Fara í efni

Áform um sölu félagsheimila í Skagafirði

Málsnúmer 2305106

Vakta málsnúmer

Byggðarráð Skagafjarðar - 48. fundur - 17.05.2023

Í Skagafirði eru níu félagsheimili auk Menningarhússins Miðgarðs. Nær öll eiga þessi félagsheimili það sameiginlegt að vera byggð upp til að þjónusta sitt nærsamfélag sem skólar en einnig félagslíf þess hrepps eða hreppa sem það var hugsað fyrir. Að byggingu þeirra komu margir sjálfboðaliðar ásamt frjálsum félagasamtökum eins og ungmennafélögum, kvenfélögum, kórum o.fl. sem gerir það að verkum að margir íbúar eiga tilfinningaleg tengsl við húsin, enda geymir saga þeirra marga minninguna. En tímarnir hafa breyst og samgöngur batnað ásamt því að bæði skólar og félagasamtök hafa sameinast yfir stærri svæði. Einnig hefur orðið uppbygging á t.d. íþróttamannvirkjum og hjá ferðaþjónustuaðilum sem hafa tekið yfir hluta þeirra verkefna sem félagsheimilin höfðu áður. Flest þessara félagsheimila hafa á síðustu árum verið leigð rekstraraðilum sem hafa séð um daglegan rekstur þeirra með útleigu til notenda. Þrjú af félagsheimilunum hafa undanfarin ár haft formlegar hússtjórnir sem hafa skipt með sér verkum og stjórnað rekstrinum.
Fulltrúar í byggðarráði eru sammála um að skoða hvort ekki sé skynsamlegt að selja hlut sveitarfélagsins í mörgum þessara félagsheimila til aðila sem sjá tækifæri í að bæta nýtingu húsanna. En áður en slík sala getur farið fram þarf að eiga samtal og samráð við eigendur þeirra félagsheimila sem sveitarfélagið á ekki eitt og ræða þeirra sýn á málið og hvaða framtíðarlausnir þeir sjái að komi viðkomandi félagsheimili best. Byggðarráð felur starfsmönnum menningarmála sveitarfélagsins að taka saman yfirlit um félagsheimilin og skráða eigendur þeirra. Í framhaldi af því verði fundað með viðkomandi um næstu skref, auk þess sem samráð verður haft við fulltrúa í atvinnu-, menningar- og kynningarnefnd sveitarfélagsins.

Byggðarráð Skagafjarðar - 79. fundur - 10.01.2024

Málið var áður á dagskrá 48. fundar byggðarráðs Skagafjarðar.
Undir þessum dagskrárlið mættu Sunna Björk Atladóttir lögmaður og Sigfús Ólafur Guðmundsson verkefnastjóri og fóru yfir yfirlit sem tekið hefur verið saman um félagsheimilin í Skagafirði og skráða eigendur þeirra.
Byggðarráð samþykkir að funda með hlutaðeigandi forsvarsmönnum félaga sem komið hafa að eignarhaldi og/eða rekstri félagsheimilanna Ljósheima, Skagasels og Félagsheimilisins Rípurhrepps, með hugsanlega sölu húsanna í huga.

Byggðarráð Skagafjarðar - 82. fundur - 31.01.2024

Til fundarins komu fulltrúar hagsmunaaðila tengdum félagsheimili Rípurhrepps, Ljósheima og Skagasels, þau Ásbjörg Valgarðsdóttir og Steinunn Arndís Auðunsdóttir frá kvenfélagi Rípurhrepps, Unnar Pétursson og Andrés Viðar Ágústsson frá ungmennafélaginu Gretti, auk Brynju Ólafsdóttur frá kvenfélagi Skefilsstaðahrepps.
Byggðarráð samþykkir samhljóða að óska eftir heimild menningar- og viðskiptaráðherra til að hefja söluferli félagsheimilanna í Rípurhreppi, Ljósheima og Skagasels, í samræmi við lög um félagsheimili nr. 107/1970. Jafnframt samþykkir byggðarráð samhljóða að upplýsa með skriflegum hætti fulltrúa félagasamtaka sem hafa tengst uppbyggingu húsanna um hugsanlegt söluferli skv. samþykktum byggðarráðs frá 48. og 79. fundum ráðsins.

Byggðarráð Skagafjarðar - 100. fundur - 05.06.2024

Sunna Björk Atladóttir lögmaður og fasteignasali sat fundinn undir þessum dagskrárlið. Sala á félagsheimilum rædd.
Byggðarráð samþykkir samhljóða að bjóða upp á samtal við íbúa um fyrirhugaða sölu á félagsheimilinu í Hegranesi, Ljósheimum og Skagaseli. Sveitarstjóra falið að sjá um að finna dagsetningar og auglýsa.