Fara í efni

Þjóðlendumál; eyjar og sker

Málsnúmer 2402115

Vakta málsnúmer

Byggðarráð Skagafjarðar - 85. fundur - 21.02.2024

Undir þessum dagskrárlið tók Ólafur Björnsson lögmaður þátt í umræðum í gegnum Teams.
Fjármála- og efnahagsráðherra hefur fyrir hönd íslenska ríkisins afhent óbyggðanefnd kröfur um þjóðlendur á svæði 12 sem nefnist "eyjar og sker" og tekur til landsvæða innan landhelginnar en utan meginlandsins. Um er að ræða sautjánda og síðasta svæðið sem óbyggðanefnd tekur til meðferðar. Málsmeðferð á hverju svæði hefst á því að óbyggðanefnd tilkynnir fjármála- og efnahagsráðherra að nefndin hafi ákveðið að taka svæðið til meðferðar og veitir honum frest til að lýsa fyrir hönd íslenska ríkisins kröfum um þjóðlendur þar. Þegar kröfur ríkisins liggja fyrir kynnir óbyggðanefnd þær og skorar á þá sem telja til eignarréttinda eða annarra réttinda á svæði sem ríkið gerir kröfu til að lýsa kröfum sínum innan tiltekins frests. Að liðnum þeim fresti eru heildarkröfur kynntar. Óbyggðanefnd rannsakar síðan málin, sem felur m.a. í sér umfangsmikla og kerfisbundna gagnaöflun í samvinnu við sérfræðinga á Þjóðskjalasafni Íslands. Leiði rannsókn nefndarinnar í ljós að einhver kunni að telja til eignarréttinda án þess að hafa lýst kröfu er viðkomandi gefinn kostur á að gerast aðili máls, sbr. 3. mgr. 13. gr. þjóðlendulaga. Þegar framkomin gögn hafa verið rannsökuð til hlítar úrskurðar óbyggðanefnd um kröfur málsaðila. Ef svæði sem ríkið hefur gert þjóðlendukröfur til reynast samkvæmt rannsókn óbyggðanefndar vera eignarlönd er kröfum ríkisins þar hafnað. Svæði sem reynast utan eignarlanda eru hins vegar úrskurðuð þjóðlendur.
Á Norðurlandi vestra gerir ríkið nú kröfu um eignarhald á öllum eyjum og skerjum, auk Þórðarhöfða, fyrir utan Málmey sem ríkið á. Sjá nánar hér: https://obyggdanefnd.is/til_medferdar/
Ríkið ber kostnað einstaklinga og lögaðila vegna hagsmunagæslu fyrir óbyggðanefnd, að teknu tilliti til tilgreindra skilyrða.
Byggðarráð samþykkir samhljóða að fela sveitarstjóra að vinna að undirbúningi málsmeðferðar vegna eyja og skerja í eigu sveitarfélagsins Skagafjarðar, í samráði við Ólaf Björnsson lögmann.

Byggðarráð Skagafjarðar - 93. fundur - 17.04.2024

Lagt fram til kynningar svarbréf frá Óbyggðanefnd til fjármála- og efnahagsráðherra, dags. 10. apríl 2024, þar sem svarað er ósk ráðherra um að Óbyggðanefnd fresti frekari málsmeðferð á svæði 12, eyjum og skerjum, og veiti ráðherra frest til að endurskoða kröfur ríkisins. Í kjölfarið verði landeigendum veittur frekari frestur til að lýsa sínum kröfum.
Í svarbréfi Óbyggðanefndar kemur fram að hún hafi þegar framlengt kröfulýsingarfrest landeigenda til 2. september 2024 og því hafi ráðherra svigrúm til að endurskoða kröfugerð ríkisins innan þess tíma. Verði þeirri endurskoðun ekki lokið innan hæfilegs tíma kemur til greina af hálfu Óbyggðanefndar að framlengja frestinn enn frekar til að tryggja að hugsanlegir gagnaðilar ríkisins hafi nægan tíma til að bregðast við endurskoðuðum kröfum ríkisins og eftir atvikum lýsa kröfum sínum fyrir Óbyggðanefnd.

Byggðarráð Skagafjarðar - 110. fundur - 28.08.2024

Lagður fram til kynningar tölvupóstur frá Óbyggðanefnd dagsettur 19. ágúst sl. þar sem tilkynnt er um framlengdan kröfulýsingarfrest landeigenda á svæði 12 (eyjar og sker) til 2. desember 2024.

Byggðarráð Skagafjarðar - 117. fundur - 18.10.2024

Lagður fram til kynningar tölvupóstur frá Óbyggðanefnd dagsettur 10. október 2024 þar sem tilkynnt er um að fjármála- og efnahagsráðherra hefur fyrir hönd íslenska ríkisins afhent óbyggðanefnd endurskoðaðar þjóðlendukröfur vegna eyja og skerja umhverfis landið.
Óbyggðanefnd kallar eftir kröfum þeirra sem kunna að eiga öndverðra hagsmuna að gæta og hefur nú framlengt kröfulýsingarfrest þeirra til 13. janúar 2025.