Fara í efni

Fjárhagsáætlun 2020 - 2024

Málsnúmer 1908008

Vakta málsnúmer

Byggðarráð Svf. Skagafjarðar - 882. fundur - 01.10.2019

Farið yfir vinnugögn vegna fjárhagsáætlunar 2020-2024.

Byggðarráð Svf. Skagafjarðar - 883. fundur - 09.10.2019

Lögð fram gögn varðandi fjárhagsáætlun 2020-2024.
Byggðarráð samþykkir fyrirliggjandi tillögu að fjárhagsramma 2020-2024 og vísar honum til afgreiðslu sveitarstjórnar og umfjöllunar í nefndum. Byggðarráð samþykkir einnig að fyrri umræða í sveitarstjórn verði 13. nóvember n.k. og síðari umræða verði 11. desember 2019.

Byggðarráð Svf. Skagafjarðar - 886. fundur - 31.10.2019

Farið yfir gögn vegna fjárhagsáætlunar 2020-2024.

Byggðarráð Svf. Skagafjarðar - 887. fundur - 07.11.2019

Lögð fram fjárhagsáætlun sveitarfélagsins og stofnana fyrir árin 2020-2024.
Byggðarráð samþykkir að vísa áætluninni til fyrri umræðu í sveitarstjórn.

Sveitarstjórn Sveitarfélagins Skagafjarðar - 390. fundur - 13.11.2019

Fjárhagsáætlun 2020-2024 vísað frá 887. fundi byggðarráðs frá 7. nóvmember 2019 til fyrri umræðu sveitarstjórnar.

Sigfús Ingi Sigfssson sveitarstjóri fór yfir og kynnti fjárhagsáætlun 2020-2024.

Fjárhagsáætlun Sveitarfélagsins Skagafjarðar fyrir árið 2020 er hér lögð fram til fyrri umræðu ásamt fjögurra ára áætlun fyrir árin 2021-2024. Fjárhagsáætlunin er sett fram í samræmi við 62. gr. sveitarstjórnarlaga, nr. 138/2011, fyrir A-hluta og samantekinn reikning fyrir A- og B-hluta. Í A-hluta er aðalsjóður auk eignasjóða. Í B-hluta eru veitustofnanir, hafnarsjóður, félagslegar íbúðir, Tímatákn ehf. og Eyvindarstaðarheiði ehf. Áætlunin sýnir rekstraráætlun, áætlaðan efnahagsreikning og sjóðsstreymi fyrir sveitarfélagið og stofnanir þess.

Helstu niðurstöður fjárhagsáætlunar fyrir árið 2020 gera ráð fyrir að rekstrartekjur Sveitarfélagsins Skagafjarðar nemi 5.754 m.kr. hjá samstæðunni í heild, A- og B-hluta, þar af eru rekstrartekjur A hluta áætlaðar 5.043 m.kr. Rekstrargjöld án fjármagnsliða og afskrifta eru áætluð 5.098 m.kr., þar af A-hluti 4.634 m.kr. Rekstrarhagnaður A- og B-hluta fyrir afskriftir og fjármagnsliði er áætlaður 656 m.kr. Afskriftir nema 239 m.kr. og fjármagnsgjöld umfram fjármunatekjur nema 308 m.kr. Rekstrarafgangur samstæðunnar í heild A- og B-hluta er áætlaður samtals 109 m.kr.

Rekstrarhagnaður A-hluta fyrir afskriftir og fjármagnsliði er áætlaður 409 m.kr. Afskriftir nema 145 m.kr. Fjármagnsgjöld umfram fjármunatekjur nema 249 m.kr. Rekstrarniðurstaða A-hluta sveitarsjóðs er því áætluð jákvæð um 15 m.kr.

Eignir Sveitarfélagsins Skagafjarðar eru áætlaðar í árslok 2020, 9.879 m.kr., þar af eru eignir A-hluta 8.367 m.kr. Skuldir og skuldbindingar eru áætlaðar í árslok 7.026 m.kr. Þar af hjá A-hluta 6.863 m.kr. Eigið fé er áætlað 2.853 m.kr hjá samstæðunni og eiginfjárhlutfall 28,76%. Eigið fé A-hluta er áætlað 1.504 m.kr. og eiginfjárhlutfall 17,98%.

Áætlunin gerir ráð fyrir að veltufé frá rekstri A-hluta verði 297 m.kr. Veltufé frá rekstri samstæðunnar A- og B-hluta verði samtals 521 m.kr. Þá er gert er ráð fyrir að handbært fé samstæðunnar í árslok verði 91 m.kr.

Helstu niðurstöður áætlunar fyrir árin 2021-2024 hvað samstæðuna varðar eru að áætlaðar tekjur 2021 eru 5.733 m.kr., fyrir árið 2022 5.707 m.kr., fyrir árið 2023 5.707 m.kr. og fyrir árið 2024 5.702 m.kr. Rekstrarniðurstöður samstæðunnar er áætluð fyrir árið 2021 121 m.kr., fyrir árið 2022 102 m.kr., fyrir árið 2023 98 m.kr. og fyrir árið 2024 71 m.kr. Gert er ráð fyrir að veltufé frá rekstri fyrir árið 2021 verði 547 m.kr., fyrir árið 2022 verði 546 m.kr., fyrir árið 2023 550 m.kr. og fyrir árið 2024 528 m.kr.

Forseti gerir tillögu um að vísa fjárhagsáætlun 2020-2024 til nefnda og síðari umræðu í sveitarstjórn. Samþykkt samhljóða með níu atkvæðum.

Byggðarráð Svf. Skagafjarðar - 891. fundur - 04.12.2019

Unnið með fjárhagsáætlun 2020-2024. Eftirtalin komu á fund ráðsins til viðræðu um fjárhagsáætlun viðkomandi málaflokka:
Klukkan 10:30 komu Haraldur Þór Jóhannsson formaður veitunefndar og Indriði Þór Einarsson sviðsstjóri veitu- og framkvæmdasviðs. Haraldur vék af fundi kl. 11:20.
Inga Huld Þórðardóttir formaður umhverfis- og samgöngunefndar og Guðlaugur Skúlason varaformaður nefndarinnar komu á fundinn kl. 11:30 og véku af honum kl. 12:10.
Fundarhlé var gert frá 12:10 til 13:00.
Dagur Þór Baldvinsson hafnarstjóri kom á fundinn kl. 13:00 og vék af honum kl. 13:20.
Svavar Atli Birgisson slökkviliðsstjóri kom á fundinn kl. 13:30 og vék af honum kl. 14:10 ásamt Indriða Þór Einarssyni.
Ólafur Bjarni Haraldsson vék af fundi kl. 13:50 og Jóhanna Ey Harðardóttir kom í hans stað.
Klukkan 14:10 komu Guðný H. Axelsdóttir formaður félags- og tómstundanefndar, Atli Már Traustason varaformaður nefndarinnar á fundinn auk Herdísar Á. Sæmundardóttur sviðsstjóra fjölskyldusviðs, Bertínu Rodriguez sérfræðings á fjölskyldusviði og Þorvaldar Gröndal frístundastjóra. Þorvaldur vék af fundi kl. 14:30 og þau Guðný og Atli kl. 14:50.
Næst komu á fundinn kl. 15:00 Elín Árdís Björnsdóttir varaformaður fræðslunefndar og Selma Barðdal Reynisdóttir fræðslustjóri. Viku þær af fundi ásamt Herdísi og Bertínu kl. 15:30.
Byggðarráð samþykkir að halda vinnu við fjárhagsáætlunina áfram á morgun, fimmtudaginn 5. desember kl. 09:00.

Byggðarráð Svf. Skagafjarðar - 892. fundur - 05.12.2019

Vinnu við fjárhagsáætlun 2020-2024 fram haldið frá síðasta fundi þann 4. desember 2019. Eftirtalin komu á fund ráðsins til viðræðu um fjárhagsáætlun viðkomandi málaflokka:
Gunnsteinn Björnsson formaður atvinnu-, menningar- og kynningarnefndar og Sigfús Ólafur Guðmundsson verkefnastjóri komu á fundinn kl. 09:00 og véku af honum kl. 09:50.
Einar E. Einarsson formaður skipulags- og bygginganefndar, Regína Valdimarsdóttir varaformaður nefndarinnar og Jón Örn Berndsen skipulagsfulltrúi komu á fundinn kl. 09:50 og véku af honum kl. 10:10.
Margeir Friðriksson fór yfir fjárhagsáætlun vegna landbúnaðarmála og sameiginlegra liða sem heyra undir málaflokk 21.
Indriði Þór Einarsson sviðsstjóri veitu- og framkvæmdasviðs kom á fundinn kl. 11:00 og fór yfir fjárhagsáætlun eignasjóðs, viðhald og framkvæmdir. Vék hann af fundi kl. 12:10.
Byggðarráð samþykkir að fjárhagsáætlun 2020-2024 verði lögð fram með áorðnum breytingum á næsta fundi ráðsins, mánudaginn 9. desember 2019.

Byggðarráð Svf. Skagafjarðar - 893. fundur - 09.12.2019

Lögð fram fjárhagsáætlun 2020-2024 fyrir sveitarfélagið og stofnanir þess.
Byggðarráð samþykkir fjárhagsáætlunina og vísar henni til sveitarstjórnar til síðari umræðu.

Sveitarstjórn Sveitarfélagins Skagafjarðar - 391. fundur - 12.12.2019

Vísað frá 893. fundi byggðarráðs þann 9. desember síðastliðinn.
Fjárhagsáætlun Sveitarfélagsins Skagafjarðar fyrir árin 2020-2024 er lögð fram til seinni umræðu.
Sigfús Ingi Sigfússon sveitarstjóri kynnti fjárhagsáætlunina.
Fjárhagsáætlunin sýnir rekstraráætlun, sjóðsstreymi og áætlaðan efnahagsreikning fyrir Sveitarfélagið Skagafjörð og stofnanir þess.
Forsendur fjárhagsáætlunar Sveitarfélagsins Skagafjarðar 2020 og áætlunar fyrir árin 2021-2024 byggja meðal annars á þjóðhagsspá Hagstofu Íslands varðandi verðlags- og launaþróun næstu ára.
Áætlun ársins 2020 gerir ráð fyrir að rekstrartekjur Sveitarfélagsins Skagafjarðar nemi 6.048 m.kr. hjá samstæðunni í heild, A- og B hluta, þar af eru rekstrartekjur A-hluta áætlaðar 5.298 m.kr.
Rekstrargjöld án fjármagnsliða eru áætluð 5.605 m.kr., þ.a. A-hluti 5.019 m.kr. Rekstrarafgangur A- og B-hluta án afskrifta og fjármagnsliða er áætlaður 682 m.kr, afskriftir nema 239 m.kr. og fjármagnsgjöld umfram fjármunatekjur nema 309 m.kr. Rekstrarniðurstaða samstæðunnar í heild A- og B-hluta er áætluð jákvæð, samtals með 134 m.kr. í rekstrarafgang.
Rekstrarafgangur A-hluta án afskrifta og fjármagnsliða er 424 m.kr, afskriftir nema 145 m.kr., fjármagnsgjöld umfram fjármunatekjur nema 250 m.kr. Rekstrarniðurstaða A hluta sveitarsjóðs er því áætluð jákvæð um 29 m.kr.
Eignir Sveitarfélagsins Skagafjarðar eru áætlaðar í árslok 2020, 9.941 m.kr., þ.a. eignir A-hluta 8.411 m.kr. Skuldir og skuldbindingar eru áætlaðar í árslok 7.072 m.kr., þ.a. hjá A-hluta 6.900 m.kr. Eigið fé er áætlað 2.858 m.kr hjá samstæðunni og eiginfjárhlutfall því 28,751%. Eigið fé A-hluta er áætlað 1.511 m.kr. og eiginfjárhlutfall 17,96%.
Ný lántaka er áætluð 405 m.kr. hjá samstæðunni í heild og afborganir eldri lána og skuldbindinga verða um 415 m.kr. Reiknaðar lífeyrisskuldbindingar eru 1.163 m.kr. hjá samstæðunni, þar af 1.056 m.kr. hjá A-hluta. Skuldahlutfall samstæðunnar er áætlað 117% og skuldaviðmið 91%.
Áætlunin gerir ráð fyrir að veltufé frá rekstri A-hluta verði 312 m.kr., og veltufé frá rekstri samstæðunnar A- og B-hluta verði samtals 547 m.kr. Þá er gert er ráð fyrir að handbært fé í árslok verði 149 m.kr. hjá samstæðunni í heild.

Jóhanna Ey Harðardóttir tók til máls og lagði fram bókun Byggðalistans:Vinna við fjárhagsáætlun fyrir árið 2020 hefur gengið nokkuð vel og hafa starfsfólk sveitarfélagsins sem og kjörnir fulltrúar unnið hörðum höndum síðustu vikur og mánuði. Íbúar fengu tækifæri til þess að setja mark sitt á áætlunina á íbúafundum víðsvegar um sveitarfélagið og má sjá þess einhver merki í þeirri áætlun sem nú liggur fyrir sveitarstjórn. Þetta fyrirkomulag er vonandi komið til að vera, þó útfærslan taki kannski einhverjum breytingum milli ára. Til að mynda væri gott að niðurstöður fundanna væru settar upp sem markmið, sem við sveitarstjórnarfólk getum unnið að. En slík nálgun myndi án efa auka traust íbúa á sveitarstjórn.
Byggðalistinn hefur stutt þær gjaldskrárhækkanir sem miðast við þróun verðlags milli ára. Það gerum við til þess að mæta þeim kostnaði sem verðlagsþróun hefur í för með sér. Það er samt sem áður mikilvægt að sveitarfélagið standist samanburð við önnur sveitarfélög og skapist svigrúm í rekstri er mikilvægt að það skili sér í lækkunum á gjaldskrám. En eins og staðan er í dag teljum við ekki vera svigrúm til lækkunar í gjaldskrám, sér í lagi þar sem miklar framkvæmdir eru framundan, og fjármagnsgjöld geta orðið íþyngjandi fyrir reksturinn ef farið er of geyst inn um gleðinnar dyr.
Á fundi Fræðslunefndar þann 21. mars síðastliðinn var tekið fyrir erindi frá foreldrafélagi leikskóla Ársala. Erindið fól bæði í sér ábendingar varðandi atriði tengd aðbúnaði á leikskólanum og fyrirspurn um hvatapeninga. Okkur langar að nefna hér sérstaklega eitt atriði sem fræðslunefnd vísaði til nefndar sem málið varðar en það eru hvatapeningar til frístundastarfs til barna á leikskólaaldri. Í erindinu kemur fram að fjöldi barna á leikskólaaldri sæki frístundastarf, hvort sem það eru íþróttir eða önnur afþreying. Fjölbreytt frístundarstarf er í boði hér í sveitarfélaginu og ættum við að leggja okkur fram við að styðja það og styrkja, óháð aldri. Í ljósi þess að Skagafjörður gerðist nú á haustdögum heilsueflandi sveitarfélag finnst okkur merkilegt að ekki sé tekið stærra skref en raun ber vitni. En sú afþreying sem í boði er fyrir börn á leikskólaaldri felur í sér töluverða þátttöku foreldra/forsjáraðila og skapar þannig dýrmætar, heilsueflandi samverustundir.
Skagafjörður vill vera fjölskylduvænt, heilsueflandi samfélag og í því samhengi þarf að horfa á alla aldurshópa, ekki síst yngstu börnin. Við leggjum því áherslu á að framangreindum þætti verði forgangsraðað hærra svo það komist til framkvæmda hið fyrsta.
Að þessu sögðu, munu fulltrúar Byggðalistans sitja hjá við afgreiðslu fjárhagsáætlunar 2020.
Að lokum viljum við þakka samstarfsfólki í nefndum og sveitarstjórn, starfsfólki sveitarfélagsins sem og íbúum fyrir gott samstarf á árinu sem er að líða og óskum ykkur öllum gleðilegra jóla og farsældar á komandi ári.
Jóhanna Ey Harðardóttir og Ragnheiður Halldórsdóttir fulltrúar Byggðalistans


Álfhildur Leifsdóttir tók til mál og lagði fram bókun VG og óháðra: Tækifæri flestra stærri sveitarfélaga í landinu til að greiða niður skuldir og veita íbúum ódýrari þjónustu hafa batnað til muna undanfarin misseri. Mörg þeirra hafa einmitt nýtt góðærið til þess. Sveitarfélagið Skagafjörður er ekki í þeim hópi, því miður.
Atvinnuástand hefur verið gott í Skagafirði og um margt gengið vel og munar þar bæði um fjölbreytt og öflug fyrirtæki í héraði. Sveitarfélagið Skagafjörður nýtur góðs af því í stöðugleika og auknum tekjum. Þá hefur hækkun fasteignamats skilað verulegum viðbótartekjum í formi fasteignagjalda og greiðslur frá Jöfnunarsjóði sveitarfélaga hafa sömuleiðis verið drjúgar að undanförnu, svo fátt eitt sé nefnt. Þrátt fyrir þetta er skuldabyrði sveitarfélagsins þung og fátt sem bendir til þess að hún muni lækka á næstunni að óbreyttu. Slíkt er ekki hyggilegt í slíku góðæri, því aðstæður geta breyst á skömmum tíma. Að undanförnu hefur einmitt borið á nokkrum samdrætti í samfélaginu sem gæti haft áhrif á tekjur og stöðu Sveitarfélagsins Skagafjarðar. Það er því mikilvægt að sýna virkt aðhald og festu.
Ráðist var í umfangsmiklar hagræðingaraðgerðir árið 2012 sem öll sveitarstjórnin stóð sameiginlega að. Skiluðu þær aðgerðir umtalsverðum árangri fyrir rekstur sveitarfélagsins og stofnanna þess sem við búum enn að, án þess að dregið væri úr þjónustu eða auknar álögur settar á íbúa.
VG og óháð vilja efla enn frekar fjölskylduvænt samfélag í Skagafirði og leggja áherslu á að sveitarfélagið bjóði upp á góða og ódýra þjónustu við börn og barnafólk. Við styðjum því ekki gjaldskrárhækkanir meirihlutans hvort sem er í leikskólum, tónlistarskóla eða fæðisgjöldum grunn- og leikskóla og að auknum kostnaði sé þannig velt yfir á fjölskyldufólk. Skólamáltíðir ætti að verða börnum að kostnaðarlausu og áhersla lögð á að matur sé eldaður sé frá frá grunni í skólunum sjálfum, sem mest úr hollu hráefni úr heimabyggð. Með því kemur sveitarfélagið til móts við bæði lýðheilsumarkmið, gildi heilsueflandi samfélags og lágmörkun kolefnisspors.
Í anda þeirrar fjölskylduvænu stefnu sem mörkuð var undir forystu VG og óháðra kjörtímabilið 2010-2014 voru þessi gjöld orðin þau lægstu á landinu. Nú er öldin önnur og þær hækkanir sem hafa orðið umfram mörg önnur sveitarfélög, bera vart slíkri stefnumörkun vitni. Það er mikilvægt að gera svæðið enn eftirsóknarverðara fyrir fólk að búa á og flytjast til, sérstaklega fyrir fjölskyldufólk, með því að halda þessum gjöldum í lágmarki. Stefnumörkun sveitarstjórnar og forgangsröðun kemur meðal annars fram í gegnum gjaldskrár fyrir margvíslega þjónustu. Flöt hækkun gjalda á flesta málaflokka ber ekki slíkri stefnumörkun vitni.
Mikilvægt er að áætlunum um framkvæmdir og viðhald húseigna sveitarfélagsins sé fylgt eftir og verkin unnin en brögð eru að því að misbrestur hafi orðið á slíku. Í sumum tilvikum þola slík verkefni enga bið, svo sem leikskólinn á Hofsósi, en hönnunarvinna hans hefur dregist í meira en 2 ár og litlar sem engar endurbætur á húsnæði grunnskólans á Hofsósi hafa verið gerðar á þeim tíma. Bið eftir brýnum úrbótum í húsnæðismálum leikskóla á Hofsósi hefur staðið yfir í enn fleiri ár. Hraða verður þessari vinnu sem og lausn á leikskólamálum í Varmahlíð. Stefnt er að mörgum mikilvægum uppbyggingar- og viðhaldsverkefnum í sveitarfélaginu á árinu 2020 sem sveitarstjórn er í flestu sammála um. Brýnt er að ráðast í frekari endurbætur og uppbyggingu leik, og grunnskólamannvirkja víða um héraðið og spara sveitarfélaginu umtalsverða fjármuni með því að koma starfsemi áhaldahúss og veitna í ódýrara og hentugra húsnæði sem hentar betur bæði starfseminni og starfsfólkinu, svo fátt eitt sé nefnt.
Mat á hlutverki sveitarfélagsins og forgangsröðun verkefna sem felst í langtíma skuldbindingum, ívilnunum og fjárútlátum vegna fyrirtækisins Sýndarveruleiki ehf. sem fela í sér aukin rekstrargjöld og skerða framkvæmdagetu sveitarfélagsins næstu áratugi er hinsvegar á ábyrgð meirihluta framsóknar og sjálfstæðisflokks. Hluta þeirra fjármuna mætti nota til að gera máltíðir grunn- og leikskóla Skagafjarðar gjaldfrjálsar svo dæmi sé tekið.
Fulltrúar allra framboða í nefndum sveitarfélagsins hafa ásamt starfsfólki unnið að fjárhagsáætlun næsta árs undanfarnar vikur. Fulltrúar hafa átt samleið í flestum atriðum en í öðrum hefur verið áherslumunur. Nefndarfólk VG og óháðra vill koma á framfæri þökkum fyrir farsælt samstarf og þakka öðru nefndarfólki fyrir samstarfið og starfsfólki sveitarfélagsins fyrir vel unna vinnu við gerð fjárhagsáætlunar sveitarfélagsins og stofnanna þess árið 2020. Sérstaklega viljum við þakka sveitarstjóra fyrir góða vinnu og gott samstarf á árinu.
Sveitarstjórnarfulltrúar VG og óháðra sitja hjá við afgreiðsluna.
Álfhildur Leifsdóttir og Bjarni Jónsson fulltrúar VG og óháðra

Stefán Vagn Stefánsson tók til máls og lagði fram bókun meirihluta Framsóknarflokks og Sjálfstæðismanna: Það er afskaplega ánægjulegt að leggja fram fjárhagsáætlun fyrir árið 2020 þar sem gert er ráð fyrir rekstrarfagangi af samstæðureikningi sveitarsjóðs að upphæð 682 milljónum fyrir afskriftir og fjármagnsliði. Rekstrarafgangur samstæðunnar í heild A- og B- hluta er áætluð samtals 134 milljónir. Ef áætlanir ganga eftir og árið 2020 verður gert upp með hagnaði hefur sveitarsjóður verið rekinn með hagnaði í 8 af síðustu 9 árum sem er einstakur árangur í sögu sveitarfélagsins. Það er einnig ánægjulegur áfangi að áætlunin gerir ráð fyrir að A-hluti verði rekinn með 29 milljóna króna afgangi.
Því ber að fagna enda markmið að hafa rekstur A-hluta sveitarsjóðs jákvæðan. Ef fram fer sem horfir og rekstur A-hluta sveitarsjóðs verður jákvæður fyrir árið 2020 eins og áætlun gerir ráð fyrir, getum við því verið að sjá í fyrsta skipti í ríflega 20 ára sögu sveitarfélagsins, A-hluta sveitarsjóðs með jákvæðri rekstrarniðurstöðu fimm ár í röð.
Óhætt er að segja að ákveðinn stöðugleiki hafi náðst í reksturinn og ber það að þakka ábyrgri fjármálastjórn og aðhaldi í rekstri undanfarinna ára. Einnig ber að þakka starfsmönnum sveitarfélagsins en ljóst er að án samstillts átaks þeirra hefði sá árangur ekki náðst líkt og rekstur undanfarinna ára ber með sér sem og sú áætlun sem lögð er fram nú.
Mikilvægt er að áfram verði haldið á þeirri braut sem mörkuð hefur verið á undanförnum árum og aðhalds gætt í rekstri. Góður rekstur er undirstaða þess að hægt sé að veita íbúum þá þjónustu sem sveitarfélagið er að veita í dag og að hægt sé að fara í þau fjölmörgu framfaraverkefni sem ráðast á í á komandi árum.
Í fjárhagsáætlun fyrir árið 2020 er miðað við að þar sem gjaldskrár væru hækkaðar yrðu þær hækkanir hófstilltar og var að jafnaði miðað við 2,5% í samræmi við lífskjarasamninga. Hækkun vísitölu neysluverðs gerir ráð fyrir eilítið meiri hækkun eða 2,6%, auk þess sem gert er ráð fyrir hækkun launavísitölu upp á 5,2%. Í áætlun ársins er gert ráð fyrir breytingu á stuðningi við tekjulága einstaklinga sem þurfa á leiguúrræði að halda, auk lækkunar aldurs þeirra sem njóta hvatapeninga til stuðnings íþrótta-, æskulýðs- og tómstundastarfsemi.
Sveitarfélagið Skagafjörður verður áfram með einhver lægstu gjöld í leik- og grunnskólum landsins sem og að orkukostnaður verður áfram hvað lægstur á íbúa í Skagafirði. Afar mikilvægt er að hafa þau markmið uppi þegar framtíðaruppbygging héraðsins er höfð í huga. Hefur þessi stefna undanfarinna ára m.a. skilað því að mikil uppbygging á sér nú stað í Skagafirði, meiri en verið hefur í áratugi. Sem dæmi rís nú fjöldi bygginga í dreifbýli sem þéttbýli Skagafjarðar. Uppgangur er einnig í atvinnulífinu, meiri en mörg undanfarin ár.
Það er afar mikilvægt að þannig sé haldið á málum að það sé eftirsóknarvert að búa í Skagafirði og er þetta og áframhaldandi fjölgun íbúa merki um að svo sé.
Gert er ráð fyrir að veltufé frá rekstri samstæðunnar verði 547 milljónir á árinu og framkvæmt verði fyrir 431 milljónir. Sem dæmi um þau fjölmörgu verkefni sem áætlað er að fara í á næsta ári má nefna byggingu nýs leikskóla á Hofsósi, áframhaldandi framkvæmdir við Sundlaug Sauðárkróks, endurnýjun götu í Varmahlíð, frágang gatna á Sauðárkróki, hafnarframkvæmdir á Hofsósi, hönnun íþróttahúss á Hofsósi, hönnun sumarhúsahverfis í nágrenni Steinsstaða, framkvæmdir við Varmahlíðarskóla, malbikun bílastæðis við íþróttamiðstöð í Varmahlíð og þannig má áfram telja.
Samkvæmt sveitarstjórnarlögum má skuldahlutfall sveitarsjóðs ekki fara yfir 150% af tekjum. Gerir fjárhagsáætlun 2020 hins vegar ráð fyrir því að skuldahlutfallið verði 117%, en þegar búið er að draga frá lífeyrisskuldbindingu að hluta og skuldir orku- og veitufélaga líkt og lögin gera ráð fyrir, er skuldaviðmið samstæðunnar um 91% sem er vel innan allra marka þrátt fyrir miklar framkvæmdir í Sveitarfélaginu á undanförnum árum. Sú áætlun sem lögð er fram nú var unnin í samvinnu allra flokka, bæði í nefndum sveitarfélagsins og í byggðarráði sem er mikilvægt og ber að þakka fyrir þá vinnu.
Með slíkar kennitölur í rekstri er ljóst að áfram er hægt að halda áfram á þeirri braut sem mörkuð hefur verið til hagsældar og uppbyggingar innviða Sveitarfélagsins Skagafjarðar.
Við óskum íbúum Sveitarfélagsins Skagafjarðar til hamingju með þá áætlun sem hér er lögð fram og jafnframt óskum við öllum íbúum sveitarfélagsins gleðilegra jóla og farsældar á komandi ári.

Stefán Vagn Stefánsson, Gísli Sigurðsson, Ingibjörg Huld Þórðardóttir, Regína Valdimarsdóttir og Laufey Kristín Skúladóttir.



Stefán Vagn Stefánsson
Ingibjörg Huld Þórðardóttir
Laufey Kristín Skúladóttir
Gísli Sigurðsson
Regína Valdimarsdóttir


Fjárhagsáætlun 2020-2024 borin upp til aðkvæðagreiðslu og samþykkt með 5 greiddum atkvæðum meirihlutans.
Fulltrúar Byggðalistans og fulltrúar VG og óháðra sitja hjá við atkvæðagreiðsluna