Fara í efni

Áform um sölu félagsheimila í Skagafirði

Málsnúmer 2305106

Vakta málsnúmer

Byggðarráð Skagafjarðar - 48. fundur - 17.05.2023

Í Skagafirði eru níu félagsheimili auk Menningarhússins Miðgarðs. Nær öll eiga þessi félagsheimili það sameiginlegt að vera byggð upp til að þjónusta sitt nærsamfélag sem skólar en einnig félagslíf þess hrepps eða hreppa sem það var hugsað fyrir. Að byggingu þeirra komu margir sjálfboðaliðar ásamt frjálsum félagasamtökum eins og ungmennafélögum, kvenfélögum, kórum o.fl. sem gerir það að verkum að margir íbúar eiga tilfinningaleg tengsl við húsin, enda geymir saga þeirra marga minninguna. En tímarnir hafa breyst og samgöngur batnað ásamt því að bæði skólar og félagasamtök hafa sameinast yfir stærri svæði. Einnig hefur orðið uppbygging á t.d. íþróttamannvirkjum og hjá ferðaþjónustuaðilum sem hafa tekið yfir hluta þeirra verkefna sem félagsheimilin höfðu áður. Flest þessara félagsheimila hafa á síðustu árum verið leigð rekstraraðilum sem hafa séð um daglegan rekstur þeirra með útleigu til notenda. Þrjú af félagsheimilunum hafa undanfarin ár haft formlegar hússtjórnir sem hafa skipt með sér verkum og stjórnað rekstrinum.
Fulltrúar í byggðarráði eru sammála um að skoða hvort ekki sé skynsamlegt að selja hlut sveitarfélagsins í mörgum þessara félagsheimila til aðila sem sjá tækifæri í að bæta nýtingu húsanna. En áður en slík sala getur farið fram þarf að eiga samtal og samráð við eigendur þeirra félagsheimila sem sveitarfélagið á ekki eitt og ræða þeirra sýn á málið og hvaða framtíðarlausnir þeir sjái að komi viðkomandi félagsheimili best. Byggðarráð felur starfsmönnum menningarmála sveitarfélagsins að taka saman yfirlit um félagsheimilin og skráða eigendur þeirra. Í framhaldi af því verði fundað með viðkomandi um næstu skref, auk þess sem samráð verður haft við fulltrúa í atvinnu-, menningar- og kynningarnefnd sveitarfélagsins.

Byggðarráð Skagafjarðar - 79. fundur - 10.01.2024

Málið var áður á dagskrá 48. fundar byggðarráðs Skagafjarðar.
Undir þessum dagskrárlið mættu Sunna Björk Atladóttir lögmaður og Sigfús Ólafur Guðmundsson verkefnastjóri og fóru yfir yfirlit sem tekið hefur verið saman um félagsheimilin í Skagafirði og skráða eigendur þeirra.
Byggðarráð samþykkir að funda með hlutaðeigandi forsvarsmönnum félaga sem komið hafa að eignarhaldi og/eða rekstri félagsheimilanna Ljósheima, Skagasels og Félagsheimilisins Rípurhrepps, með hugsanlega sölu húsanna í huga.

Byggðarráð Skagafjarðar - 82. fundur - 31.01.2024

Til fundarins komu fulltrúar hagsmunaaðila tengdum félagsheimili Rípurhrepps, Ljósheima og Skagasels, þau Ásbjörg Valgarðsdóttir og Steinunn Arndís Auðunsdóttir frá kvenfélagi Rípurhrepps, Unnar Pétursson og Andrés Viðar Ágústsson frá ungmennafélaginu Gretti, auk Brynju Ólafsdóttur frá kvenfélagi Skefilsstaðahrepps.
Byggðarráð samþykkir samhljóða að óska eftir heimild menningar- og viðskiptaráðherra til að hefja söluferli félagsheimilanna í Rípurhreppi, Ljósheima og Skagasels, í samræmi við lög um félagsheimili nr. 107/1970. Jafnframt samþykkir byggðarráð samhljóða að upplýsa með skriflegum hætti fulltrúa félagasamtaka sem hafa tengst uppbyggingu húsanna um hugsanlegt söluferli skv. samþykktum byggðarráðs frá 48. og 79. fundum ráðsins.

Byggðarráð Skagafjarðar - 100. fundur - 05.06.2024

Sunna Björk Atladóttir lögmaður og fasteignasali sat fundinn undir þessum dagskrárlið. Sala á félagsheimilum rædd.
Byggðarráð samþykkir samhljóða að bjóða upp á samtal við íbúa um fyrirhugaða sölu á félagsheimilinu í Hegranesi, Ljósheimum og Skagaseli. Sveitarstjóra falið að sjá um að finna dagsetningar og auglýsa.

Byggðarráð Skagafjarðar - 135. fundur - 26.02.2025

Í maí 2023 varð byggðarráð Skagafjarðar sammála um að skoða hvort ekki væri skynsamlegt að selja hlut sveitarfélagsins í mörgum af þeim 10 félagsheimilum sem sveitarfélagið á ýmist að öllu leyti eða að verulegu leyti eignarhlut í. Á fundum byggðaráðs í janúar 2024 var síðan fjallað áfram um hugsanlega sölu og fundað um hana með fulltrúum Ljósheima, Skagasels og Félagsheimilisins Rípurhrepps, ásamt því að samþykkt var samhljóða að upplýsa um áformin með skriflegum hætti til fulltrúa félagasamtaka sem hafa tengst uppbyggingu húsanna. Einnig hefur verið leitað eftir heimild menningar- og viðskiptaráðuneytis til að hefja söluferli þessara félagsheimila í samræmi við lög um félagsheimili nr. 107/1970. Svar barst við því erindi frá ráðuneytinu 11. maí 2024, þar sem ekki voru gerðar athugasemdir við fyrirhugaða sölu.
Í framhaldi af þessu var boðið til opinna funda í hverju og einu þessara þriggja framangreindu félagsheimila þar sem íbúum var gefinn kostur á að segja sína skoðun. Fundirnir voru góðir og málefnalegir en megin niðurstaða þeirra var að það væri ekki talið skynsamlegt að sveitarfélagið ætti öll þessi félagsheimili en notkunarmynstur þeirra hefði breyst mikið á liðnum árum vegna meðal annars breyttra samgangna og fleira. Á fundunum komu einnig fram skiptar skoðanir um hvernig sveitarfélagið ætti að standa að sölunni.
Með bréfi dagsettu 5. júlí 2024 óskaði hópur íbúa í Hegranesi eftir sveitarfélagið gengi ekki til þess að auglýsa Félagsheimili Rípurhrepps til sölu, heldur yrði gengið til viðræðna við þann hóp um eignarhald og rekstrarumsjón hússins. Í framhaldinu var fundað með forsvarsmönnum hópsins. Í kjölfar þess hafa tvær mismunandi útfærslur á söluleiðum verið kannaðar. Annars vegar að auglýsa viðkomandi félagsheimili til sölu og selja hæstbjóðenda eða hins vegar að setja upp matskerfi þar sem hverjum og einum matshluta væri gefið vægi við mat á þeim tilboðum sem myndu berast. Sú leið að ganga til samninga við einstaklinga eða hópa án auglýsingar er ekki ásættanleg með hliðsjón af jafnræði íbúa og stjórnsýslureglum.
Eftir ítarlega skoðun og með hagsmuni allra íbúa Skagafjarðar að leiðarljósi er niðurstaðan sú að það sé ekki góð stjórnsýsla að ganga til viðræðna við einstaklinga eða hópa um að eignast húsið án auglýsingar. Sú leið að setja upp matskerfi til að velja milli mismunandi hópa eða einstaklinga er flókin í framkvæmd, ásamt því að vægi verðsins í tilboði viðkomandi myndi alltaf vega þungt. Það er því niðurstaða byggðarráðs að heiðarlegast og gagnsæjast sé að auglýsa viðkomandi félagsheimili til sölu til hæstbjóðanda á opnum markaði og þá geta bæði einstaklingar eða hópar boðið í eignina.

Álfhildur Leifsdóttir VG og óháðum óskar bókað:
"VG og óháð telja að sala félagsheimila í dreifðum byggðum Skagafjarðar þurfi að fara fram með afar varfærnum hætti og í nánu samráði við íbúa hvers svæðis fyrir sig. Félagsheimili gegna mikilvægu hlutverki sem samkomustaðir fyrir íbúa, bæði í menningarlegu og félagslegu tilliti, og því verður ekki horft eingöngu til fjárhagslegra sjónarmiða við ákvarðanir um framtíð þeirra.
Við leggjum áherslu á að engin félagsheimili í jaðarbyggðum eða svæðum þar sem þau gegna lykilhlutverki í félagslífi og samheldni samfélagsins verði seld án breiðrar sáttar við nærsamfélagið. Jafnframt teljum við að áður en ákvörðun er tekin um sölu einstakra félagsheimila verði að liggja fyrir ítarlegt mat á samfélagslegum áhrifum slíkrar sölu og hvaða úrræði standa til boða til að viðhalda því mikilvæga hlutverki sem félagsheimilin gegna í sínum nærumhverfum.
Sú leið að nota matskerfi til að velja félagsheimilunum framtíðareigendur er vel fær og hefur verið farin áður hjá sveitarfélaginu þegar “Hlaðan? eða Sauðá fékk nýtt hlutverk.
VG og óháð munu ekki samþykkja sölu félagsheimila sveitarfélagsins nema sýnt sé fram á að slík sala sé í góðri sátt við íbúa viðkomandi svæðis og að önnur úrræði hafi verið skoðuð til að tryggja áframhaldandi aðgengi samfélagsins að nauðsynlegum félags- og menningarlegum mannvirkjum.
Undirrituð minnir á að áheyrnarfulltrúi í byggðarráði hefur ekki atkvæðarétt. "

Byggðarráð samþykkir því samhljóða að hafna hugmyndum áðurnefnds undirbúningshóps sem óskaði eftir að ganga til viðræðna um yfirtöku eignarinnar án þess að hún væri auglýst á opnum markaði.

Byggðarráð samþykkir samhljóða að auglýsa félagsheimilið Skagasel og Félagsheimili Rípurhrepps til sölu á almennum markaði og felur sveitarstjóra að semja við Fasteignasölu Sauðárkróks um að sjá um framkvæmdina.

Jafnframt samþykkir byggðarráð samhljóða eftirfarandi tillögu:
"Við uppbyggingu félagsheimilanna í Skagafirði komu félög eins og ungmennafélag, kvenfélag og búnaðarfélag að byggingu og rekstri félagsheimilanna með margvíslegum hætti, svo sem með stofnframlagi, sjálfboðavinnu félagsaðila eða við að skaffa efnivið. Þó svo félögin hafi ekki tekið virkan þátt í rekstri og kostnaði við viðhald húsanna þá getum við öll verið sammála um að framlag þessara félaga hafi skipt sköpum í uppbyggingu og rekstri húsanna. Virkni þessara félaga er mismunandi í dag og hafa ungmennafélögin sameinast allflest undir Ungmennasamband Skagafjarðar (UMSS) og er Félag skagfirskra kvenna (SSK) samnefnari þeirra 11 kvenfélaga sem eru starfandi í Skagafirði í dag. Byggðarráð samþykkir að 10% af söluandvirði félagsheimilanna sem seld verða muni renna til UMSS og SSK, í framhaldinu væru þessi tvö félög ábyrg fyrir að nýta fjármunina með sanngjörnum hætti í þágu sinna félagsmanna. Þetta ákvæði gildir ekki í þeim tilfellum þar sem til eru sérsamningar milli viðkomandi félaga og sveitarfélagsins um skiptingu söluandvirðis, komi til sölu viðkomandi félagsheimils."