld. Samkvæmt okkar mati urðu þeir bændur sem bjuggu hæst m.v. hæð yfir sjó verst úti vegna veðursins en á þeim svæðum urðu snjó þyngsl mun meiri en nokkrum tugum metra neðar í landinu.
Landbúnaðar- og innviðanefnd Skagafjarðar samþykkir samhljóða að skora á fyrrgreindan viðbragðshóp á ná fram heildstæðu mati á því tjóni sem bændur í öllum greinum urðu fyrir og að í framhaldinu fái tjónþolar afurðatjón sitt bætt.
Landbúnaðar- og innviðanefnd vill benda bændum á að kynna sér upplýsingar á heimasíðu Bændasamtaka Íslands https://www.bondi.is/baendavaktin-juni.

Landbúnaðar- og innviðanefnd - 7. fundur - 04.07.2024

Landbúnaðar og innviðanefnd fagnar því að Matvælaráðherra ætli að skipa nýjan og þá smærri vinnuhóp til að meta umfang þess tjóns sem illviðrið hafði sem gekk yfir landið 3. til 8. júní s.l. og gera þá í framhaldinu tillögur um aðgerðir sem gætu komið til móts við það tjón. Eitt af fyrstu verkefnum hópsins verður að koma á skipulagðri gagnasöfnun, sem að öllum líkindum verður rafræn, en ekki liggur fyrir hvenær formleg tjónaskráning hefst. Það er því mikilvægt að bændur skrái á meðan vel og nákvæmlega hjá sér allt það tjón sem þeir tengja umræddu óveðri hvort sem það eru afföll skepna eða tjón á ræktarlöndum, túnum eða ökrum. Góð skráning er forsenda þess að bændur fái tjón sitt bætt, að því marki sem hægt verður. Landbúnaðar- og innviðanefnd vonast til að vinna nýja starfshópsins gangi hratt og vel þó ljóst sé að ekki verður hægt að leggja endanlegt mat á tjónið fyrr en að loknum smalamennskum í haust.
Kári Gunnarsson vék af fundi kl. 10:00.