Fara í efni

Landbúnaðarnefnd

3. fundur 15. ágúst 2022 kl. 10:00 - 12:15 að Sæmundargötu 7a
Nefndarmenn
  • Axel Kárason formaður
  • Sigrún Eva Helgadóttir varaform.
  • Jón Sigurjónsson aðalm.
  • Hrólfur Þeyr Hlínarson áheyrnarftr.
Starfsmenn
  • Friðrik Margeir Friðriksson sviðsstjóri stjórnsýslu- og fjármálasviðs
  • Kári Gunnarsson umhverfis- og landbúnaðarfulltrúi
Fundargerð ritaði: Margeir Friðriksson sviðsstjóri stjórnsýslu- og fjármálasviðs
Dagskrá
Í upphafi fundar var samþykkt að taka mál 2208095 á dagskrá með afbrigðum.

1.Fjallskilasjóður Deildardals - Tjón vegna vatnavaxta 2022

Málsnúmer 2207104Vakta málsnúmer

Málið áður á dagskrá 2. fundar landbúnaðarnefndar þann 18. júlí 2022. Fjallskilasjóður Deildardals hefur óskað eftir fjármagni til lagfæringar á vöðum og varnargörðum sem hafa farið illa í vatnavöxtum undanfarinna vikna og einnig í fyrra. Fulltrúar fjallskilasjóðsins Rúnar Páll D. Hreinsson og Sigmundur Jóhannesson komu á fund nefndarinnar undir þessum dagskrárlið til viðræðu.
Landbúnaðarnefnd telur að framlag ársins 2022 til fjallskilasjóðsins dugi fyrir þeim aðgerðum sem þörf er á til að laga vöð og varnargarða. Landbúnaðarnefnd samþykkir að fela Kára Gunnarssyni umhverfis- og landbúnaðarfulltrúa að ræða við minjavörð Norðurlands vestra um þrjár gamlar hlaðnar réttir á svæðinu og vörslu þeirra.

2.Tjón á Unadalsafréttarvegi

Málsnúmer 2208012Vakta málsnúmer

Lagður fram tölvupóstur dagsettur 25. júlí 2022 frá Fjallskilasjóði Hofsóss og Unadals varðandi vegslóða sem þarfnast lagfæringa eftir leysingar á árinu 2021. Óskað er eftir styrk að fjárhæð 755-850 þúsund krónur til viðgerðar á slóðanum.
Landbúnaðarnefnd leggur til við umhverfis- og samgöngunefnd að hún úthluti fjármagni til þessara lagfæringa úr styrkveitingu frá Vegagerðinni vegna styrkvega 2022.

3.Kjör fulltrúa í fjallskilanefnd Hóla- og Viðvíkurhrepps

Málsnúmer 2206180Vakta málsnúmer

Kjör fjallskilanefndar Hóla- og Viðvíkurhrepps, þrír aðalmenn og einn varamaður.
Lögð fram tillaga um:
Víðir Sigurðsson, Kjarvalsstöðum, sem fjallskilastjóra. Bergur Gunnarsson, Narfastöðum og Erlingur Garðarsson, Neðra-Ási, sem aðalmenn.
Til vara: Jóhann Ingi Haraldsson, Ásgeirsbrekku.
Aðrar tillögur komu ekki fram og skoðast þeir því réttkjörnir.
Sigrún Helgadóttir vék af fundi kl. 11:00.

4.Beitarhólf innan þéttbýlis í sveitarfélaginu - þrifabeit

Málsnúmer 2208034Vakta málsnúmer

Innan þéttbýlis í sveitarfélaginu hefur lengi tíðkast að heimila hrossaeigendum að beita ýmis svæði sem annars færu í órækt og óþrif. Mest er um þetta á Sauðárkróki.
Landbúnaðarnefnd ítrekar við þau sem eru með hross á þessum blettum í þéttbýlinu að gæta þess að girðingar séu í lagi svo búpeningur haldist innan þeirra og umgengni um svæðið sé til fyrirmyndar.
Landbúnaðarnefnd samþykkir að fela Kára Gunnarssyni umhverfis- og landbúnaðarfulltrúa að uppfæra kort af þessum svæðum og útbúa skriflega samninga um þau.

5.Hrossabeit á Hofsósi

Málsnúmer 2208008Vakta málsnúmer

Borist hafa aðfinnslur frá íbúum á Hofsósi vegna hrossabeitar innan þéttbýlisins á landi sveitarfélagsins.
Landbúnaðarnefnd ítrekar að það þarf leyfi frá sveitarfélaginu til þess halda búfé innan þéttbýlisstaða. Einnig þarf leyfi til þess að fá bletti innan þéttbýlis til þrifabeitar og góð umgengni og gripaheldar girðingar eru skilyrði.

6.Styrkvegir 2022

Málsnúmer 2201093Vakta málsnúmer

Lagt fram bréf frá Vegagerðinni, dagsett 26. júní 2022 varðandi umsókn sveitarfélagsins um fjárveitingu til styrkvega 2022. Samþykkt var að veita sveitarfélaginu 6.000.000 kr. styrk vegna átta vega. Fjármagninu hefur ekki verið útdeilt á verkefnin en málið er á forræði umhverfis- og samgöngunefndar.
Landbúnaðarnefnd leggur til við umhverfis- og samgöngunefnd að Unadalsvegur, Þúfnavallavegur, Keldudalsvegur, Molduxaskarðsvegur og Kolbeinsdalsvegur fái forgang við úthlutun styrkfjárins.

7.Ábending v lausagöngu búfjár

Málsnúmer 2208077Vakta málsnúmer

Lagt fram bréf sem barst 10. ágúst 2022 frá Kolbrúnu Grétarsdóttur varðandi ábendingu um lausagöngu búfjár í Blönduhlíð fremri. Búpeningur sé of mikið í lausagöngu og hafi verið valdur að bílslysum á Þjóðvegi 1 þar sem hann liggur um Blönduhlíð. Þetta sé verulegt vandamál og telur bréfritari að nú sé komið að því að banna lausagöngu búfjár á vegum í Skagafirði.
Landbúnaðarnefnd skorar á landeigendur að sinna viðhaldi girðinga meðfram þjóðvegum og minnir á að Vegagerðin endurgreiðir kostnað við viðhald veggirðinga sbr. 5. gr. reglugerðar nr. 930/2012.

8.Viðhald skilarétta 2022

Málsnúmer 2203217Vakta málsnúmer

Kári Gunnarsson umhverfis- og landbúnaðarfulltrúi kynnti fyrir nefndarmönnum ástand skilarétta í sveitarfélaginu, viðhaldsþörf þeirra og viðgerðir sem unnið er að.

9.Ársreikningur 2021 - Fjallskilasjóður Deildardals

Málsnúmer 2208095Vakta málsnúmer

Lagður fram til kynningar ársreikningur Fjallskilasjóðs Deildardals fyrir árið 2021.

Fundi slitið - kl. 12:15.