Fara í efni

Samráð; Frumvarp, hollustuhættir og mengunarvarnir (viðaukar)

Málsnúmer 1910036

Vakta málsnúmer

Byggðarráð Svf. Skagafjarðar - 885. fundur - 16.10.2019

Með tölvupósti 4. október 2019 kynnir umhverfis- og auðlindaráðuneytið til samráðs mál nr. 243/2019, "Frumvarp, hollustuhættir og mengunarvarnir (viðaukar)". Umsagnarfrestur er til og með 18.10.2019.
Byggðarráð samþykkir að fresta afgreiðslu málsins til næsta fundar.

Byggðarráð Svf. Skagafjarðar - 886. fundur - 31.10.2019

Lagður fram tölvupóstur dagsettur 4. október 2019 þar sem umhverfis- og auðlindaráðuneytið kynnir til samráðs mál nr. 243/2019, "Frumvarp, hollustuhættir og mengunarvarnir (viðaukar)". Umsagnarfrestur var framlengdur til og með 25.10.2019.
Lögð fram umsögn sem sveitarstjóri sendi inn í samráðsgátt með samþykki byggðarráðsmanna.
Byggðarráð Sveitarfélagsins Skagafjarðar lýsir yfir andstöðu við drög að breytingum á lögum nr. 7/1998, viðauka sem nú eru til umsagnar í samráðsgátt stjórnvalda. Það sem skortir verulega á er að skýra út hvaða vandamál frumvarpinu sé ætlað að leysa, en almenn sátt er um að Heilbrigðisnefnd Norðurlands vestra veiti leyfi fyrir atvinnurekstri í sveitarfélaginu.
Flest bendir til þess að markmið frumvarpsins, þ.e. einföldun regluverks í þágu íbúa og atvinnulífs, náist ekki fram með því og snúist jafnvel upp í andhverfu sína.
Skagfirsk fyrirtæki og Skagfirðingar eiga auðveldara með að fá leiðbeiningar um kröfur sem rekstur þarf að uppfylla hjá Heilbrigðiseftirlitinu á staðnum en að senda ótilgreindar upplýsingar og gögn til Umhverfisstofnunar til þess að skráning taki gildi. Enn er ekki ljóst hvaða gögn þurfa að fylgja með skráningu til að hún taki gildi en ætla má að það taki mið af eðli starfsemi og að ekki verði gerð sama krafa til ryðvarnarverkstæðis og hárgreiðslustofu svo einhver dæmi séu nefnd til sögunnar.
Áður en lengra er haldið þarf væntanlega að fá upplýsingar um hvort hárgreiðslustofa á Sauðárkróki eða Hofsósi sem starfrækt er hálfan daginn í íbúðagötu fengi áfram gilda skráningu ef frumvarpið næði fram að ganga.
Kostnaðarauki fyrir lítil fyrirtæki í sveitarfélaginu er óljós. Reynslan sýnir að þegar verkefni hafa verið flutt frá heilbrigðiseftirliti sveitarfélaga til ríkisstofnana hafi allur tilkostnaður aukist til mikilla muna. Eitt skýrasta dæmið er þegar bændur í Hjaltadalnum reyndu fyrir sér með eldi á bleikju sem hliðarbúgrein en þá hækkaði eftirlitsgjaldið úr 22.400 kr. í 187.000 kr.
Með frumvarpinu er verið að færa Umhverfisstofnun verkefni og tekjur frá Heilbrigðiseftirliti Norðurlands vestra, en áætlað tekjutap eftirlitsins er um 5 milljónir kr. á ári. Með öðrum orðum er verið að boða flutninga á störfum og fjármunum frá sveitarfélögunum til ríkisins sem er algerlega á skjön við stefnu stjórnvalda um að efla og flytja verkefni til sveitarfélaganna.
Í 6. kafla greinargerðar með frumvarpinu er lagt mat á áhrif þess og þar er boðuð fækkun starfsfólks heilbrigðiseftirlitanna: Hjá heilbrigðisnefndum sveitarfélaga mun frumvarpið leiða til þess að umsvif þeirra við útgáfu starfsleyfa og við reglubundið eftirlit mun minnka frá og með 1. júlí 2020. Það mun hafa í för með sér að tekjur heilbrigðisnefnda af útgáfu starfsleyfa og reglulegu eftirliti mun minnka en á móti kemur að veitt þjónustu dregst að sama skapi saman.
Ef frumvarpið nær fram að ganga þurfa sveitarfélögin sem bera ábyrgð á rekstrinum að bregðast við með niðurskurði eða með auknu rekstrarframlagi. Frumvarpið setur fjárhagsáætlun Heilbrigðiseftirlits Norðurlands vestra í uppnám fyrir árið 2020.
Samantekt: Farið er fram á að frumvarpið verði dregið til baka eða framlagningu þess frestað, a.m.k. þar til betri mynd verður komin á eftirfarandi þætti: 1. Skýra út hvaða vandamál frumvarpinu er ætlað að leysa. 2. Skýra nánar verkferla og kröfur sem gerðar verða til þess að skráning taki gildi. 3. Upphæð skráningargjalds.