Fara í efni

Byggðarráð Svf. Skagafjarðar

489. fundur 10. september 2009 kl. 10:00 - 11:50 í Ráðhúsi, Skr.
Fundargerð ritaði: Margeir Friðriksson sviðsstjóri stjórnsýslu- og fjármálasviðs
Dagskrá

1.Boðun á ársfund Hátæknifélags Íslands ses

Málsnúmer 0909046Vakta málsnúmer

Lagt fram boð um aðalfund Hátækniseturs Íslands, föstudaginn 11. september 2009.
Byggðarráð samþykkir að fulltrúar sveitarfélagsins í stjórn verði Snorri Styrkársson og Gísli Sigurðsson. Til vara Einar E. Einarsson og Sigurlaug Konráðsdóttir. Sveitarstjóri, Guðmundur Guðlaugsson fer með atkvæði sveitarfélagsins á fundinum.

2.Fjárlaganefnd - umsóknir v fjárlagaársins 2010

Málsnúmer 0906049Vakta málsnúmer

Undirbúningur fyrir vændanlegan fund með fjárlaganefnd Alþingis 30. september nk.
Vegna þeirrar vinnu sem er í gangi hjá ríkisvaldinu við fjárlagagerð fyrir árið 2010 samþykkir byggðarráð eftirfarandi ályktun:
Í efnahagsþrengingum þjóðarinnar nú um mundir er mikilvægara en nokkru sinni fyrr að huga að eflingu sveitarstjórnarstigsins og stuðla að eflingu byggðarlaga utan höfuðborgarsvæðisins jafnhliða því að unnið er að endurreisn atvinnulífs og samfélags á höfuðborgarsvæðinu. Sveitarfélögin og byggðarlög um allt land eiga og verða að gegna lykilhlutverki í því uppbyggingarstarfi sem framundan er. Þegar þrengir að í þjóðfélaginu er mikilvægt að stjórnvöld gleymi því ekki að þau sveitarfélög og svæði sem ekki nutu uppsveiflunnar eru enn síður í stakk búin til að takast á við aukna erfiðleika. Þau þurfa miklu fremur á því að halda að staða þeirra sé treyst til að þau, í samvinnu við ríkisvaldið, geti tekið þátt í endurreisnarstarfinu.
Byggðarráð Sveitarfélagsins Skagafjarðar viðurkennir nauðsyn á hagræðingu i rekstri ríkisstofnana í Skagafirði, sem og annars staðar en leggur þunga áherslu á að fjárframlög verði ekki skert svo mjög að tilveru þeirra sé ógnað. Fyrirbyggja þarf flutning verkefna frá landsbyggðinni til höfuðborgarsvæðisins við þær aðstæður sem nú eru. Í þessu sambandi lýsir byggðarráð yfir miklum áhyggjum vegna boðaðs frumvarps um breytingar á dómskerfinu, sem munu leiða til skertrar þjónustu. Færa má sterk rök fyrir því að niðurlagning einstakra héraðsdómstóla á landsbyggðinni sé ekki vænlegasta leiðin til sparnaðar í dómskerfinu og leiði fremur til aukins kostnaðar ríkissjóðs og íbúa hinna dreifðu byggða.

Byggðarráð felur sveitarstjóra að senda ályktunina til Ríkisstjórnar Íslands, fjárlaganefndar Alþingis og þingmanna Norðvesturkjördæmis.

3.Ósk um afnot af húsnæði undir vinnustofu

Málsnúmer 0909014Vakta málsnúmer

Lagt fram bréf frá Auði og Margréti Aðalsteinsdætrum þar sem þær inna eftir því hvort möguleiki sé á því að þær geti fengið hluta af húsnæði Freyjugötu 9, þar sem áður var verslun bifreiðaverkstæðis KS, leigt undir vinnustofur fram á næsta vor.
Fyrirhugað er að rífa og fjarlægja fasteignina Freyjugötu 9 á næstunni og því er ekki hægt að verða við óskum bréfritara.

Fundi slitið - kl. 11:50.