Fara í efni

Byggðarráð Skagafjarðar

89. fundur 20. mars 2024 kl. 14:00 - 14:50 að Sæmundargötu 7a
Nefndarmenn
  • Einar Eðvald Einarsson formaður
  • Sólborg Sigurrós Borgarsdóttir varaform.
  • Álfhildur Leifsdóttir aðalm.
  • Jóhanna Ey Harðardóttir áheyrnarftr.
Starfsmenn
  • Sigfús Ingi Sigfússon sveitarstjóri
Fundargerð ritaði: Sigfús Ingi Sigfússon sveitarstjóri
Dagskrá
Álfhildur Leifsdóttir tók þátt í fundinum í gegnum fjarfundabúnað.

1.80 ára afmæli lýðveldisins

Málsnúmer 2403008Vakta málsnúmer

Lagt fram erindi, dags. 8. mars 2024, frá formanni afmælisnefndar 80 ára afmælis lýðveldisins Íslands. Með bréfinu er óskað eftir samstarfi við sveitarfélög landsins í tengslum við hátíðardagskrána með miðlun og hvatningu um þátttöku eins og hentar best á hverjum stað.
Byggðarráð samþykkir samhljóða að Skagafjörður muni eftir því sem hægt er miðla og hvetja til þátttöku í viðburðum afmælisársins.

2.Umsókn um land

Málsnúmer 2402195Vakta málsnúmer

Vísað frá 16. fundi landbúnaðarnefndar þannig bókað:
"Lagður fram tölvupóstur, dags. 20.2. 2024, þar sem Rúnar Númason óskar eftir 5 ha landi undir kornrækt innan þéttbýlismarka Hofsóss, á svæði sem skráð er athafnasvæði á þéttbýlisuppdrætti í aðalskipulagi Skagafjarðar 2020-2035. Óskað er eftir landinu leigulaust en svæðinu yrði skilað sem túni að leigutíma loknum. Landbúnaðarnefnd samþykkir samhljóða að vísa erindinu til afgreiðslu byggðarráðs."
Byggðarráð Skagafjarðar samþykkir samhljóða að hafna erindinu þar sem auglýsa ber land á vegum sveitarfélagsins sem ætlað er til útleigu og fyrir það er innheimt leigugjald. Byggðarráð samþykkir jafnframt að fela umhverfis- og landbúnaðarfulltrúa að taka saman gögn um land sveitarfélagsins sem hugsanlega mætti auglýsa til útleigu á Hofsósi og nágrenni.

3.Kauptaxti veiðimanna

Málsnúmer 2308044Vakta málsnúmer

Vísað til byggðarráðs frá 16. fundi landbúnaðarnefndar, þannig bókað:
"Á 73. fundi byggðarráðs Skagafjarðar beindi ráðið því til landbúnaðarnefndar að vinna drög að reglum um refa- og minkaveiði í Skagafirði sem í kjölfarið verði teknar til afgreiðslu hjá stjórnsýslu sveitarfélagsins. Í kjölfarið á því eru lögð fram drög að verktakasamningi um veiðar á ref og/eða mink. Landbúnaðarnefnd samþykkir drögin samhljóða og vísar málinu til afgreiðslu byggðarráðs."
Byggðarráð samþykkir samhljóða framlagðan verktakasamning um veiðar á ref og/eða mink með áorðnum breytingum og vísar til afgreiðslu sveitarstjórnar.

4.Samráð; Frumvarp til laga um námsgögn

Málsnúmer 2403116Vakta málsnúmer

Mennta- og barnamálaráðuneytið kynnir til samráðs mál nr. 74/2024, "Frumvarp til laga um námsgögn". Umsagnarfrestur er til og með 25.03.2024.
Byggðarráð Skagafjarðar fagnar frumvarpinu en bendir á að æskilegt væri að skilgreina betur hugtakið námsgögn og yfir hvers konar gögn og gæði það nær yfir. Nær það eingöngu yfir bækur eða gögn á stafrænu formi eða nær það einnig til t.d. spjaldtölva, íþróttafatnaðar eða hesta og efniskaupa vegna iðnnáms? Byggðarráð bendir einnig á að sárlega skortir mat á áhrifum frumvarpsins á kostnað sem hugsanlega gæti lent á sveitarfélögum landsins.

5.Samráð; Drög að þingsályktunartillögu um framkvæmdaáætlun í kynjajafnréttismálum fyrir árin 2024-2027

Málsnúmer 2403117Vakta málsnúmer

Forsætisráðuneytið kynnir til samráðs mál nr. 78/2024, "Drög að þingsályktunartillögu um framkvæmdaáætlun í kynjajafnréttismálum fyrir árin 2024-2027". Umsagnarfrestur er til og með 22.03.2024.
Byggðarráð Skagafjarðar fagnar framkominni þingsályktunartillögu og fagnar sérstaklega aukinni áherslu á fræðslu- og kynningarefni og námskeið sem lagt er til að Jafnréttisstofa og félags- og vinnumarkaðsráðuneytið og mennta- og barnamálaráðuneytið beiti sér fyrir, svo og þróun mælaborðs fyrir tölfræði á sviði jafnréttismála. Einnig er afar jákvætt að setja eigi á fót rafræna og miðlæga upplýsinga- og umsóknagátt fyrir viðurkenningu á faglegri menntun og vinna að fjölgun karla í kennslu. Jafnframt er afar mikilvægt að vinna eigi að forvarnar- og viðbragðsáætlun vegna ofbeldis gegn fötluðum konum.

6.Samráð; Kosningar - kostnaðarskipting ríkis og sveitarfélaga

Málsnúmer 2403126Vakta málsnúmer

Dómsmálaráðuneytið kynnir til samráðs mál nr. 84/2024, "Kosningar - kostnaðarskipting ríkis og sveitarfélaga". Umsagnarfrestur er til og með 27.03.2024.

7.Hækkun á endurgjaldi sérstakrar söfnunar Úrvinnslusjóðs 2023 og 2024

Málsnúmer 2403115Vakta málsnúmer

Lagður fram til kynningar tölvupóstur frá Úrvinnslusjóði, dags. 11. mars 2024, þar sem upplýst er um að stjórn Úrvinnslusjóðs hafi tekið ákvörðun um það á fundi stjórnar 24. febrúar 2024, að endurgjald vegna sérstakrar söfnunar hækki um 7,5% og gildi afturvirkt frá 1. janúar 2023. Jafnframt að endurgjald vegna sérstakrar söfnunar hækki um 15% frá 1. janúar 2024 frá upphaflegri gjaldskrá. Einnig að hætt verði að greiða fyrir samsöfnun pappa og plasts frá og með 1. maí 2024.

Fundi slitið - kl. 14:50.