Fara í efni

Umhverfisstefna Sveitarfélagsins Skagafjarðar 2020-2040

Málsnúmer 1906041

Vakta málsnúmer

Byggðarráð Svf. Skagafjarðar - 869. fundur - 05.06.2019

Regína Valdimarsdóttir vék af fundi kl. 13:55.
Málið rætt og samþykkt að fresta afgreiðslu til næsta fundar byggðarráðs.

Byggðarráð Svf. Skagafjarðar - 870. fundur - 12.06.2019

Byggðarráð Sveitarfélagsins Skagafjarðar samþykkir að fela sveitarstjóra ásamt umhverfis- og samgöngunefnd gerð umhverfisáætlunar fyrir Sveitarfélagið Skagafjörð fyrir árin 2020 til 2040.
Umhverfisáætlun sveitarfélagsins skal ná yfir alla þá þætti er snúa að umhverfismálum í sveitarfélaginu og skal eitt af megin markmiðum áætlunarinnar vera að kolefnisjafna sveitarfélagið fyrir árið 2040 sem og að uppfylla þau umhverfismarkmið sem fram koma í heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna. Umhverfisstefnan og aðalskipulag Sveitarfélagsins Skagafjarðar skulu vera í innbyrðis samræmi.
Umhverfisstefna Sveitarfélagsins Skagafjarðar og framkvæmd hennar skal vera liður í daglegu starfi sveitarfélagsins, starfsmanna þess sem og íbúa. Umhverfisstefnuna á að kynna fyrir starfsfólki og íbúum Sveitarfélagsins Skagafjarðar og birta opinberlega á vef sveitarfélagsins. Við framkvæmd stefnunnar skal leitast við að hafa jafnræði allra íbúa og jafnrétti að leiðarljósi og tryggja aðgengi allra.

Greinargerð:
Í umhverfisstefnu fyrir Sveitarfélagið Skagafjörð fyrir árið 2020-2040 skal áhersla vera lögð á eftirfarandi þætti.
Sveitarfélagið Skagafjörður hefur verið leiðandi í úrgangsmálum og sorpflokkun á Íslandi og skal stefnt á að gera enn betur á því sviði, sér í lagi í dreifbýli. Skoða þarf m.a. möguleika á framleiðslu lífdísels úr þeim úrgangi sem til fellur innan sveitarfélagsins.
Íbúum Skagafjarðar verði tryggður aðgangur að hreinu vatni, lofti sem og náttúru og útivistarsvæðum. Leitast skal við að takmarka alla sóun verðmæta s.s. matar til að takmarka myndun úrgangs og stuðla að endurnýtingu og endurvinnslu.
Sveitarfélagið Skagafjörður þarf að vera tilbúinn undir orkuskiptin sem nú þegar eru hafin og vera leiðandi sveitarfélag þegar kemur að notkun endurnýtanlegrar orkugjafa s.s. rafmagns í stað jarðefnaeldsneytis. Fjölga þarf hraðhleðslustöðvum innan sveitarfélagsins sem og tryggja að skip sem liggja við bryggju hafi aðgang að rafmagni. Til að framangreint nái fram að ganga þarf dreifing raforku um Skagafjörð að vera tryggð.
Sveitarfélagið Skagafjörður mun stuðla að og vera í farabroddi í vistvænum innkaupum á hverslags vörum og þjónustu fyrir sveitarfélagið. Leitast skal við að í öllum ákvarðanatökum, framkvæmdum, rekstri, innkaupum og annarri starfssemi sveitarfélagsins séu neikvæð áhrif á umhverfi og náttúru í lágmarki.
Binding CO2 úr andrúmsloftinu með skógrækt og endurheimt votlendis skal aukin verulega á umræddu tímabili í samráði við Landgræðslu ríkisins og Skógrækt ríkisins.
Mikilvægi þekkingar og vitundar um umhverfismál verður seint metið að fullu. Mikilvægt er að starfsmönnum sveitarfélagsins og íbúum sé tryggð fræðsla um umhverfismál og umhverfisvæna lífshætti.
Með umræddum aðgerðum verður Sveitarfélagið Skagafjörður í fararbroddi er kemur að umhverfismálum á Íslandi og mikilvægt að ná breiðri sátt íbúa og fyrirtækja í Skagafirði um verkefnið svo vel megi takast.

Umhverfis- og samgöngunefnd Svf Skagafjarðar - 157. fundur - 25.06.2019

Lögð var fyrir fundinn bókun byggðarráðs vegna umhverfisstefnu Sveitarfélagsins Skagafjarðar 2020 til 2040. Í bókuninni var sveitarstjóra ásamt umhverfis- og samgöngunefnd falið að vinna umhverfisáætlun fyrir Sveitarfélagið Skagafjörð fyrir árin 2020 - 2040.
Nefndin hlakkar til vinnunar við áætlunina og mun óska eftir fundi með sveitarstjóra til að ræða tilhögun vinnunar sem framundan er.

Umhverfis- og samgöngunefnd Svf Skagafjarðar - 166. fundur - 17.02.2020

Lögð var fyrir fundinn tillaga frá Umhverfisráðgjöf Íslands um verklag og kostnað við gerð umhverfisáætlunar fyrir sveitarfélagið fyrir tímabilið 2020 til 2040.
Umhverfis- og samgöngunefnd samþykkir tillöguna fyrir sitt leyti og vísar til byggðaráðs.

Byggðarráð Svf. Skagafjarðar - 906. fundur - 18.03.2020

Lögð var fyrir 166. fund umhverfis- og samgöngunefndar, þann 17. febrúar 2020, tillaga frá Umhverfisráðgjöf Íslands um verklag og kostnað við gerð umhverfisáætlunar fyrir sveitarfélagið fyrir tímabilið 2020 til 2040. Umhverfis- og samgöngunefnd samþykkti tillöguna fyrir sitt leyti og vísaði til byggðaráðs.
Byggðarráð samþykkir tillöguna.

Umhverfis- og samgöngunefnd Svf Skagafjarðar - 179. fundur - 19.04.2021

Fyrir liggur samningur um gerð umhverfisáætlunar fyrir sveitarfélagið fyrir tímabilið 2020-2040, með sérstakri áherslu á loftslagsmál, m.a. með hliðsjón af þeim breytingum sem gerðar voru í júní 2019 á lögum nr. 70/2012 um loftslagsmál.

Vinna við gerð áætlunarinnar hefur dregist og er enn ekki lokið. Umhverfis- og samgöngunefnd leggur áherslu á að þessari vinnu ljúki sem fyrst. Sviðssjóra veitu- og framkvæmdasviðs er falið að fylgja málinu eftir.

Umhverfis- og samgöngunefnd Svf Skagafjarðar - 191. fundur - 05.05.2022

Fyrir liggja drög að umhverfisstefnu sveitarfélagsins. Í umhverfisstefnunnni er fjallað um loftslagsmál þar sem sett er fram lofslagsstefna. Einnig er sett fram stefna um vernd náttúru og náttúruminja. Framundan er mikil vinna við að uppfylla markmið stefnunnar og er gert ráð fyrir að nokkur ár taki að klára þá vinnu.

Nefndin fagnar því að sveitarfélagið Skagafjörður hefur mótað sér umhverfisstefnu sem inniheldur lögbundna loftlagsstefnu. Nefndin samþykkir umhverfisstefnuna og vísar til sveitastjórnar.

Sveitarstjórn Sveitarfélagins Skagafjarðar - 425. fundur - 25.05.2022

Fyrir liggja drög að umhverfisstefnu sveitarfélagsins. Í umhverfisstefnunnni er fjallað um loftslagsmál þar sem sett er fram lofslagsstefna. Einnig er sett fram stefna um vernd náttúru og náttúruminja. Framundan er mikil vinna við að uppfylla markmið stefnunnar og er gert ráð fyrir að nokkur ár taki að klára þá vinnu.

Umhverfis- og samgöngunefnd fagnar því að Sveitarfélagið Skagafjörður hefur mótað sér umhverfisstefnu sem inniheldur lögbundna loftlagsstefnu. Nefndin samþykkir umhverfisstefnuna og vísar til sveitastjórnar.

Borið upp til afgreiðslu og samþykkt með 9 atkvæðum.