Fara í efni

Fjárhagsáætlun 2019-2023

Málsnúmer 1806288

Vakta málsnúmer

Byggðarráð Svf. Skagafjarðar - 837. fundur - 13.09.2018

Lagður fram fjárhagsrammi fyrir fjárhagsáætlun ársins 2019 fyrir A og B hluta samstæðu Sveitarfélagsins Skagafjarðar. Gert er ráð fyrir að A-hluti sýni rekstrarafgang að fjárhæð 634 þús.kr. í árslok 2019 og samstæðan í heild 110.561 þús.kr.
Byggðarráð samþykkir framlagðan fjárhagsramma og vísar honum til afgreiðslu sveitarstjórnar og umfjöllunar í nefndum.

Byggðarráð samþykkir einnig að fyrri umræða um fjárhagsáætlun 2019-2023 fari fram í sveitarstjórn þann 17. október 2018 og sú síðari þann 12. desember 2018.

Sveitarstjórn Sveitarfélagins Skagafjarðar - 373. fundur - 19.09.2018

Vísað frá 837. fundi byggðarráðs 13. septmeber sl. til afgreiðslu sveitarstjórnar, þannig bókað:

"Lagður fram fjárhagsrammi fyrir fjárhagsáætlun ársins 2019 fyrir A og B hluta samstæðu Sveitarfélagsins Skagafjarðar. Gert er ráð fyrir að A-hluti sýni rekstrarafgang að fjárhæð 634 þús.kr. í árslok 2019 og samstæðan í heild 110.561 þús.kr. Byggðarráð samþykkir framlagðan fjárhagsramma og vísar honum til afgreiðslu sveitarstjórnar og umfjöllunar í nefndum. Byggðarráð samþykkir einnig að fyrri umræða um fjárhagsáætlun 2019-2023 fari fram í sveitarstjórn þann 17. október 2018 og sú síðari þann 12. desember 2018."

Sveitarstjórn Sveitarfélgsins Skagafjarðar samþykktir framlagðan fjárhagsramma með níu atkvæðum.
Sveitarstjórn samþykkir einnig með níu atkvæðum, að fyrri umræða um fjárhagsáæltun 2019-2023 fari fram í sveitarstjórn þann 17. október nk. og síðari umræða þann 12. desember 2018

Byggðarráð Svf. Skagafjarðar - 841. fundur - 16.10.2018

Lögð fram fjárhagsáætlun sveitarfélagsins og stofnana fyrir árin 2019-2023.
Byggðarráð samþykkir að vísa áætluninni til fyrri umræðu í sveitarstjórn.

Sveitarstjórn Sveitarfélagins Skagafjarðar - 374. fundur - 18.10.2018

Sígfús Ingi Sigfússon, sveitarstjóri kynnti fjárhagsðáætlun.

Helstu niðurstöður fjárhagsáætlunar fyrir árið 2019 gera ráð fyrir að rekstrartekjur Sveitarfélagsins Skagafjarðar nemi 5.331 m.kr. hjá samstæðunni í heild, A- og B-hluta, þar af eru rekstrartekjur A-hluta áætlaðar 4.695 m.kr. Rekstrargjöld án fjármagnsliða og afskrifta eru áætluð 4.693 m.kr., þar af A-hluti 4.326 m.kr. Rekstrarhagnaður A- og B-hluta fyrir afskriftir og fjármagnsliði er áætlaður 638 m.kr. Afskriftir nema 221 m.kr. og fjármagnsgjöld umfram fjármunatekjur nema 304 m.kr. Rekstrarafgangur samstæðunnar í heild A- og B-hluta er áætlaður samtals 113 m.kr.

Rekstrarhagnaður A-hluta fyrir afskriftir og fjármagnsliði er áætlaður 369 m.kr. Afskriftir nema 129 m.kr. Fjármagnsgjöld umfram fjármunatekjur nema 239 m.kr. Rekstrarniðurstaða A-hluta sveitarsjóðs er því áætluð jákvæð um 1 m.kr.

Eignir Sveitarfélagsins Skagafjarðar eru áætlaðar í árslok 2019, 9.386 m.kr., þar af eru eignir A-hluta 7.232 m.kr. Skuldir og skuldbindingar eru áætlaðar í árslok 6.941 m.kr. Þar af hjá A-hluta 6.023 m.kr. Eigið fé er áætlað 2.445 m.kr hjá samstæðunni og hjá A-hluta 1.209 m.kr.

Forseti gerir tillögu um að vísa fjárhagsáætlun 2019-2023 til nefnda og síðari umræðu í sveitarstjórn. Samþykkt samhljóða með níu atkvæðum.

Byggðarráð Svf. Skagafjarðar - 847. fundur - 05.12.2018

Unnið með fjárhagsáætlun 2019-2023. Á fund ráðsins komu eftirtalin til viðræðu:
Ingibjörg Huld Þórðardóttir formaður umhverfis- og samgöngunefndar ásamt Indriða Þór Einarssyni sviðsstjóra veitu- og framkvæmdasviðs komu á fundinn kl. 09:30 og fóru yfir fjárhagsáætlun málaflokka sem undir umhverfis- og samgöngunefnd heyra. Ingibjörg vék af fundi kl. 10:10.
Haraldur Þór Jóhannsson formaður veitunefndar kom á fundinn kl. 10:15 og var farið yfir fjárhagsáætlun Skagafjarðarveitna. Véku Haraldur og Indriði af fundi kl. 10:35.
Gunnsteinn Björnsson formaður atvinnu-, menningar- og kynningarnefndar kom á fundinn og fór yfir málaflokka sem heyra undir nefndina ásamt Margeiri Friðrikssyni. Gunnsteinn vék af fundi kl. 11:35.
Margeir Friðriksson kynnti fjárhagsáætlun landbúnaðarmála.
Guðný Axelsdóttir formaður félags- og tómstundanefndar kom á fundinn kl. 12:00 ásamt Herdísi Á. Sæmundardóttur sviðsstjóra fjölskyldusviðs, Grétu Sjöfn Guðmundsdóttur félagsmálastjóra, Þorvaldi Gröndal frístundastjóra og Bertínu Bodriguez sérfræðings á fjölskyldusviði. Farið var yfir fjárhagsáætlun málaflokka sem heyra undir nefndina. Guðný, Gréta Sjöfn og Þorvaldur véku af fundi kl. 13:00.
Laufey Skúladóttir formaður fræðslunefndar kom til fundar kl. 13:10 ásamt Selmu Barðdal fræðslustjóra til að fjalla um fjárhagsáætlun vegna fræðslumála sem heyra undir nefndina. Laufey, Selma, Herdís og Bertína véku af fundi kl. 13:45.
Indriði Þór Einarsson sviðsstjóri veitu- og framkvæmdsviðs kom til fundar kl. 14:00 og kynnti fjárhagsáætlun málaflokks 07-Bruna- og almannavarna. Vék hann af fundi kl. 14:25.
Jón Örn Berndsen skipulags- og byggingarfulltrúi kom á fundinn kl. 14:30 og fór yfir fjárhagsáætlun málaflokks 09-Skipulags- og byggingarmál. Vék hann af fundi kl. 14:50.
Að lokum fór Margeir Friðriksson yfir fjárhagsáætlun málaflokks 21-Sameiginlegir liðir.

Byggðarráð Svf. Skagafjarðar - 848. fundur - 06.12.2018

Unnið með fjárhagsáætlun 2019-2023.
Á fund byggðarráðs komu Dagur Þór Baldvinsson yfirhafnarvörður og Indriði Þór Einarsson sviðsstjóri veitu- og framkvæmdasviðs og fóru yfir fjárhagsáætlun Skagafjarðarhafna. Dagur vék af fundi kl. 08:45. Indriði fór yfir verkefnalista varðandi meiriháttar viðhald eignasjóðs og fjárfestingar ársins 2019. Indriði vék af fundi kl. 09:50.
Margeir Friðriksson fór yfir áætlanir eignasjóðs, félagsíbúða og Tímatákns ehf.

Byggðarráð Svf. Skagafjarðar - 849. fundur - 10.12.2018

Lögð fram fjárhagsáætlun 2019-2023 fyrir sveitarfélagið og stofnanir þess.
Byggðarráð samþykkir að vísa fyrirliggjandi fjárhagsáætlun 2019-2023 til afgreiðslu sveitarstjórnar.

Sveitarstjórn Sveitarfélagins Skagafjarðar - 376. fundur - 12.12.2018

Fjárhagsáætlun Sveitarfélagsins Skagafjarðar fyrir árin 2019-2023 er lögð fram til seinni umræðu.
Sigfús Ingi Sigfússon sveitarstjóri kynnti fjárhagsáætlunina.
Fjárhagsáætlunin sýnir rekstraráætlun, sjóðsstreymi og áætlaðan efnahagsreikning fyrir Sveitarfélagið Skagafjörð og stofnanir þess.
Forsendur fjárhagsáætlunar Sveitarfélagsins Skagafjarðar 2019 og áætlunar fyrir árin 2020-2023 byggja meðal annars á þjóðhagsspá Hagstofu Íslands varðandi verðlags- og launaþróun næstu ára.
Áætlun ársins 2019 gerir ráð fyrir að rekstrartekjur Sveitarfélagsins Skagafjarðar nemi 5.744 m.kr. hjá samstæðunni í heild, A- og B hluta, þar af eru rekstrartekjur A-hluta áætlaðar 4.767 m.kr.
Rekstrargjöld án fjármagnsliða eru áætluð 5.286 m.kr., þ.a. A-hluti 4.767 m.kr. Rekstrarafgangur A- og B-hluta án afskrifta og fjármagnsliða er áætlaður 679 m.kr, afskriftir nema 222 m.kr. og fjármagnsgjöld umfram fjármunatekjur nema 351 m.kr. Rekstrarniðurstaða samstæðunnar í heild A- og B-hluta er áætluð jákvæð, samtals með 106 m.kr. í rekstrarafgang.
Rekstrarafgangur A-hluta án afskrifta og fjármagnsliða er 422 m.kr, afskriftir nema 129 m.kr., fjármagnsgjöld umfram fjármunatekjur nema 280 m.kr. Rekstrarniðurstaða A hluta sveitarsjóðs er því áætluð jákvæð um 13 m.kr.
Eignir Sveitarfélagsins Skagafjarðar eru áætlaðar í árslok 2019, 9.392 m.kr., þ.a. eignir A-hluta 7.253 m.kr. Skuldir og skuldbindingar eru áætlaðar í árslok 7.003 m.kr., þ.a. hjá A-hluta 6.076 m.kr. Eigið fé er áætlað 2.378 m.kr hjá samstæðunni og eiginfjárhlutfall því 25,31%. Eigið fé A-hluta er áætlað 1.178 m.kr. og eiginfjárhlutfall 16,24%.
Ný lántaka er áætluð 360 m.kr. hjá samstæðunni í heild og afborganir eldri lána og skuldbindinga verða um 447 m.kr. Reiknaðar lífeyrisskuldbindingar eru 1.314 m.kr. hjá samstæðunni, þar af 1.201 m.kr. hjá A-hluta. Skuldahlutfall samstæðunnar er áætlað 122% og skuldaviðmið 108%.
Áætlunin gerir ráð fyrir að veltufé frá rekstri A-hluta verði 327 m.kr., og veltufé frá rekstri samstæðunnar A- og B-hluta verði samtals 560 m.kr. Þá er gert er ráð fyrir að handbært fé í árslok verði 178 m.kr. hjá samstæðunni í heild.

Álfhildur Leifsdóttir tók til máls og lagði fram eftirfarandi bókun:
Tekjur flestra sveitarfélaga í landinu hafa stóraukist síðustu misseri og auðveldað þeim að veita íbúunum góða og ódýra þjónustu. Þá hafa mörg þeirra nýtt sér það til að greiða niður skuldir. Um margt gengur vel í Skagafirði og atvinnuástand er gott. Sveitarfélagið Skagafjörður nýtur góðs af því í auknum tekjum. Þá skilar mikil hækkun fasteignamats stórauknum tekjum í formi fasteignagjalda og greiðslur frá Jöfnunarsjóði sveitarfélaga eru umfram áætlanir, svo fátt eitt sé nefnt. Þrátt fyrir þetta munu skuldir sveitarfélagsins halda áfram að aukast að óbreyttu. Það er vart ásættanlegt í slíku góðæri, því fljótt geta skipast veður í lofti.
Ráðist var í umfangsmiklar hagræðingaraðgerðir árið 2012 sem öll sveitarstjórnin stóð sameiginlega að. Skiluðu þær aðgerðir umtalsverðum árangri fyrir rekstur sveitarfélagsins og stofnanna þess sem við búum enn að, án þess að dregið væri úr þjónustu eða auknar álögur settar á íbúa. Þrátt fyrir að ytri skilyrði séu nú rekstri sveitarfélagsins og stofnanna þess hagstæð, er mikilvægt að sýna virkt aðhald og festu. Því var samþykkt byggðaráðs nýverið á tillögu VG og óháðra um úttekt á rekstri sveitarfélagsins mikilvægt skref í þeirri vinnu.
VG og óháð leggja áherslu á að sveitarfélagið bjóði upp á góða og ódýra þjónustu við börn og barnafólk og styðja því ekki gjaldskrárhækkanir meirihlutans hvort sem er í leikskólum eða fæðisgjöldum grunn- og leikskóla og að auknum kostnaði sé velt yfir á fjölskyldufólk. Í anda þeirrar fjölskylduvænu stefnu sem mörkuð var undir forystu VG og óháðra kjörtímabilið 2010-2014 voru þessi gjöld orðin þau lægstu á landinu. Nú er öldin önnur og þær hækkanir sem hafa orðið umfram mörg önnur sveitarfélög, bera vart slíkri stefnumörkun vitni. Það er mikilvægt að gera svæðið enn eftirsóknarverðara fyrir fólk að búa á og flytjast til, sérstaklega fyrir fjölskyldufólk, með því að halda þessum gjöldum í lágmarki.
Langtíma skuldbindingar, ívilnanir og fjárútlát vegna fyrirtækisins Sýndarveruleiki ehf. munu fela í sér aukin rekstrargjöld og skerða framkvæmdagetu sveitarfélagsins næstu áratugi. Þar varpar meirihlutinn sveitarfélaginu út á hálan ís hvað varðar hlutverk og forgangsröðun verkefna. Kostnaður vegna framkvæmda við Aðalgötu 21a og 21b fyrir Sýndarveruleika ehf., sem sveitarfélagið greiðir fyrir, stefnir langt framúr áætlunum og gæti orðið hinn skagfirski „braggi“. Vel hefði farið á því að KS hefði átt áfram húsið og gert upp svo sómi væri af.
Mikilvægt er að áætlunum um framkvæmdir og viðhald húseigna sveitarfélagsins sé fylgt eftir og verkin unnin. Í sumum tilvikum þola slík verkefni enga bið, svo sem A-álma Árskóla.
Í Fjárhagsáætlun sveitarfélagsins árið 2017 var gert ráð fyrir 18 milljónum króna til endurnýjunar A-álmu auk 7 milljónum króna til almenns viðhalds. Átti samkvæmt umbótaáætlun samstarfsnefndar Árskóla og sveitarfélagsins að laga salerni í A-álmu vegna mikillar skólplyktar sem gaus þar upp. Það var ekki gert sem skildi og einungis um 4 milljónum veitt í framkvæmdir það árið.
Á fjárhagsáætlun ársins 2019 er eina viðhald A-álmu innandyra að laga umrædd salerni enda skólplyktin ennþá viðvarandi. Verk sem átti að vera lokið. Slík dæmi má finna víðar um sveitarfélagið. Þá er mjög bagalegt hve dregist hefur fram úr hófi hönnunarvinna fyrir nýjan leikskóla og endurbætur á húsnæði grunnskólans á Hofsósi. Hraða verður þeirri vinnu.
Í nefndum sveitarfélagsins hafa fulltrúar allra framboða ásamt starfsfólki undanfarnar vikur unnið að fjárhagsáætlun ársins 2019 í sínum málaflokkum. Fulltrúar hafa verið samstíga um flest, en í öðru er áherslumunur. Nefndarfólk VG og óháðra vill þakka öðru nefndarfólki fyrir samstarfið og starfsfólki fyrir góða vinnu við gerð fjárhagsáætlunar sveitarfélagsins og stofnanna þess árið 2019. Sveitarstjórnarfulltrúar VG og óháðra sitja hjá við afgreiðsluna.
Álfhildur Leifsdóttir og Bjarni Jónsson, VG og óháðum.

Fjárhagsáætlun fyrir árið 2019 hefur verið unnin að mestu leiti í góðri samvinnu fulltrúa allra lista, starfsfólks sem og íbúa, sem skilar sér vonandi í bættri þjónustu án þess að íþyngja rekstri sveitarfélagsins, né heimila frá degi til dags. Nokkuð er um gjaldskrár hækkanir en þar er miðað við þróun verðlags milli ára, en leitast var við að hækkanir komi ekki niður á forgangshópum og fögnum við því að standast samanburð annara sveitarfélaga betur fyrir vikið. Þetta er eitthvað sem þarfnast sífelldrar endurskoðunar, og mikilvægt að við gerum okkur grein fyrir því hvernig við stöndumst samanburð gagnvart öðrum sveitarfélögum

Hvatapeningar hækka verulega og er það afar ánægjulegt, og vonandi að það verði til þess að létta undir heimilum, sem og fjölga iðkendum í þeirri flóru íþrótta og tómstunda sem samfélagið hefur uppá að bjóða.
Opnunartímar sundlauganna eru í sífelldri endurskoðun, en þar þarf að fara saman rekstur og þjónusta, og mikilvægt að nefndarmenn og starfsfólk haldi áfram þeirri góðu vinnu að sníða opnunartíma sundlauganna að þörfum íbúa, með nýtingu fjármuna í huga.
Dagvistunar úrræði eru í vinnslu, en sem dæmi má nefna að í áætlun er gert ráð fyrir að farin verði sú leið að starfsmannafundir á leikskólum verði haldnir eftir dagvistunartíma, og er það von okkar og trú að það gangi vel upp, bæði gagnvart starfsfólki og íbúum.

Bætt verður við fjármagni til upplýsingamiðlunar til ferðamanna. Í grunninn teljum við það jákvætt, en hinsvegar má deila um útfærsluna, þ.e. hvernig við notum það fjármagn. Þar teljum við mikilvægt að þjónustan nýtist sem best fyrir allt sveitarfélagið, og að hægt sé að sníða þá þjónustu í takt við tíðaranda, og að það fjármagn verði ekki bundið á einum stað til lengri tíma.

Forgangsröðun verkefna er eitt stærsta verkefni sveitarstjórnarfulltrúa.
Við gerð fjárhagsáætlunar var farin ný leið, að halda íbúafundi á nokkrum stöðum til að fá fram hugmyndir um áhersluverkefni, og má vel sjá árangur af þeim fundum í framkvæmda og viðhalds lista fjárhagsáætlunarinnar, en það má alltaf gera betur. Án þess að tala niður ákveðnar framkvæmdir, því allar eru þær jú góðar, þá finnst okkur hjá Byggðalistanum að áður en farið verði af stað í hönnunarvinnu á stærri framkvæmdum á t.d. menningarhúsi, verðum við að vera komin af stað með önnur verkefni sem tengjast skólum og frístundarstarfi, og hafa til þess fjármagn án verulegrar íþyngjandi skuldasöfnunar sem hafa áhrif á reksturinn, og má sem dæmi um þau verkefni nefna sundlaugina á Sauðárkróki sem er jú í fjárhagsáætlun, íþróttahús og endurbætur grunnskóla á Hofsósi, leik- og grunnskólahúsnæði í Varmahlíð sem og endurbætur á A álmu árskóla, en hluti þeirrar framkvæmdar er í áætluninni.

Að þessu sögðu, munum við fulltrúar Byggðalistans sitja hjá við afgreiðslu fjárhagsáætlunar 2019.

Að lokum viljum við þakka samstarfsfólki í nefndum og sveitarstjórn, starfsfólki sveitarfélagsins sem og íbúum fyrir góðar móttökur og gott samstarf á árinu sem er að líða.
Starfsfólki sveitarfélagsins viljum við sérstaklega þakka fyrir vel unnin störf við gerð fjárhagsáætlunar.
Íbúum öllum óskum við fulltrúar Byggðalistans gleðilegra jóla og farsældar á komandi ári.

Fyrir hönd Byggðalistans,
Ólafur Bjarni Haraldsson
Jóhanna Ey Harðardóttir


Stefán Vagn Stefánsson kvaddi sér hljóðs og lagði fram bókun svohljóðandi:
Það er afskaplega ánægjulegt að leggja fram fjárhagsáætlun fyrir árið 2019 þar sem gert er ráð fyrir rekstrarfagangi af samstæðureikningi sveitarsjóðs að upphæð 679 milljónum fyrir afskriftir og fjármagnsliði. Rekstrarafgangur samstæðunnar í heild A- og B- hluta er áætluð samtals 106 milljónir. Ef áætlanir ganga eftir og árið 2019 verður gert upp með hagnaði hefur sveitarsjóður verið rekinn með hagnaði í 7 af síðustu 8 árum sem er einstakur árangur í sögu sveitarfélagsins. Það er einnig ánægjulegur áfangi að áætlunin gerir ráð fyrir að A-hluti verði rekinn með 13 milljóna króna afgangi.
Því ber að fagna enda markmið að hafa rekstur A-hluta sveitarsjóðs jákvæðan. Ef fram fer sem horfir og rekstur A-hluta sveitarsjóðs verður jákvæður fyrir árið 2019 eins og áætlun gerir ráð fyrir, getum við því verið að sjá í fyrsta skipti í tæplega 20 ára sögu sveitarfélagsins, A-hluta sveitarsjóðs með jákvæðri rekstrarniðurstöðu fjögur ár í röð.
Óhætt er að segja að ákveðinn stöðugleiki hafi náðst í reksturinn og ber það að þakka ábyrgri fjármálastjórn og aðhaldi í rekstri undanfarinna ára. Einnig ber að þakka starfsmönnum sveitarfélagsins en ljóst er að án samstillts átaks þeirra hefði sá árangur ekki náðst líkt og rekstur undanfarinna ára ber með sér sem og sú áætlun sem lögð er fram nú.
Mikilvægt er að áfram verði haldið á þeirri braut sem mörkuð hefur verið á undanförnum árum og aðhalds gætt í rekstri. Góður rekstur er undirstaða þess að hægt sé að veita íbúum þá þjónustu sem sveitarfélagið er að veita í dag og að hægt sé að fara í þau fjölmörgu framfaraverkefni sem ráðast á í á komandi árum.
Í fjárhagsáætlun fyrir árið 2019 er miðað við að þar sem gjaldskrár væru hækkaðar yrðu þær hækkanir hófstilltar og var að jafnaði miðað við 3% en hækkun vísitölu neysluverðs gerir ráð fyrir meiri hækkun eða 3,6%, auk þess sem gert er ráð fyrir hækkun launavísitölu upp á 6%. Í áætlun ársins er gert ráð fyrir lækkun dvalargjalds fyrir forgangshópa á leikskólum sem og mikilli hækkun á hvatapeningum og samningum við íþróttafélögin sem munu leiða til þess að æfingagjöld hækka ekki þannig að hækkun hvatapeninga skili sér beint til heimila og fjölskyldna í Sveitarfélaginu Skagafirði.
Sveitarfélagið Skagafjörður verður áfram með einhver lægstu gjöld í leik- og grunnskólum landsins sem og að orkukostnaður verður áfram hvað lægstur á íbúa í Skagafirði. Afar mikilvægt er að hafa þau markmið uppi þegar framtíðaruppbygging héraðsins er höfð í huga. Hefur þessi stefna undanfarinna ára m.a. skilað því að mikil uppbygging á sér nú stað í Skagafirði, meiri en verið hefur í áratugi. Sem dæmi rís nú fjöldi fjósa í dreifbýlinu og tugir íbúða eru ýmist í byggingu eða á teikniborðinu á Sauðárkróki og víðar í héraðinu. Uppgangur er einnig í atvinnulífinu, meiri en mörg undanfarin ár.
Það er afar mikilvægt að þannig sé haldið á málum að það sé eftirsóknarvert að búa í Skagafirði og er þetta og fjölgun íbúa merki um að svo sé. Einnig að í umfangsmikilli könnun sem Samtök sveitarfélaga á Vesturlandi birtu nýverið um búsetuskilyrði á landinu kom Skagafjörður best út af 19 landsvæðum hvað varðar hug fólks til margra mikilvægra þátta, s.s. vinnumarkaðar, búsetuskilyrða og hamingju. Frá þessari stefnu má aldrei kvika.
Gert er ráð fyrir að veltufé frá rekstri samstæðunnar verði 560 milljónir á árinu og framkvæmt verði fyrir 408 milljónir. Sem dæmi um þau fjölmörgu verkefni sem áætlað er að fara í á næsta ári má nefna áframhaldandi framkvæmdir við Sundlaug Sauðárkróks og hönnun næsta áfanga hennar, hönnun og upphaf framkvæmda við leikskóla á Hofsósi og við yngra stig Ársala á Sauðárkróki, malbikun á kirkjuplani á Hofsósi, framkvæmdir við sorpmóttökustöð og gangstéttir í Varmahlíð, hönnunarsamkeppni menningarhúss á Sauðárkróki, lok gatnagerðar við Melatún á Sauðárkróki og hitaveituframkvæmdir í austanverðum Skagafirði.
Samkvæmt sveitarstjórnarlögum má skuldahlutfall sveitarsjóðs ekki fara yfir 150% af tekjum. Gerir fjárhagsáætlun 2019 hins vegar ráð fyrir því að skuldahlutfallið verði 122%, en þegar búið er að draga frá lífeyrisskuldbindingu að hluta og skuldir orku- og veitufélaga líkt og lögin gera ráð fyrir, er skuldaviðmið samstæðunnar um 108% sem er vel innan allra marka þrátt fyrir miklar framkvæmdir í Sveitarfélaginu á undanförnum árum. Sú áætlun sem lögð er fram nú var unnin í samvinnu allra flokka, bæði í nefndum sveitarfélagsins og í byggðarráði sem er mikilvægt og ber að þakka fyrir þá vinnu.
Með slíkar kennitölur í rekstri er ljóst að áfram er hægt að halda áfram á þeirri braut sem mörkuð hefur verið til hagsældar og uppbyggingar innviða Sveitarfélagsins Skagafjarðar.
Við óskum íbúum Sveitarfélagsins Skagafjarðar til hamingju með þá áætlun sem hér er lögð fram og jafnframt óskum við öllum íbúum sveitarfélagsins gleðilegra jóla og farsældar á komandi ári.
Stefán Vagn Stefánsson, Gísli Sigurðsson, Ingibjörg Huld Þórðardóttir, Regína Valdimarsdóttir og Laufey Kristín Skúladóttir.

Ólafur Bjarni Haraldsson kvaddi sér hljóðs.

Fjárhagsáætlun Sveitarfélagsins Skagafjarðar 2019-2023 borin upp til afgreiðslu sveitarstjórnar og samþykkt með fimm atkvæðum. Fulltrúar Byggðarlistans, Ólafur Bjarni Haraldsson og Jóhanna Ey Harðardóttir ásamt fulltrúum Vg og óháðra, Bjarna Jónssonar og Álfhildar Leifsdóttur, sitja hjá við afgreiðsluna.