Fara í efni

Viðauki við fjárhagsáætlun 2012 - 31090 Nýframkv. v. Árskóla

Málsnúmer 1208096

Vakta málsnúmer

Byggðarráð Svf. Skagafjarðar - 600. fundur - 22.08.2012

Viðauki við fjárhagsáætlun 2012 vegna viðbyggingar við Árskóla, hönnun og framkvæmdir. Gerð er tillaga til sveitarstjórnar um að hækka fjárfestingarlið eignasjóðs um 170.000.000 kr. og útgjöldunum verði mætt með nýrri lántöku.
Byggðarráð samþykkir að vísa tillögunni til afgreiðslu í sveitarstjórn.

Sveitarstjórn Sveitarfélagins Skagafjarðar - 292. fundur - 29.08.2012

Forseti sveitarstjórnar lagði til að þessum lið fundargerðarinnar yrði vísað til afgreiðslu 2. liðar á dagskrá.
Samþykkt samhljóða.
Afgreiðsla 600. fundar byggðaráðs staðfest á 292. fundi sveitarstjórnar með níu atkvæðum.

Sveitarstjórn Sveitarfélagins Skagafjarðar - 292. fundur - 29.08.2012

Tillögu um viðauka við fjárhagsáætlun 2012 vegna viðbyggingar við Árskóla, hönnun og framkvæmdir vísað frá 600. fundi byggðarráðs til afgreiðslu sveitarstjórnar.

Stefán Vagn Stefánsson leggur fram tillögu um að hækka fjárfestingarlið eignasjóðs um 170.000.000 kr. vegna viðbyggingar við Árskóla og útgjöldunum verði mætt með nýrri lántöku í samræmi við þriggja ára áætlun.

Til máls tóku Þorsteinn T. Broddason sem leggur fram eftirfarandi bókun:

"Óreiðan sem meirihluti Framsóknarflokksins og Vinstri grænna býður uppá í stjórnsýslu sveitarfélagsins er algjörlega óásættanleg. Hér sést enn og aftur einbeittur vilji þeirra til að halda málefnum sveitarfélagsins utan við alla eðlilega umræðu og ákvarðanatöku í sveitarstjórn. Framkvæmdir þær sem hér er verið að óska eftir að verði fjármagnaðar af sveitarstjórn eru nú þegar hafnar og væntanlega er búið að skuldbinda sveitarsjóð án aðkomu sveitarstjórnar. Ekki fæst betur séð en að þessi framvinda málsins sé í ósamræmi við 63. grein sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011 þar sem fjallað er um fjármál sveitarfélaga. Viðauki sá sem hér er til umræðu og samþykktar ber einnig það með sér að þetta mál sé einhverskonar einkamál nokkurra einstaklinga í sveitarstjórn. Engin útfærsla fylgir með tillögunni að lántökunni og svörin sem fengist hafa eru að ekki sé búið að ganga frá fjármögnun verksins. Í framhaldi af þessu máli verður leitað álits á lögmæti þessa verknaðar hjá Innanríkisráðuneyti í samræmi við 112. grein fyrrnefndra laga. Í ljósi þessa greiði ég atkvæði gegn þessum viðauka við fjárhagsáætlun 2012."

Næst tóku til máls Sigurjón Þórðarson og Stefán Vagn Stefánsson sem leggur fram svohljóðandi bókun:

"Á fundi sínum 7. mars 2012 ákvað sveitarstjórn Sveitarfélagsins Skagafjarðar að hafnar yrðu framkvæmdir við viðbyggingu og endurbætur á Árskóla. Á sama fundi var þriggja ára áætlun sveitarfélagsins samþykkt, í þeirri áætlun var fjárhagsáætlun fyrir árið 2012 leiðrétt og breytt með tilliti til framkvæmdarinnar til að sjá fjárhagsleg áhrif á fjárhagstöðu sveitarfélagsins til lengri tíma. Samþykkt var frumkostnaðaráætlun upp á rúmar 518 milljónir króna. Tillaga þessi var samþykkt með fyrirvara um fjármögnun. Fyrir liggur að Kaupfélag Skagfirðinga hefur boðist til að lána fjármagn til verksins, án vaxta og afborgana á meðan á byggingartíma stendur. Á þeim fundi var einnig nánari útfærsla lánsfjármögnunar og úttekt á mögulegum fjármögnunarkostum til lengri tíma falin sveitarstjóra og bygginganefnd Árskóla. Einnig hafa fleiri aðilar sýnt fjármögnun verksins áhuga.
Ýmis gögn og teikningar er málið varða hafa verið kynnt í byggðarráði. Öll gögn eru aðgengileg öllum sveitarstjórnarfulltrúum jafnóðum og þau hafa lagst til hjá tæknideild sveitarfélagsins og hafa verið allan tíman. Hvorki fulltrúi samfylkingarinnar né fulltrúi Frjálslyndra og óháðra hafa leitað eftir upplýsingum hjá sviðsstjóra umhverfis- og tæknisviðs vegna málsins.
Við samþykkt þriggja ára áætlunar lá ljóst fyrir að gera þyrfti viðauka við fjárhagsáætlun 2012. Ekki lá fyrir hvaða upphæð þyrfti að koma fram í viðauka, fyrr en gengið hafði verið frá kostnaðaráætlun um áætlaðar framkvæmdir á árinu 2012, en það lá ekki fyrir fyrr en í lok júlí 2012. Álit um hvernig framkvæma skuli samþykkt viðauka við fjárhagsáætlun sveitarfélaga barst til sveitarfélagsins frá innanríkisráðuneyti þann 22. ágúst s.l. og liggur fyrir næsta byggðarráðsfundi. Vegna sumarleyfa sveitarstjórnar var ekki hægt að taka viðaukann til umfjöllunar fyrr. Viðaukinn hljóðar upp á 170 mkr. og er töluvert lægri en samþykkt var með þriggja ára áætlun 7. mars 2012.
Búið er að fjalla um framkvæmdir við Árskóla á yfir 20 sveitarstjórnar- og byggðarráðsfundum.
Bjarni Jónsson
Stefán Vagn Stefánsson
Sigríður Magnúsdóttir
Bjarki Tryggvason
Viggó Jónsson"

Næst tóku til máls Sigríður Svavarsdóttir, Sigurjón Þórðarson sem leggur fram bókun:

"Það er ljóst að málið hefur fengið mjög óeðlilega málsmeðferð, þar sem mikilvægum gögnum hefur verið leynt fyrir kjörnum fulltrúum. Sömuleiðis er staðreyndin sú að fjárhagslegar forsendur sem gengið var út frá, þegar ákveðið var að fara í framkvæmdirnar eru brostnar. Hallarekstur ársins
2011 var tvöfalt meiri en áætlanir gerðu ráð fyrir og rekstrarniðurstöður fyrstu 7 mánuði ársins 2012 gefa til kynna að hallinn verði margfalt meiri í ár en áætlun gerði ráð fyrir. Óverjandi er að afgreiða málið, áður en að kjörnum fulltrúum gefst kostur á að kynna sér öll gögn sem varða málið s.s. fjármögnun og verkáætlun."

Þorsteinn T. Broddason kom næstur í pontu og fleiri ekki.

Forseti bar tillöguna upp og var hún samþykkt með sjó akvæðum gegn atkvæði Þorsteins T. Broddasonar fulltrúa Samfylkingar. Sigurjón Þórðarson fulltrúi Frjálslyndra og óháðra situr hjá við atkvæðagreiðsluna.