Fara í efni

Byggðarráð Svf. Skagafjarðar

939. fundur 11. nóvember 2020 kl. 11:30 - 12:30 með fjarfundabúnaði
Nefndarmenn
  • Regína Valdimarsdóttir varam.
  • Stefán Vagn Stefánsson varaform.
  • Ólafur Bjarni Haraldsson aðalm.
  • Bjarni Jónsson áheyrnarftr.
Starfsmenn
  • Friðrik Margeir Friðriksson sviðsstjóri stjórnsýslu- og fjármálasviðs
  • Sigfús Ingi Sigfússon sveitarstjóri
Fundargerð ritaði: Margeir Friðriksson sviðsstjóri stjórnsýslu- og fjálmálasviðs
Dagskrá

1.Breytingar á sveitarstjórnarlögum v. fjarfundi vegna Covid 19

Málsnúmer 2003195Vakta málsnúmer

Lagður fram tölvupóstur dagsettur 5. nóvember 2020 frá samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu. Með ákvörðun samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, dags. 19. mars 2020, var sveitarstjórnum veitt heimild til að víkja frá tilteknum ákvæðum sveitarstjórnarlaga til að tryggja starfshæfi sitt og auðvelda ákvarðanatöku við stjórn sveitarfélags, á grundvelli VI. bráðabirgðarákvæðis sveitarstjórnarlaga.
Með auglýsingu, dags. 11. ágúst 2020, var heimildin framlengd um þrjá mánuði eða til 10. nóvember nk. Í ljósi hertra samkomutakmarkana og að viðhöfðu samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga hefur ráðherra framlengt ofangreinda heimild í fjóra mánuði til viðbótar eða til 10. mars 2021.
Byggðarráð samþykkir að vísa erindinu til afgreiðslu sveitarstjórnar og leggur til að framlengingin verði samþykkt.

2.Stytting vinnuvikunnar hjá dagvinnufólki, erindi til sveitarstjórnar

Málsnúmer 2011012Vakta málsnúmer

Lagt fram bréf dagsett 2. nóvember 2020 frá Bandalagi háskólamanna til fulltrúa í sveitar- og bæjarstjórnum á Íslandi varðandi styttingu vinnuvikunnar hjá dagvinnufólki.
Byggðarráð samþykkir að fela sveitarstjóra að veita umbeðnar upplýsingar.

3.Beiðni um niðurfellingu á fasteignagjöldum

Málsnúmer 2011077Vakta málsnúmer

Tekið fyrir bréf frá Samtökum ferðaþjónustunnar og Fyrirtækja í hótel- og gistiþjónustu, dags. 13. október 2020 er varðar beiðni um niðurfellingu fasteignagjalda, frestun á gjöldum eða lengingu á lögveði fasteignaskatta til að styðja við atvinnurekendur í ferðaþjónustu. Erindið var sent SSNV og þaðan sent áfram til sveitarfélaga á starfssvæði samtakanna.
Byggðarráð Sveitarfélagsins Skagafjarðar bendir á að sveitarfélögum landsins er þröngur stakkur sniðinn líkt og hjá mörgum í því ástandi sem nú ríkir. Fasteignagjöld eru hluti af lögbundnum tekjum sveitarfélaga sbr. lög nr. 4/1995 og samgöngu- og sveitarstjórnarráðneytið fer með málefni sveitarfélaga, þar með talin framkvæmd laga og reglna um fjármál sveitarfélaga og tekjustofna þeirra. Sveitarfélög hafa því lítið svigrúm til að bregðast við og heimild til frestunar greiðslu fasteignagjalda eða önnur breyting á greiðslu fasteignagjalda, fer í gegnum Alþingi, líkt og heimild til frestunar greiðslu fasteignargjalda sem samþykkt var á Alþingi 30. mars síðastliðinn.
Byggðarráð bendir Samtökum ferðaþjónustunnar og Fyrirtækjum í hótel- og gistiþjónustu því á að erindi þeirra þarf að beina til samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytis.
Um leið vill byggðarráð árétta að eðlilegt er að breytingar á greiðslu fasteignagjalda verði ekki ræddar án aðkomu Sambands íslenskra sveitarfélaga og tillit verði tekið til mögulegra áhrifa á rekstur þeirra.
Ljóst er að sveitarfélög hvorki geta né mega afsala sér lögboðnum tekjustofnum, enda yrði þá að mæta því með öðrum tekjum sem ekki blasa við nú.
Í ljósi aðstæðna í samfélaginu hvetur byggðarráð samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra að beita sér fyrir nauðsynlegum breytingum á lögum til að lengja megi lögveð fasteignagjalda. Þannig væri hægt að koma í veg fyrir að sveitarfélög þurfi að ganga að fyrirtækjum og einstaklingum sem mögulega lenda í greiðsluerfiðleikum vegna áhrifa COVID-19.

4.Yfirlýsing frá baráttuhópi smærri fyrirtækja, einyrkja og sjálfstætt starfandi aðila í ferðaþjónustu

Málsnúmer 2011028Vakta málsnúmer

Tekið fyrir bréf til stjórnvalda frá baráttuhópi smærri fyrirtækja, einyrkja og sjálfstætt starfandi aðila í ferðaþjónustu, dags. 3. nóvember 2020, er varðar yfirlýsingu, kröfur og tillögur sem lúta að ýmsum smærri aðilum í ferðaþjónustu.
Í ljósi aðstæðna í samfélaginu hvetur byggðarráð samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra að beita sér fyrir nauðsynlegum breytingum á lögum til að lengja megi lögveð fasteignagjalda. Þannig væri hægt að koma í veg fyrir að sveitarfélög þurfi að ganga að fyrirtækjum og einstaklingum sem mögulega lenda í greiðsluerfiðleikum vegna áhrifa COVID-19.

5.Reglur um styrki til greiðslu fasteignaskatts 2021

Málsnúmer 2011024Vakta málsnúmer

Lagðar fram núgildandi reglur um styrki til greiðslu fasteignaskatts skv. 2.mgr. 5.gr. laga um tekjustofna sveitarfélaga nr. 4/1995. Í reglunum er kveðið á um að þær séu endurskoðaðar ár hvert, ef þurfa þykir.
Byggðarráð samþykkir að reglurnar verði óbreyttar frá árinu 2020.

6.Reglur um afslátt tekjulágra elli- og örorkulífeyrisþega af fasteignaskatti 2021

Málsnúmer 2011025Vakta málsnúmer

Lagt fram vinnuskjal varðandi breytingu á reglum um afslátt tekjulágra elli- og örorkulífeyrisþega af fasteignaskatti 2021.
Byggðarráð samþykkir að breyta reglunum þannig að tekjumörk hækki um 3,5% frá árinu 2020 og að hámarksafsláttur verði 70.000 kr. og vísar reglunum til afgreiðslu sveitarstjórnar.

7.Grunnupphæð fjárhagsaðstoðar 2021

Málsnúmer 2011014Vakta málsnúmer

Lögð fram svohljóðandi bókun 282. fundar félags- og tómstundanefndar: "Félags- og tómstundanefnd samþykkir að grunnfjárhæð fjárhagsaðstoðar frá 1.janúar 2021 verði reiknuð með sama hætti og verið hefur, þ.e. viðmiðun grunnupphæðar fjárhagsaðstoðar árið 2021 verði 82% af lágmarks atvinnuleysisbótum á mánuði eins og þær eru í nóvember 2020. Full fjárhagsaðstoð einstaklings frá og með 1.janúar 2021 er því 237.398 kr. Vísað til byggðaráðs."
Byggðarráð samþykkir framangreinda bókun og vísar til afgreiðslu sveitarstjórnar.

8.Greiðsluviðmið jafnaðarstunda í NPA samningum 2021

Málsnúmer 2011022Vakta málsnúmer

Lögð fram svohljóðandi bókun 282. fundar félags- og tómstundanefndar: "Félags - og tómstundanefnd samþykkir að greiðsluviðmið jafnaðarstunda í NPA samningum árið 2021 taki mið af útreikningum NPA miðstöðvarinnar svf. Jafnaðarstund NPA samninga sem kveður á um aðstoð allan sólarhringinn þar sem notandi getur ekki nýtt sér hvíldarvaktir, skv. bókun 1 í sérkjarasamningi NPA miðstöðvar við Eflingu / SGS, nemur 5.237 kr. á klukkustund. Jafnaðarstund NPA samnings sem kveður á um aðstoð allan sólarhringinn hjá notanda sem getur nýtt sér hvíldarvaktir, nemur 4.770 kr. á klukkustund. Jafnaðarstund NPA samnings þar sem ekki er gert ráð fyrir næturvinnu, þ.e. hvorki hvíldarvöktum né vakandi næturvöktum, nemur 5.045 kr. Félags- og tómstundanefnd samþykkir tillöguna fyrir sitt leyti en vísar málinu jafnframt til byggðarráðs."
Byggðarráð samþykkir framangreinda bókun og vísar til afgreiðslu sveitarstjórnar.

9.Gjaldskrá Iðju hæfingar 2021

Málsnúmer 2011021Vakta málsnúmer

Lögð fram svohljóðandi bókun 282. fundar félags- og tómstundanefndar: "Félags- og tómstundanefnd samþykkir að hlutur notenda Iðju í fæðiskostnaði hækki um 2,5% úr 585 kr. í 600 kr. fyrir hverja máltíð. Vísað til byggðaráðs."
Byggðarráð samþykkir framangreinda bókun og vísar til afgreiðslu sveitarstjórnar.
Bjarni Jónsson (Vg og óháð) óskar bókað að hann muni sitja hjá við afgreiðslu málsins í sveitarstjórn.

10.Greiðslur fyrir stuðningsfjölskyldu 2021

Málsnúmer 2011018Vakta málsnúmer

Lögð fram svohljóðandi bókun 282. fundar félags- og tómstundanefndar: "Félags- og tómstundanefnd samþykkir að fjárhæðir greiðslna vegna þjónustu stuðningsfjölskylda verið eftirfarandi frá 1.janúar 2021.
1. fl.: Börn sem eru algerlega háð öðrum með athafnir daglegs lífs. Greiddar eru kr. 22.600 fyrir hvern sólarhring.
2. fl.: Börn sem þurfa verulega aðstoð við athafnir daglegs lífs og gæslu. Greiddar eru kr. 20.000 fyrir hvern sólarhring.
3. fl.: Börn sem þurfa minni aðstoð en skv. 1. og 2. fl. en þurfa eftirlit við athafnir daglegs lífs. Greiddar eru kr. 18.000 fyrir hvern sólarhring.
Sveitarfélagið greiðir fyrir þjónustu stuðningsfjölskyldu sem veittar eru á grundvelli barnaverndarlaga skv. 2.fl. umönnunarmats frá Tryggingarstofnun ríkisins. Sveitarfélagið greiðir fyrir þjónustu stuðningsfjölskyldu sem veittar eru á grundvelli félagsþjónustulaga skv. 3.fl. umönnunarmats frá Tryggingarstofnun ríkisins.
Vísað til byggðaráðs."
Byggðarráð samþykkir framangreinda bókun og vísar til afgreiðslu sveitarstjórnar.
Bjarni Jónsson (Vg og óháð) óskar bókað að hann muni sitja hjá við afgreiðslu málsins í sveitarstjórn.

11.Gjaldskrá íþróttamannvirkja 2021

Málsnúmer 2010187Vakta málsnúmer

Lögð fram svohljóðandi bókun 282. fundar félags- og tómstundanefndar: "Lögð fram eftirfarandi tillaga að gjaldskrá fyrir íþróttamannvirki fyrir árið 2021: Tillagan felur almennt í sér hækkun um 2.5% gjaldskrár með þeirri undantekningu að stakur aðgangur fyrir börn og fullorðna hækkar um 5%, þar sem sá aðgangur hækkaði ekki fyrir árið 2020. Vísað til byggðarráðs."
Byggðarráð samþykkir framangreinda bókun og vísar til afgreiðslu sveitarstjórnar.

12.Gjaldskrá Húss frítímans 2021

Málsnúmer 2010188Vakta málsnúmer

Lögð fram svohljóðandi bókun 282. fundar félags- og tómstundanefndar: "Lögð er fram tillaga að gjaldskrá fyrir Hús frítímans fyrir árið 2021. Tillagan felur í sér allt að 2,5% hækkun fyrir leigu á húsinu. Tillagan samþykkt samhljóða. Vísað til byggðarráðs."
Byggðarráð samþykkir framangreinda bókun og vísar til afgreiðslu sveitarstjórnar.

13.Umsagnarbeiðni; þingsályktunartillaga um þjóðaratkvæðagreiðslu um framtíð Reykjavíkurflugvallar

Málsnúmer 2011056Vakta málsnúmer

Lagður fram tölvupóstur dagsettur 5. nóvember 2020 þar sem umverfis- og samgöngunefnd Alþingis sendir til umsagnar tillögu til þingsályktunar um þjóðaratkvæðagreiðslu um framtíð Reykjavíkurflugvallar, 39. mál.
Byggðarráð Sveitarfélagsins Skagafjarðar fagnar fram kominni þingsályktunartillögu þess efnis að efnt verði til þjóðaratkvæðagreiðslu um framtíð Reykjarvíkurflugvallar. Byggðarráð er einhuga um að flugvöllur og miðstöð innanlands- og sjúkraflugs skuli vera áfram í Vatnsmýri í Reykjavík uns jafngóður eða betri kostur verði tilbúinn til notkunar. Ljóst er að Reykjavíkurflugvöllur gegnir mikilvægu og fjölþættu hlutverki í samgöngum og öryggi fyrir íbúa landsbyggðanna, m.a. hvað varðar öryggishagsmuni eins og greiðu aðgengi að lífsnauðsynlegri læknisþjónustu á höfuðborgarsvæðinu. Mínútur telja þegar mannslíf eru í húfi. Flugvöllurinn gegnir einnig lykilhlutverki í tengingu landsbyggðanna við opinbera grunnþjónustu og mikilvægar opinberar stofnanir sem flestar eru staðsettar á höfuðborgarsvæðinu. Í þessu máli þarf að huga að sjálfsákvörðunarrétti sveitarfélaga í skipulagsmálum en á það skal bent að Reykjavíkurflugvöllur er samgöngumannvirki sem þjónar öllum íbúum landsins. Vandséð er hvernig unnt er að rjúfa þá tengingu án þess að hugað verði að tilflutningi á starfsemi þjóðarsjúkrahússins og stjórnsýslu ríkisins þangað sem landið allt á greiðar og öruggar samgöngutengingar við.

14.Minningardagur um fórnarlömb umferðarslysa 2020

Málsnúmer 2011068Vakta málsnúmer

Lagt fram til kynningar bréf dagsett 26. október 2020 frá samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu varðandi árlegan minningardag um fórnarlömb umferðarslysa, sem er í ár þann 15. nóvember næstkomandi.

Fundi slitið - kl. 12:30.