Fara í efni

Byggðarráð Skagafjarðar

81. fundur 24. janúar 2024 kl. 15:00 - 16:30 að Sæmundargötu 7a
Nefndarmenn
  • Einar Eðvald Einarsson formaður
  • Sólborg Sigurrós Borgarsdóttir varaform.
  • Álfhildur Leifsdóttir aðalm.
  • Jóhanna Ey Harðardóttir áheyrnarftr.
Starfsmenn
  • Sigfús Ingi Sigfússon sveitarstjóri
Fundargerð ritaði: Sigfús Ingi Sigfússon sveitarstjóri
Dagskrá

1.Aðstaða fyrir Siglingaklúbbinn Drangey

Málsnúmer 2210294Vakta málsnúmer

Undir þessum dagskrárlið kom Einar Andri Gíslason byggingarfulltrúi til fundarins. Rætt var um mögulegar sviðsmyndir varðandi lagfæringar á aðstöðu Siglingaklúbbsins Drangeyjar.
Byggðarráð samþykkir að fela sveitarstjóra að boða forsvarsmenn siglingaklúbbsins Drangeyjar á fund byggðarráðs í fyrstu viku febrúarmánaðar.

2.Kjörstaðir við forsetakosningar 1. júní 2024

Málsnúmer 2401210Vakta málsnúmer

Byggðarráð samþykkir að kjörstaðir við forsetakosningar 1. júní 2024 verði eftirfarandi:
Bóknámshús FNV á Sauðárkróki, Varmahlíðarskóli og Félagsheimilið Höfðaborg á Hofsósi.

3.Ákvarðanir Persónuverndar um notkun Google Workspace for education í grunnskólastarfi

Málsnúmer 2401187Vakta málsnúmer

Tekið fyrir bréf frá Persónuvernd, dags. 11. janúar 2024, þar sem beint er til sveitarfélaga landsins að huga að því hvort Google-nemendakerfið er notað af grunnskólum þess, auk þess sem því er beint til sveitarfélaga sem nota kerfið að meta hvort þörf er á að gera viðeigandi úrbætur á vinnslu persónuupplýsinga í kerfinu, til samræmis við niðurstöður Persónuverndar.
Byggðarráð samþykkir að fela sviðsstjóra fjölskyldusviðs og persónuverndarfulltrúa sveitarfélagsins að yfirfara málið og koma á fund byggðarráðs og gera grein fyrir nauðsynlegum viðbrögðum.

4.Viðbótarniðurgreiðslur 2024

Málsnúmer 2401030Vakta málsnúmer

Lagðar fram reglur um viðbótarniðurgreiðslu dvalargjalda sem vísað var til byggðarráðs frá 22. fundi fræðslunefndar þann 18. janúar 2024. Byggðarráð samþykkir reglurnar og vísar þeim til afgreiðslu sveitarstjórnar.

5.Samráð; Skilgreining á opinberri grunnþjónustu

Málsnúmer 2311183Vakta málsnúmer

Málið var áður tekið fyrir á 73 fundi byggðarráðs Skagafjarðar.
Innviðaráðuneytið kynnir til samráðs mál nr. 238/2023, "Skilgreining á opinberri grunnþjónustu". Umsagnarfrestur er til og með 07.02. 2024.
Byggðarráð Skagafjarðar hefur fjallað um þau drög sem liggja fyrir og samþykkir eftirfarandi bókun:
Byggðarráð fagnar því að unnið sé að stefnu til að ná fram markmiðum stjórnvalda um að jafna aðgengi íbúa landsins að opinberri þjónustu og að það verði skilgreint í lögum hvernig réttur íbúa landsins til hennar verði tryggður, óháð búsetu.
Skagafjörður er landfræðilega stórt fjölkjarna sveitarfélag þar sem stefnan hefur verið að jafna lífskjör íbúanna eins og kostur er. Ýmislegt má nefna sem sveitarfélagið hefur mótað stefnu um og lagt áherslu á til jöfnunar lífskjara í sveitarfélaginu. Má þar nefna að haldið er úti þremur skólahverfum sem öll hafa grunnskóla og leikskóla en það styttir til muna vegalengdir nemenda/íbúa að þeirri þjónustu. Einnig hefur verið lögð rík áhersla á að koma heitu vatni til allra íbúa þar sem það er tæknilega mögulegt, lagður hefur verið ljósleiðari til allra heimila í dreifbýli og margt fleira mætti nefna. Markmiðið er að jafna sem mest lífskjör þeirra sem búa í dreifbýli og/eða fjærst stærsta þéttbýlisstaðnum en þar er öll sú opinbera þjónusta sem ríkið veitir íbúum sveitarfélagsins veitt í dag. Má þar nefna skrifstofu sýslumannsins á Norðurlandi vestra, lögreglustöð, pósthús, heilbrigðisstofnun, fjölbrautaskóla o.s.frv. Taka ber fram í því sambandi að Háskólinn á Hólum starfar bæði heima á Hólum og einnig á Sauðárkróki.
Þrátt fyrir að Skagafjörður hafi í dag um 4.400 íbúa og að stærsti þéttbýlisstaðurinn hafi þar af um 2.600 íbúa, er stöðug barátta við stjórnvöld um að halda þessum stofnunum öllum gangandi. Starfsfólki á þeim flest öllum hefur fækkað umtalsvert á liðnum árum ásamt því að þjónustan hefur verið skert með t.d. minni opnunartíma og samdrætti í þjónustuframboði.
Eitt stærsta og mikilvægasta verkið sem framkvæmt hefur verið til jöfnunar á lífskjörum af hálfu ríkis og sveitarfélaga á liðnum árum er fyrrgreind lagning ljósleiðara um allt dreifbýlið. Sú aðgerð jafnaði virkilega aðstöðumun og aðgengi fólks að þjónustu í gegnum Netið, ásamt verulega auknum möguleikum til atvinnusköpunar óháð búsetu. Eftir sitja þó enn hlutar þéttbýlisstaðanna, en þar hafa stóru fjarskiptaaðilarnir ekki séð sér hag í að leggja ljósleiðara með sama hætti og þeir gera unnvörpum í t.d. stóru þéttbýlisstöðunum á Suðvesturhorni landsins. Markmið stjórnvalda um að stafræn samskipti verði megin samskiptaleið fólks og fyrirtækja við hið opinbera næst ekki nema allir innan sveitarfélagsins, í dreifbýli sem þéttbýli, hafi góðan aðgang að öflugu netflutningskerfi og góðu símasambandi en á því er einnig mjög mikill brestur víða í sveitarfélaginu.
Til að jafna búsetu innan sveitarfélagsins enn frekar þarf jafnframt að bæta vegasamgöngur innan sveitarfélagsins en mjög hátt hlutfall af öllum okkar tengivegum eru malavegir. Þessu til viðbótar er t.d. vetrarþjónusta Vegagerðarinnar ekki með ásættanlegum hætti, en sem dæmi stoppar mokstursbíllinn við þriðja innsta bæ á öllum leiðum utan þjóðvegar eitt í samræmi við gildandi reglugerð þáverandi samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytis, sem er óásættanlegt með öllu af hálfu veghaldara. Á sama tíma er grunnskólaskylda hjá öllum börnum á tilteknu aldursbili, ásamt því sem sífellt fleiri íbúar dreifbýlis sækja vinnu utan heimilis og þurfa því að keyra af bæ til vinnu á degi hverjum. Það væri mikil leiðrétting á mismunun íbúa að laga þetta á öllum þeim leiðum þar sem viðhöfð er föst búseta. Verðlagning á rafmagni og flutningur þess er ekki sambærilegur í þéttbýli og dreifbýli, ásamt því að inntaksgjöld eru hærri. Að laga þetta myndi einnig jafna búsetuskilyrði fólks og möguleika til jafnari lífsgæða.
Byggðarráð Skagafjarðar leggur áherslu á að í landfræðilega stórum sveitarfélögum með íbúafjölda yfir 4.000 og bæjarfélög með fleiri en 2.000 íbúa, haldi hið opinbera úti fullgildum og vel starfhæfum þjónustustöðvum opinberrar þjónustu á öllum sviðum, þrátt fyrir aukna netvæðingu og aukna opinberra þjónustu í netheimum. Sé það ekki mögulegt vegna mikillar sérhæfingar í t.d. heilbrigðisþjónustu, verður að vera skýrt hvernig ríkið jafnar þann kostnað sem hlýst af því að sækja þjónstuna til annarra sveitarfélaga, oft um langan veg og yfir fjallvegi.
Byggðarráð Skagafjarðar lýsir sig jafnframt tilbúið til frekari viðræðna við ríkið um mótun stefnu um opinbera þjónustu þar sem sett yrðu viðmið um þá þjónustu sem veitt er og verður í framtíðinni af hálfu ríkisstofnana.

6.Samráð; Áform um breytingu á lögum nr. 49 1997 um varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum

Málsnúmer 2401176Vakta málsnúmer

Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið kynnir til samráðs mál nr. 6/2024, "Áform um breytingu á lögum nr. 49/1997 um varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum". Umsagnarfrestur er til og með 26.01. 2024.

7.Samráð; Reglugerð um sjálfbæra landnýtingu

Málsnúmer 2401213Vakta málsnúmer

Matvælaráðuneytið kynnir til samráðs mál nr. 3/2024, "Reglugerð um sjálfbæra landnýtingu". Umsagnarfrestur er til og með 14.02.2024.
Byggðarráð samþykkir að óska eftir umsögn um málið frá stjórn Búnaðarsambands Skagfirðinga.

8.Ábendingar 2023

Málsnúmer 2301002Vakta málsnúmer

Lagt fram til kynningar yfirlit yfir ábendingar sem hafa borist í gegnum ábendingagátt sveitarfélagsins frá því að síðasta yfirlit var kynnt í byggðarráði og viðbrögð við þeim.

Fundi slitið - kl. 16:30.