Fara í efni

Félagsmála- og tómstundanefnd

33. fundur 03. apríl 2025 kl. 10:00 - 11:50 að Sæmundargötu 7a
Nefndarmenn
  • Sigurður Bjarni Rafnsson formaður
  • Guðlaugur Skúlason aðalm.
  • Sigurlaug Vordís Eysteinsdóttir aðalm.
  • Sigurjón Viðar Leifsson varam. áheyrnarftr.
    Aðalmaður: Anna Lilja Guðmundsdóttir
Starfsmenn
  • Bryndís Lilja Hallsdóttir sviðsstjóri fjölskyldusviðs
  • Þorvaldur Gröndal frístundastjóri
  • Gréta Sjöfn Guðmundsdóttir félagsmálastjóri
  • Rakel Kemp Guðnadóttir leiðtogi farsældar, fræðslu og ráðgjafar
Fundargerð ritaði: Bryndís Lilja Hallsdóttir sviðsstjóri fjölskyldusviðs
Dagskrá

1.Styrkur til húsaleigu

Málsnúmer 2502147Vakta málsnúmer

Málið áður á dagskrá nefndarinnar þann 6. mars sl., þá bókað: "Pílukastfélag Skagafjarðar hefur síðustu ár leigt húsnæði hér í bænum undir sína íþróttastarfsemi og staðið undir þeim kostnaði sjálft. Kostnaður vegna leigu vegur þungt í rekstri félagsins, sem telur rúmlega 60 skráða iðkendur. Alls eru 24 iðkendur undir 18 ára aldri og af þeim eru 19 á grunnskólaaldri. Félagið heldur úti æfingum fyrir börn undir leiðsögn leiðbeinanda. Félagið fékk formlega inngöngu í UMSS á síðasta ársþingi þess. Pílukastfélag Skagafjarðar óskar eftir styrk frá Skagafirði til niðurgreiðslu leigu húsnæðis sem félagið hefur haft á leigu undanfarin ár. Félagsmála- og tómstundanefnd samþykkir samhljóða að fela starfsmönnum nefndarinnar að boða forsvarsmenn Pílukastfélags Skagafjarðar á næsta fund nefndarinnar."

Forsvarsmenn Pílukastfélags Skagafjarðar, þeir Atli Víðir Arason, Arnar Geir Hjartarson, Þröstur Kárason og Ingvi Þór Óskarsson komu á fund nefndarinnar og kynntu starfsemi Pílukastfélagsins. Nefndin fagnar starfsemi félagsins og leggur til við byggðarráð að samþykkt verði að greiða styrk út ágúst 2025 að upphæð 35.000 kr. á mánuði. Nefndin felur byggðarráði að ákvarða upphaf styrktímabils. Samþykkt samhljóða og vísað til byggðarráðs.

2.Frístundaakstur

Málsnúmer 2412001Vakta málsnúmer

Niðurstöður könnunar sem send var forráðamönnum iðkenda á vegum Smárans, Neista og Hjalta í árgöngum 2009-2014 lagðar fram. Alls bárust 25 svör. Niðurstöður sýna að almenn ánægja sé með fyrirkomulag frístundaaksturs og leggur nefndin til við byggðarráð að óbreytt fyrirkomulag verði viðhaft næstkomandi skólaár og óskar eftir því að verkefnið fái fjármögnun með viðauka við fjárhagsáætlun ársins 2025 fyrir haustönn 2025. Nefndin felur starfsfólki nefndarinnar að vinna málið áfram með hlutaðeigandi aðilum og biðlar til skólastjórnenda að hafa frístundaakstur í huga við skipulag skólastarfs skólaársins 2025-2026. Samþykkt samhljóða. Vísað til byggðarráðs.

3.Frumkvæðisathugun á akstursþjónustu fyrir fatlað og eldra fólk

Málsnúmer 2406133Vakta málsnúmer

Lögð fram skýrsla Gæða- og eftirlitsstofnunar frá því í mars 2025 um frumkvæðisathugun á akstursþjónustu sveitarfélaga sem fram fór á árinu 2024.

GEV beinir tilmælum um úrbætur, sbr. 2. mgr. 16. gr. laga nr. 88/2021 um Gæða- og eftirlitsstofnun velferðarmála (lög um GEV), til sveitarfélagsins að það skuli tryggja að einkaaðilar sæki um rekstrarleyfi til GEV í samræmi við 5. gr. laga um GEV. Bendir GEV á að sveitarfélögum er óheimilt að semja um veitingu þjónustu samkvæmt lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga nr. 40/1991 við aðra aðila en þá sem hafa fengið rekstrarleyfi frá GEV, sbr. 9. gr. laganna. Úrbótum skal lokið innan þriggja mánaða frá útgáfu skýrslunnar.

GEV þakkar sveitarfélaginu fyrir góða samvinnu við framkvæmd athugunarinnar.

Félagsmála- og tómstundanefnd felur starfsfólki að fylgja úrbótum eftir með aðilum sem sjá um akstursþjónustu fyrir tilgreindan tímafrest. Samþykkt samhljóða.

4.Framlög til verkefna á sviði almenningssamgangna

Málsnúmer 2503320Vakta málsnúmer

Innviðaráðherra auglýsir nú eftir umsóknum um framlög sem veitt eru á grundvelli stefnumótandi byggðaáætlunar fyrir árin 2022-2036 vegna verkefna sem tengjast aðgerð A. 10 Almenningssamgöngur á milli byggða. Við forgangsröðun umsókna verður litið til verkefna sem m.a. auka möguleika ungs fólks á dreifbýlum svæðum til að sækja íþrótta- og menningarstarfsemi. Umsóknarfrestur er til 5. maí 2025.
Félagsmála- og tómstundanefnd samþykkir samhljóða að leggja til við byggðarráð að sótt verði um framlög til verkefna sem tengjast bættum samgöngum sem gagnast ungu fólki á dreifbýlum svæðum til að sækja íþrótta- og menningarstarfsemi. Samþykkt samhljóða og vísað til byggðarráðs.

5.Fagráð - fjallað um og veitt ráðgjöf um einstök mál

Málsnúmer 2107015Vakta málsnúmer

Lögð fram til kynningar 34.fundargerð frá 31. mars 2025

6.Trúnaðarbók félagsmála- og tómstundanefndar 2025

Málsnúmer 2501432Vakta málsnúmer

Eitt mál tekið fyrir og fært í trúnaðarbók.

Fundi slitið - kl. 11:50.