Fara í efni

Byggðarráð Skagafjarðar

133. fundur 12. febrúar 2025 kl. 12:00 - 13:44 að Sæmundargötu 7a
Nefndarmenn
  • Sólborg Sigurrós Borgarsdóttir varam.
    Aðalmaður: Gísli Sigurðsson
  • Einar Eðvald Einarsson varaform.
  • Jóhanna Ey Harðardóttir aðalm.
  • Álfhildur Leifsdóttir áheyrnarftr.
Starfsmenn
  • Sigfús Ingi Sigfússon sveitarstjóri
  • Baldur Hrafn Björnsson sviðsstjóri stjórnsýslu- og fjármálasviðs
Fundargerð ritaði: Baldur Hrafn Björnsson Sviðsstjóri stjórnsýslu- og fjármálasviðs
Dagskrá

1.Útboð - Heimsending matar á Sauðárkróki

Málsnúmer 2412100Vakta málsnúmer

Bryndís Lilja Hallsdóttir, sviðsstjóri fjölskyldusviðs, sat fundinn undir þessum lið.

Heimsending máltíða er hluti af heimaþjónustu sveitarfélagsins. Heimsending máltíða er þjónusta fyrir þá sem geta ekki annast matseld sjálfir og eiga rétt á heimaþjónustu samkvæmt reglum sveitarfélagsins.

Þjónustan var boðin út á síðasta ári samhliða öðru útboði en þá var öllum tilboðum hafnað þar sem ákveðið var að taka útfærslu málsins til endurskoðunar. Nú hefur sú endurskoðun farið fram og er því lagt til að bjóða þjónustuna út að nýju. Lögð voru fram drög að útboðsgögnum fyrir útboð á þessari þjónustu.

Álfhildur Leifsdóttir óskar bókað:
"VG og óháð hafa lagt mikla áherslu á að Skagafjörður sinni matarþjónustu fyrir alla eldri borgara í Skagafirði en ekki einungis þeim eldri borgurum sem búa á Sauðárkróki. Þetta er lögbundin grunnþjónusta sveitarfélaga. Félagsmála- og tómstundanefnd samþykkti á fundi sínum þann 1. 12. 2022 að beita sér fyrir samráðsferli og lausnarmiðuðum útfærslum með það að markmiði að matarþjónusta fyrir alla eldri borgara í sveitarfélaginu hæfist eigi síðar en í ágústmánuði 2023 þar sem allir eldri borgarar í Skagafirði hefðu þá kost á því að fá keyptan heitan mat með forgöngu sveitarfélagsins. Ekki er sú þjónusta enn í boði þrátt fyrir ákveðna undirbúningsvinnu þessu tengdu. Það er sannarlega gott að sjá endurnýjun á útboði fyrir matarþjónustu á Sauðárkróki en dapurt að ekki sé horft á samfélagið okkar allt í slíku útboði með tilheyrandi mismunun í þjónustu vegna búsetu."

Jóhanna Ey Harðardóttir óskar bókað:
"Félagsmála- og tómstundanefnd samþykkti á fundi sínum þann 1. des. 2022 að beita sér fyrir samráðsferli og lausnarmiðuðum útfærslum með það að markmiði að þjónustan hæfist eigi síðar en í ágústmánuði 2023 þar sem allir eldri borgarar í Skagafirði hefðu þá kost á því að fá keyptan heitan mat með forgöngu sveitarfélagsins. Starfsmenn nefndarinnar hafa unnið gríðarlega mikla og góða undirbúningsvinnu og mikilvægt að koma þessari grunnþjónustu í framkvæmd. Á fundi félagsmála- og tómstundanefndar 6. febrúar síðastliðin kom fram að verkefnið hafi ekki enn komist til framkvæmda. Mér þykir undarlegt að útfærsla á heimsendum mat í dreifbýli Skagafjarðar hafi ekki verið unnið í samfellu við þá útboðslýsingu sem hér liggur fyrir fundinum, þar sem félags- og tómstundanefnd lagði upp með að þjónusta á heimsendum mat í dreifbýli hefði átt að hefjast fyrir um 18 mánuðum síðan."

Meirihluti óskar bókað:
"Fulltrúar Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks taka undir að umrædd vinna um hvort mögulegt sé að keyra mat til eldri borgara hefur tekið of langan tíma, en búið er að gera könnun um áhuga fólks á heimsendingu matar í dreifbýli ásamt því að vinna kostnaðaráætlun við dreifingu. Á næsta fundi félagsmála- og tómstundanefndar kemur minnisblað frá starfsmönnum nefndarinnar um þá möguleika sem eru í boði. Í framhaldi af því verður tekinn ákvörðun um hvernig þessum málum verður best háttað."

Byggðarráð samþykkir samhljóða framlögð drög að útboðsgögnum og felur sviðsstjóra stjórnsýslu- og fjármálasviðs að bjóða þjónustuna út í samstarfi við sviðsstjóra fjölskyldusviðs.

2.Útboð - Akstur í og úr dagdvöld aldraðra

Málsnúmer 2412102Vakta málsnúmer

Bryndís Lilja Hallsdóttir, sviðsstjóri fjölskyldusviðs, sat fundinn undir þessum lið.

Lögð fram drög að útboðsgögnum fyrir útboð á akstursþjónustu fyrir aldraða í Skagafirði. Um er að ræða akstur íbúa í og úr dagdvöl aldraðra.

Þjónustan var boðin út á síðasta ári samhliða öðru útboði en þá var öllum tilboðum hafnað þar sem ákveðið var að taka útfærslu málsins til endurskoðunar. Nú hefur sú endurskoðun farið fram og er því lagt til að bjóða þjónustuna út að nýju með breyttum skilmálum.

Byggðarráð samþykkir samhljóða framlögð drög að útboðsgögnum og felur sviðsstjóra stjórnsýslu- og fjármálasviðs að bjóða þjónustuna út í samstarfi við sviðsstjóra fjölskyldusviðs.

3.Faxatorg - verðmat

Málsnúmer 2309276Vakta málsnúmer

Sunna Björk Atladóttir frá Fasteignasölu Sauðárkróks sat fundinn undir þessum lið.

Fyrir liggur ástandsmat frá VSÓ ráðgjöf á Faxatorgi 1, skrifstofuhúsnæði í eigu sveitarfélagsins.

Ræddar voru verðhugmyndir á fasteignina.

Byggðarráð samþykkir samhljóða að fela sveitarstjóra að auglýsa Faxatorg 1 til sölu.

4.Menningarhús og félagsheimili í Skagafirði - eignarhald

Málsnúmer 1703293Vakta málsnúmer

Sunna Björk Atladóttir frá Fasteignasölu Sauðárkróks sat fundinn undir þessum dagskrárlið.

Umræður um eignarhald á félagsheimilum í Skagafirði.

Byggðarráð samþykkir samhljóða að leita úrlausnar fyrir dómstólum á eignarhaldi félagsheimilanna Melsgils, Árgarðs, Ketiláss og Höfðaborgar. Eignarhald á öðrum félagsheimilum liggur fyrir. Byggðarráð felur Sunnu Björk Atladóttur að fara með málið fyrir hönd sveitarfélagsins.

5.Alvarleg staða Reykjavíkurflugvallar

Málsnúmer 2502103Vakta málsnúmer

Byggðarráð Skagafjarðar mótmælir harðlega því aðgerðarleysi sem átt hefur sér stað hjá Reykjavíkurborg með þeim afleiðingum að búið er að loka austur/vestur flugbraut Reykjavíkurflugvallar. Höfuðborg Íslands gegnir margvíslegu þjónustuhlutverki fyrir landið allt. Þar er m.a. að finna Landspítalann, stærsta og fullkomnasta spítala á landinu sem gegnir gríðarlegu öryggishlutverki fyrir alla landsmenn. Ekki þarf að fjölyrða um mikilvægi tryggs öryggis að þjónustu spítalans og þar skiptir miklu máli að sjúkraflug eigi óheft aðgengi að vellinum og að rekstraröryggi flugbrautanna sé tafarlaust tryggt.

Hátt í 650 sjúklingar eru fluttir á ári hverju til Reykjavíkur með sjúkraflugvélum af landsbyggðinni. Í um 45% tilfella eru það sjúklingar sem þurfa að komast í bráðaþjónustu og tímaháð inngrip. Austur/vestur flugbrautin er notuð í um 25% af öllum hreyfingum á Reykjavíkurflugvelli og lokun brautarinnar hefur því áhrif á um 160 flug á ári eða um 70 sjúklinga í hæstu forgangsflokkum miðað við fjölda sjúklinga á síðasta ári. Þá gegnir Reykjavíkurflugvöllur einnig lykilhlutverki í sjúkraflugi til og frá landinu þegar einstaklingar þurfa að komast í bráðaaðgerðir sem ekki er hægt að sinna hérlendis.

Byggðarráð Skagafjarðar samþykkir samhljóða að skora á Reykjavíkurborg að grípa nú þegar til tafarlausra aðgerða og tryggja fellingar þeirra trjáa sem nauðsynlegt er að fella til að opna megi varanlega austur/vestur flugbraut Reykjavíkurflugvallar. Verði það ekki raunin gerir byggðarráð þá kröfu að samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra og ríkisstjórn Íslands nýti allar þær heimildir sem unnt er til að tryggja óraskaða starfsemi sjúkraflugs á Íslandi. Minnt er á að í stefnuyfirlýsingu nýrrar ríkisstjórnar Kristrúnar Frostadóttur er tilgreint að áhersla verði lögð á jafnt aðgangi að heilbrigðisþjónustu og annarri opinberri þjónustu, óháð búsetu. Í þessu máli eru mannslíf í húfi og ekki rými til tafa eða ábyrgðarleysis.

6.Úthlutun byggðakvóta 2024-2025

Málsnúmer 2501274Vakta málsnúmer

Lagður fram tölvupóstur frá Drangey - smábátafélagi Skagafjarðar, dagsettur 10. febrúar 2025 þar sem þess er farið á leit við byggðarráð að endurskoða þá ákvörðun sína að sækja ekki um undanþágu vinnsluskyldu mótframlags.

Það fyrirkomulag sem var til afgreiðslu á 31. fundi atvinnu-, menningar- og kynningarnefndar er samsvarandi fyrirkomulagi sem samþykkt var á síðasta ári eftir mikil fundahöld og samtöl við m.a. forsvarsmenn Drangeyjar - smábátafélags Skagafjarðar, FISK Seafood og sérfræðinga matvælaráðuneytis. Með vísan til tilmæla ráðuneytisins á síðasta ári telur byggðarráð sér ekki fært að sækja um undanþágu vinnsluskyldu, enda voru skýr skilaboð frá ráðuneytinu á síðasta ári um að slík undanþága frá reglugerð um úthlutun byggðakvóta yrði ekki samþykkt.

Byggðarráð samþykkir samhljóða að gera ekki tillögu um frekari breytingar á afgreiðslu atvinnu-, menningar- og kynningarnefndar en þær tillögur eru til afgreiðslu á næsta fundi sveitarstjórnar Skagafjarðar.


7.Samþykkt um hunda og kattahald

Málsnúmer 2411166Vakta málsnúmer

Vísað 20. fundar landbúnaðar- og innviðanefndar þann 6. febrúar sl., þannig bókað:
"Lögð fram endurskoðuð samþykkt um hunda- og kattahald í þéttbýlisstöðum Skagafjarðar. Landbúnaðar- og innviðanefnd samþykkir samþykktina með áorðnum breytingum samhljóða og vísar til Byggðaráðs.
Einnig farið yfir drög að gjaldskrá um hunda- og kattahald þar sem gert er ráð fyrir að gjöldin lækki í samræmi við breytingu á þjónustu.
Landbúnaðar- og innviðanefnd samþykkir samhljóða að fela umhverfis- og landbúnaðarfulltrúa að vinna að endanlegri útgáfu gjaldskrár."

Byggðarráð samþykkir samhljóða samþykkt um hunda- og kattahald í þéttbýlisstöðum Skagafjarðar og vísar henni til afgreiðslu sveitarstjórnar.

8.Samráð; Endurskoðun fyrirkomulags eftirlitskerfis með hollustuháttum og mengunarvörnum og matvælum

Málsnúmer 2502080Vakta málsnúmer

Matvælaráðuneytið kynnir til samráðs mál nr. 19/2025, "Endurskoðun fyrirkomulags eftirlitskerfis með hollustuháttum og mengunarvörnum og matvælum".

Umsagnarfrestur er til og með 20.02.2025.

Byggðarráð samþykkir samhljóða að fela sveitarstjóra að óska eftir áliti og hugmyndum frá Heilbrigðiseftirliti Norðurlands vestra.

9.Samráð; Breyting á sveitarstjórnarlögum - mat á fjárhagslegum áhrifum á sveitarfélög

Málsnúmer 2502102Vakta málsnúmer

Innviðaráðuneytið kynnir til samráðs mál nr. 23/2025, "Breyting á sveitarstjórnarlögum - mat á fjárhagslegum áhrifum á sveitarfélög".

Umsagnarfrestur er til og með 17.02.2025.

Kynnt áform um fyrirhuguðarar breytingar á 129. grein sveitarstjórnarlaga, sem fjallar um endurskoðun á ferli kostnaðarmats, þ.e. mati á hugsanlegum áhrifum frumvarpa, tillagna að stjórnvaldsfyrirmælum eða annarra stefnumarkandi ákvarðana af hálfu ríkisins á fjárhag sveitarfélaga. Breytingunum er ætlað að koma til móts við gagnrýni sveitarfélaga, m.a. um að dæmi séu um að kostnaðarmat af þessu tagi séu ekki framkvæmd, matið sé oft ekki fullnægjandi, óljóst sé hvenær leita eigi umsagnar Sambands íslenskra sveitarfélaga og hvernig leyst skuli úr ágreiningi. Byggðarráð Skagafjarðar hefur ítrekað bent á skort á kostnaðarmati eða að það sé framkvæmt á ófullnægjandi hátt og fagnar því fyrirhuguðum áformum.

10.Drög að áætlun eignamarka fasteigna

Málsnúmer 2502063Vakta málsnúmer

Húsnæðis- og mannvirkjastofnun (HMS) fer fyrir verkefninu Áætlun eignamarka. Verkefnið felst í að drög eru unninn á landamerkjum jarða út frá aðgengilegum gögnum og afrakstur þess borinn undir landeiganda. Helstu gögn sem notuð eru landamerkjabækur auk þinglýstra skjala. Markmið verkefnisins er að tryggja yfirsýn og samræmda opinbera skráningu á landi með tilheyrandi ávinningi fyrir landeiganda og samfélag. Áætlunin hefur ekki áhrif á tilvist eða efni eignarréttinda landeiganda eða áhrif á þinglýsingarhluta fasteignaskrár. Landeignaskrá skráir ekki áhrif á þinglýsingarhluta fasteignaskrár.

Byggðarráð samþykkir samhljóða að fela skipulagsfulltrúa og umhverfis- og landbúnaðarfulltrúa að yfirfara eignamörk þeirra jarða sem HMS hefur sent sveitarfélaginu sem eiganda jarða og gera eftir ástæðum athugasemdir við.

Fundi slitið - kl. 13:44.