Fara í efni

Umsagnarbeiðni; þingsályktunartillaga um búsetuöryggi í dvalar- og hjúkrunarrýmum

Málsnúmer 1910108

Vakta málsnúmer

Byggðarráð Svf. Skagafjarðar - 885. fundur - 16.10.2019

Lagður fram til kynningar tölvupóstur dagsettur 11. október 2019 frá nefndasviði Alþingis. Velferðarnefnd Alþingis sendir til umsagnar tillögu til þingsályktunar um búsetuöryggi í dvalar- og hjúkrunarrýmum., 41. mál.

Byggðarráð Svf. Skagafjarðar - 886. fundur - 31.10.2019

Lagður fram tölvupóstur dagsettur 11. október 2019 frá nefndasviði Alþingis. Velferðarnefnd Alþingis sendir til umsagnar tillögu til þingsályktunar um búsetuöryggi í dvalar- og hjúkrunarrýmum., 41. mál.

1. Ríki og sveitarfélögum verði skylt að útvega öldruðum, sem hafa gengist undir færni- og heilsumat, dvalar- eða hjúkrunarrými eigi síðar en 60 dögum eftir að niðurstöður mats um að viðkomandi eigi rétt á slíku úrræði liggja fyrir.
Afstaða byggðarráðs:
Óraunhæf krafa í núverandi umhverfi öldrunarþjónustu. Hér mætti halda áherslunni á skjóta lausn í málefnum þeirra sem metnir hafa verið í þörf fyrir hjúkrunarrými en heimila sveitarfélögum að nýta fjármagn sem samsvarar kostnaði við hjúkrunarrými ef ekki losnar rými áður en mat rennur út. Samkvæmt núverandi reglum gildir færni- og heilsumat í 12 mánuði.

2. Færni- og heilsumat skuli gefið út eigi síðar en 10 dögum eftir að umsókn um það berst.
Afstaða byggðarráðs:
Hæpið að setja kröfu á heilbrigðisstarfsfólk sem tilgreinir þrengri tímaramma en Stjórnsýslulögin (14 dagar). Jafnframt gert lítið úr fagþekkingu og starfssviði þeirra sem veita umsögn um færni og heilsumat ef bregðast þarf við beiðni um greinargerð um leið og hún berst. Um þessar umsóknir verður að gilda sama meðalhófsregla og um aðrar umsóknir um opinbera þjónustu.

3. Öldruðum einstaklingum, sem dvalist hafa lengur en 10 daga á sjúkrahúsi án sérstakrar meðferðar, verði útvegað dvalar- eða hjúkrunarrými.
Afstaða byggðarráðs:
Í slíkum tilfellum væri mun nær að líta til nágranna landa okkar, t.a.m. Svíþjóðar þar sem sveitarfélög eru beitt sektum ef þau geta ekki tekið á móti fólki sem ekki er lengur í virkri meðferð á sjúkrahúsi. Þó ber að hafa í huga að þar reka sveitarfélögin (kommúnurnar) bæði sjúkrahúsin og nærþjónustuna svo þau eru að hagræða eigin rekstri með aðgerðunum. Algeng ástæða þess að fólk getur ekki útskrifast heim er að heimahjúkrun og heimaþjónusta hafa ekki bolmagn til að þjónusta fólk heima. Árangursríkara væri að efla heilsugæslu t.a.m. með stöðugildum sérmerktum öldrunarþjónustunni (sambærilegt sérhæfingu í meðgöngu- og ungbarnavernd) og færa fjármagn til sveitarfélaga til að sinna stuðningsþjónustu og auka jafnt og þétt í samræmi við breytta aldurssamsetningu þjóðarinnar.

4. Læknar geti ákveðið að einstaklingur sem bersýnilega þarf að fá vistun í hjúkrunarrými þurfi ekki að undirgangast færni- og heilsumat til þess að fá dvöl á viðeigandi stofnun.
Afstaða byggðarráðs:
Með þessari tillögu er gengið fram hjá eðlilegu ferli við vinnslu umsókna um sértæka þjónustu og þverfaglegu samstarfi heilbrigðisstétta. Stakur fagaðili ætti aldrei að geta tekið ákvörðun um varanlega búsetu í hjúkrunarrými.

5. Maki eða sambúðarmaki heimilismanns á stofnun fyrir aldraða skuli, án tillits til þess hvort hann hafi gengist undir færni- og heilsumat, eiga þess kost að dvelja á stofnun ásamt heimilismanni. Viðkomandi öðlist þá sjálfstæðan rétt sem
heimilismaður á stofnun fyrir aldraða.
Afstaða byggðarráðs:
Hér ætti að leggja áherslu á að veita þjónustu inn á heimili eins mikið og lengi og mögulegt er. Heilbrigður einstaklingur ætti ekki að geta flutt inn í sértækt þjónustuúrræði þar sem veitt er sólarhrings hjúkrunarþjónusta.
Stuðningur og ráðgjöf við maka og fjölskyldur ætti aftur að vera eðlilegur hluti af ferlinu þegar einstaklingur glímir við langvarandi veikindi. Slíkt ætti að gilda óháð lífaldri og dánarstað.