Fara í efni

Samfélagsverðlaun Skagafjarðar veitt í fimmta sinn.

09.10.2020
Helga Sigurbjörnsdóttir ásamt Gunnsteini Björnssyni formanni atvinnu-, menningar- og kynningarnefndar.

Samfélagsverðlaun Skagafjarðar voru veitt í fimmta sinn í dag í fallegu haustveðri. Verðlaunin eru árlega veitt þeim einstaklingi, fyrirtæki, stofnun eða félagasamtökum í Sveitarfélaginu Skagafirði sem þykja standa sig afburða vel í að efla skagfirskt samfélag. Venja er að veita verðlaunin á setningu Sæluviku en vegna samkomutakmarkana var Sæluviku 2020 aflýst.

Alls bárust rúmlega 20 tilnefningar og voru þær allar mjög góðar. Það var því úr vöndu að ráða fyrir atvinnu-, menningar- og kynningarnefnd sveitarfélagsins að velja úr mörgum góðum kostum.

Sú sem hlaut Samfélagverðlaun Skagafjarðar árið 2020 er Helga  Sigurbjörnsdóttir og tók hún við verðlaununum á heimili sínu á Sauðárkróki.

Helga Sigurbjörnsdóttir hefur lagt drjúgan skerf til félags- og framfaramála á Sauðárkróki í marga áratugi. Starfaði hún hjá Sveitarfélaginu Skagafirði í rúmlega 40 ár, lengst af sem leikskólastjóri og lagði grunninn að því faglega og umhyggjusama starfi sem leikskólarnir sinna í Skagafirði.
Auk langs og farsæls starfsferils í þágu barna á Sauðárkróki hefur Helga verið mikilsvirt og öflug kvenfélagskona og formaður Kvenfélags Sauðárkróks um árabil. Sem slík hefur hún verið í forystu margra brýnna og mikilvægra samfélagsmála, bæði vegna ýmissa félagslegra verkefna, eins og t.d. söfnun fjármuna til kaupa á lækningatækjum o.þ.h. en ekki síður verkefna sem snúa að velferð einstaklinga og fjölskyldna í gegnum sjúkrasjóð Kvenfélagsins. Þau verkefni fara ekki alltaf hátt.
Þá hefur Helga verið ötul að kenna þjóðbúningasaum og verið óþreytandi við að hvetja konur til að bera búninginn við ýmis tækifæri. Helga er núverandi formaður Félags eldri borgara í Skagafirði. Þar eins og annars staðar er hún óþreytandi í störfum í þágu eldri borgara. Margt fleira mætti segja um forystu- og framfaraverkefni Helgu.

Helga er vel að verðlaununum komin enda hefur hún sannarlega borið samfélag sitt sér fyrir brjósti og lagt á sig ómælt starf öðrum til hagsbóta.

Sveitarfélagið Skagafjörður þakkar Helgu fyrir allt hennar góða og óeigingjarna starf í þágu samfélagsins.