Fara í efni

Íþróttavöllurinn á Sauðárkróki

Málsnúmer 1302044

Vakta málsnúmer

Félags- og tómstundanefnd Svf. Skagafjarðar - 192. fundur - 12.02.2013

Lagt fram bréf Ungmennafélagsins Tindastóls dags. 5. febrúar 2013 varðandi ósk knattspyrnudeildar að taka að sér umsjón og rekstur íþróttavallarins á Sauðárkróki. Sviðsstjóra og umsjónarmanni íþróttamannvirkja falið að skoða málið sem verði tekið fyrir á fundi nefndarinnar að nýju.

Sveitarstjórn Sveitarfélagins Skagafjarðar - 298. fundur - 20.02.2013

Afgreiðsla 192. fundar félags- og tómstundanefndar staðfest á 298. fundi sveitarstjórnar með níu atkvæðum.

Félags- og tómstundanefnd Svf. Skagafjarðar - 196. fundur - 29.05.2013

Fyrir fundinum liggja drög að samningi milli sveitarfélagsins annarsvegar og knattspyrnudeildar Tindastóls varðandi umsjón íþróttavallarins.
Þorsteinn Broddason hefur í tölvupósti gert svofelldar athugasemdir:
"Samningurinn sem svo mikið kapp er lagt á að samþykkja hefur ekki verið kynntur frjálsíþróttadeild Tindastóls eða UMSS, sem nýta þennan völl til æfinga og keppni. Það er ljóst að þessir tveir aðilar hafa hagsmuna að gæta þegar kemur að fyrirkomulagi rekstrar á Sauðárkróksvelli eins og kemur fram í þessum drögum að samningi. Það þætti mér því eðlilegt að samningurinn væri borinn undir þessa aðila og þeim gefinn kostur á að koma með athugasemdir ef einhverjar eru áður en Sveitarfélagið Skagafjörður skuldbindur sig með undirritun samningsins.

Eins þætti mér eðlilegt í ljósi ástands vallarins og ákvæðum annarar málsgreinar 6 gr samningsins, að gerður yrði viðauki við þennan samning sem tæki á því hvernig á að koma vellinum í viðunandi horf, hversu mikið það kostar og hvernig það verður fjármagnað.

Bjarki Tryggvason óskar bókað: "Þegar við ræddum þennan samning á sínum tíma í félags- og tómstundanefnd þá ræddum við um það að frjálsíþróttadeildin yrði að vera samþykk þessum samningi. Fram kemur í pósti formanns frjálsíþróttadeildar UMFT, Sigurjóns Leifssonar, dags. 23. apríl 2013 að frjálsíþróttadeildin sjái ekkert athugavert við samningsdrögin og sé sátt við þau. Það hefur því þegar verið gengið úr skugga um að málið hefur hlotið viðunandi kynningu innan íþróttahreyfingarinnar.

Varðandi seinni hluta athugasemdanna þá er það sérstakt mál sem þarf aðra umfjöllun og breytir ekki þeim verkþáttum eða fjárhæðum sem hér er samið um.

Einnig er bent á að skv. samningnum hefur umsjónarmaður íþróttamannvirkja eftirlit með framkvæmd samningsins og annarri vinnu á vellinum hér eftir sem hingað til.

Félags- og tómstundanefnd samþykkir samninginn og vísar honum til Byggðarráðs

Framkvæmdaráð Skagafjarðar - 125. fundur - 03.06.2013

Lagt fram til kynningar samningur við Knd Tindastóls um umsjón á Sauðárkróksvelli.
Til kynningar

Byggðarráð Svf. Skagafjarðar - 626. fundur - 06.06.2013

Stefán Vagn Stefánsson vék af fundi undir afgreiðslu þessa dagskrárliðar.
Samningi um umsjón Sauðárkróksvallar milli sveitarfélagsins og knattspyrnudeildar Umf. Tindastóls vísað til byggðarráðs frá 196. fundi félags- og tómstundanefndar.
Byggðarráð samþykkir fyrirliggjandi samning með fyrirvara um samþykki og undirritun aðalstjórnar Umf. Tindastóls. Gildistími samningsins er til 30. september 2013.

Þorsteinn Broddason gerir svohljóðandi bókun:
Samningur sá er hér um ræðir hefur ekki farið í formlega kynningu hjá þeim hagsmunaaðilum sem nýta íþróttavöllinn ásamt knattspyrnudeildinni. Það er lágmarks kurteisi við þá sem nýta mannvirki sveitarfélagsins að kynna fyrir þeim breytingar á umsjón þeirra. Völlurinn er í verulega slæmu ástandi og skýrsla Knattspyrnusambands Íslands (KSÍ) um ástandið og aðgerðir til að koma vellinum í nothæft ástand verða bæði kostnaðarsamar og tímafrekar. Það er því undarlegt að ekki sé gerður viðauki við þennan samning sem tekur á þeirri framkvæmd. Í meðförum byggðarráðs hefur samningnum verið breytt frá því sem samþykkt var í Félags- og tómstundanefnd sem væntanlega verður til kostnaðarauka fyrir málaflokkinn. Eðlilegt væri því að samningurinn færi aftur til umræðu í nefndinni áður en skrifað er undir hann.

Sveitarstjórn Sveitarfélagins Skagafjarðar - 303. fundur - 20.06.2013

Stefán Vagn Stefánsson óskar bókað að hann taki ekki þátt í afgreiðslu málsins.

Þorsteinn Tómas Broddason kvaddi sér hljóðs og lagði fram eftirfarandi bókun.
"Samningar eins og sá sem gerður hefur verið við knattspyrnudeild Tindastóls geta verið mjög góðir og hagkvæmir fyrir báða aðila. Vinnubrögðin við gerð þessa samnings eru þó fyrir neðan allar hellur þar sem samningurinn hefur ekki verið kynntur öðrum hagsmunaaðilum og samningnum var breytt í meðförum byggðarráðs, væntanlega til kostnaðarauka fyrir málaflokkinn án þess að þeim kostnaði sé mætt af byggðarráðs hálfu. Ég samþykki því ekki þennan samning."
Þorsteinn Tómas óskar bókað að hann taki ekki þátt í afgreiðslu málsins.

Afgreiðsla 626. fundar byggðaráðs staðfest á 303. fundi sveitarstjórnar með sjö atkvæðum.

Sveitarstjórn Sveitarfélagins Skagafjarðar - 303. fundur - 20.06.2013

Afgreiðsla 196. fundar félags- og tómstundanefndar staðfest á 303. fundi sveitarstjórnar með átta atkvæðum. Þorsteinn Tómas Broddason óskar bókað að hann greiði atkvæði á móti samþykkt fundargerðarinnar.