Tillaga um viðbyggingu við Árskóla
Málsnúmer 1203014
Vakta málsnúmerFræðslunefnd Svf. Skagafjarðar - 77. fundur - 14.03.2012
Kynntar voru teikningar að viðbyggingu við Árskóla við Skagafirðingabraut. Fræðslunefnd lýsir ánægju með samþykkt sveitarstjórnar.
Sveitarstjórn Sveitarfélagins Skagafjarðar - 288. fundur - 28.03.2012
Afgreiðsla 77. fundar fræðslunefndar staðfest á 288. fundi sveitarstjórnar með níu atkvæðum.
Stefán Vagn Stefánsson tók til máls og lagði fram eftirfarandi tillögu.
Sveitarstjórn Sveitarfélagsins Skagafjarðar samþykkir að hafnar verði framkvæmdir við viðbyggingu Árskóla á Sauðárkróki. Í fyrsta áfanga verksins verður farið í nýbyggingu ofan á búningsaðstöðu íþróttahúss, sem nemur 960 fm, og viðbyggingu á c-álmu til suðurs sem nemur 450 fm. Nýbyggingar nema því 1410 fm alls.
Endurbætur verða að auki gerðar á núverandi c-álmu og lúta þær að lagfæringum á matsal, eldhúsi, bókasafni, kennaraaðstöðu, tónmenntastofu í kjallara, auk uppbyggingar textílaðstöðu í anddyri íþróttahúss. Endurbætur verða því gerðar innanhúss á núverandi húsnæði sem nemur 1063 fm.
Alls nema nýbyggingar og endurbætur í fyrsta áfanga verksins 2473 fm.
Áætlaður kostnaður við framkvæmdirnar er kr. 480.644.423,- án lóðar en áætlað er að lóðafrágangur norðan húss nemi kr. 37.734.000,- Alls er því áætlað að fyrsti áfangi framkvæmda við Árskóla muni kosta kr. 518.378.423,-
Tillaga þessi er samþykkt með fyrirvara um fjármögnun. Fyrir liggur að Kaupfélag Skagafirðinga hefur boðist til að lána fjármagn til verksins, án vaxta og afborgana á meðan á byggingartíma stendur. Nánari útfærsla lánsfjármögnunar og úttekt á mögulegum fjármögnunarkostum til lengri tíma verður falin sveitarstjóra og byggingarnefnd Árskóla.
Greinargerð
Lengi hefur legið fyrir að aðbúnaði grunnskólabarna og grunnskólastarfsfólks hefur verið ábótavant á Sauðárkróki. Árskóli á Sauðárkróki er í dag starfræktur á tveimur stöðum, þ.e. efra stig í húsnæði við Skagfirðingabraut og neðra stig í eldra húsnæði við Freyjugötu. Það húsnæði er í brýnni þörf fyrir endurbætur sökum leka, lélegrar torfeinangrunar o.fl. og er ekki boðlegur vinnustaður fyrir börn eða starfsmenn eins og þar háttar í dag. Húsnæðið við Freyjugötu var byggt árið 1947 og hefur því þjónað hlutverki sínu í 65 ár. Ljóst er að ráðast þarf í umfangsmiklar endurbætur og viðhald á þessu húsnæði ef það á að uppfylla reglugerð um gerð og búnað grunnskólahúsnæðis og skólalóða, lög um grunnskóla, uppfylla kröfur um aðgengi fyrir fatlaða og þjóna hlutverki sínu sem skólahúsnæði til næstu ára og áratuga. Áætlaður kostnaður við slíkar endurbætur nemur yfir 200 milljónum króna.
Fyrirliggjandi tillögur, ólíkt þeim tillögum sem áður voru, gera ekki ráð fyrir að skerða núverandi íþróttasvæði norðan skólahúss og er með því komið til móts við háværar raddir íbúa sem mótmælt höfðu þeirri fyrirætlan.
Reiknað hefur verið út fjárhagslegt hagræði við að sameina Árskóla á einn stað. Þar ber helst að nefna fækkun stöðugilda, sparnað í akstri og sparnað í rekstrarkostnaði en þessi hagræðing er talin nema að lágmarki 32 milljónum króna á ári hverju. Til samanburðar má geta þess að áætlaðar afborganir vegna fyrirhugaðra framkvæmda nema um 37 milljónum króna á ári. Má því segja að raunkostnaður sveitarfélagsins vegna þeirra sé áætlaður um 5 milljónir króna á ári. Kann hann að vera enn lægri þar sem í áætlunum þessum er ekki tekið tillit til þess að þörf getur skapast til að fjölga bekkjardeildum vegna þess að skólastofur séu of litlar til að rúma bekkjardeildir í samræmi við lög. Þá er ótalinn sá kostnaður sem sveitarfélagið þyrfti að ráðast í á eldri mannvirkjum. Jafnframt má geta faglegs ávinnings við að sameina skólastarf undir einu þaki sem og gjörbreytta vinnuaðstöðu nemenda og starfsfólks Árskóla.
Samkvæmt nýrri úttektarskýrslu Centra Corporate Finance ?Mat á áhrifum viðbyggingar við Árskóla á fjárhag Sveitarfélagsins Skagafjarðar? rúmast framkvæmdin vel innan þeirra marka sem sett eru varðandi skuldaþekju sveitarfélaga, sbr. 64. gr. laga nr. 138/2011 og mun ekki fara yfir þau viðmiðunarmörk sem sett eru í þessum nýju lögum.
Niðurstaða úttektarskýrslu Centra er sú að miðað ?við þær forsendur um kostnað og fjármögnun sem framkvæmdin byggir á, auk þess rekstrarhagræðis sem af henni hlýst, er viðbygging við Árskóla mun hagfelldari fyrir sveitarfélagið og mun hafa jákvæð áhrif á fjárhag sveitarfélagsins?.
Stefán Vagn Stefánsson
Bjarni Jónsson
Jón Magnússon
Sigríður Magnúsdóttir
Bjarki Tryggvason
Viggó Jónsson
Sigríður Svavarsdóttir
Jón Magnússon og Sigurjón Þórðarson kvöddu sér hljóðs.
Þorsteinn Tómas Broddason tók til máls og lagði fram eftirfarandi bókun.
Tillaga meirihluta Sveitarstjórnar með stuðningi sjálfstæðismanna um viðbyggingu Árskóla virðist hvorki vera með velferð barna í fyrirrúmi eða innibera hagræðingu fyrir sveitarfélagið. Kostnaður við rekstur skólans mun aukast við þessa framkvæmd og ekki stendur til að aðlaga skólalóðina að þörfum yngstu nemendanna. Rekstur sveitarfélagsins á árinu 2011 var mjög slæmur og lítið sem ekkert hefur verið gert til að laga hann á árinu 2012. Viðbygging Árskóla er ekki til þess fallin að lækka kostnað sveitarfélagsins. Tillögur um viðbyggingu Árskóla eru því mjög óábyrgar og ætti að endurskoða áður en ákvörðun er tekin um framkvæmdir. Ég greiði því atkvæði gegn framkomnum tillögum um viðbyggingu við Árskóla.
Bjarki Tryggvason kvaddi sér hljóðs.
Sigurjón Þórðarson, fulltrúi Frjálslyndra og óháðra, tók til máls og óskar að bókað verði.
Eðlilegt er að fresta afgreiðslu málsins og hafa kynningu á kostnaðarsömum framkvæmdum sem snerta alla íbúa sveitarfélagsins. Algjört lágmark er að kynna fyrir íbúum teikningar af fyrirhuguðum framkvæmdum þó að það væri ekki gert með öðrum hætti en með því að setja teikningar af viðbyggingu á heimasíðu sveitarfélagsins.
Ljóst er að framkvæmdirnar kalla á mun meiri kostnað en tiltekinn er í áætlunum s.s. við endurbætur á skólahúsnæði við Freyjugötu og Árvistinni. Fjárhagslegar forsendur byggingaframkvæmdanna, hvíla á hagræðingaraðgerðum sem voru boðaðar frá því að núverandi meirihluti tók við völdum en ekkert bólar enn á.
Viggó Jónsson tók til máls, þá Þorsteinn Tómas Broddason, Bjarni Jónsson, með leyfi forseta, Þorsteinn Tómas Broddason, Stefán Vagn Stefánsson og Sigurjón Þórðarson.
Tillagan var borin undir atkvæði og samþykkt með sjö atkvæðum gegn tveimur.