Fara í efni

Auglýsing umsóknar um byggðakvóta 2018-2019

Málsnúmer 1810042

Vakta málsnúmer

Atvinnu-, menningar- og kynningarnefnd Svf Skagafjarðar - 60. fundur - 24.10.2018

Lagt fram bréf, dagsett 2.október 2018, frá Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu varðandi auglýsingu umsóknar um byggðakvóta fiskveiðiársins 2018/2019.
Atvinnu-, menningar- og kynningarnefnd felur starfsmönnum sínum að sækja um byggðakvóta vegna byggðarlaga innan marka sveitarfélagsins.

Atvinnu-, menningar- og kynningarnefnd Svf Skagafjarðar - 61. fundur - 28.11.2018

Lagt fram til kynningar bréf frá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti, dagsett 23. nóvember 2018 varðandi úthlutun byggðakvóta fiskveiðiárið 2018/2019. Sauðárkróki er úthlutað 70 þorskígildistonnum og Hofsós 15 þorskígildistonnum.
Inga Katrín Magnúsdóttir fulltrúi Vg og óháðra óskar bókað:
Nú er svo komið að næstum allur byggðakvóti hefur verið tekinn af Hofsósi án þess að sjávarútvegsráðuneytið hafi með nokkrum hætti komið til móts við þá grafalvarlegu stöðu sem upp er komin í byggðarlaginu og hættu á að sjósókn og starfsemi henni tengd leggist að mestu eða öllu leyti niður vegna skorts á veiðiheimildum. Nú er gert ráð fyrir 15 tonna byggðakvóta til Hofsóss. Þá hefur ákvörðun ráðuneytisins að leyfa aftur dragnótaveiðar sem nú hafa sótt upp í fjörur reynst mikið högg fyrir smábáta á Hofsósi og á öðrum stöðum í Skagafirði. Sú ákvörðun var tekin án samráðs við heimafólk og engu skeytt um mótmæli um vinnubrögð. Er skorað á sjávarútvegsráðuneytið að snúa þessari þróun við og auka veiðiheimildir handa bátum sem gera út frá Hofsósi.

Atvinnu-, menningar- og kynningarnefnd Svf Skagafjarðar - 62. fundur - 20.12.2018

Tekin var fyrir úthlutun á byggðakvóta sem áður var til kynningar á 61. fundi Atvinnu-, menningar- og kynningarnefndar. Einnig lögð fram áskorun frá Drangey, smábátafélagi Skagafjarðar vegna reglna um byggðakvóta.

Atvinnu-, menningar- og kynningarnefnd leggur til eftirfarandi breytingar á reglugerð nr 685/2018 um úthlutun byggðakvóta til fiskiskipa á fiskveiðiárinu 2018/2019 í Sveitarfélaginu Skagafirði:
1.
Nýtt ákvæði 4. greinar reglugerðarinnar verður: "Hámarksúthlutun fiskiskipa yfir 50 brúttótonnum af því aflamarki sem fallið hefur innan viðkomandi byggðarlags verður 7 þorskígildistonn á skip.“
2.
Í 6. grein reglugerðarinnar verði veitt undanþága frá löndun til vinnslu. Til vara að bátar undir 50 brúttótonnum fái undanþágu frá löndun til vinnslu.
3.
Þá leggur atvinnu-, menningar- og kynningarnefnd til að ákvæði 1. mgr. 6. gr. reglugerðarinnar breytist og verði: Fiskiskipum er skylt að landa þeim afla sem telja á til byggðarkvóta innan sveitarfélagsins.
4.
Ennfremur leggur atvinnu-, menningar- og kynningarnefnd til að sú skylda þeirra sem fá úthlutað byggðakvóta til að landa tvöföldu því magni sem þeir fá úthlutað til vinnslu, líkt og kveðið er á um í 6. grein reglugerðarinnar, verði felld niður.

Atvinnu-, menningar- og kynningarnefnd bókar eftirfarandi:
Atvinnu-, menningar- og kynningarnefnd mótmælir harðlega niðurstöðum úthlutunar byggðakvóta fyrir fiskveiðiárið 2018-2019. Niðurstaða atvinnuvega- og nýsköpunaráðuneytis hvað Skagafjörð varðar er að úthluta aðeins 15 þorskígildistonnum til Hofsóss og 70 þorskígildistonnum til Sauðárkróks. Nefndinni hefur borist rökstuðningur ráðuneytisins fyrir úthlutuninni.
Niðurstaða þessi er með öllu óásættanleg hvað varðar úthlutun til Hofsóss og ljóst að reglur um úthlutun byggðakvóta mæta engan veginn tilgangi þess að úthluta byggðakvóta til byggðarlaga sem standa höllum fæti, s.s. eins og til Hofsóss. Það punktakerfi sem úthlutað er eftir horfir aftur síðustu 10 ár og mælir samdrátt aflaheimilda og vinnslu á þeim tíma en tekur í engu tillit til þess að samdráttar sem orðið hefur fyrir lengri tíma en 10 árum. Má því ætla að reglur sjávarútvegsráðuneytisins geri ráð fyrir að annað hvort hafi sjómenn gefist upp á þessum tíma eða þá að ástandið hafi lagast með öðrum hætti, en alls ekki að ástand geti verið óbreytt eða verra en áður eins og í tilfelli Hofsóss, sérstaklega þegar horft er til úthlutunar byggðakvóta til Hofsóss, en úthlutun byggðakvóta fiskveiðiárið 2010-2011 var 145 þorskígildistonn en nú fiskveiðiárið 2018-2019 einungis 15 þorsksígildistonn eða samtals 970% samdráttur á 8 árum.
Atvinnu-, menningar- og kynningarnefnd skorar á sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra að breyta reglum um úthlutun byggðakvóta á þann hátt að tekið verið tillit til lengri tíma og fleiri aðstæðna en núverandi reglur kveða á um. Mikilvægt er að reglur um byggðakvóta séu raunverulega sniðnar að því markmiði að styðja við byggðir sem standa höllum fæti vegna breytinga í sjávarútvegi.

Atvinnu-, menningar- og kynningarnefnd Svf Skagafjarðar - 63. fundur - 08.02.2019

Lagt fram til kynningar bréf frá Atvinnu- og nýsköpunarráðuneytinu dagsett 30.01.2019.
Ráðuneytið varð við öllum breytingartillögum nefndarinnar nema undanþágu frá löndun tvöfalds magns afla.