Fara í efni

Fjárhagsáætlun 2017-2020

Málsnúmer 1608164

Vakta málsnúmer

Byggðarráð Svf. Skagafjarðar - 757. fundur - 15.09.2016

Lagðar fram forsendur fyrir vinnslu fjárhagsáætlunar 2017.
Byggðarráð samþykkir að fela sveitarstjóra og sviðsstjóra stjórnsýslu- og fjármálasviðs að vinna áfram að ramma fjárhagsáætlunar 2017.

Byggðarráð Svf. Skagafjarðar - 759. fundur - 06.10.2016

Lögð fram drög að ramma að fjárhagsáætlun ársins 2017.

Byggðarráð samþykkir fyrirliggjandi drög og vísar þeim til viðkomandi nefnda til frekari vinnslu.

Sveitarstjórn Sveitarfélagins Skagafjarðar - 347. fundur - 26.10.2016

Fjárhagsáætlun Sveitarfélagsins Skagafjarðar og stofnana þess fyrir árin 2017-2020 lögð fram til fyrri umræðu. Forseti gerir tillögu um að vísa fjárhagsáætlun 2017-2020 til nefnda og síðari umræðu í sveitarstjórn.

Byggðarráð Svf. Skagafjarðar - 764. fundur - 17.11.2016

Farið yfir vinnugögn vegna fjárhagsáætlunar 2017-2020.

Byggðarráð Svf. Skagafjarðar - 765. fundur - 24.11.2016

Vinnufundur vegna gerðar fjárhagsáætlunar. Á fundinn komu formenn nefnda, nefndarmenn, sviðsstjórar og starfsmenn til viðræðu.

Byggðarráð Svf. Skagafjarðar - 766. fundur - 01.12.2016

Farið yfir drög að fjárhagsáætlun fyrir árið 2017, nýframkvæmdir og viðhald.

Byggðarráð Svf. Skagafjarðar - 767. fundur - 08.12.2016

Unnið að fjárhagsáætlun. Á fundinn kom undir þessum dagskrárlið Indriði Þ. Einarsson sviðsstjóri veitu- og framkvæmdasviðs.

Byggðarráð Svf. Skagafjarðar - 768. fundur - 12.12.2016

Lögð fram fjárhagsáætlun fyrir árin 2017-2021.

Byggðarráð samþykkir með tveimur atkvæðum að vísa fjárhagsáætluninni til síðari umræðu í sveitarstjórn. Fulltrúi Vg og óháðra, Bjarni Jónsson situr hjá við afgreiðsluna.

Sveitarstjórn Sveitarfélagins Skagafjarðar - 349. fundur - 14.12.2016

Ásta Björg Pálmadóttir sveitarstjóri kynnti fjárhagáætlun sveitarfélagsins.



Fjárhagsáætlun Sveitarfélagsins Skagafjarðar fyrir árin 2017- 2020 er lögð fram til seinni umræðu. Fjárhagsáætlunin sýnir rekstraráætlun, sjóðsstreymi og áætlaðan efnahagsreikning fyrir sveitarfélagið og stofnanir þess.



Forsendur fjárhagsáætlunar Sveitarfélagsins Skagafjarðar 2017 og þriggja ára áætlunar 2018-2020 byggja meðal annars á þjóðhagsspá Hagstofu Íslands varðandi verðlags- og launaþróun næstu ára.



Áætlun ársins 2017 gerir ráð fyrir að rekstrartekjur Sveitarfélagsins Skagafjarðar nemi 4.856 m.kr. hjá samstæðunni í heild, A- og B hluta, þar af eru rekstrartekjur A- hluta áætlaðar 4.271 m.kr.



Rekstrargjöld án fjármagnsliða eru áætluð 4.478 m.kr., þ.a. A hluti 4.091 m.kr. Rekstrarafgangur A og B hluta án afskrifta og fjármagnsliða er áætlaður 580 m.kr, afskriftir nema 201 m.kr. og fjármagnsgjöld umfram fjármunatekjur nema 299 m.kr., rekstrarniðurstaða samstæðunnar í heild A og B hluta er áætluð jákvæð samtals með 79 m.kr. í rekstrarafgang.

Rekstrarafgangur A hluta án afskrifta og fjármagnsliða er 292 m.kr, afskriftir nema 111 m.kr., fjármagnsgjöld umfram fjármunatekjur nema 229 m.kr. Rekstrarniðurstaða A hluta sveitarsjóðs er því áætluð neikvæð um 48 m.kr.



Eignir Sveitarfélagsins Skagafjarðar eru áætlaðar í árslok 2017, 8.080 m.kr., þ.a. eignir A hluta 6.654 m.kr. Skuldir og skuldbindingar eru áætlaðar í árslok 6.238 m.kr., þ.a. hjá A hluta 5.773 m.kr. Eigið fé er áætlað 1.842 m.kr hjá samstæðunni og eiginfjárhlutfall því 0,22. Eigið fé A hluta er áætlað 881 m.kr. og eiginfjárhlutfall 0,15.

Ný lántaka er áætluð 470 m.kr. hjá samstæðunni í heild og að afborganir eldri lána og skuldbindinga verði um 338 m.kr. Reiknaðar lífeyrisskuldbindingar eru 1.148 m.kr. hjá samstæðu, þar af 1.053 m.kr. hjá A-hluta. Skuldahlutfall samstæðunnar er áætlað 128% og skuldaviðmið 108%.



Áætlunin gerir ráð fyrir að veltufé frá rekstri A - hluta verði 170 m.kr., og veltufé frá rekstri samstæðunnar A og B hluta verði samtals 394 m.kr. Þá er gert er ráð fyrir að handbært fé í árslok verði 143 m.kr. hjá samstæðunni í heild.



Bjarni Jónsson kvaddi sér hljóðs og lagði fram eftirfarandi bókun:



Í aðdraganda síðustu sveitarstjórnarkosninga lagði Framsóknarflokkurinn í Skagafirði mikla áherslu á hve góðan aðgang hann hefði að ríkisvaldinu, hefði 4 þingmenn í kjördæminu og ráðherra sem myndu verða sverð og skjöldur til uppbyggingar og varnar þjónustu í héraðinu. Það urðu margir til að trúa þessu og Framsókn fékk hreinan meirihluta í sveitarstjórn. Fólk óttaðist um framtíð Heilbrigðisstofnunarinnar á Sauðárkróki og að vegið yrði að sjálfstæði hennar, takmarkað fé fengist í samgöngubætur og opinberum störfum myndi halda áfram að fækka ef Framsókn réði ekki ferðinni í sveitarstjórninni. Sjálfstæðisflokkurinn var fenginn með í meirihluta, þar sem hann ræður litlu sem engu, með það að ætlan að styrkja stöðu héraðsins enn frekar gagnvart velvilja og fyrirgreiðslu ríkisstjórnar Framsóknar og Sjálfstæðisflokks.



Þó friðsæld hafi verið yfir bæði héraðinu og sveitarstjórninni og sveitarstjóri og starfsfólk sveitarfélagsins rækt verkefni sín af festu og alúð, eru mörgum mikil vonbrigði hversu hart Skagafjörður er leikinn af núverandi stjórnvöldum. Þau vonbrigði hljóta að ná inn í raðir sveitarstjórnarmanna stjórnarflokkanna, sem margir hverjir hafa lag hart að sér, en ekki notið þess velvilja og áhrifa sem þeir vonuðust eftir. Heilbrigðisstofnunin á Sauðárkróki var lögð niður sem sjálfstæð stofnun nokkrum vikum eftir síðustu sveitarstjórnarkosningar, opinberum störfum hefur haldið áfram að fækka í héraðinu, Skagafjörður eða landshlutinn kemst vart á blað í samgönguáætlunum stjórnvalda og vegabótum er vart sinnt. Óvissa ríkir áfram um framtíð Hólaskóla og ráðuneyti Framsóknarflokksins stendur fyrir stöðugum niðurskurði á byggðakvóta til Sauðárkróks og Hofsós og skeytir lítt um mótmæli heimafólks. Lærdómurinn er sá að rekstur erinda héraðsins út á við á flokkspólitískum grunni eins og boðað var fyrir síðustu sveitarstjórnarkosningar og að treysta á velvild flokksfélaga á stóra sviðinu skilar ekki endilega árangri. Það að fulltrúar mismunandi framboða sem aðild eiga að sveitarstjórn komi fyrr og sameiginlega að því að tala fyrir og fylgja eftir hagsmunamálum héraðsins gagnvart stjórnvöldum og stjórnsýslu ráðuneyta og stofnanna, óháð því hverjir fara með landstjórnina, er sú leið sem er vænlegri fyrir sveitarfélagið Skagafjörð til lengri tíma litið.



Um margt hefur verið að ganga vel í Skagfirsku samfélagi, uppbygging og gott atvinnuástand. Sveitarsjóður nýtur góðs af því í gegnum skatta og gjöld. Annað hefur verið mótdrægt eins og fækkun opinberra starfa og viðskiptabann ráðherra Framsóknarflokksins og ESB gagnvart Rússlandi, sem hefur bitnað á FISK Seafood, Kjötafurðastöð KS, Sjávarleðri og fleirum. Slíkar aðgerðir hafa óhjákvæmilega áhrif á skatttekjur og afkomu sveitarfélagsins.



Sveitarstjórn hefur verið samstíga um flest er tengist fjárhagsáætlunarvinnunni, að sumu hefur minnihlutinn komið að frá upphafi, öðru ekki eða á síðari stigum. Til þess að eiga fulla aðild að ákvarðanatöku þarf hins vegar að vera aðkoma að málum á öllu stigum. Ráðist var í umfangsmiklar hagræðingaraðgerðir árið 2012 sem öll sveitarstjórn stóð sameiginlega að. Skiluðu þær aðgerðir umtalsverðum árangri fyrir rekstur sveitarfélagsins og stofnanna þess, án þess að dregið væri úr þjónustu eða auknar álögur settar á íbúa. Sveitarfélagið býr enn af þessari vinnu. Ljóst er af framlagðri fjárhagsáætlun ársins 2017, að aftur þarf að taka upp þráðinn varðandi bættan rekstur sveitarfélagsins, því viðvarandi rekstrarhalli eða skuldasöfnun er óviðunandi. Á heildina litið er enn fylgt stefnumörkun meirihluta síðustu sveitarstjórnar sem kynnt var við upphaf kjörtímabilsins 2010-2014 m.a um þjónustu, framkvæmdir og uppbyggingu innviða og er það vel. Nýr meirihluti sveitarstjórnar hefur hins vegar ekki enn, nú þegar kjörtímabilið er hálfnað, kynnt stefnumörkun sína fyrir sveitarfélagið eða sett fram heildstæða stefnu um forgangsverkefni og áherslur á yfirstandandi kjörtímabili.

VG og óháðir leggja áherslu á að sveitarfélagið bjóði upp á góða og ódýra þjónustu við börn og barnafólk og standa því til að mynda ekki að þeim gjaldskrárhækkunum sem meirihlutinn leggur til á leikskólagjöldum og því að velta meiri kostnaði yfir á þær fjölskyldur sem þurfa á þjónustu dagmæðra að halda. Flöt 5,5% gjaldskrárhækkun á flestum liðum ber ekki sérstakri stefnumörkun vitni, svo sem í þágu barna og óskýrt er á hvað grunni sú prósenta byggir.



Fjárhagsáætlunarvinnan hefur að mestu leyti verið í höndum sveitarstjóra og fjármálastjóra ásamt sviðstjórum og forsvarsfólki einstakra rekstrareininga sveitarfélagsins. Vinnsla áætlana og eftirfylgni hefur í tíð núverandi sveitarstjóra tekið stakkaskiptum og orðið vandaðri og markvissari og er ástæða til að færa henni og fjármálastjóra sérstakar þakkir fyrir góða vinnu og öðru starfsfólki sveitarfélagsins sömuleiðis fyrir gott verk við vinnslu fjárhagsáætlunar.



Fyrir hönd VG og óháðra situr undirritaður hjá við afgreiðslu fjárhagsáætlunar ársins 2017.



Bjarni Jónsson, VG og óháðir





Sigurjón Þórðarson tók til máls og lagði fram bókun svohljóðandi:



Fyrir hönd K- listans vil ég færa starfsfólki Sveitarfélagsins Skagafjarðar þakkir fyrir góða vinnu við fjárhagsáætlun næsta árs.

Ég mun ekki greiða atkvæði með fjárhagáætluninni og vegur þar þyngst einkennileg forgangsröðun framkvæmdaáætlunar, auk þess sem lítið samráð hefur verið haft við fulltrúa minnihlutans, sem og aðra íbúa sveitarfélagsins, um veigamikil mál.

Einkennilegt hlýtur að teljast að í áætluninni sé liður upp á 80 milljóna króna fjárfestingu í húseignunum að Aðalgötu 21 og 21a sem eru enn í eigu Kaupfélags Skagfirðinga. Byggðarráð samþykkti sl. sumar að fara í makaskipti á núverandi Minjahúsi sem er heilleg bygging og áður nefndum illa förnum byggingum sem þarfnast nánast endurbyggingar. Sú samþykkt var gerð með þeim fyrirvara að gerður yrði samningur um makaskiptin þar sem verðmæti og viðhaldsþörf eignanna yrði metin, auk þess sem farið yrði í stefnumótunarvinnu varðandi framtíðarskipulag og nýtingu húsnæðisins.

Ekki liggur enn fyrir neinn samningur um makaskiptin, hvað þá heildstætt kostnaðarmat á ráðgerðum framkvæmdum. Líklegt er að 80 milljón krónurnar sem fyrirhugað er að setja í verkið á næsta ári verði aðeins lítið brot af kostnaði þegar upp verður staðið.

Á meðan hvorki liggur fyrir samningur um makaskipti né framkvæmdaáætlun um verkið er fullkomlega óábyrgt að samþykkja fjárhagsáætlunina.

Sigurjón Þórðarson



Ásta Björg Pálmadóttir sveitarstjóri kvaddi sér hljóðs, þá Sigurjón Þórðarson, Ásta Björg Pálmadóttir, Stefán Vagn Stefánsson.



Stefán Vagn Stefánsson tók aftur til máls og lagði fram eftirfarandi bókun:



Það er gleðilegt að leggja fram fjárhagsáætlun fyrir árið 2017, þar sem gert er ráð fyrir rekstrarafgangi af samstæðureikningi sveitarsjóðs að upphæð 580 milljónum fyrir afskriftir og fjármagnsliði. Rekstrarafgangur samstæðunnar í heild A- og B hluta er áætlaður samtals 79 milljónir. Ef áætlanir ganga eftir og árið 2017 verður gert upp með slíkri afkomu, hefur sveitarsjóður verið rekinn með hagnaði í 5 ár af síðustu 6 árum, sem er fordæmalaus árangur í sögu sveitarfélagsins.

Óhætt er að segja að ákveðinn stöðugleiki hafi náðst í rekstrinum og ber að þakka það ábyrgri fjármálastjórn og aðhaldi í rekstri undanfarinna ára. Einnig ber að þakka starfsmönnum sveitarfélagsins en ljóst er að án samstillts átaks þeirra hefði þessi árangur ekki náðst, líkt og rekstur undanfarinna ára ber með sér sem og sú áætlun sem lögð er fram nú.

Mikilvægt er að áfram verði haldið á þeirri braut sem mörkuð hefur verið á undanförnum árum og að áfram verði gætt aðhalds í rekstri. Ljóst er að það tap sem verið hefur á A-hluta sveitarsjóðs undanfarin ár þarf að leiðrétta á komandi árum. Sú áætlun sem lögð er fram hér í dag ber þess glöggt merki að stór skref eru stigin í þá átt, en gert er ráð fyrir að A-hluti sveitarsjóðs verði rekinn með 48 milljón króna halla árið 2017 samanborið við 109 milljón króna halla í áætlun ársins 2016. Rekstrarniðurstaða A-hluta ársins 2015 var 176 milljónir í halla. Því ber jafnframt að halda til haga að ef frumvarp um jöfnun lífeyrisréttinda (frumvarp um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins lagt fram á 146. löggjafarþingi 12. desember 2016) verður samþykkt á Alþingi fyrir áramót, eins og áætlanir gera ráð fyrir, mun fjárhagsáætlun fyrir árið 2017 breytast og rekstrarafkoma sveitarsjóðs batna um 60 milljónir. Þá mun áætlun A-hluta sveitarsjóðs jafnframt sýna jákvæða niðurstöðu og rekstrarafgang.

Í fjárhagsáætlun fyrir árið 2017 er miðað við að þar sem gjaldskrár eru hækkaðar, yrðu þær hækkanir hófstilltar. Var að jafnaði miðað við 5.5% hækkun en hækkun launavísitölu hefur verið um 11,1% samkvæmt þjóðhagsspá Hagstofu Íslands. Sveitarfélagið Skagafjörður verður áfram með einhver lægstu gjöld í leik- og grunnskólum landsins og orkukostnaður verður jafnramt áfram hvað lægstur á íbúa í Skagafirði sé litið til samanburðar við landið allt. Þá er í allri uppbyggingu miðað við að þjónusta við íbúa héraðsins sé í fremstu röð. Afar mikilvægt er að hafa þau markmið uppi þegar framtíðaruppbygging svæðisins er höfð í huga. Hefur þessi stefna undanfarinna ára m.a. skilað því að nú er fyrirhuguð uppbygging á um 35 íbúðum á Sauðárkróki sem er langtum meira en á undanförnum áratug. Afar mikilvægt er að þannig sé haldið á málum að eftirsóknarvert sé að búa í Skagafirði og er þetta merki um að svo sé. Frá þeirri stefnu má aldrei kvika.



Gert er ráð fyrir að veltufé frá rekstri samstæðunnar verði rúmar 394 milljónir á árinu og að framkvæmt verði fyrir 442 milljónir. Stærstu fjárfestingaverkefnin á næsta ári verða framkvæmdir við Sundlaug Sauðárkróks og hitaveituframkvæmdir í Lýtingstaðahreppi.

Samkvæmt sveitarstjórnarlögum nr.138/2011 má skuldahlutfall sveitarsjóðs ekki fara yfir 150% af tekjum. Gerir fjárhagsáætlun ársins 2017 ráð fyrir því að skuldahlutfallið verði 128%, sem er lægsta skuldahlutfall frá stofnun sveitarfélagsins. Þegar búið er að draga frá lífeyrisskuldbindingu að hluta og skuldir orku- og veitufélaga, líkt og lögin gera ráð fyrir, er skuldaviðmið samstæðunnar um 108,5% sem er langt innan allra marka laganna, þrátt fyrir miklar framkvæmdir og uppbyggingu í sveitarfélaginu á undanförnum árum.

Sú áætlun sem lögð er fram nú var unnin í samvinnu allra flokka, bæði í fagnefndum sveitarfélagsins og í byggðarráði sem er mikilvægt og ber að þakka fyrir þá vinnu. Samvinna skilar árangri.

Með slíkar kennitölur í rekstri er ljóst að áfram er hægt að halda á þeirri braut sem mörkuð hefur verið til hagsældar og uppbyggingar innviða sveitarfélagsins.

Við óskum íbúum Sveitarfélagsins Skagafjarðar til hamingju með þá áætlun sem hér er lögð fram og óskum þeim öllum gleðilegra jóla og farsældar á komandi ári.



Stefán Vagn Stefánsson

Sigríður Svavarsdóttir

Sigríður Magnúsdóttir

Gunnsteinn Björnsson

Bjarki Tryggvason

Viggó Jónsson

Þórdís Friðbjörnsdóttir





Sigurjón Þórðarson kvaddi sér hljóðs, þá Bjarni Jónsson og Stefán Vagn Stefánsson.



Fjárhagsáætlun 2017-2020 borin upp til afgreiðslu og samþykkt með sjö atkvæðum, Bjarni Jónsson og Sigurjón Þórðarson óska bókað að þeir sitji hjá við atkvæðagreiðsluna.











Byggðarráð Svf. Skagafjarðar - 800. fundur - 16.11.2017

Lögð fram til kynningar útkomuspá rekstrar sveitarfélagsins á árinu 2017.