Fara í efni

Beiðni um aðalskipulagsbreytingu - Blöndulína 3

Málsnúmer 2305016

Vakta málsnúmer

Skipulagsnefnd - 24. fundur - 04.05.2023

Landsnet óskar í erindi dags. 25. apríl 2023 eftir breytingu á Aðalskipulagi Sveitarfélagsins Skagafjarðar 2020- 2035 og Aðalskipulagi Akrahrepps 2010- 2022 vegna Blöndulínu 3.
Umhverfismatsferli Blöndulínu 3 lauk með áliti Skipulagsstofnunar 9. desember 2022. Í umhverfismatsskýrslu kemur fram að aðalvalkostur Landsnets verði loftlína og muni fara að hluta um Skagafjörð (áður Sveitarfélagið Skagafjörður og Akrahreppur).
Samkvæmt umhverfismatsskýrslu Landsnets mun 220 kV loftlína (aðalvalkostur) í Skagafirði liggja frá sveitarfélagamörkum Húnavatnshrepps (nú Húnabyggðar) og Skagafjarðar í Kiðaskarði að fyrirhuguðu tengivirki nálægt Mælifellsá á alls um 6 km kafla. Frá tengivirki færi línan austur yfir Eggjar í Skagafirði og inn í Norðurárdal að sveitarfélagamörkum Skagafjarðar og Hörgársveitar á Öxnadalsheiði á alls um 32 km kafla.
Þessi kafli er ekki í samræmi við legu Blöndulínu 3 í núgildandi Aðalskipulagi Sveitarfélagsins Skagafjarðar 2020-2035 og Aðalskipulagi Akrahrepps 2010-2022. Af þeim sökum óskar Landsnet eftir breytingu á framangreindum aðalskipulagsáætlunum þannig að ný lega Blöndulínu 3 verði færð inn á skipulagsuppdrætti í stað eldri legu, einnig nýr 132 kV jarðstrengur frá tengivirki á Mælifellsdal að tengivirki við Varmahlíð ásamt þeim námum sem stefnt er að vinna efni úr vegna línunnar. Einnig að mörkuð verði stefna um þessar framkvæmdir í skipulagsgreinargerð sem og umfjöllun í umhverfismatsskýrslu skipulags.
Í stuttu máli eru framkvæmdaþættir sem fjalla þyrfti um í aðalskipulagsbreytingu eftirfarandi:
Um 38 km kafli 220 kV Blöndulínu 3 (loftlínu) í Skagafirði sbr. framangreinda lýsingu.
Um 15 km langur, 132 kV jarðstrengur úr fyrirhuguðu tengivirki við Mælifellsá, í núverandi tengivirki í Varmahlíð.
Tengivirki við Mælifellsá, en Landsnet mun samfara aðalskipulagsbreytingu vinna að gerð deiliskipulags fyrir tengivirkið.

Skipulagsnefnd frestar afgreiðslu erindisins og bendir á að hafin sé vinna við mat á mögulegri lengd jarðstrengjar í Blöndulínu 3 þar sem þær skýrslur og gögn sem Landsnet hefur lagt fram verða rýnd. Í framhaldi þeirrar vinnu verður erindið tekið til frekari afgreiðslu.

Skipulagsnefnd - 31. fundur - 24.08.2023

Skipulagnefnd felur skipulagsfulltrúa að boða fulltrúa Landsnets á fund skipulagsnefndar til að fara yfir stöðuna. Sveitarstjórnarfulltrúum verður boðið að sitja fundinn.

Skipulagsnefnd - 36. fundur - 26.10.2023

Hlín Benediktsdóttir og Magni Pálsson fulltrúar frá Landsneti komu á fund skipulagsnefndar til að fara yfir stöðu verkefnisins.
Sveitarstjóri Skagafjarðar Sigfús Ingi Sigfússon og Einar E. Einarsson, Sólborg S. Borgarsdóttir, Guðlaugur Skúlason, Jóhanna Ey Harðardóttir, Sigurlaug V. Eysteinsdóttir, Hrefna Jóhannesdóttir og Sveinn Úlfarsson fulltrúar sveitarstjórnar Skagafjarðar sátu einnig undir þessum lið.

Skipulagsnefnd - 40. fundur - 14.12.2023

Vegna fyrirhugaðra framkvæmda við Blöndulínu 3, óskaði Landsnet eftir því við Sveitarfélagið Skagafjörð, í bréfi dags. 25.4.2023 um að hefja vinnu við breytingar á aðalskipulagi sveitarfélagsins, í samræmi við aðalvalkost sem kynntur var í umhverfismatsskýrslu Landsnets. Frá því aðalvalkostur var kynntur í umhverfismatsskýrslu hafa verið gerðar lítillegar breytingar á legu línunnar, sem eru tilkomnar vegna samtals og samráðs við landeigendur, en að auki hefur verkhönnun línunnar kallað á breytingar. Breytingarnar voru tilkynntar til Skipulagsstofnunar til ákvörðunar um matsskyldu og liggur ákvörðun stofnunarinnar fyrir um að þær séu ekki háðar umhverfismati.
Innan Skagafjarðar felast helstu breytingarnar í fráviki frá upphaflegri línuleið við Mælifell og Brúnastaði 1 og 2, þar sem línan færist um 600-700 m. Auk þessara breytinga er lítilsháttar tilfærsla á línuleið yfir Héraðsvötn. Fjallað er um þessar tilfærslur í tilkynningu Landsnets til Skipulagsstofnunar í köflum 3.1.1.-3.1.3 og eru sýndar þar á mynd 3.1.2.
Óskar Landsnet eftir því að Skagafjörður taki fyrir breytingu á Aðalskipulagi Sveitarfélagsins Skagafjarðar 2020-2035 og Aðalskipulagi Akrahrepps 2010-2022 vegna Blöndulínu 3, í samræmi við Umhverfismatsskýrslu Blöndulínu 3 og því sem tekið er fram í minnisblaði: Breyting á Aðalskipulagi Sveitarfélagsins Skagafjarðar 2020-2035 og Aðalskipulagi Akrahrepps 2010-2022 vegna Blöndulínu 3 dagsett 25. apríl 2023. Að auki því sem fram kemur í tilkynningu Landsnets til Skipulagsstofnunar dagsett september 2023.

Skipulagsnefnd leggur til við sveitarstjórn að heimila umbeðna breytingu á aðalskipulagi skv. 1. mgr. 36. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 og breytingin verði unnin á kostnað umsækjanda í samræmi við gildandi samþykktir sveitarfélagsins.

Álfhildur Leifsdóttir fulltrúi Vinstri grænna og óháðra óskar bókað:
Nýlega endurskoðað og gildandi Aðalskipulag sveitarfélagsins Skagafjarðar 2020- 2035 gerir ráð fyrir að Blöndulína 3 fari um svokallaða Héraðsvatnaleið með 3,7 km jarðstreng á þeirri leið. Landsnet taldi á þeim tíma sem Héraðsvatnaleið var helsti valkostur, að möguleiki væri á jarðstreng á línuleiðinni. Nú hefur Landsnet kynnt aðalvalkost sinn, Kiðaskarðsleið, og fer fram á breytingu á Aðalskipulagi Skagafjarðar.
Samkvæmt umhverfismatsskýrslu Landsnets er ekki gert ráð fyrir neinum jarðstreng á línuleiðinni m.a. með þeim rökum að jarðstrengur falli ekki að stefnu stjórnvalda um lagningu raflínu. Línuleiðin sem um ræðir fylgir ekki mannvirkjabelti að stórum hluta en Umhverfisstofun telur að velja eigi raflínum stað á mannvirkjabeltum sem þegar eru til staðar s.s. með vegum eða öðrum línum og forðast ætti að taka ný og óröskuð svæði undir háspennulínur og alls ekki svæði sem teljast lítið röskuð víðerni.

Kiðaskarðsleið mun fara yfir lítið snortið land og helsta kennileiti fjarðarins, Mælifellshnjúkurinn mun verða fyrir sjónmengun af völdum hennar. Áhrif loftlínu á nærumhverfi sitt á þessu nánast ósnortna svæði eru án nokkrus vafa verulega neikvæð. Umhverfisgæði íbúa á svæðinu munu skerðast vegna línumannvirkjanna, bæði vegna mikilla sjónrænna áhrifa og vegna hljóðmengunar sem vart verður við ákveðin skilyrði. Stórt tengivirki kemur til með að rísa við fjallsrætur og kostnaðarsamur aukalegur 15 km jarðstrengur verður lagður þaðan til Varmahlíðar. Sá jarðstrengur kemur til með að skerða aðra jarðstrengs möguleika línunnar í framtíðinni. Allar þessar framkvæmdir með tilheyrandi lýti á ásýnd Skagafjarðar koma þó ekki til með að skila aukinni raforku til íbúa eða fyrirtækja fjarðarins.

Að mati VG og óháðra eru forsendur fyrir lagningu Blöndulínu 3 brostnar þar sem engin áform eru um jarðstreng á línuleiðinni. Jarðstrengur er mikilvæg málamiðlun þannig að framkvæmd þessi geti orðið í sátt við íbúa, landeigendur og atvinnurekendur sem eiga mikið undir ímynd héraðsins en ekki síst í sátt við náttúruna. Sveitarfélaginu ber að gæta hagsmuna íbúa Skagafjarðar og landeigenda í hvívetna og beita sér til þess á öllum stigum. Eigendur 10 landeigna á Kiðaskarðsleið frá Mælifelli austur að Héraðsvötnum hafa með vottuðum undirskriftum alfarið hafnað línulögn um lönd sín og því augljóst að ekki er sátt um framkvæmdina.

Fulltrúar Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks leggja fram eftirfarandi bókun:
Fulltrúar Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks með því að taka umrædda ósk um breytingu á Aðalskipulagi Skagafjarðar 2020-2035 til efnislegar meðferðar er verið að byrja formlegt samráðsferli við íbúa Skagafjarðar um hugsanlega legu Blöndulínu 3 um Skagafjörð, þ.e.a.s. annan valkost en þann sem samþykktur var af sveitarstjórn 24. apríl 2019. Í samráðsferlinu mun öllum íbúum gefast kostur á að koma sínum sjónarmiðum á framfæri um kosti og galla mismunandi legu línunnar. Það að taka málið til skipulagslegrar meðferðar er því bæði skylda sveitarfélagsins sem ábyrgðaraðila skipulagsmála í Skagafirði og forsenda þess að hægt sé að taka vandaða ákvörðun um endanlega legu línunnar.

Eyþór Fannar Sveinsson fulltrúi Byggðalista óskar bókað:
Á 24. fundi Skipulagsnefndar þann 4. maí 2023 óskaði Landsnet eftir Aðalskipulagsbreytingu vegna færslu á Blöndulínu 3, frá svokallaðri Héraðsvatnaleið, yfir á nýja leið um Kiðaskarð. Með færslunni yrðu engar jarðstrengslagnir á línuleiðinni eins og gert er ráð fyrir í núgildandi Aðalskipulagi Sveitarfélags Skagafjarðar 2020-2035. Skipulagsnefnd frestaði afgreiðslu málsins vegna yfirstandandi mats um möguleika og getu raforkukerfisins á 220 kV jarðstrengslögn í Blöndulínu 3, unnið af Ragnari Kristjánssyni óháðum matsmanni og lektor við Háskólann í Reykjavík. Skýrsla með mati Ragnars var kynnt á 30. fundi Skipulagsnefndar, 16. ágúst, þar sem staðfest voru gögn Landsnets um litla sem enga möguleika á lagningu 220 kV jarðstrengs í Blöndulínu 3. Forsendur fyrir línuleiðinni um Héraðsvatnaleið eru því brostnar miðað við gildandi Aðalskipulag, þar sem gert er ráð fyrir a.m.k. 3,8 km löngum jarðstreng og er því ljóst að gera þarf breytingar á Aðalskipulagi vegna þess.
Við Aðalskipulagsbreytingu gefst íbúum Skagafjarðar möguleiki á umsögn vegna fyrirhugaðra breytinga við auglýsingu skipulagslýsingar, breytingartillögu og við sjálfa aðalskipulagsbreytinguna.

Sveitarstjórn Skagafjarðar - 22. fundur - 17.01.2024

Vísað frá 40. fundi skipulagsnefndar frá 14. desember 2023 til afgreiðslu sveitarstjórnar.

Vegna fyrirhugaðra framkvæmda við Blöndulínu 3, óskaði Landsnet eftir því við Sveitarfélagið Skagafjörð, í bréfi dags. 25.4.2023 um að hefja vinnu við breytingar á aðalskipulagi sveitarfélagsins, í samræmi við aðalvalkost sem kynntur var í umhverfismatsskýrslu Landsnets. Frá því aðalvalkostur var kynntur í umhverfismatsskýrslu hafa verið gerðar lítillegar breytingar á legu línunnar, sem eru tilkomnar vegna samtals og samráðs við landeigendur, en að auki hefur verkhönnun línunnar kallað á breytingar. Breytingarnar voru tilkynntar til Skipulagsstofnunar til ákvörðunar um matsskyldu og liggur ákvörðun stofnunarinnar fyrir um að þær séu ekki háðar umhverfismati.
Innan Skagafjarðar felast helstu breytingarnar í fráviki frá upphaflegri línuleið við Mælifell og Brúnastaði 1 og 2, þar sem línan færist um 600-700 m. Auk þessara breytinga er lítilsháttar tilfærsla á línuleið yfir Héraðsvötn. Fjallað er um þessar tilfærslur í tilkynningu Landsnets til Skipulagsstofnunar í köflum 3.1.1.-3.1.3 og eru sýndar þar á mynd 3.1.2.
Óskar Landsnet eftir því að Skagafjörður taki fyrir breytingu á Aðalskipulagi Sveitarfélagsins Skagafjarðar 2020-2035 og Aðalskipulagi Akrahrepps 2010-2022 vegna Blöndulínu 3, í samræmi við Umhverfismatsskýrslu Blöndulínu 3 og því sem tekið er fram í minnisblaði: Breyting á Aðalskipulagi Sveitarfélagsins Skagafjarðar 2020-2035 og Aðalskipulagi Akrahrepps 2010-2022 vegna Blöndulínu 3 dagsett 25. apríl 2023. Að auki því sem fram kemur í tilkynningu Landsnets til Skipulagsstofnunar dagsett september 2023.

Skipulagsnefnd leggur til við sveitarstjórn að heimila umbeðna breytingu á aðalskipulagi skv. 1. mgr. 36. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 og breytingin verði unnin á kostnað umsækjanda í samræmi við gildandi samþykktir sveitarfélagsins.

Fulltrúar Vinstri grænna og óháðra ítreka bókun frá fundi byggðarráðs:
Nýlega endurskoðað og gildandi Aðalskipulag sveitarfélagsins Skagafjarðar 2020- 2035 gerir ráð fyrir að Blöndulína 3 fari um svokallaða Héraðsvatnaleið með 3,7 km jarðstreng á þeirri leið. Landsnet taldi á þeim tíma sem Héraðsvatnaleið var helsti valkostur, að möguleiki væri á jarðstreng á línuleiðinni. Nú hefur Landsnet kynnt aðalvalkost sinn, Kiðaskarðsleið, og fer fram á breytingu á Aðalskipulagi Skagafjarðar.
Samkvæmt umhverfismatsskýrslu Landsnets er ekki gert ráð fyrir neinum jarðstreng á línuleiðinni m.a. með þeim rökum að jarðstrengur falli ekki að stefnu stjórnvalda um lagningu raflínu. Línuleiðin sem um ræðir fylgir ekki mannvirkjabelti að stórum hluta en Umhverfisstofun telur að velja eigi raflínum stað á mannvirkjabeltum sem þegar eru til staðar s.s. með vegum eða öðrum línum og forðast ætti að taka ný og óröskuð svæði undir háspennulínur og alls ekki svæði sem teljast lítið röskuð víðerni.
Kiðaskarðsleið mun fara yfir lítið snortið land og helsta kennileiti fjarðarins, Mælifellshnjúkurinn mun verða fyrir sjónmengun af völdum hennar. Áhrif loftlínu á nærumhverfi sitt á þessu nánast ósnortna svæði eru án nokkrus vafa verulega neikvæð. Umhverfisgæði íbúa á svæðinu munu skerðast vegna línumannvirkjanna, bæði vegna mikilla sjónrænna áhrifa og vegna hljóðmengunar sem vart verður við ákveðin skilyrði. Stórt tengivirki kemur til með að rísa við fjallsrætur og kostnaðarsamur aukalegur 15 km jarðstrengur verður lagður þaðan til Varmahlíðar. Sá jarðstrengur kemur til með að skerða aðra jarðstrengs möguleika línunnar í framtíðinni. Allar þessar framkvæmdir með tilheyrandi lýti á ásýnd Skagafjarðar koma þó ekki til með að skila aukinni raforku til íbúa eða fyrirtækja fjarðarins.
Að mati VG og óháðra eru forsendur fyrir lagningu Blöndulínu 3 brostnar þar sem engin áform eru um jarðstreng á línuleiðinni. Jarðstrengur er mikilvæg málamiðlun þannig að framkvæmd þessi geti orðið í sátt við íbúa, landeigendur og atvinnurekendur sem eiga mikið undir ímynd héraðsins en ekki síst í sátt við náttúruna. Sveitarfélaginu ber að gæta hagsmuna íbúa Skagafjarðar og landeigenda í hvívetna og beita sér til þess á öllum stigum. Eigendur 10 landeigna á Kiðaskarðsleið frá Mælifelli austur að Héraðsvötnum hafa með vottuðum undirskriftum alfarið hafnað línulögn um lönd sín og því augljóst að ekki er sátt um framkvæmdina.
Álfhildur Leifsdóttir og Sigurlaug Vordís Eysteinsdóttir.

Fulltrúar Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks ítreka bókun frá fundi byggðarráðs:
Fulltrúar Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks með því að taka umrædda ósk um breytingu á Aðalskipulagi Skagafjarðar 2020-2035 til efnislegar meðferðar er verið að byrja formlegt samráðsferli við íbúa Skagafjarðar um hugsanlega legu Blöndulínu 3 um Skagafjörð, þ.e.a.s. annan valkost en þann sem samþykktur var af sveitarstjórn 24. apríl 2019. Í samráðsferlinu mun öllum íbúum gefast kostur á að koma sínum sjónarmiðum á framfæri um kosti og galla mismunandi legu línunnar. Það að taka málið til skipulagslegrar meðferðar er því bæði skylda sveitarfélagsins sem ábyrgðaraðila skipulagsmála í Skagafirði og forsenda þess að hægt sé að taka vandaða ákvörðun um endanlega legu línunnar.
Einar E Einarsson, Hrund Pétursdóttir, Hrefna Jóhannesdóttir, Sólborg Borgarsdóttir og Guðlaugur Skúlason.

Fulltrúar Byggðalista ítreka bókun frá fundi byggðarráðs:
Á 24. fundi Skipulagsnefndar þann 4. maí 2023 óskaði Landsnet eftir Aðalskipulagsbreytingu vegna færslu á Blöndulínu 3, frá svokallaðri Héraðsvatnaleið, yfir á nýja leið um Kiðaskarð. Með færslunni yrðu engar jarðstrengslagnir á línuleiðinni eins og gert er ráð fyrir í núgildandi Aðalskipulagi Sveitarfélags Skagafjarðar 2020-2035. Skipulagsnefnd frestaði afgreiðslu málsins vegna yfirstandandi mats um möguleika og getu raforkukerfisins á 220 kV jarðstrengslögn í Blöndulínu 3, unnið af Ragnari Kristjánssyni óháðum matsmanni og lektor við Háskólann í Reykjavík. Skýrsla með mati Ragnars var kynnt á 30. fundi Skipulagsnefndar, 16. ágúst, þar sem staðfest voru gögn Landsnets um litla sem enga möguleika á lagningu 220 kV jarðstrengs í Blöndulínu 3. Forsendur fyrir línuleiðinni um Héraðsvatnaleið eru því brostnar miðað við gildandi Aðalskipulag, þar sem gert er ráð fyrir a.m.k. 3,8 km löngum jarðstreng og er því ljóst að gera þarf breytingar á Aðalskipulagi vegna þess.
Við Aðalskipulagsbreytingu gefst íbúum Skagafjarðar möguleiki á umsögn vegna fyrirhugaðra breytinga við auglýsingu skipulagslýsingar, breytingartillögu og við sjálfa aðalskipulagsbreytinguna.
Jóhanna Ey Harðardóttir og Sveinn Þ Finster Úlfarsson.

Sveitarstjórn Skagafjarðar samþykkir með sjö atkvæðum, að heimila umbeðna breytingu á aðalskipulagi skv. 1. mgr. 36. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 og að breytingin verði unnin á kostnað umsækjanda í samræmi við gildandi samþykktir sveitarfélagsins.
Fulltrúar Vinstri grænna og óháðra, Álfhildur Leifsdóttir og Sigurlaug Vordís Eysteinsdóttir óska bókað að þær sitji hjá.