Umhverfis- og tækninefnd
Umhverfis- og tækninefnd Skagafjarðar
Fundur 105 - 02.08.2001
Ár 2001, fimmtudaginn 2. ágúst kl. 800 kom umhverfis- og tækninefnd saman til fundar á Skrifstofu Skagafjarðar.
Mætt voru:
Örn Þórarinsson, Páll Sighvatsson, Gísli Gunnarsson, Árni Egilsson, Helgi Thorarensen, Sigurður Ingvarsson, Hallgrímur Ingólfsson og Jón Gauti Jónsson. Fundarritari Kristín Bjarnadóttir.
Örn Þórarinsson stýrði fundi og byrjaði hann á að bjóða velkominn Jón Gauta Jónsson, nýráðinn sveitarstjóra.
Dagskrá:
1. Villinganesvirkjun – Umsögn um mat á umhverfisáhrifum.
2. Önnur mál
Afgreiðslur:
1. Hallgrímur las yfir umsögn tæknideildar um mat á umhverfisáhrifum Villinganesvirkjunar, og urðu í framhaldi af því miklar umræður um hana. Eftirfarandi umsögn var samþykkt.
Umsögn:
Mat á umhverfisáhrifum Villinganesvirkjunar
Skv. 10. gr. laga nr. 106/2000 hefur Skipulagsstofnun óskað eftir umsögn sveitarfélagsins Skagafjarðar. Umsögnin á að, skv. 22. gr. reglugerðar nr. 671/2000 um mat á umhverfisáhrifum, greina frá því hvort á fullnægjandi hátt sé fjallað um eftirtalin atriði, séu þau á starfssviði sveitarfélagsins:
a. fyrirhugaða framkvæmd,
b. umhverfi,
c. umhverfisáhrif,
d. mótvægisaðgerðir,
e. vöktun,
f. þörf á að kanna tiltekin atriði frekar.
a. Fyrirhuguð framkvæmd
Framkvæmdinni er vel lýst í matsskýrslu og er hún auk fylgiskjala að flestu leyti vel unnin og tekur vel á ýmsum þáttum sem tengjast umhverfismatinu. Þó eru nokkur atriði í þessu máli sem þarfnast frekari skoðunar.
b. Umhverfi
Náttúrulegu umhverfi á virkjunarsvæðinu er vel lýst í matsskýrslu en samfélagslegu umhverfi mun síður.
c. Umhverfisáhrif
Fram kemur að sérstæðar náttúruminjar í Jökulsárgljúfrum hverfa í lón virkjunarinnar, jarðmyndanir, mosar og hrikalegt landslag.
Áhrif virkjunarinnar á siglingar á Austari Jökulsá verða líka alvarleg. Fljótasiglingar hafa verið í uppbyggingu og skilað vaxandi aðsókn ferðafólks. Í matsskýrslu kemur fram að nú er svipaður fjöldi ársverka í fljótasiglingunum og gert er ráð fyrir við virkjunina þegar hún er komin í rekstur. Í mati á áhrifum á samfélag og ferðaþjónustu koma hins vegar ekki fram margfeldisáhrif í Skagafirði eða hver þau geta orðið, hvorki af fljótasiglingunum né virkjuninni. Samanburður að þessu leyti er því ekki fyrir hendi.
Mikilvægt er að gengið verði svo frá málum að fiskar eigi greiða gönguleið framhjá virkjuninni bæði hrygningarfiskur á uppleið og niðurgönguseiði. Þótt nokkrir kostir séu nefndir í því sambandi í skýrslunni er óljóst hvort þeir eru fullnægjandi og því þarf nánara mat á þessu atriði.
Kanna þarf betur hvaða áhrif minni framburður árinnar hefur, með tillitit til rofs. Einnig þarf að kanna betur áhrif virkjunarinnar á vatnsstöðu og náttúrufar votlendissvæðanna í Skagafirði.
d. Vöktun
Vöktun á lífríki Héraðsvatna og votlendissvæðanna í Skagafirði er mikilvæg aðgerð. Stefnt er að því að Norðurlandsdeild Veiðimálstofnunar hafi vöktun á Héraðsvötnum með höndum, en gera þarf betur grein fyrir því hvernig fylgst verður með breytingum á öðru umhverfi sem yrði fyrir áhrifum af virkjuninni. Vöktun á jarðvegsrofi í kjölfar stíflugerðar er líka áhersluatriði en ekki er sýnt fram á framkvæmd hennar á eins trúverðugan hátt og vöktun á lífríkinu.
e. Mótvægisaðgerðir
Fram kemur í matsskýrslu að við hönnun virkjunarinnar hefur verið leitast við að halda yfirborði lónsins það neðarlega að húsum á Tyrfingsstöðum verði ekki ógnað og er ástæða til að lýsa ánægju með það.
f. Þörf á að kanna tiltekin atriði frekar
Hér að framan hefur verið gerð grein fyrir nokkrum atriðum sem talið er að kanna verði frekar. Enn fremur er bent á að í athugasemdum Vegagerðarinnar við matsáætlunina, í bréfi dags. 6. október 2000, undirrituðu af Gunnari Guðmundssyni, umdæmisstjóra, segir: “Vegagerðin telur að skoða beri þann möguleika að gera vegtengingu um stíflukrónu og yfir væntanlegan flóðfarveg.” Sveitarfélagið Skagafjörður tekur undir þetta sjónarmið. Þessa athugasemd hefði átt að taka til greina og beina henni til sveitarfélagsins og Vegagerðarinnar, því þurfi umhverfismat fyrir vegtenginguna hefði verið eðlilegt að það færi fram um leið og mat fyrir virkjunina. Við gerð deiliskipulags fyrir stöðvarhússvæðið þarf að huga að þessari vegtengingu og þá mun koma í ljós hvort sérstakt umhverfismat þarf fyrir hana.
2. Önnur mál – engin.
Fleira ekki gert og fundi slitið.
Kristín Bjarnadóttir, ritari